Fyrsta Mósebók 44:1–34

  • Silfurbikar Jósefs í poka Benjamíns (1–17)

  • Júda biður Jósef að leyfa Benjamín að fara heim (18–34)

44  Nú gaf Jósef ráðsmanni sínum þessi fyrirmæli: „Fylltu sekki mannanna af korni, eins miklu og þeir geta borið, og láttu peninga hvers og eins efst í sekk hans.  En bikarinn minn, silfurbikarinn, skaltu setja efst í poka hins yngsta ásamt peningunum sem hann borgaði fyrir kornið.“ Hann gerði eins og Jósef sagði.  Þegar birti af degi morguninn eftir voru mennirnir sendir burt ásamt ösnum sínum.  Þeir voru ekki komnir langt frá borginni þegar Jósef sagði við ráðsmanninn: „Eltu mennina! Þegar þú nærð þeim skaltu segja við þá: ‚Hvers vegna launið þið gott með illu?  Þið hafið tekið bikarinn sem húsbóndi minn drekkur úr og notar til að spá í. Þetta var illa gert af ykkur.‘“  Þegar hann náði þeim sagði hann þetta við þá.  En þeir svöruðu honum: „Herra, af hverju segirðu þetta? Það myndi aldrei hvarfla að þjónum þínum að gera nokkuð slíkt.  Við komum aftur frá Kanaanslandi til að skila þér peningunum sem við fundum efst í sekkjum okkar. Hvers vegna ættum við þá að stela silfri eða gulli úr húsi húsbónda þíns?  Ef bikarinn finnst hjá einhverjum okkar skal hann deyja og við hinir verða þrælar herra míns.“ 10  „Það skal vera eins og þið segið,“ svaraði hann. „Sá sem bikarinn finnst hjá verður þræll minn. Þið hinir hafið hins vegar ekkert til saka unnið.“ 11  Hver og einn flýtti sér nú að leggja poka sinn á jörðina og opna hann. 12  Ráðsmaðurinn leitaði vandlega í öllum pokunum. Hann byrjaði á elsta bróðurnum og endaði á þeim yngsta. Að lokum fannst bikarinn í poka Benjamíns. 13  Þá rifu þeir föt sín. Síðan lögðu þeir pokana á asna sína og sneru aftur til borgarinnar. 14  Jósef var enn heima þegar Júda og bræður hans komu til hans, og þeir féllu til jarðar frammi fyrir honum. 15  „Hvað hafið þið gert?“ spurði Jósef. „Vissuð þið ekki að maður eins og ég getur auðveldlega ráðið í leynda hluti?“ 16  Þá sagði Júda: „Hverju getum við svarað þér, herra? Hvað getum við sagt? Hvernig getum við sannað sakleysi okkar? Hinn sanni Guð hefur dregið synd þjóna þinna fram í dagsljósið. Nú erum við þrælar þínir, herra, bæði við og sá sem bikarinn fannst hjá.“ 17  En Jósef sagði: „Það hvarflar ekki að mér! Sá sem bikarinn fannst hjá verður þræll minn en þið hinir skuluð fara í friði heim til föður ykkar.“ 18  Júda gekk þá nær honum og sagði: „Ég bið þig, herra minn, að leyfa þjóni þínum að segja nokkur orð við þig án þess að þú reiðist þjóni þínum því að þú ert sem faraó. 19  Herra, þú spurðir þjóna þína: ‚Eigið þið föður eða bróður?‘ 20  Og við svöruðum þér, herra: ‚Við eigum aldraðan föður og einn bróður enn sem er yngstur og faðir okkar eignaðist í elli sinni. En bróðir hans er dáinn og hann er eini eftirlifandi sonur móður sinnar. Faðir hans elskar hann.‘ 21  Þá sagðir þú við þjóna þína: ‚Komið með hann til mín svo að ég geti séð hann með eigin augum.‘ 22  En við sögðum þér, herra, að drengurinn mætti ekki fara frá föður sínum því að þá myndi faðir hans deyja. 23  Þú sagðir við þjóna þína: ‚Þið megið ekki koma aftur til mín nema yngsti bróðir ykkar komi með ykkur.‘ 24  Við fórum þá til þjóns þíns, föður okkar, og sögðum honum hvað þú hefðir sagt. 25  Nokkru síðar sagði faðir okkar: ‚Farið aftur og kaupið handa okkur vistir.‘ 26  En við svöruðum: ‚Við getum ekki farið þangað ef yngsti bróðir okkar fer ekki með okkur. Við megum ekki koma aftur til mannsins nema yngsti bróðir okkar sé með okkur.‘ 27  Þjónn þinn, faðir okkar, sagði þá við okkur: ‚Þið vitið vel að konan mín ól mér aðeins tvo syni. 28  En annar þeirra hvarf frá mér og ég sagði: „Villidýr hlýtur að hafa rifið hann í sig!“ Ég hef ekki séð hann síðan. 29  Ef þið takið þennan frá mér líka og hann verður fyrir slysi og deyr munuð þið senda gráar hærur mínar með kvöl niður í gröfina.‘* 30  Ef ég sný nú aftur heim til þjóns þíns, föður okkar, án þess að drengurinn sé með okkur, hann sem er líf hans og yndi, 31  mun faðir okkar deyja þegar hann sér að drenginn vantar, og þjónar þínir senda gráar hærur hans með harmi niður í gröfina.* 32  Ég, þjónn þinn, lofaði föður mínum að tryggja öryggi drengsins og sagði: ‚Ef ég kem ekki aftur með hann verð ég sekur við föður minn alla tíð.‘ 33  Ég bið þig þess vegna að leyfa mér að verða hér eftir sem þræll herra míns í stað drengsins og leyfa honum að fara heim með bræðrum sínum. 34  Hvernig gæti ég snúið aftur til föður míns án þess að hafa drenginn með mér? Ég gæti ekki afborið að sjá föður minn verða fyrir slíkri ógæfu.“

Neðanmáls

Á hebr. sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.
Á hebr. sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.