Postulasagan 25:1–27

  • Festus réttar yfir Páli (1–12)

    • „Ég skýt máli mínu til keisarans“ (11)

  • Festus ráðfærir sig við Agrippu konung (13–22)

  • Páll frammi fyrir Agrippu (23–27)

25  Þrem dögum eftir að Festus kom til skattlandsins og tók við völdum fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.  Yfirprestarnir og fyrirmenn Gyðinga lögðu fram ákærur sínar gegn Páli. Þeir báðu Festus  að gera sér þann greiða að láta senda Pál til Jerúsalem en þeir ætluðu að sitja fyrir honum á leiðinni og drepa hann.  Festus svaraði hins vegar að Páll skyldi vera áfram í varðhaldi í Sesareu og að sjálfur færi hann bráðlega þangað aftur.  „Látið því ráðamenn ykkar koma með mér og ákæra manninn,“ sagði hann, „ef hann hefur á annað borð brotið eitthvað af sér.“  Festus hafði ekki verið hjá þeim nema í átta eða tíu daga þegar hann fór niður til Sesareu, og daginn eftir settist hann í dómarasætið og skipaði að Páll skyldi leiddur inn.  Gyðingarnir sem höfðu komið frá Jerúsalem umkringdu hann þegar hann kom inn og báru á hann margar þungar sakir sem þeir gátu ekki sannað.  Páll varði sig og sagði: „Ég hef hvorki syndgað gegn lögum Gyðinga, musterinu né keisaranum.“  Festus, sem vildi afla sér velvildar Gyðinga, spurði þá Pál: „Viltu fara til Jerúsalem og fá dæmt í málinu þar að mér viðstöddum?“ 10  En Páll svaraði: „Ég stend nú fyrir dómarasæti keisarans og þar á ég að hljóta dóm. Ég hef ekki gert neitt á hlut Gyðinga eins og þú hefur örugglega áttað þig á. 11  Ef ég hef gerst brotlegur og framið eitthvað sem kallar á dauðarefsingu biðst ég ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í ásökunum þessara manna á hendur mér hefur enginn rétt til að láta það eftir þeim að framselja mig í hendur þeirra. Ég skýt máli mínu til keisarans.“ 12  Eftir að Festus hafði talað við ráðgjafa sína svaraði hann: „Þú hefur skotið máli þínu til keisarans og til keisarans skaltu fara.“ 13  Nokkrum dögum síðar komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu í kurteisisheimsókn til Festusar. 14  Þar sem þau dvöldust þar allmarga daga lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: „Hér er fangi sem Felix skildi eftir. 15  Þegar ég var í Jerúsalem báru yfirprestar og öldungar Gyðinga fram ákæru gegn honum og báðu um að hann yrði dæmdur sekur. 16  En ég svaraði að Rómverjar væru ekki vanir að framselja nokkurn sakborning í greiðaskyni fyrr en hann hefði staðið frammi fyrir ákærendum sínum og fengið tækifæri til að verja mál sitt. 17  Þegar þeir komu lét ég málið ekki tefjast heldur settist í dómarasætið daginn eftir og lét leiða manninn inn. 18  Ákærendurnir stigu fram en sökuðu hann ekki um nein þau brot sem ég hafði búist við. 19  Þeir áttu einfaldlega í deilum við hann um guðsdýrkun* sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn sem var dáinn en Páll fullyrti að væri lifandi. 20  Þar sem ég var óviss um hvernig ætti að taka á þessum deilum spurði ég hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma í málinu þar. 21  En Páll fór fram á að hans hátign* skæri úr máli sínu og að hann yrði í varðhaldi þangað til. Ég fyrirskipaði þá að hann skyldi hafður í haldi þar til ég gæti sent hann til keisarans.“ 22  Agrippa sagði þá við Festus: „Ég vil gjarnan fá að hlusta á manninn sjálfur.“ Hinn svaraði: „Þú færð að hlusta á hann á morgun.“ 23  Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu inn í áheyrendasalinn ásamt hersveitarforingjum og framámönnum borgarinnar. Páll var síðan leiddur inn að skipun Festusar. 24  Festus sagði: „Agrippa konungur og þið öll sem eruð viðstödd. Hér sjáið þið manninn sem er orsök þess að allt samfélag Gyðinga, bæði hér og í Jerúsalem, hefur snúið sér til mín. Það heimtar hástöfum að hann skuli tekinn af lífi. 25  En ég áttaði mig á að þessi maður hefur ekki gert neitt sem varðar dauðarefsingu. Þegar hann skaut máli sínu sjálfur til hans hátignar ákvað ég því að senda hann þangað. 26  En ég hef ekkert haldbært að skrifa herra mínum um hann og þess vegna hef ég leitt hann fyrir ykkur öll, og sérstaklega fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað til að skrifa að lokinni yfirheyrslu. 27  Mér finnst fráleitt að senda fanga án þess að tilgreina fyrir hvað hann er ákærður.“

Neðanmálsgreinar

Eða „trú“.
Eða „Ágústus“. Einn af titlum rómverska keisarans.