Lúkas 24:1–53

  • Jesús reistur upp (1–12)

  • Á veginum til Emmaus (13–35)

  • Jesús birtist lærisveinunum (36–49)

  • Jesús stígur upp til himna (50–53)

24  Mjög snemma á fyrsta degi vikunnar komu þær til grafarinnar* og höfðu meðferðis ilmjurtirnar sem þær höfðu tekið til.  Þær sáu þá að steininum hafði verið velt frá gröfinni*  og þegar þær stigu inn fundu þær ekki lík Drottins Jesú.  Þær vissu ekki hvað þær áttu að halda en skyndilega stóðu hjá þeim tveir menn í skínandi fötum.  Konurnar urðu hræddar og lutu höfði til jarðar. Mennirnir sögðu þá við þær: „Hvers vegna leitið þið að hinum lifandi meðal hinna dánu?  Hann er ekki hér heldur er hann risinn upp. Munið hvað hann sagði ykkur meðan hann var enn í Galíleu.  Hann sagði að Mannssonurinn yrði látinn í hendur syndugra manna og staurfestur, og myndi rísa upp á þriðja degi.“  Þá mundu þær hvað hann hafði sagt,  sneru aftur frá gröfinni* og sögðu þeim ellefu og öllum hinum frá þessu. 10  Þetta voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs. Hinar konurnar sem voru með þeim sögðu postulunum einnig frá þessu. 11  En þeim fannst þetta fráleitt og trúðu ekki konunum. 12  Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar,* beygði sig og leit inn fyrir en sá ekkert nema líndúkana. Hann gekk því burt og braut heilann um það sem hafði gerst. 13  Sama dag voru tveir lærisveinar á leið til þorps sem heitir Emmaus og er um 11 kílómetra* frá Jerúsalem. 14  Þeir ræddu sín á milli um allt sem hafði gerst. 15  Meðan þeir voru að tala saman og ræða þetta kom Jesús til þeirra og slóst í för með þeim 16  en þeir gátu ekki þekkt hann. 17  Hann sagði við þá: „Um hvað ræðið þið svona ákaft á göngu ykkar?“ Þeir námu staðar, daprir í bragði. 18  Annar þeirra, Kleófas að nafni, svaraði: „Ertu aðkomumaður og dvelur einn þíns liðs í Jerúsalem? Veistu ekki* hvað hefur gerst þar undanfarna daga?“ 19  „Hvað eigið þið við?“ spurði hann. Þeir svöruðu: „Hefurðu ekki heyrt um Jesú frá Nasaret sem reyndist vera spámaður, máttugur í orði og verki frammi fyrir Guði og öllum mönnum? 20  Yfirprestar okkar og leiðtogar fengu hann dæmdan til dauða og staurfestu hann. 21  Við vonuðum að það væri þessi maður sem myndi frelsa Ísrael. En nú er þriðji dagurinn síðan þetta gerðist. 22  Auk þess hafa nokkrar konur úr hópi okkar valdið okkur mikilli undrun því að þær fóru til grafarinnar* snemma morguns 23  en fundu ekki lík hans. Þær komu þá og sögðust hafa séð yfirnáttúrulega sýn, engla sem sögðu að hann væri lifandi. 24  Nokkrir okkar fóru þá til grafarinnar* og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt en hann sáu þeir ekki.“ 25  Þá sagði hann við þá: „Þið skilningslausu menn, svo tregir í hjarta til að trúa öllu því sem spámennirnir hafa talað. 26  Þurfti ekki Kristur að líða þessar þjáningar til að ganga inn í dýrð sína?“ 27  Hann byrjaði síðan á Móse og öllum spámönnunum og skýrði fyrir þeim það sem segir um hann í öllum Ritningunum. 28  Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir voru á leið til en hann lét sem hann ætlaði að halda lengra. 29  Þeir hvöttu hann þá til að staldra við og sögðu: „Gistu hjá okkur því að það er framorðið og dagurinn næstum á enda.“ Hann fór þá með þeim. 30  Þegar hann borðaði* með þeim tók hann brauðið, blessaði það, braut það og rétti þeim. 31  Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf sjónum þeirra. 32  Þeir sögðu þá hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og skýrði Ritningarnar vandlega fyrir okkur?“ 33  Þeir stóðu tafarlaust á fætur, sneru aftur til Jerúsalem og fundu þar þá ellefu og þá sem voru samankomnir með þeim. 34  Þeir sem voru þar fyrir sögðu: „Drottinn er í alvöru risinn upp og hefur birst Símoni!“ 35  Tvímenningarnir sögðu þá frá því sem hafði gerst á veginum og hvernig þeir höfðu þekkt hann þegar hann braut brauðið. 36  Meðan lærisveinarnir voru að tala um þetta stóð hann allt í einu mitt á meðal þeirra og sagði: „Friður sé með ykkur.“ 37  Þeim brá og þeir urðu hræddir og héldu að þetta væri andi. 38  Hann sagði því við þá: „Hvers vegna eruð þið hræddir og hvers vegna efist þið í hjörtum ykkar? 39  Lítið á hendur mínar og fætur. Þetta er ég. Snertið mig og sjáið. Andi hefur ekki hold og bein eins og þið sjáið að ég hef.“ 40  Um leið og hann sagði þetta sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. 41  En þeir voru svo glaðir og undrandi að þeir gátu ekki trúað honum. Þá sagði hann: „Eigið þið eitthvað að borða?“ 42  Þeir réttu honum þá steiktan fiskbita 43  og hann tók við honum og borðaði meðan þeir horfðu á. 44  Síðan sagði hann: „Munið að meðan ég var enn þá með ykkur sagði ég að allt sem er skrifað um mig í Móselögunum, spámönnunum og sálmunum yrði að rætast.“ 45  Síðan lauk hann upp huga þeirra þannig að þeir skildu Ritningarnar 46  og sagði: „Það stendur skrifað að Kristur muni þjást og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, 47  að í nafni hans verði boðað meðal allra þjóða að iðrandi syndarar geti fengið fyrirgefningu og að boðunin skuli hefjast í Jerúsalem. 48  Þið eigið að vitna um þetta. 49  Ég sendi ykkur það sem faðir minn hefur lofað að gefa ykkur. En verið um kyrrt í borginni þangað til þið íklæðist krafti frá himni.“ 50  Síðan fór hann með þá að Betaníu. Hann lyfti upp höndunum og blessaði þá 51  og meðan hann blessaði þá skildi hann við þá og var tekinn upp til himins. 52  Þeir veittu honum lotningu* og sneru aftur til Jerúsalem ákaflega glaðir. 53  Og þeir voru stöðugt í musterinu og lofuðu Guð.

Neðanmálsgreinar

Eða „minningargrafarinnar“.
Eða „minningargröfinni“.
Eða „minningargröfinni“.
Eða „minningargrafarinnar“.
Orðrétt „60 skeiðrúm“. Skeiðrúm var 185 m.
Eða hugsanl. „Ertu eini aðkomumaðurinn í Jerúsalem sem veit ekki“.
Eða „minningargrafarinnar“.
Eða „minningargrafarinnar“.
Eða „lá til borðs“.
Eða „krupu fyrir honum“.