Fyrsta Mósebók 33:1–20
33 Jakob leit nú upp og sá Esaú koma ásamt 400 manna fylgdarliði. Hann skipti því börnunum niður á Leu, Rakel og báðar þjónustustúlkurnar.
2 Hann lét þjónustustúlkurnar og börn þeirra vera fremst, Leu og börn hennar fyrir aftan þau og Rakel og Jósef aftast.
3 Sjálfur fór hann á undan þeim og hneigði sig sjö sinnum til jarðar þegar hann gekk til móts við bróður sinn.
4 Esaú hljóp þá á móti honum, faðmaði hann og kyssti og þeir grétu báðir.
5 „Hvaða fólk er þetta með þér?“ spurði Esaú þegar hann leit upp og sá konurnar og börnin. „Þetta eru börnin sem Guð hefur gefið þjóni þínum í gæsku sinni,“ svaraði hann.
6 Þá gengu þjónustustúlkurnar fram ásamt börnum sínum og hneigðu sig.
7 Næst gekk Lea fram og hneigði sig ásamt börnum sínum. Að lokum gekk Jósef fram ásamt Rakel og þau hneigðu sig.
8 Esaú spurði: „Af hverju sendirðu allan þennan hóp sem ég mætti?“ Jakob svaraði: „Ég vildi hljóta velþóknun þína.“
9 Þá sagði Esaú: „Ég á meira en nóg, bróðir minn. Haltu því sem er þitt.“
10 „Nei,“ sagði Jakob. „Ef þú hefur velþóknun á mér þiggðu þá gjöf mína því að ég kom með hana til að fá að hitta þig. Þegar ég sá þig var eins og ég sæi auglit Guðs því að þú tókst svo vel á móti mér.
11 Gerðu það fyrir mig að þiggja gjöfina* sem þér var færð því að Guð hefur verið mér góður og ég hef allt sem ég þarf.“ Á endanum þáði Esaú gjöfina þar sem Jakob lagði svo fast að honum.
12 „Förum nú af stað,“ sagði Esaú. „Ég skal fara á undan þér.“
13 En Jakob svaraði: „Herra minn veit að börnin eru lítil og hjá mér eru ær og kýr með ungviði á spena. Ef ég ræki þau of hart einn dag myndi öll hjörðin drepast.
14 Herra minn, ég legg til að þú farir á undan þjóni þínum. Síðan kem ég hægt og rólega á eftir herra mínum, á þeim hraða sem búféð og börnin ráða við, og hitti þig í Seír.“
15 Þá sagði Esaú: „Leyfðu mér þá að skilja eftir hjá þér nokkra úr mínum hópi.“ „Það er engin þörf á því,“ svaraði Jakob. „Velþóknun herra míns er það eina sem ég bið um.“
16 Sama dag sneri Esaú aftur til Seír.
17 En Jakob hélt til Súkkót. Þar byggði hann sér hús og reisti skýli handa hjörð sinni. Þess vegna nefndi hann staðinn Súkkót.*
18 Jakob kom heilu og höldnu til Síkemborgar í Kanaanslandi eftir að hafa ferðast frá Paddan Aram og hann setti upp búðir sínar nálægt borginni.
19 Landskikann þar sem hann hafði slegið upp tjaldi sínu keypti hann síðan af sonum Hemors fyrir 100 silfurpeninga, en Síkem var einn af sonum Hemors.
20 Þar reisti Jakob altari sem hann nefndi Guð er Guð Ísraels.