Postulasagan 23:1–35

  • Páll talar frammi fyrir Æðstaráðinu (1–10)

  • Drottinn styrkir Pál (11)

  • Samsæri um að drepa Pál (12–22)

  • Páll fluttur til Sesareu (23–35)

23  Páll horfði fast á Æðstaráðið og sagði: „Menn, bræður, ég hef að öllu leyti haft hreina samvisku frammi fyrir Guði allt til þessa dags.“  Ananías æðstiprestur skipaði þá þeim sem stóðu hjá honum að slá hann á munninn.  En Páll sagði við hann: „Guð mun slá þig, þú hvítkalkaði veggur.* Situr þú og dæmir mig samkvæmt lögunum en brýtur jafnframt lögin með því að skipa að ég skuli sleginn?“  Þeir sem stóðu hjá sögðu: „Smánarðu æðstaprest Guðs?“  En Páll svaraði: „Bræður, ég vissi ekki að hann væri æðstiprestur. Skrifað stendur: ‚Þú skalt ekki tala niðrandi um leiðtoga þjóðar þinnar.‘“  Nú vissi Páll að sumir þeirra voru saddúkear en aðrir farísear og hrópaði yfir Æðstaráðið: „Menn, bræður, ég er farísei, kominn af faríseum. Ég er fyrir rétti vegna vonarinnar um upprisu dauðra.“  Þegar hann sagði þetta kviknaði deila milli farísea og saddúkea og ráðið skiptist í tvo hópa  því að saddúkear segja að hvorki sé til upprisa, englar né andar en farísear trúa á* allt þetta.  Nú varð mikið uppnám og sumir fræðimenn af flokki farísea risu upp og hrópuðu af miklum ofsa: „Við sjáum ekki að þessi maður hafi gert neitt rangt. Segjum að andi eða engill hafi talað við hann ...“ 10  Nú harðnaði deilan og hersveitarforinginn óttaðist að þeir myndu slíta Pál í sundur. Hann skipaði því hermönnunum að fara og bjarga honum frá þeim og flytja hann í bækistöðvar sínar. 11  Um nóttina stóð Drottinn hjá honum og sagði: „Hertu upp hugann! Þú átt eftir að vitna um mig í Róm rétt eins og þú hefur vitnað rækilega um mig í Jerúsalem.“ 12  Morguninn eftir gerðu Gyðingar samsæri og sóru þess eið* að borða hvorki né drekka fyrr en þeir hefðu drepið Pál. 13  Yfir 40 menn sóru eiðinn og tóku þátt í samsærinu. 14  Þeir fóru til yfirprestanna og öldunganna og sögðu: „Við höfum svarið þess dýran eið að bragða ekki mat fyrr en við höfum drepið Pál. 15  Þið og Æðstaráðið skuluð því biðja hersveitarforingjann að koma með hann niður til ykkar og láta eins og þið viljið rannsaka mál hans betur. En við verðum tilbúnir að ráða hann af dögum áður en hann kemst alla leið.“ 16  Systursonur Páls frétti hins vegar af launsátrinu sem þeir áformuðu, gekk inn í bækistöðvar hermannanna og sagði Páli frá því. 17  Páll kallaði þá á einn af liðsforingjunum og sagði: „Farðu með þennan unga mann til hersveitarforingjans því að hann er með upplýsingar handa honum.“ 18  Hann fór þá með hann til hersveitarforingjans og sagði: „Fanginn Páll kallaði á mig og bað mig að fara til þín með þennan unga mann því að hann þarf að segja þér nokkuð.“ 19  Hersveitarforinginn leiddi hann afsíðis og spurði: „Hvað er það sem þú vilt segja mér?“ 20  Hann svaraði: „Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að leiða Pál fyrir Æðstaráðið á morgun. Þeir láta eins og þeir ætli að kynna sér mál hans betur. 21  Farðu ekki að vilja þeirra því að meira en 40 menn úr þeirra hópi ætla að sitja fyrir honum og þeir hafa svarið þess eið að borða hvorki né drekka fyrr en þeir hafa drepið hann. Þeir eru viðbúnir og bíða nú eftir að þú gefir leyfi.“ 22  Hersveitarforinginn lét unga manninn fara og skipaði honum að segja engum að hann hefði látið sig vita af þessu. 23  Hann kallaði til sín tvo liðsforingja og sagði: „Látið 200 hermenn vera tilbúna til að fara til Sesareu um þriðju stund nætur,* auk 70 riddara og 200 spjótbera. 24  Hafið líka til hesta handa Páli til að koma honum heilum á húfi til Felix landstjóra.“ 25  Síðan skrifaði hann svohljóðandi bréf: 26  „Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga landstjóra Felix. 27  Gyðingar tóku þennan mann og voru í þann mund að drepa hann en ég kom í flýti með hermönnum mínum og bjargaði honum þegar ég uppgötvaði að hann var rómverskur. 28  Ég vildi vita fyrir hvað þeir ákærðu hann og fór því með hann fyrir Æðstaráð þeirra. 29  Ég komst að raun um að hann var ákærður vegna ágreinings um lög þeirra en ekki sakaður um neitt sem kallar á dauðarefsingu eða fangavist. 30  En þar sem ég fékk að vita af samsæri gegn manninum sendi ég hann undireins til þín og skipa að ákærendur hans flytji mál sitt gegn honum fyrir þér.“ 31  Hermennirnir tóku þá Pál eins og þeim var skipað og fóru með hann um nóttina til Antípatris. 32  Daginn eftir sneru þeir aftur til bækistöðvanna en létu riddarana halda áfram með hann. 33  Riddararnir komu til Sesareu, afhentu landstjóranum bréfið og leiddu Pál fyrir hann. 34  Hann las bréfið, spurði frá hvaða skattlandi hann væri og fékk að vita að hann væri frá Kilikíu. 35  „Ég hlusta á málsvörn þína þegar ákærendur þínir koma,“ sagði hann. Síðan fyrirskipaði hann að Páll skyldi hafður í gæslu í höll Heródesar.

Neðanmálsgreinar

Eða „þú hræsnari“.
Eða „játa opinberlega“.
Eða „skuldbundu sig með bölvun“, það er, þeir trúðu að þeir kölluðu yfir sig bölvun ef þeir héldu ekki eiðinn.
Það er, um kl. 21.