Opinberunarbókin 10:1–11

  • Sterkur engill með litla bókrollu (1–7)

    • „Biðin er á enda“ (6)

    • Heilagur leyndardómur verður að veruleika (7)

  • Jóhannes borðar litlu bókrolluna (8–11)

10  Ég sá annan sterkan engil stíga niður af himni. Hann var klæddur* skýi og regnbogi var yfir höfði hans. Andlit hans var eins og sólin, fótleggirnir* eins og eldstólpar  og hann hélt á lítilli bókrollu sem var opin. Hann steig hægri fæti á hafið en vinstri fæti á jörðina  og hrópaði hárri röddu eins og þegar ljón öskrar. Og þegar hann hrópaði heyrði ég raddir þrumanna sjö.  Þegar þrumurnar sjö töluðu ætlaði ég að skrifa en þá heyrði ég rödd af himni sem sagði: „Innsiglaðu það sem þrumurnar sjö sögðu og skrifaðu það ekki niður.“  Engillinn sem ég sá standa á hafinu og jörðinni lyfti hægri hendinni til himins  og sór við þann sem lifir um alla eilífð, hann sem skapaði himininn og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er og hafið og það sem í því er. Hann sagði: „Biðin er á enda.  Á þeim dögum þegar sjöundi engillinn er tilbúinn að blása í lúðurinn verður heilagur leyndardómur Guðs að veruleika, fagnaðarboðskapurinn sem hann boðaði þjónum sínum, spámönnunum.“  Röddin sem ég heyrði af himni talaði aftur við mig og sagði: „Farðu og taktu opnu bókrolluna úr hendi engilsins sem stendur á hafinu og jörðinni.“  Ég fór til engilsins og bað hann um að gefa mér litlu bókrolluna. Hann svaraði: „Taktu hana og borðaðu hana. Hún verður beisk í maga þínum en í munni þínum verður hún sæt eins og hunang.“ 10  Ég tók bókrolluna úr hendi engilsins og borðaði hana, og í munni mínum var hún sæt eins og hunang en þegar ég hafði kyngt henni varð hún beisk í maga mínum. 11  Þá var sagt við mig: „Þú átt að spá aftur um kynþætti, þjóðir, tungur* og marga konunga.“

Neðanmálsgreinar

Eða „sveipaður“.
Orðrétt „fæturnir“.
Eða „tungumál“.