Títusarbréfið 1:1–16

  • Kveðjur (1–4)

  • Títus á að útnefna öldunga á Krít (5–9)

  • Uppreisnargjarnir menn séu ávítaðir (10–16)

1  Frá Páli, þjóni Guðs og postula Jesú Krists. Trú mín og postuladómur er í samræmi við trú útvalinna þjóna Guðs og nákvæma þekkingu á sannleikanum sem samræmist guðrækninni.  Hún byggist á von um eilífa lífið sem Guð lofaði endur fyrir löngu en hann getur ekki logið.  Á tilsettum tíma opinberaði Guð, frelsari okkar, orð sitt með boðuninni sem mér var trúað fyrir í samræmi við fyrirmæli hans.  Til Títusar sem er mér ósvikinn sonur í sameiginlegri trú okkar: Megi Guð faðirinn og Kristur Jesús, frelsari okkar, sýna þér einstaka góðvild og veita þér frið.  Ég skildi þig eftir á Krít til að taka á því sem var í ólagi* og útnefna öldunga í borg eftir borg í samræmi við leiðbeiningar mínar.  Öldungur má ekki liggja undir ámæli, hann á að vera einnar konu eiginmaður, börn hans eiga að vera í trúnni og ekki vera sökuð um taumleysi* eða uppreisn.  Sem ráðsmaður Guðs má umsjónarmaður ekki liggja undir ámæli, ekki vera þrjóskur, ekki skapbráður, ekki drykkfelldur, ekki ofbeldismaður og ekki sólginn í efnislegan ávinning.  Hann á öllu heldur að vera gestrisinn, elska hið góða, vera skynsamur,* réttlátur og trúr og hafa góða stjórn á sjálfum sér.  Hann á að halda sig fast við hið áreiðanlega orð* þegar hann kennir til að geta bæði uppörvað* með því að kenna það sem er heilnæmt* og áminnt þá sem andmæla því. 10  Margir eru uppreisnargjarnir, blaðra út í bláinn og blekkja aðra, sérstaklega þeir sem aðhyllast umskurð. 11  Það þarf að þagga niður í þeim því að þeir kollvarpa trú heilla fjölskyldna. Þannig reyna þeir að hagnast á óheiðarlegan hátt. 12  Kríteyingur nokkur, þeirra eigin spámaður, sagði: „Kríteyingar ljúga stöðugt, eru óargadýr og latir mathákar.“ 13  Þetta eru orð að sönnu. Þess vegna skaltu halda áfram að ávíta þá harðlega til að þeir verði heilbrigðir í trúnni 14  og séu ekki uppteknir af þjóðsögum Gyðinga og boðum manna sem snúa baki við sannleikanum. 15  Allt er hreint í augum þeirra sem eru hreinir, en í augum þeirra sem eru óhreinir og trúlausir er ekkert hreint því að bæði hugur þeirra og samviska er óhrein. 16  Út á við segjast þeir þekkja Guð en þeir afneita honum með verkum sínum. Þeir eru fyrirlitlegir, óhlýðnir og óhæfir til allra góðra verka.

Neðanmálsgreinar

Eða „ábótavant“.
Eða „svall“.
Eða „hafa góða dómgreind“.
Eða „hinn áreiðanlega boðskap“.
Eða „hvatt“.
Eða „gagnlegt“.