Markús 11:1–33

  • Jesús ríður sigri hrósandi inn í Jerúsalem (1–11)

  • Jesús formælir fíkjutré (12–14)

  • Jesús hreinsar musterið (15–18)

  • Lærdómur af visnaða fíkjutrénu (19–26)

  • Vald Jesú véfengt (27–33)

11  Þeir nálguðust nú Jerúsalem og komu að Betfage og Betaníu við Olíufjallið. Hann sendi þá tvo lærisveina sína  og sagði við þá: „Farið inn í þorpið fram undan og um leið og þið komið þangað finnið þið fola bundinn sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann hingað.  Ef einhver segir við ykkur: ‚Hvers vegna gerið þið þetta?‘ segið þá: ‚Drottinn þarfnast hans en hann sendir hann fljótt aftur til baka.‘“  Þeir fóru og fundu folann úti á hliðargötu bundinn við dyr og leystu hann.  En nokkrir þeirra sem stóðu þarna sögðu við þá: „Hvað eruð þið að gera? Eruð þið að leysa folann?“  Þeir svöruðu alveg eins og Jesús hafði sagt og þeir leyfðu þeim að fara.  Þeir færðu Jesú folann, lögðu yfirhafnir sínar á hann og hann settist á bak.  Margir breiddu auk þess yfirhafnir sínar á veginn en aðrir skáru laufgaðar greinar af trjánum meðfram veginum.  Þeir sem gengu á undan og þeir sem eltu hrópuðu: „Viltu vernda hann!* Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva!* 10  Blessað sé hið komandi ríki Davíðs föður okkar! Viltu vernda hann, þú sem ert í hæstu hæðum.“ 11  Hann kom nú til Jerúsalem og gekk inn í musterið. Hann horfði í kringum sig á allt sem var þar en hélt svo til Betaníu með þeim tólf því að það var orðið áliðið. 12  Daginn eftir, þegar þeir voru á leið frá Betaníu, var Jesús svangur. 13  Hann kom auga á laufgað fíkjutré álengdar og gekk þangað til að sjá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að trénu fann hann ekkert nema laufblöðin þar sem ekki var fíkjutími. 14  Hann sagði þá við tréð: „Enginn skal nokkurn tíma framar borða ávöxt af þér.“ Og lærisveinarnir heyrðu þetta. 15  Þeir komu nú til Jerúsalem. Jesús gekk inn í musterið og fór að reka út þá sem seldu þar og keyptu. Hann velti um koll borðum þeirra sem skiptu peningum og bekkjum dúfnasalanna 16  og hann leyfði engum að bera nokkurt áhald gegnum musterið. 17  Hann kenndi þeim og sagði: „Stendur ekki skrifað: ‚Hús mitt verður kallað bænahús fyrir allar þjóðir‘? En þið hafið gert það að ræningjabæli.“ 18  Yfirprestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og fóru að leita leiða til að drepa hann. Þeir óttuðust hann því að allur mannfjöldinn heillaðist af kennslu hans. 19  Undir kvöld fóru þeir út úr borginni. 20  En þegar þeir fóru fram hjá fíkjutrénu snemma morguninn eftir sáu þeir að það var visnað frá rótum. 21  Pétur mundi hvað hafði gerst og sagði við Jesú: „Rabbí, sjáðu! Fíkjutréð sem þú formæltir er visnað.“ 22  Jesús svaraði þeim: „Trúið á Guð. 23  Það megið þið vita að ef einhver segir við þetta fjall: ‚Lyftu þér upp og kastaðu þér í hafið‘ og efast ekki í hjarta sínu heldur trúir að það gerist sem hann segir, þá gerist það. 24  Þess vegna segi ég ykkur: Trúið að þið fáið allt sem þið biðjið um í bænum ykkar og þið munuð fá það. 25  Og þegar þið standið og biðjið skuluð þið fyrirgefa öðrum allt sem þið hafið á móti þeim til þess að faðir ykkar á himnum geti líka fyrirgefið syndir ykkar.“ 26  *—— 27  Þeir komu aftur til Jerúsalem. Þegar hann var á gangi í musterinu komu yfirprestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir 28  og sögðu við hann: „Hvaða vald hefurðu til að gera þetta? Eða hver gaf þér vald til þess?“ 29  Jesús sagði við þá: „Ég ætla að spyrja ykkur einnar spurningar. Svarið henni og þá skal ég segja ykkur hvaða vald ég hef til að gera þetta. 30  Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?* Svarið mér.“ 31  Þeir fóru þá að ræða sín á milli og sögðu: „Ef við segjum: ‚Frá himni,‘ segir hann: ‚Hvers vegna trúðuð þið honum þá ekki?‘ 32  En þorum við að segja: ‚Frá mönnum‘?“ Þeir óttuðust mannfjöldann vegna þess að allir töldu að Jóhannes hefði verið sannur spámaður. 33  Þeir svöruðu því Jesú: „Við vitum það ekki.“ Jesús sagði: „Þá segi ég ykkur ekki heldur hvaða vald ég hef til að gera þetta.“

Neðanmálsgreinar

Á grísku Hósanna′.
Sjá orðaskýringar.
Þetta vers er ekki í sumum fornum handritum og tilheyrir greinilega ekki innblásinni frásögn Biblíunnar.
Eða „runnin frá mönnum?“