Lúkas 5:1–39

  • Undraverður fiskafli; fyrstu lærisveinarnir (1–11)

  • Holdsveikur maður læknast (12–16)

  • Jesús læknar lamaðan mann (17–26)

  • Jesús kallar Leví (27–32)

  • Spurning um föstu (33–39)

5  Einhverju sinni stóð Jesús við Genesaretvatn* og mannfjöldinn þrengdi að honum til að hlusta á orð Guðs.  Hann sá þá tvo báta sem lágu við ströndina en fiskimennirnir voru farnir í land og voru að þvo netin.  Hann steig um borð í annan bátinn, þann sem Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi. Síðan settist hann og fór að kenna mannfjöldanum úr bátnum.  Þegar hann lauk máli sínu sagði hann við Símon: „Haltu út á djúpið og leggið netin til fiskjar.“  Símon svaraði: „Kennari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“  Þeir gerðu það og fengu svo mikinn fisk að netin byrjuðu að rifna.  Þeir gáfu þá félögum sínum á hinum bátnum bendingu um að koma og aðstoða sig, og þeir komu og fylltu báða bátana svo að þeir voru nærri sokknir.  Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné fyrir Jesú og sagði: „Farðu frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“  En bæði honum og þeim sem voru með honum var mjög brugðið vegna fiskaflans sem þeir höfðu fengið, 10  og hið sama var að segja um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. En Jesús sagði við Símon: „Vertu ekki hræddur. Héðan í frá skaltu veiða menn.“* 11  Þeir lögðu þá bátunum aftur að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. 12  Öðru sinni var hann staddur í einni af borgunum og þar var maður altekinn holdsveiki. Þegar hann sá Jesú féll hann á grúfu og sárbændi hann: „Drottinn, ef þú bara vilt geturðu hreinsað mig.“ 13  Jesús rétti þá út höndina, snerti hann og sagði: „Ég vil! Vertu hreinn.“ Samstundis hvarf holdsveikin af honum. 14  Hann bannaði síðan manninum að segja nokkrum frá þessu og sagði: „En farðu og sýndu þig prestinum og færðu fórn fyrir hreinsun þína eins og Móselögin kveða á um, til að sanna að þú sért læknaður.“ 15  En fréttirnar af honum héldu bara áfram að breiðast út og fólk kom hópum saman til að hlusta á hann og læknast af sjúkdómum sínum. 16  Hann fór þó oft á óbyggða staði til að biðjast fyrir. 17  Dag nokkurn var Jesús að kenna. Þar sátu farísear og lagakennarar sem höfðu komið úr öllum þorpum Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Jehóva* var með honum til að lækna. 18  Þá komu menn með lamaðan mann á börum og reyndu að komast inn með hann og leggja hann fyrir framan Jesú. 19  Þar sem þeir komust ekki inn með hann vegna mannfjöldans fóru þeir upp á þakið, tóku upp þakhellur og létu hann síga niður á börunum beint fyrir framan Jesú. 20  Þegar hann sá trú þeirra sagði hann: „Vinur, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ 21  Þá sögðu fræðimennirnir og farísearnir hver við annan: „Hver er hann að guðlasta svona? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“ 22  En Jesús skynjaði hvað þeir hugsuðu og sagði: „Hvað hugsið þið í hjörtum ykkar? 23  Hvort er auðveldara að segja: ‚Syndir þínar eru fyrirgefnar,‘ eða: ‚Stattu upp og gakktu‘? 24  En til að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörð til að fyrirgefa syndir ...“ og nú talar hann við lamaða manninn: „þá segi ég þér: Stattu upp, taktu börurnar og farðu heim.“ 25  Hann stóð þá upp fyrir framan þá, tók það sem hann hafði legið á og fór heim til sín og lofaði Guð. 26  Allir voru agndofa og lofuðu Guð. Þeir fylltust lotningu og sögðu: „Það er ótrúlegt sem við höfum séð í dag!“ 27  Eftir þetta fór hann út og sá þá skattheimtumann sem hét Leví þar sem hann sat á skattheimtustofunni. Jesús sagði við hann: „Fylgdu mér.“ 28  Hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum. 29  Leví hélt nú mikla veislu fyrir hann í húsi sínu og fjöldi skattheimtumanna og annarra borðaði* með þeim. 30  En farísear og fræðimenn þeirra fóru að kvarta við lærisveina hans og sögðu: „Af hverju borðið þið og drekkið með skattheimtumönnum og syndurum?“ 31  Jesús svaraði þeim: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir. 32  Ég er ekki kominn til að hvetja réttláta til að iðrast heldur syndara.“ 33  Þeir sögðu við hann: „Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og biðja innilegra bæna og lærisveinar farísea sömuleiðis, en þínir borða og drekka.“ 34  Jesús svaraði: „Varla fáið þið vini brúðgumans til að fasta meðan brúðguminn er hjá þeim. 35  En sá dagur kemur að brúðguminn verður tekinn frá þeim og þá fasta þeir.“ 36  Hann brá einnig upp líkingu og sagði: „Enginn klippir bót úr nýrri flík og saumar hana á gamla. Ef það er gert hleypur nýja bótin og passar ekki á gömlu flíkina. 37  Og enginn setur nýtt vín á gamla vínbelgi. Ef það er gert sprengir vínið belgina, vínið fer til spillis og belgirnir eyðileggjast. 38  Nýtt vín þarf að setja á nýja belgi. 39  Enginn vill nýtt vín eftir að hafa drukkið gamalt því að hann segir: ‚Hið gamla er gott.‘“

Neðanmálsgreinar

Það er, Galíleuvatn.
Eða „menn lifandi“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „lá til borðs“.