Lúkas 8:1–56

  • Konur sem fylgdu Jesú (1–3)

  • Dæmisagan um akuryrkjumanninn (4–8)

  • Ástæða þess að Jesús kenndi með dæmisögum (9, 10)

  • Útskýrir dæmisöguna um akuryrkjumanninn (11–15)

  • Ekki á að hylja lampa (16–18)

  • Móðir Jesú og bræður (19–21)

  • Jesús lægir storm (22–25)

  • Jesús sendir illa anda í svín (26–39)

  • Dóttir Jaírusar; kona snertir yfirhöfn Jesú (40–56)

8  Skömmu síðar fór hann borg úr borg og þorp úr þorpi og boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. Með honum voru þeir tólf  og nokkrar konur sem höfðu losnað undan áhrifum illra anda og læknast af sjúkdómum sínum. Það voru María, kölluð Magdalena, en sjö illir andar höfðu farið út af henni,  Jóhanna, kona Kúsa ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar konur sem aðstoðuðu þá með eigum sínum.  Fjöldi fólks hafði nú safnast saman ásamt þeim sem fylgdu honum borg úr borg. Hann sagði þá þessa dæmisögu:  „Akuryrkjumaður gekk út að sá korni. Þegar hann sáði féll sumt af því meðfram veginum, það var troðið niður og fuglar himins átu það.  Sumt féll á klöpp, spíraði en skrælnaði síðan af því að það fékk engan raka.  Sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir, sem uxu ásamt því, kæfðu það.  En annað féll í góðan jarðveg, óx og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði hann: „Sá sem hefur eyru hann hlusti.“  En lærisveinarnir spurðu hann hvað þessi dæmisaga merkti. 10  Hann sagði: „Ykkur er gefið að skilja heilaga leyndardóma Guðsríkis en hinir fá þá í dæmisögum. Þeir sjá að vísu en horfa þó til einskis og heyra en skilja ekki. 11  Dæmisagan merkir þetta: Sáðkornið er orð Guðs. 12  Það sem féll meðfram veginum eru þeir sem heyra orðið en síðan kemur Djöfullinn og tekur það úr hjarta þeirra svo að þeir trúi ekki og bjargist. 13  Það sem féll á klöppina eru þeir sem taka við orðinu með fögnuði þegar þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um tíma en falla frá þegar á þá reynir. 14  Það sem féll meðal þyrna eru þeir sem heyra en áhyggjur, auðæfi og nautnir lífsins hrífa þá með sér svo að þeir kafna og bera ekki þroskaðan ávöxt. 15  En það sem féll í góðan jarðveg eru þeir sem hafa einlægt og gott hjarta, heyra orðið, varðveita það og bera ávöxt með þolgæði. 16  Enginn kveikir á lampa og setur hann undir ker eða undir rúm heldur setur hann lampann á ljósastand til að þeir sem koma inn sjái ljósið. 17  Ekkert er hulið sem verður ekki sýnilegt og ekkert vandlega falið sem verður ekki kunnugt né kemur í ljós. 18  Gætið því að hvernig þið hlustið því að þeim sem hefur verður gefið meira, en frá þeim sem hefur ekki verður tekið jafnvel það sem hann ímyndar sér að hann hafi.“ 19  Móðir Jesú og bræður komu nú til að hitta hann en komust ekki að honum vegna mannfjöldans. 20  Honum var þá sagt: „Móðir þín og bræður standa fyrir utan og vilja ná tali af þér.“ 21  Hann svaraði þeim: „Móðir mín og bræður eru þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því.“ 22  Dag einn stigu hann og lærisveinarnir um borð í bát og hann sagði við þá: „Förum yfir vatnið.“ Þeir drógu þá upp seglin. 23  En á leiðinni sofnaði Jesús. Þá skall á mikill stormur á vatninu og þeir voru hætt komnir því að bátinn fyllti næstum. 24  Þá vöktu þeir hann og sögðu: „Kennari, kennari, við erum að farast!“ Hann reis þá upp og hastaði á vindinn og ölduganginn. Veðrinu slotaði og gerði logn. 25  Síðan sagði hann við þá: „Hvar er trú ykkar?“ En þeir urðu agndofa og óttaslegnir og sögðu hver við annan: „Hver er hann eiginlega? Hann skipar jafnvel vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum.“ 26  Þeir komu að landi við Gerasenahérað sem er gegnt Galíleu. 27  Þegar Jesús steig á land kom á móti honum andsetinn maður úr borginni. Hann hafði ekki verið í fötum um langan tíma og hafðist ekki við í húsi heldur hjá gröfunum.