Fyrri Konungabók 7:1–51

  • Höll Salómons og hallarsvæðið (1–12)

  • Híram handverksmaður aðstoðar Salómon (13–47)

  • Gullmunirnir fullgerðir (48–51)

7  Salómon byggði sér höll og var 13 ár að fullgera hana.  Hann byggði Líbanonsskógarhúsið sem var 100 álnir* á lengd, 50 álnir á breidd og 30 álnir á hæð. Það stóð á fjórum röðum af sedrusstólpum og ofan á þeim voru bjálkar úr sedrusviði.  Þiljur úr sedrusviði voru ofan á burðarbitunum sem hvíldu á stólpunum. Þeir* voru 45 talsins, 15 í hverri röð.  Á húsinu voru þrjár raðir af gluggum með gluggakörmum. Gluggarnir stóðust á, þrír og þrír í lóðréttri röð.  Allar dyr og dyrastafir voru með ferhyrnda umgjörð og einnig gluggarnir sem stóðust á, þrír og þrír í lóðréttri röð.  Hann byggði einnig Súlnasalinn. Hann var 50 álna langur og 30 álna breiður og fyrir framan hann var forsalur með súlum og skyggni.  Hann byggði líka Hásætissalinn, einnig kallaður Dómssalurinn, þar sem hann kvað upp dóma. Hann var þiljaður sedrusviði frá gólfi og upp að þaksperrum.  Höllin þar sem hann átti að búa var í hinum forgarðinum, á bak við salinn,* og var byggð á svipaðan hátt. Salómon reisti einnig hús sem líktist salnum handa dóttur faraós sem hann hafði tekið sér fyrir konu.  Allar byggingarnar voru hlaðnar úr dýrum steinum frá grunni og upp á veggbrúnir. Þeir voru höggnir til eftir máli og skornir til með steinsög að innan- og utanverðu. Það sama var gert við alla steina úti fyrir, allt að stóra forgarðinum. 10  Undirstöðurnar voru úr stórum, dýrum steinum. Sumir þeirra voru tíu álnir en aðrir átta álnir. 11  Ofan á þeim voru dýrir steinar, höggnir til eftir máli, og sedrusviður. 12  Múrinn í kringum stóra forgarðinn var úr þrem lögum af tilhöggnum steinum og einu lagi af sedrusbjálkum, rétt eins og múrinn í kringum innri forgarðinn við hús Jehóva og forsal hússins.* 13  Salómon konungur sendi eftir Híram frá Týrus. 14  Hann var sonur ekkju af ættkvísl Naftalí en faðir hans var Týrverji og hafði verið koparsmiður. Híram kunni vel til verka og var með mikla reynslu í alls kyns koparsmíði.* Hann kom til Salómons konungs og vann öll þau verk sem hann fól honum. 15  Hann steypti koparsúlurnar tvær. Hvor þeirra var 18 álnir á hæð og 12 álnir að ummáli.* 16  Hann steypti einnig tvö súlnahöfuð úr kopar til að setja ofan á súlurnar. Hvort þeirra var fimm álnir á hæð. 17  Á báðum súlnahöfðunum var net úr fléttuðum keðjum, sjö á hvoru höfði. 18  Utan um netið á hvoru súlnahöfði gerði hann granatepli í tveim röðum sem umluktu höfuðið. 19  Höfuðin á súlunum við forsalinn voru í laginu eins og liljur sem voru fjögurra álna háar. 20  Þessi hluti höfðanna á hvorri súlu var ofan á bungunni þar sem netið var. Granateplin voru 200 talsins í röðum umhverfis hvort súlnahöfuð. 21  Hann reisti súlurnar við forsal musterisins.* Aðra þeirra reisti hann hægra* megin og nefndi hana Jakín* en hina reisti hann vinstra* megin og nefndi hana Bóas.* 22  Efst voru súlurnar í laginu eins og liljur. Þar með var smíði súlnanna lokið. 23  Því næst gerði hann hafið.* Það var hringlaga úr steyptum málmi. Tíu álnir voru á milli barmanna. Það var 5 álnir á dýpt og 30 álnir að ummáli.* 24  Fyrir neðan barminn var hafið skreytt graskerum allan hringinn, tíu á hverja alin hringinn í kring. Graskerin voru í tveim röðum og steypt í sama móti og hafið. 25  Hafið stóð á 12 nautum. Þrjú þeirra sneru í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður og þrjú í austur. Það hvíldi á nautunum og bakhlutar þeirra sneru inn að miðju. 26  Hafið var þverhönd* á þykkt og barmurinn var eins og bikarbarmur, eins og útsprungin lilja. Það tók 2.000 böt.* 27  Síðan gerði hann tíu vagna* úr kopar. Þeir voru fjögurra álna langir, fjögurra álna breiðir og þriggja álna háir. 28  Þannig voru vagnarnir gerðir: Á hliðunum voru spjöld sem voru römmuð inn í grindina. 