Lúkas 9:1–62

 • Hinir tólf fá fyrirmæli um boðunina (1–6)

 • Heródes ráðvilltur vegna Jesú (7–9)

 • Jesús gefur 5.000 að borða (10–17)

 • Pétur segir að Jesús sé Kristur (18–20)

 • Jesús segir fyrir um dauða sinn (21, 22)

 • Að vera sannur lærisveinn (23–27)

 • Ummyndun Jesú (28–36)

 • Andsetinn drengur læknast (37–43a)

 • Jesús spáir aftur um dauða sinn (43b–45)

 • Lærisveinarnir deila um hver sé mestur (46–48)

 • Sá sem er ekki á móti okkur er með okkur (49, 50)

 • Jesú hafnað í samversku þorpi (51–56)

 • Að fylgja Jesú (57–62)

9  Jesús kallaði nú saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og kraft til að lækna sjúkdóma.  Hann sendi þá af stað til að boða ríki Guðs og lækna  og sagði við þá: „Takið ekkert með til ferðarinnar, hvorki staf né nestispoka, brauð né peninga* né föt til skiptanna.*  En þar sem þið komið inn á heimili skuluð þið dvelja þangað til þið farið úr borginni.  Ef fólk tekur ekki á móti ykkur skuluð þið hrista rykið af fótum ykkar þegar þið farið úr borginni, fólkinu til viðvörunar.“  Þeir lögðu þá af stað, fóru um svæðið þorp úr þorpi, boðuðu fagnaðarboðskapinn og læknuðu fólk alls staðar.  Heródes* héraðsstjóri* frétti af öllu sem var að gerast og vissi ekki hvað hann átti að halda því að sumir sögðu að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum,  aðrir sögðu að Elía væri kominn fram og enn aðrir að einn af spámönnum fortíðar væri risinn upp.  „Ég lét hálshöggva Jóhannes,“ sagði Heródes. „Hver er þá þessi maður sem ég heyri talað svona mikið um?“ Hann vildi því gjarnan fá að sjá Jesú. 10  Þegar postularnir komu aftur sögðu þeir Jesú frá öllu sem þeir höfðu gert. Þá tók hann þá með sér til borgar sem heitir Betsaída til að þeir gætu verið einir. 11  En mannfjöldinn varð þess var og elti hann. Hann tók fólkinu vel, talaði við það um ríki Guðs og læknaði þá sem þurftu á lækningu að halda. 12  Nú tók degi að halla. Þeir tólf komu þá til hans og sögðu: „Láttu fólkið fara svo að það geti komist í sveitina og þorpin í kring og fengið mat og gistingu því að við erum á afskekktum stað.“ 13  En hann sagði við þá: „Þið getið gefið því að borða.“ Þeir svöruðu: „Við eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska nema við förum og kaupum mat fyrir allt þetta fólk.“ 14  Þarna voru um 5.000 karlmenn. Hann sagði við lærisveinana: „Látið þá setjast í hópa, um 50 í hverjum.“ 15  Þeir gerðu það og létu alla setjast. 16  Hann tók nú brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og fór með bæn. Síðan braut hann brauðin og rétti lærisveinunum þau ásamt fiskunum og þeir gáfu mannfjöldanum. 17  Allir borðuðu og urðu saddir. Þeir tóku saman brauðbitana sem voru afgangs og fylltu 12 körfur. 18  Síðar, þegar hann var einn á bæn, komu lærisveinarnir til hans og hann spurði þá: „Hver heldur fólk að ég sé?“ 19  Þeir svöruðu: „Jóhannes skírari en sumir segja Elía og aðrir að einn af spámönnum fortíðar sé risinn upp.“ 20  Þá spurði hann: „En þið, hver segið þið að ég sé?“ Pétur svaraði: „Kristur Guðs.“ 21  Hann bannaði þeim þá stranglega að segja nokkrum þetta 22  og bætti við: „Mannssonurinn þarf að þola miklar þjáningar, og öldungarnir, yfirprestarnir og fræðimennirnir munu hafna honum. Hann verður líflátinn en reistur upp á þriðja degi.“ 23  Síðan sagði hann við alla: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur* sinn daglega og fylgi mér stöðugt. 24  Hver sem vill bjarga lífi* sínu týnir því en hver sem týnir lífi* sínu vegna mín, hann bjargar því. 25  Hvaða gagn hefði maðurinn af því að eignast allan heiminn en glata sjálfum sér eða bíða tjón? 26  Hvern þann sem skammast sín fyrir mig og orð mín mun Mannssonurinn skammast sín fyrir þegar hann kemur í dýrð sinni, föðurins og hinna heilögu engla. 27  En trúið mér, sumir þeirra sem standa hér munu ekki deyja fyrr en þeir sjá ríki Guðs.“ 28  Um átta dögum eftir að hann sagði þetta tók hann Pétur, Jóhannes og Jakob með sér og gekk á fjallið til að biðjast fyrir. 29  Meðan hann var á bæn breyttist yfirbragð andlits hans og fötin urðu skínandi hvít. 30  Skyndilega voru þar tveir menn á tali við hann. Það voru Móse og Elía. 31  Þeir birtust í dýrðarljóma og fóru að tala um væntanlega brottför hans sem átti að eiga sér stað í Jerúsalem. 