Postulasagan 22:1–30

  • Vörn Páls frammi fyrir fólkinu (1–21)

  • Páll nýtir sér rómverskan ríkisborgararétt sinn (22–29)

  • Æðstaráðið kallað saman (30)

22  „Menn, bræður og feður, heyrið það sem ég vil segja mér til varnar.“  Þegar þeir heyrðu að hann ávarpaði þá á hebresku urðu þeir enn hljóðari. Þá sagði hann:  „Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu en menntaður í þessari borg við fætur Gamalíels, fræddur samkvæmt ströngustu túlkun á lögum forfeðranna og jafn ákafur í þjónustu Guðs og þið eruð allir nú í dag.  Ég ofsótti þá sem fylgdu Veginum og lét fjötra, fangelsa og jafnvel lífláta bæði karla og konur  eins og æðstipresturinn og allt öldungaráðið geta vitnað um. Ég fékk líka bréf hjá þeim til bræðranna í Damaskus og var á leiðinni þangað til að taka þá sem voru þar og flytja í fjötrum til Jerúsalem og láta refsa þeim.  En þegar ég nálgaðist Damaskus um hádegisbil leiftraði skyndilega á mig skært ljós af himni  og ég féll til jarðar og heyrði rödd sem sagði við mig: ‚Sál, Sál, hvers vegna ofsækirðu mig?‘  Ég svaraði: ‚Hver ertu, Drottinn?‘ Hann sagði: ‚Ég er Jesús frá Nasaret sem þú ofsækir.‘  Þeir sem voru með mér sáu ljósið en heyrðu ekki rödd þess sem talaði við mig. 10  Þá spurði ég: ‚Hvað á ég að gera, Drottinn?‘ Hann svaraði mér: ‚Stattu á fætur og farðu til Damaskus. Þar verður þér sagt frá öllu sem þér er ætlað að gera.‘ 11  En þar sem ég blindaðist af skæru ljósinu þurftu þeir sem voru með mér að leiða mig til Damaskus. 12  Ananías nokkur, guðrækinn maður sem fylgdi lögunum og hafði gott orð á sér meðal allra Gyðinga þar, 13  kom nú til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ‚Sál, bróðir, fáðu sjónina aftur.‘ Í sömu andrá leit ég upp og sá hann. 14  Hann sagði: ‚Guð forfeðra okkar hefur valið þig til að kynnast vilja sínum og sjá hinn réttláta og heyra rödd hans 15  því að þú átt að vera vottur hans og segja öllum mönnum frá því sem þú hefur séð og heyrt. 16  Eftir hverju ertu að bíða? Stattu upp, láttu skírast og þvoðu af þér syndir þínar með því að ákalla nafn hans.‘ 17  Þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í musterinu fékk ég vitrun 18  og sá Drottin. Hann sagði við mig: ‚Flýttu þér burt úr Jerúsalem því að menn munu ekki taka við því sem þú boðar um mig.‘ 19  Ég svaraði: ‚Drottinn, þeir vita sjálfir mætavel að ég fór úr einu samkunduhúsi í annað til að fangelsa og hýða þá sem trúðu á þig, 20  og þegar blóði Stefáns vottar þíns var úthellt var ég samþykkur því og stóð þar hjá og gætti yfirhafna þeirra sem drápu hann.‘ 21  Hann sagði samt við mig: ‚Farðu nú því að ég ætla að senda þig til fjarlægra þjóða.‘“ 22  Þeir höfðu hlustað á hann fram að þessu en nú hrópuðu þeir: „Burt með þennan mann af jörðinni því að hann á ekki skilið að lifa!“ 23  Þeir æptu hástöfum, sveifluðu yfirhöfnum sínum til og frá og þyrluðu ryki upp í loftið. 24  Hersveitarforinginn fyrirskipaði því að farið yrði með Pál inn í bækistöðvar hermannanna og skipaði að þar skyldi yfirheyra hann og húðstrýkja til að fá að vita með vissu hvers vegna Gyðingar veittust að honum með slíkum hrópum. 25  En þegar þeir höfðu bundið Pál fastan til að húðstrýkja hann sagði hann við liðsforingjann sem stóð þar: „Megið þið lögum samkvæmt húðstrýkja rómverskan borgara án þess að hann sé dæmdur?“* 26  Þegar liðsforinginn heyrði þetta fór hann til hersveitarforingjans, sagði honum frá því og spurði: „Hvað ætlarðu nú að gera? Þessi maður er rómverskur.“ 27  Hersveitarforinginn fór þá til Páls og spurði hann: „Segðu mér, ertu rómverskur?“ „Já,“ svaraði hann. 28  Þá sagði hersveitarforinginn: „Ég keypti þennan ríkisborgararétt dýrum dómum.“ En Páll sagði: „Ég hef haft hann frá fæðingu.“ 29  Mennirnir sem ætluðu að fara að pynta hann til sagna hörfuðu samstundis frá honum og hersveitarforinginn varð hræddur þegar hann uppgötvaði að hann hafði látið hlekkja rómverskan mann. 30  Daginn eftir lét hann leysa Pál og kallaði saman yfirprestana og allt Æðstaráðið því að hann vildi fá að vita með vissu fyrir hvað Gyðingar ákærðu hann. Síðan fór hann með Pál niður til þeirra og leiddi hann fram fyrir þá.

Neðanmálsgreinar

Eða „án réttarhalda“.