Síðari Samúelsbók 12:1–31

  • Natan ávítar Davíð (1–15a)

  • Sonur Batsebu deyr (15b–23)

  • Batseba eignast Salómon (24, 25)

  • Davíð vinnur Rabba, borg Ammóníta (26–31)

12  Jehóva sendi nú Natan til Davíðs. Þegar hann kom til hans sagði hann: „Í borg nokkurri bjuggu tveir menn. Annar þeirra var ríkur en hinn fátækur.  Ríki maðurinn átti fjöldann allan af sauðum og nautum  en fátæki maðurinn átti ekki nema eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt. Hann annaðist það og það óx upp hjá honum og sonum hans. Lambið át af þeim litla mat sem hann átti, drakk úr krúsinni hans og svaf í fanginu á honum. Það var honum eins og dóttir.  Dag einn fékk ríki maðurinn heimsókn en hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matbúa fyrir ferðalanginn sem var kominn til hans. Í staðinn tók hann lamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn.“  Þá varð Davíð ævareiður út í manninn og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir á sá sem gerði þetta skilið að deyja!  Og hann skal bæta lambið fjórfalt fyrir að sýna slíkt miskunnarleysi.“  Þá sagði Natan við Davíð: „Þú ert maðurinn. Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Ég smurði þig til konungs yfir Ísrael og bjargaði þér úr greipum Sáls.  Ég gaf þér af glöðu geði allt sem herra þinn átti. Ég lagði konur herra þíns í faðm þinn og setti þig yfir Ísrael og Júda. Og ef það hefði ekki verið nóg hefði ég gjarnan gert margt fleira fyrir þig.  Hvers vegna hefurðu fyrirlitið orð Jehóva með því að gera það sem er illt í augum hans? Þú felldir Úría Hetíta með sverði! Þú drapst hann með sverði Ammóníta og tókst síðan eiginkonu hans þér fyrir konu. 10  Þar sem þú fyrirleist mig með því að giftast eiginkonu Úría Hetíta mun sverðið aldrei víkja frá fjölskyldu þinni.‘ 11  Jehóva segir: ‚Ég læt ógæfu koma yfir þig úr þinni eigin fjölskyldu. Ég tek konur þínar frá þér fyrir augum þínum og gef þær öðrum manni,* og hann mun leggjast með þeim um hábjartan dag.* 12  Þú fórst leynt með það sem þú gerðir en það sem ég ætla að gera verður frammi fyrir öllum Ísrael og um hábjartan dag.‘“* 13  Davíð sagði þá við Natan: „Ég hef syndgað gegn Jehóva.“ Natan svaraði: „Jehóva fyrirgefur þér synd þína. Þú munt ekki deyja. 14  En af því að þú vanvirtir Jehóva svo gróflega mun nýfæddur sonur þinn deyja.“ 15  Síðan fór Natan heim til sín. Jehóva lét barnið sem Davíð hafði eignast með konu Úría veikjast. 16  Davíð leitaði til hins sanna Guðs og bað innilega fyrir drengnum. Hann lagði á sig stranga föstu og lá um næturnar á gólfinu í herbergi sínu. 17  Öldungar hirðarinnar komu til hans og reyndu að fá hann til að standa upp af gólfinu en hann vildi það ekki og fékkst ekki til að borða með þeim. 18  Á sjöunda degi dó barnið. En þjónar Davíðs þorðu ekki að segja honum að barnið væri dáið. Þeir sögðu hver við annan: „Hann vildi ekki hlusta á okkur meðan barnið var lifandi. Hvernig eigum við þá nú að geta sagt honum að barnið sé dáið? Hann gæti gert eitthvað hræðilegt.“ 19  Þegar Davíð sá að þjónar hans voru að hvíslast á vissi hann að barnið væri dáið. „Er drengurinn dáinn?“ spurði hann þjóna sína. „Já, hann er dáinn,“ svöruðu þeir. 20  Davíð stóð þá upp af gólfinu. Hann þvoði sér, bar á sig olíu, skipti um föt og fór síðan inn í tjald* Jehóva og kraup. Eftir það fór hann heim til sín. Hann bað um að sér yrði færður matur og borðaði. 21  „Hvers vegna gerirðu þetta?“ spurðu þjónar hans. „Þú fastaðir og grést meðan barnið var lifandi en um leið og barnið deyr stendurðu upp og færð þér að borða.“ 22  Hann svaraði: „Meðan drengurinn var lifandi fastaði ég og grét því að ég hugsaði með mér: ‚Hver veit nema Jehóva sýni mér miskunn og leyfi drengnum að lifa?‘ 23  En hvers vegna ætti ég að fasta núna fyrst hann er dáinn? Get ég fengið hann aftur? Ég fer til hans en hann snýr ekki aftur til mín.“ 24  Davíð huggaði Batsebu konu sína, gekk inn til hennar og lagðist með henni. Hún fæddi son sem var nefndur Salómon.* Jehóva elskaði hann 25  og sendi Natan spámann með þau skilaboð að hann ætti að heita Jedídjah* vegna Jehóva. 26  Jóab hélt áfram að herja á Rabba, borg Ammóníta, og vann konungsborgina. 27  Síðan sendi hann menn til Davíðs með þessi skilaboð: „Ég hef herjað á Rabba og unnið vatnaborgina.* 28  Kallaðu nú saman þá sem eftir eru af liðinu, sestu um borgina og leggðu hana undir þig svo að það verði ekki ég sem vinn hana og fæ allan heiðurinn af því.“* 29  Davíð kallaði þá saman allt liðið, fór til Rabba, herjaði á borgina og vann hana. 30  Síðan tók hann kórónuna af höfði Malkams* en hún var úr gulli sem vó eina talentu* og var skreytt eðalsteinum. Hún var sett á höfuð Davíðs. Hann tók einnig gríðarmikið herfang úr borginni. 31  Hann flutti íbúana burt og lét þá saga steina, vinna með járnhökum og járnöxum og vinna við múrsteinagerð. Þannig fór hann með allar borgir Ammóníta. Síðan sneri Davíð heim til Jerúsalem ásamt öllu liðinu.

Neðanmáls

Eða „gef þær náunga þínum“.
Orðrétt „fyrir augum sólarinnar“.
Orðrétt „frammi fyrir sólinni“.
Orðrétt „hús“.
Dregið af hebresku orði sem merkir ‚friður‘.
Sem þýðir ‚elskaður af Jah‘.
Vísar hugsanlega til vatnsbirgða borgarinnar.
Orðrétt „og nafn mitt verði nefnt yfir henni“.
Sjá orðaskýringar.
Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.