* 28  Þegar hann sá Jesú æpti hann, féll fram fyrir honum og sagði hárri röddu: „Hvað viltu mér, Jesús, sonur hins hæsta Guðs? Ég bið þig að kvelja mig ekki.“ 29  (En Jesús hafði skipað óhreina andanum að fara út af manninum. Andinn hafði gripið hann margsinnis* og hann hafði oft verið hlekkjaður á höndum og fótum og hafður í gæslu en hann sleit fjötrana og andinn hrakti hann á óbyggða staði.) 30  Jesús spurði hann: „Hvað heitirðu?“ „Hersing,“ svaraði hann því að margir illir andar höfðu farið í hann. 31  Þeir sárbændu Jesú um að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið. 32  Nú var stór svínahjörð á beit þar á fjallinu og þeir báðu hann að leyfa sér að fara í svínin. Hann leyfði þeim það. 33  Illu andarnir fóru þá út af manninum og í svínin en hjörðin æddi fram af þverhnípinu* og drukknaði í vatninu. 34  Þegar svínahirðarnir sáu hvað hafði gerst flúðu þeir og sögðu fréttirnar í borginni og sveitinni. 35  Fólk kom nú til að sjá hvað hafði gerst. Það kom til Jesú og fann manninn sem illu andarnir höfðu farið úr sitja klæddan og með réttu ráði við fætur Jesú. Og fólkið varð hrætt. 36  Þeir sem höfðu séð þetta sögðu fólkinu frá hvernig andsetni maðurinn hafði orðið heilbrigður. 37  Fjölmargir frá Gerasenahéraði báðu þá Jesú að fara burt því að mikill ótti greip þá. Hann fór þá um borð í bátinn til að halda brott. 38  En maðurinn sem illu andarnir höfðu farið úr þrábað Jesú um að mega vera áfram með honum, en hann sagði manninum að fara með þessum orðum: 39  „Farðu heim og segðu frá því sem Guð hefur gert fyrir þig.“ Hann fór þá og greindi frá því um alla borgina sem Jesús hafði gert fyrir hann. 40  Þegar Jesús kom til baka tók fólkið vel á móti honum því að allir höfðu beðið eftir að hann kæmi. 41  Maður að nafni Jaírus kom nú til hans en hann var samkundustjóri. Hann féll til fóta Jesú og sárbændi hann um að koma heim til sín 42  því að einkadóttir hans, sem var um 12 ára, lá fyrir dauðanum. Þegar Jesús var á leiðinni þangað þrengdi mannfjöldinn að honum. 43  Meðal fólksins var kona sem hafði haft stöðugar blæðingar í 12 ár og enginn hafði getað læknað hana. 44  Hún kom að honum aftan frá og snerti kögrið á yfirhöfn hans, og blæðingarnar stöðvuðust samstundis. 45  „Hver snerti mig?“ spurði Jesús. Allir neituðu að hafa snert hann og Pétur sagði: „Kennari, þú ert umkringdur fólki og það þrengir að þér.“ 46  En Jesús sagði: „Einhver snerti mig því að ég fann að kraftur fór út frá mér.“ 47  Konan sá nú að hún gat ekki dulist. Hún kom skjálfandi og féll til fóta honum og sagði í allra áheyrn hvers vegna hún hefði snert hann og hvernig hún læknaðist samstundis. 48  En hann sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur læknað þig. Farðu í friði.“ 49  Meðan hann var enn að tala kom einn af mönnum samkundustjórans og sagði: „Dóttir þín er dáin. Vertu ekki að ónáða kennarann lengur.“ 50  Þegar Jesús heyrði þetta sagði hann við Jaírus: „Vertu óhræddur, trúðu bara og hún mun lifa.“* 51  Hann kom nú að húsinu en leyfði engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi, Jakobi og föður stúlkunnar og móður. 52  Allt fólkið grét og barði sér á brjóst. Hann sagði þá: „Hættið að gráta því að hún er ekki dáin heldur sofandi.“ 53  Fólkið hló þá að honum því að það vissi að hún var dáin. 54  En hann tók í hönd hennar og sagði hátt og skýrt: „Rístu upp, barnið mitt.“ 55  Og lífsandi* hennar sneri aftur og hún reis samstundis á fætur og hann sagði að henni skyldi gefið að borða. 56  Foreldrar hennar voru frá sér numdir en hann sagði þeim að segja engum frá því sem hafði gerst.

Neðanmálsgreinar

Eða „minningargröfunum“.
Eða hugsanl. „hafði lengi haldið honum föngnum“.
Eða „bröttum bakkanum“.
Orðrétt „bjargast“.
Eða „lífskraftur“.