Postulasagan 1:1–26

  • Ávarp til Þeófílusar (1–5)

  • Vottar til endimarka jarðar (6–8)

  • Jesús stígur upp til himna (9–11)

  • Lærisveinarnir safnast einhuga saman (12–14)

  • Matthías valinn í stað Júdasar (15–26)

1  Fyrri frásöguna, Þeófílus, tók ég saman um allt sem Jesús gerði og kenndi frá upphafi  til þess dags þegar hann var hrifinn upp til himna, en áður hafði hann gefið postulunum, sem hann hafði útvalið, leiðbeiningar fyrir milligöngu heilags anda.  Eftir að hafa þjáðst sýndi hann þeim með mörgum óyggjandi sönnunum að hann væri lifandi. Hann birtist þeim um 40 daga skeið og talaði um ríki Guðs.  Meðan hann var með þeim sagði hann þeim: „Farið ekki frá Jerúsalem heldur bíðið eftir því sem faðirinn hefur lofað og þið heyrðuð mig tala um  því að Jóhannes skírði með vatni en þið verðið skírðir með heilögum anda eftir fáeina daga.“  Þegar þeir voru samankomnir spurðu þeir hann: „Drottinn, ætlarðu að endurreisa Ísraelsríki núna?“  Hann svaraði þeim: „Þið þurfið ekki að vita tíma eða tíðir sem faðirinn einn hefur vald til að ákveða.  En þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka* jarðar.“  Eftir að hann hafði sagt þetta horfðu þeir á hvernig hann lyftist upp til himins og ský huldi hann svo að þeir sáu hann ekki lengur. 10  Meðan þeir störðu til himins á eftir honum stóðu skyndilega hjá þeim tveir menn í hvítum fötum 11  og sögðu: „Galíleumenn, hvers vegna standið þið og horfið til himins? Þessi Jesús, sem var hrifinn frá ykkur til himins, mun koma á sama hátt og þið sáuð hann fara til himins.“ 12  Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu sem svo er nefnt og er skammt frá Jerúsalem, aðeins hvíldardagsleið þaðan. 13  Þegar þeir komu þangað fóru þeir upp í herbergið á efri hæðinni þar sem þeir dvöldust. Þetta voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus og Tómas, Bartólómeus og Matteus, Jakob Alfeusson, Símon hinn kappsami og Júdas Jakobsson. 14  Þeir báðu allir stöðugt og með einum huga ásamt nokkrum konum, bræðrum Jesú og Maríu móður hans. 15  Einn daginn stóð Pétur upp á meðal bræðranna og systranna (alls voru þar um 120 manns) og sagði: 16  „Menn, bræður, ritningarstaðurinn þurfti að rætast þar sem Davíð spáði fyrir atbeina heilags anda um Júdas, en hann vísaði veginn þeim sem handtóku Jesú. 17  Hann tilheyrði okkar hópi og honum var falin sama þjónusta og okkur. 18  (Þessi maður keypti landspildu fyrir laun ranglætis síns. Hann steyptist á höfuðið, kviðurinn rifnaði* og iðrin lágu öll úti. 19  Allir Jerúsalembúar fréttu þetta og spildan var því kölluð Akeldamak á máli þeirra, það er ‚Blóðreitur‘.) 20  Í Sálmunum stendur skrifað: ‚Bústaður hans leggist í eyði og enginn skal búa þar,‘ og: ‚Annar taki við umsjónarstarfi hans.‘ 21  Það er því nauðsynlegt að í hans stað komi einn þeirra manna sem var með okkur allan þann tíma sem Drottinn Jesús vann starf sitt* meðal okkar, 22  allt frá því að Jóhannes skírði hann til þess dags þegar hann var hrifinn upp frá okkur. Þessi maður þarf að vera vottur með okkur að upprisu hans.“ 23  Þeir tilnefndu því tvo, Jósef, sem var kallaður Barsabbas, einnig nefndur Jústus, og Matthías. 24  Síðan báðust þeir fyrir og sögðu: „Jehóva,* þú sem þekkir hjörtu allra, sýndu hvorn þessara manna þú hefur valið 25  til að taka við þessari þjónustu og postulaembætti sem Júdas yfirgaf til að fara sína eigin leið.“ 26  Þeir vörpuðu því hlutkesti um þá og hlutur Matthíasar kom upp. Hann var tekinn í tölu* postulanna með þeim 11.

Neðanmálsgreinar

Eða „til fjarlægustu hluta“.
Eða „hann rifnaði í miðju“.
Orðrétt „gekk inn og út“.
Sjá orðaskýringar.
Það er, álitinn jafn hinum postulunum 11.