Þriðja Mósebók 15:1–33

  • Óhrein útferð frá kynfærum (1–33)

15  Jehóva sagði nú við Móse og Aron:  „Segið Ísraelsmönnum: ‚Ef maður er með útferð frá kynfærum* er hann óhreinn.  Hvort sem útferðin er viðvarandi eða stíflar kynfærin er hann óhreinn.  Rúm sem maður með útferð leggst í verður óhreint og allt sem hann sest á verður óhreint.  Sá sem snertir rúm hans á að þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds.  Sá sem sest á eitthvað sem maður með útferð hefur setið á skal þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds.  Sá sem snertir mann með útferð á að þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds.  Ef maður með útferð hrækir á hreinan mann skal sá þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds.  Hnakkur sem maður með útferð situr í verður óhreinn. 10  Sá sem snertir eitthvað sem maðurinn hefur setið á verður óhreinn til kvölds og sá sem tekur það upp skal þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds. 11  Ef sá sem er með útferð hefur ekki þvegið sér um hendurnar í vatni og snertir einhvern á sá að þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds. 12  Ef maður með útferð snertir leirker á að brjóta það en ílát úr tré skal þvegið í vatni. 13  Þegar útferðin, sem gerði manninn óhreinan, stöðvast á hann að láta sjö daga líða og síðan skal hann þvo föt sín og baða sig í fersku vatni. Eftir það er hann hreinn. 14  Á áttunda degi á hann að taka tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, ganga fram fyrir Jehóva við inngang samfundatjaldsins og færa prestinum þær. 15  Presturinn á að fórna þeim, annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og friðþægja fyrir manninn frammi fyrir Jehóva vegna útferðarinnar. 16  Ef maður fær sáðlát á hann að baða allan líkama sinn í vatni og vera óhreinn til kvölds. 17  Ef sáðvökvi kemur á flík eða eitthvað úr leðri á hann að þvo það í vatni og það verður óhreint til kvölds. 18  Þegar maður hefur samfarir við konu og fær sáðlát eiga þau að baða sig í vatni og vera óhrein til kvölds. 19  Þegar kona er á blæðingum skal hún vera óhrein í sjö daga. Sá sem snertir hana verður óhreinn til kvölds. 20  Allt sem hún leggst á meðan hún er óhrein af blæðingum verður óhreint og allt sem hún sest á verður óhreint. 21  Sá sem snertir rúm hennar á að þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds. 22  Sá sem snertir eitthvað sem hún hefur setið á skal þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds. 23  Ef einhver snertir rúm hennar eða eitthvað annað sem hún hefur setið á verður hann óhreinn til kvölds. 24  Og ef maður hefur samfarir við hana og tíðablóð hennar kemur á hann verður hann óhreinn í sjö daga og hvert rúm sem hann leggst í verður óhreint. 25  Ef kona er á blæðingum í marga daga á öðrum tíma en hún er venjulega á blæðingum eða ef blæðingarnar standa lengur en venjulegar blæðingar er hún óhrein alla þá daga sem henni blæðir. Hún er óhrein eins og þegar hún er á tíðablæðingum. 26  Rúm sem hún liggur í meðan henni blæðir verður óhreint og allt sem hún sest á verður óhreint eins og þegar hún er á tíðablæðingum. 27  Sá sem snertir eitthvað af þessu verður óhreinn og á að þvo föt sín, baða sig í vatni og vera óhreinn til kvölds. 28  En þegar blæðingarnar stöðvast á hún að láta sjö daga líða og eftir það er hún hrein. 29  Á áttunda degi skal hún taka tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og færa þær prestinum við inngang samfundatjaldsins. 30  Presturinn á að færa aðra í syndafórn og hina í brennifórn og friðþægja fyrir konuna frammi fyrir Jehóva vegna óhreinna blæðinga hennar. 31  Þannig skuluð þið vernda Ísraelsmenn gegn* óhreinleika sínum svo að þeir deyi ekki fyrir að óhreinka tjaldbúð mína sem er meðal þeirra. 32  Þetta eru lögin um mann sem er með útferð, mann sem er óhreinn vegna sáðláta, 33  konu sem er óhrein vegna blæðinga, mann eða konu sem er með útferð eða blæðingar og mann sem hefur samfarir við óhreina konu.‘“

Neðanmáls

Orðrétt „holdi sínu“.
Eða „aðgreina Ísraelsmenn frá“.