Markús 12:1–44

  • Dæmisagan um grimmu vínyrkjana (1–12)

  • Guð og keisarinn (13–17)

  • Jesús spurður um upprisu (18–27)

  • Tvö æðstu boðorðin (28–34)

  • Er Kristur sonur Davíðs? (35–37a)

  • Jesús varar við fræðimönnum (37b–40)

  • Tveir smápeningar fátæku ekkjunnar (41–44)

12  Nú fór hann að segja þeim dæmisögur: „Maður plantaði víngarð, girti hann af, gróf fyrir vínþröng og reisti turn. Hann leigði hann síðan vínyrkjum og fór úr landi.  Þegar kom að uppskerunni sendi hann þræl til vínyrkjanna til að fá hjá þeim hluta af uppskeru víngarðsins.  En þeir tóku hann, börðu og sendu tómhentan burt.  Hann sendi annan þræl til þeirra og þeir börðu hann í höfuðið og smánuðu.  Hann sendi enn einn og þeir drápu hann, og hann sendi marga aðra sem þeir ýmist börðu eða drápu.  Nú átti hann einn eftir, elskaðan son sinn. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ‚Þeir eiga eftir að virða son minn.‘  En vínyrkjarnir sögðu hver við annan: ‚Þetta er erfinginn. Komum, drepum hann og þá fáum við arfinn.‘  Síðan tóku þeir hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.  Hvað gerir þá eigandi víngarðsins? Hann kemur og drepur vínyrkjana og fær öðrum víngarðinn. 10  Lásuð þið aldrei þennan ritningarstað: ‚Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að aðalhornsteini.* 11  Hann er frá Jehóva* og hann er stórfenglegur í augum okkar‘?“ 12  Þeir vildu nú grípa* Jesú því að þeir vissu að dæmisagan átti við þá. En þeir óttuðust mannfjöldann og gengu því burt frá honum. 13  Eftir það sendu þeir til hans nokkra farísea og fylgismenn Heródesar til að hanka hann á orðum hans. 14  Þegar þeir komu sögðu þeir við hann: „Kennari, við vitum að þú ert sannsögull og allir eru jafnir fyrir þér. Þú horfir ekki á útlit fólks heldur kennir veg Guðs sannleikanum samkvæmt. Er leyfilegt* að greiða keisaranum skatt* eða ekki? 15  Eigum við að borga eða eigum við ekki að borga?“ Jesús skynjaði hræsni þeirra og sagði við þá: „Hvers vegna leggið þið gildru fyrir mig? Færið mér denar* og leyfið mér að sjá hann.“ 16  Þeir færðu honum denar* og hann sagði við þá: „Hvers mynd og áletrun er þetta?“ „Keisarans,“ svöruðu þeir. 17  Jesús sagði þá: „Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“ Og þeir undruðust orð hans. 18  Nú komu saddúkear til hans en þeir segja að ekki sé til upprisa. Þeir spurðu hann: 19  „Kennari, Móse skrifaði að deyi maður og láti eftir sig konu en engin börn skuli bróðir hans giftast henni til að hún ali fyrri eiginmanni sínum afkomendur. 20  Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti gifti sig en dó barnlaus. 21  Annar bróðirinn giftist ekkjunni en dó líka barnlaus og sá þriðji sömuleiðis. 22  Allir sjö dóu barnlausir. Að síðustu dó svo konan. 23  Kona hvers verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu nú átt hana.“ 24  Jesús svaraði þeim: „Er ekki ástæðan fyrir að ykkur skjátlast sú að þið þekkið hvorki Ritningarnar né mátt Guðs? 25  Þegar fólk rís upp frá dauðum kvænist það hvorki né giftist heldur er það eins og englar á himnum. 26  En varðandi það að dauðir rísi upp, hafið þið ekki lesið í frásögunni af þyrnirunnanum í bók Móse að Guð sagði við hann: ‚Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs‘? 27  Hann er ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa. Þið hafið alrangt fyrir ykkur.“ 28  Einn fræðimannanna, sem hafði komið og heyrt orðaskipti þeirra, vissi að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðsta* boðorðið af öllum?“ 29  Jesús svaraði: „Það æðsta er þetta: ‚Heyrið Ísraelsmenn, Jehóva* er Guð okkar og það er aðeins einn Jehóva* 30  og þú skalt elska Jehóva* Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál* þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘ 31  Annað er þetta: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Ekkert boðorð er æðra en þessi tvö.“ 32  Fræðimaðurinn sagði við hann: „Kennari, þetta var vel mælt, sannleikanum samkvæmt. ‚Hann er einn og enginn er Guð nema hann,‘ 33  og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og að elska náungann eins og sjálfan sig er miklu meira virði en allar brennifórnir og sláturfórnir.“ 34  Jesús heyrði að hann svaraði skynsamlega og sagði: „Þú ert ekki fjarri ríki Guðs.“ Enginn þorði að spyrja hann nokkurs framar. 35  En Jesús hélt áfram að kenna í musterinu og sagði: „Hvernig stendur á því að fræðimennirnir segja að Kristur sé sonur Davíðs? 36  Davíð sagði sjálfur fyrir atbeina heilags anda: ‚Jehóva* sagði við Drottin minn: „Sittu mér til hægri handar þar til ég legg óvini þína undir fætur þína.“‘ 37  Davíð sjálfur kallar hann Drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?“ Allur mannfjöldinn hlustaði á hann með ánægju. 38  Meðan hann var að kenna sagði hann: „Varið ykkur á fræðimönnunum sem vilja ganga um í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgunum, 39  sitja í fremstu* sætunum í samkunduhúsum og hefðarsætum í veislum. 40  Þeir mergsjúga heimili* ekkna og flytja langar bænir til að sýnast.* Þeir munu fá þyngri* dóm.“ 41  Hann settist niður þar sem hann gat séð söfnunarbaukana* og horfði á fólkið láta peninga í þá. Margt efnafólk gaf mikið. 42  Nú kom fátæk ekkja og lét þar tvo smápeninga sem voru varla nokkurs virði.* 43  Hann kallaði þá lærisveinana til sín og sagði við þá: „Trúið mér, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir sem létu peninga í baukana. 44  Þeir gáfu allir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti* sínum allt sem hún átti, alla lífsbjörg sína.“

Neðanmálsgreinar

Orðrétt „efsta hluta hornsins“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „handtaka“.
Eða „rétt“.
Það er, nefskatt.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Eða „mikilvægasta“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Eða „bestu“.
Eða „eigur“.
Eða „bænir að yfirskini“.
Eða „harðari“.
Eða „fjárhirslurnar“.
Orðrétt „tvo leptona, sem eru einn kvadrans“. Sjá orðaskýringar, „lepton“.
Eða „fátækt“.