Fyrri Samúelsbók 10:1–27

  • Sál smurður til konungs (1–16)

  • Sál kynntur fyrir þjóðinni (17–27)

10  Samúel tók nú olíuflösku og hellti úr henni á höfuð Sáls. Hann kyssti hann og sagði: „Jehóva hefur smurt þig til að vera leiðtogi yfir þjóð* sinni.  Þegar þú ferð frá mér í dag hittirðu tvo menn nálægt gröf Rakelar í Selsa í landi Benjamíns. Þeir munu segja við þig: ‚Ösnurnar sem þú fórst að leita að eru fundnar, en nú er faðir þinn hættur að hugsa um ösnurnar og farinn að hafa áhyggjur af ykkur. Hann segir: „Hvað á ég að gera? Sonur minn hefur ekki skilað sér heim.“‘  Haltu síðan áfram þar til þú kemur að stóra trénu í Tabor. Þar verða á vegi þínum þrír menn sem eru á leið upp til hins sanna Guðs í Betel. Einn þeirra er með þrjá kiðlinga, annar með þrjú brauð og sá þriðji með stóra vínkrukku.  Þeir munu heilsa þér og gefa þér tvö brauð sem þú skalt þiggja.  Eftir það kemurðu að hæð hins sanna Guðs þar sem Filistear eru með setulið. Þegar þú kemur til borgarinnar mætirðu hópi spámanna sem eru að koma ofan af fórnarhæðinni. Hljóðfæraleikarar sem leika á tambúrínu, flautu, hörpu og annað strengjahljóðfæri fara á undan þeim á meðan þeir spá.*  Andi Jehóva kemur yfir þig og þú munt spá með þeim og verða breyttur maður.  Þegar þessi tákn hafa komið fram skaltu gera allt sem þú getur því að hinn sanni Guð er með þér.  Farðu síðan á undan mér niður til Gilgal. Ég kem þangað til þín til að færa brennifórnir og samneytisfórnir. Bíddu í sjö daga þangað til ég kem. Þá læt ég þig vita hvað þú átt að gera.“  Þegar Sál yfirgaf Samúel umbreytti Guð hjarta hans svo að hann varð breyttur maður. Öll táknin komu fram þennan sama dag. 10  Þegar þeir* komu að hæðinni kom hópur spámanna á móti honum. Skyndilega kom andi Guðs yfir hann og hann fór að spá með þeim. 11  Þeir sem þekktu hann og sáu hann spá með spámönnunum sögðu þá hver við annan: „Hvað hefur komið fyrir son Kíss? Er Sál líka spámaður?“ 12  Þá sagði einn heimamanna: „En hver er faðir hinna spámannanna?“ Þannig varð til orðtakið: „Er Sál líka spámaður?“ 13  Þegar hann var hættur að spá fór hann til fórnarhæðarinnar. 14  Seinna spurði föðurbróðir Sáls hann og þjón hans: „Hvar voruð þið?“ „Við fórum að leita að ösnunum,“ svaraði hann. „En þegar við fundum þær hvergi fórum við til Samúels.“ 15  „Hvað sagði Samúel við ykkur?“ spurði þá föðurbróðirinn. 16  „Hann sagði okkur að ösnurnar væru fundnar,“ svaraði Sál. En hann sagði honum ekki frá því sem Samúel hafði sagt um konungdóminn. 17  Samúel kallaði nú fólkið saman fram fyrir Jehóva í Mispa. 18  Hann sagði við Ísraelsmenn: „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Það var ég sem leiddi Ísrael út úr Egyptalandi. Ég frelsaði ykkur úr greipum Egypta og úr greipum allra konungsríkjanna sem kúguðu ykkur. 19  En í dag hafið þið hafnað Guði ykkar, honum sem bjargaði ykkur úr öllum erfiðleikum ykkar og raunum. Þið sögðuð: „Nei, skipaðu yfir okkur konung.“ Takið ykkur nú stöðu frammi fyrir Jehóva eftir ættkvíslum ykkar og ættum.‘“* 20  Samúel lét nú allar ættkvíslir Ísraels stíga fram og ættkvísl Benjamíns varð fyrir valinu. 21  Því næst lét hann ættkvísl Benjamíns stíga fram, hverja ætt fyrir sig, og ætt Matríta varð fyrir valinu. Að lokum var Sál Kísson valinn. En þegar menn leituðu að honum var hann hvergi að finna. 22  Þeir spurðu þá Jehóva: „Er maðurinn kominn hingað?“ Jehóva svaraði: „Hann felur sig þarna hjá farangrinum.“ 23  Þá hlupu þeir þangað og sóttu hann. Þegar hann stóð mitt á meðal fólksins reyndist hann vera höfðinu hærri en allir aðrir. 24  Samúel sagði við fólkið: „Sjáið þið þann sem Jehóva hefur valið? Hann ber af allri þjóðinni.“ Þá hrópaði allt fólkið: „Lengi lifi konungurinn!“ 25  Samúel sagði fólkinu frá réttindum konungs og skráði þau í bók sem hann lagði fram fyrir Jehóva. Síðan sendi hann fólkið burt og hver og einn fór heim til sín. 26  Sál fór líka heim til sín til Gíbeu og nokkrir hermenn fóru með honum því að Jehóva hafði snortið hjarta þeirra. 27  En nokkrir ónytjungar sögðu: „Hvað ætli hann geti bjargað okkur?“ Þeir fyrirlitu hann og færðu honum engar gjafir. En Sál gerði ekkert mál úr því.

Neðanmáls

Orðrétt „arfleifð“.
Hebreska orðið sem þýtt er „spá“ virðist í þessu samhengi fela í sér að lofa Guð af einstökum ákafa og eldmóði.
Hér virðist átt við Sál og þjón hans.
Orðrétt „þúsundum“.