32  Pétur og þeir sem voru með honum voru hálfsofandi en nú glaðvöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo sem stóðu hjá honum. 33  Þegar mennirnir voru að fara sagði Pétur við Jesú: „Kennari, það er gott að vera hér. Reisum þrjú tjöld, eitt handa þér, eitt handa Móse og eitt handa Elía.“ En hann gerði sér ekki grein fyrir hvað hann var að segja. 34  Meðan hann var enn að tala myndaðist ský sem huldi þá. Þegar skýið umlukti þá urðu þeir hræddir. 35  Þá heyrðist rödd úr skýinu sem sagði: „Þetta er sonur minn sem ég hef útvalið. Hlustið á hann.“ 36  Þegar þeir heyrðu röddina sáu þeir að Jesús var einn. En þeir sögðu engum frá þessu heldur þögðu um tíma yfir því sem þeir höfðu séð. 37  Þegar þeir komu niður af fjallinu daginn eftir kom mikill mannfjöldi á móti honum. 38  Og maður nokkur kallaði: „Kennari, ég bið þig að líta á son minn því að hann er einkabarn mitt. 39  Illur andi grípur hann og hann æpir skyndilega, fær krampaflog og froðufellir. Og andinn er mjög tregur til að yfirgefa hann eftir að hafa misþyrmt honum. 40  Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ 41  Jesús sagði þá: „Þú trúlausa og spillta kynslóð, hve lengi þarf ég að vera hjá ykkur og umbera ykkur? Komdu hingað með son þinn.“ 42  En meðan drengurinn var að koma slengdi illi andinn honum til jarðar og olli miklu krampaflogi hjá honum. Jesús ávítaði óhreina andann, læknaði drenginn og gaf hann föður hans aftur. 43  Og allir voru agndofa yfir því hve mikill máttur Guðs var. Meðan allir voru að undrast allt sem hann gerði sagði hann við lærisveina sína: 44  „Hlustið vel og munið eftir þessum orðum: Mannssonurinn verður svikinn í hendur manna.“ 45  En þeir áttuðu sig ekki á því sem hann sagði. Reyndar var það þeim hulið svo að þeir skildu það ekki, og þeir þorðu ekki að spyrja hann út í það. 46  Þeir fóru nú að deila um hver þeirra væri mestur. 47  Jesús vissi hvernig þeir hugsuðu í hjörtum sínum. Hann tók því barn, lét það standa við hlið sér 48  og sagði við þá: „Hver sem tekur við þessu barni vegna nafns míns tekur einnig við mér, og hver sem tekur við mér tekur einnig við þeim sem sendi mig því að sá sem hegðar sér eins og hann sé minnstur ykkar allra, hann er mikill.“ 49  Þá sagði Jóhannes: „Kennari, við sáum mann reka út illa anda í þínu nafni og við reyndum að aftra honum frá því þar sem hann er ekki einn af okkur.“ 50  En Jesús svaraði: „Reynið ekki að aftra honum því að sá sem er ekki á móti ykkur er með ykkur.“ 51  Nú nálgaðist sá tími* að hann yrði tekinn upp til himna og hann var staðráðinn í að fara til* Jerúsalem. 52  Hann lét því sendiboða fara á undan sér og þeir komu í samverskt þorp til að undirbúa komu hans. 53  En menn tóku ekki við honum vegna þess að hann var á leið til Jerúsalem. 54  Þegar lærisveinarnir Jakob og Jóhannes urðu þess vísir sögðu þeir: „Drottinn, viltu að við köllum eld niður af himni til að tortíma þeim?“ 55  En hann sneri sér við og ávítaði þá. 56  Síðan fóru þeir í annað þorp. 57  Meðan þeir voru á leiðinni sagði maður nokkur við hann: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ 58  En Jesús svaraði: „Refir eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi stað til að halla höfði sínu.“ 59  Síðan sagði hann við annan: „Fylgdu mér.“ Maðurinn svaraði: „Drottinn, leyfðu mér að fara fyrst og jarða föður minn.“ 60  En Jesús sagði við hann: „Láttu hina dauðu jarða sína dauðu en þú skalt fara og boða ríki Guðs vítt og breitt.“ 61  Enn einn sagði: „Drottinn, ég vil fylgja þér en leyfðu mér fyrst að kveðja heimilisfólk mitt.“ 62  Jesús svaraði honum: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir til baka er hæfur í ríki Guðs.“

Neðanmálsgreinar

Orðrétt „silfur“.
Eða „tvenn föt“.
Það er, Heródes Antípas. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „fjórðungsstjóri; tetrarki“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „sál“.
Eða „sál“.
Orðrétt „Nú fullnuðust brátt þeir dagar“.
Orðrétt „hann sneri andlitinu í átt að“.