29  Hliðarspjöldin í grindinni voru skreytt með ljónum, nautum og kerúbum og sömu skreytingar voru á grindinni sjálfri. Fyrir ofan og neðan ljónin og nautin voru skrautsveigar. 30  Á hverjum vagni voru fjögur koparhjól og koparöxlar sem tengdust hornstoðunum fjórum. Kerið hvíldi á stoðunum sem voru með skrautsveiga steypta í hliðarnar. 31  Opið á kerinu var hringlaga og utan um það var umgjörð með skraut grafið í barmana. Frá botni kersins og upp að umgjörðinni var ein alin en umgjörðin og stoðirnar voru samtals ein og hálf alin á hæð. Spjöldin á hliðum umgjarðarinnar voru ekki hringlaga heldur ferköntuð. 32  Hjólin fjögur voru undir hliðarspjöldunum á vagninum og hjólafestingarnar voru áfastar vagninum. Hvert hjól var ein og hálf alin. 33  Hjólin voru gerð eins og vagnhjól. Festingarnar, gjarðirnar, teinarnir og nafirnar var allt steypt úr málmi. 34  Á hverjum vagni voru fjórar stoðir, ein á hverju horni. Stoðirnar voru steyptar í sama móti og vagninn. 35  Efst á vagninum var hringlaga gjörð, hálf alin á breidd. Rammarnir og spjöldin efst á vagninum voru steypt í sama móti og vagninn. 36  Á rammana og spjöldin gróf hann kerúba, ljón og pálma eftir því sem pláss leyfði og hafði skrautsveiga allt í kring. 37  Þannig gerði hann vagnana tíu. Þeir voru allir steyptir á sama hátt og voru eins að stærð og lögun. 38  Hann gerði tíu ker úr kopar, eitt fyrir hvern af vögnunum tíu. Hvert um sig var fjórar álnir* og tók 40 böt. 39  Hann setti fimm vagna hægra megin við húsið og fimm vinstra megin. Hafinu kom hann fyrir hægra megin við húsið, í suðaustri. 40  Híram gerði auk þess kerin, skóflurnar og skálarnar. Þar með lauk hann við allt verk sitt við hús Jehóva sem hann vann fyrir Salómon konung: 41  súlurnar tvær og skálarlaga súlnahöfuðin, bæði netin utan um súlnahöfuðin, 42  granateplin 400 sem voru sett í tvær raðir á hvort net utan um skálarlaga súlnahöfuðin, 43  vagnana tíu og kerin tíu sem voru á þeim, 44  hafið og nautin 12 undir því 45  og einnig föturnar, skóflurnar, skálarnar og öll áhöldin. Híram gerði allt þetta úr fægðum kopar fyrir hús Jehóva eins og Salómon konungur bað hann um. 46  Konungur lét steypa þetta allt í leirmótum á Jórdansléttu, á milli Súkkót og Saretan. 47  Áhöldin voru svo mörg að Salómon lét aldrei vigta þau. Ekki var vitað hve þungur koparinn var. 48  Salómon gerði öll áhöldin fyrir hús Jehóva: gullaltarið, gullborðið undir skoðunarbrauðin, 49  ljósastikurnar úr hreinu gulli fyrir framan innsta herbergið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, og blómin, lampana og ljósaskærin,* allt úr gulli. 50  Hann gerði kerin, skarklippurnar, skálarnar, bikarana og eldpönnurnar úr hreinu gulli og einnig gullhjarirnar fyrir hurðir innsta hluta hússins, það er að segja hins allra helgasta, og fyrir hurðir hins heilaga.* 51  Salómon konungur lauk þannig öllu verki sínu við hús Jehóva. Hann sótti munina sem Davíð faðir hans hafði helgað og kom silfrinu, gullinu og gripunum fyrir í fjárhirslum húss Jehóva.

Neðanmáls

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.
Óvíst er hvort átt er við burðarbitana, stólpana eða herbergin.
Sennilega er átt við Hásætissalinn.
Eða hugsanl. „hallarinnar“.
Eða „bronssmíði“. Í þessum kafla getur kopar einnig átt við brons.
Eða „12 álna mælisnúru þurfti til að ná utan um hvora þeirra“.
Eða „norðan“.
Merkir hugsanl. ‚með krafti‘.
Sem þýðir ‚megi hann [það er, Jehóva] staðfesta‘.
Eða „sunnan“.
Hér er átt við hið heilaga.
Eða „vatnskerið“.
Eða „30 álna mælisnúru þurfti til að ná utan um það“.
7,4 cm. Sjá viðauka B14.
Bat jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.
Eða „vatnsvagna“.
Eða „fjórar álnir í þvermál“.
Eða „tangirnar“.
Orðrétt „musterishússins“.