Matteus 25:1–46

  • TÁKN UM NÆRVERU KRISTS (1–46)

    • Dæmisagan um meyjarnar tíu (1–13)

    • Dæmisagan um talenturnar (14–30)

    • Sauðirnir og geiturnar (31–46)

25  Líkja má himnaríki við tíu meyjar sem tóku lampa sína og fóru út til móts við brúðgumann.  Fimm voru óskynsamar og fimm skynsamar.*  Hinar óskynsömu tóku lampa sína en höfðu enga olíu með sér  en þær skynsömu tóku með sér olíu á flöskum ásamt lömpunum.  Nú tafðist brúðguminn og þær urðu allar syfjaðar og sofnuðu.  Um miðja nótt var kallað: ‚Brúðguminn er að koma! Farið til móts við hann.‘  Þá stóðu allar meyjarnar á fætur og tóku til lampa sína.  Óskynsömu meyjarnar sögðu við þær skynsömu: ‚Gefið okkur smá olíu því að það er að slokkna á lömpunum okkar.‘  Hinar skynsömu svöruðu: ‚Þá nægir hún kannski ekki handa okkur öllum. Farið frekar og kaupið ykkur olíu hjá þeim sem selja hana.‘ 10  Meðan þær voru að kaupa olíuna kom brúðguminn. Meyjarnar sem voru viðbúnar fóru með honum inn til brúðkaupsveislunnar og dyrunum var lokað. 11  Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ‚Herra, herra, opnaðu fyrir okkur!‘ 12  Hann svaraði: ‚Ég segi ykkur eins og er, ég þekki ykkur ekki.‘ 13  Haldið því vöku ykkar því að þið vitið hvorki daginn né stundina. 14  Himnaríki má einnig líkja við mann sem var í þann mund að fara til útlanda. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim að sjá um eigur sínar. 15  Hann fékk einum fimm talentur,* öðrum tvær og þeim þriðja eina, allt eftir hæfni hvers og eins, og fór svo úr landi. 16  Sá sem fékk fimm talentur fór tafarlaust, verslaði með þær og þénaði aðrar fimm. 17  Sá sem fékk tvær gerði eins, og þénaði aðrar tvær. 18  En þjónninn sem fékk aðeins eina fór burt, gróf peninga* húsbónda síns í jörð og faldi þá. 19  Löngu síðar kom húsbóndi þjónanna og lét þá gera reikningsskil. 20  Sá sem hafði fengið fimm talentur gekk þá fram, færði honum fimm að auki og sagði: ‚Herra, þú trúðir mér fyrir fimm talentum og ég hef þénað fimm í viðbót.‘ 21  Húsbóndinn sagði við hann: ‚Vel gert, góði og trúi þjónn. Þú varst trúr yfir litlu. Ég set þig yfir mikið. Komdu og fagnaðu með húsbónda þínum.‘ 22  Því næst gekk fram sá sem hafði fengið tvær talentur og sagði: ‚Herra, þú trúðir mér fyrir tveim talentum og ég hef þénað tvær í viðbót.‘ 23  Húsbóndinn sagði við hann: ‚Vel gert, góði og trúi þjónn. Þú varst trúr yfir litlu. Ég set þig yfir mikið. Komdu og fagnaðu með húsbónda þínum.‘ 24  Að lokum gekk þjónninn fram sem hafði fengið eina talentu og sagði: ‚Herra, ég vissi að þú ert kröfuharður maður. Þú uppskerð þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú þresktir ekki. 25  Ég varð því hræddur og faldi talentuna í jörð. Hér hefurðu það sem þú átt.‘ 26  Húsbóndinn svaraði honum: ‚Illi og lati þjónn, þú vissir sem sagt að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég þreskti ekki. 27  Þú hefðir því átt að leggja fé* mitt í banka og þá hefði ég fengið það aftur með vöxtum þegar ég kom. 28  Takið talentuna af honum og gefið þeim sem hefur tíu talentur 29  því að hverjum sem hefur verður gefið meira og hann mun hafa gnægð. En frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það litla sem hann hefur. 30  Og kastið þessum einskis nýta þjóni út í myrkrið fyrir utan. Þar mun hann gráta og gnísta tönnum.‘ 31  Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englarnir með honum sest hann í dýrðarhásæti sitt. 32  Allar þjóðir safnast saman frammi fyrir honum og hann skilur fólk hvert frá öðru eins og hirðir skilur sauði frá geitum. 33  Hann lætur sauðina vera sér til hægri handar en geiturnar til vinstri. 34  Þá segir konungurinn við þá sem eru honum á hægri hönd: ‚Komið, þið sem faðir minn hefur blessað, og takið við ríkinu sem ykkur var ætlað frá grundvöllun heims. 35  Ég var svangur og þið gáfuð mér að borða, ég var þyrstur og þið gáfuð mér að drekka. Ég var ókunnugur og þið sýnduð mér gestrisni, 36  nakinn* og þið klædduð mig. Ég var veikur og þið önnuðust mig. Ég var í fangelsi og þið heimsóttuð mig.‘ 37  Þá svara hinir réttlátu: ‚Drottinn, hvenær sáum við þig svangan og gáfum þér að borða eða þyrstan og gáfum þér að drekka? 38  Hvenær sáum við þig ókunnugan og sýndum þér gestrisni eða nakinn og klæddum þig? 39  Hvenær sáum við þig veikan eða í fangelsi og heimsóttum þig?‘ 40  Þá svarar konungurinn þeim: ‚Trúið mér, allt sem þið gerðuð fyrir einn minna minnstu bræðra gerðuð þið fyrir mig.‘ 41  Síðan segir hann við þá sem eru til vinstri: ‚Farið frá mér, þið sem eruð bölvaðir, í hinn eilífa eld sem bíður Djöfulsins og engla hans. 42  Ég var svangur en þið gáfuð mér ekkert að borða og þyrstur en þið gáfuð mér ekkert að drekka. 43  Ég var ókunnugur en þið sýnduð mér ekki gestrisni, nakinn en þið klædduð mig ekki, veikur og í fangelsi en þið önnuðust mig ekki.‘ 44  Þá svara þeir líka: ‚Drottinn, hvenær sáum við þig svangan eða þyrstan, ókunnugan eða nakinn, veikan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki?‘ 45  Þá svarar hann þeim: ‚Trúið mér, allt sem þið gerðuð ekki fyrir einn þessara minnstu gerðuð þið ekki fyrir mig.‘ 46  Þeirra bíður eilífur dauði* en hinir réttlátu hljóta eilíft líf.“

Neðanmálsgreinar

Eða „hyggnar“.
Grísk talenta jafngilti 20,4 kg. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „silfur“.
Orðrétt „silfur“.
Eða „illa klæddur“.
Orðrétt „Þeir verða sniðnir af að eilífu“.