Jóhannes 2:1–25

  • Brúðkaup í Kana; Jesús breytir vatni í vín (1–12)

  • Jesús hreinsar musterið (13–22)

  • Jesús veit hvað býr í mönnunum (23–25)

2  Tveim dögum síðar var haldin brúðkaupsveisla í Kana í Galíleu og móðir Jesú var þar.  Jesú og lærisveinum hans var einnig boðið til brúðkaupsveislunnar.  Þegar vínið var á þrotum sagði móðir Jesú við hann: „Þau eiga ekki meira vín.“  En Jesús svaraði: „Kona, hvað varðar okkur um það?* Minn tími er enn ekki kominn.“  Móðir hans sagði þá við þjónana: „Gerið það sem hann segir ykkur.“  Þarna stóðu sex vatnsker úr steini eins og krafist var samkvæmt hreinsunarreglum Gyðinga og hvert þeirra tók tvo eða þrjá mæla.*  Jesús sagði við þá: „Fyllið kerin af vatni.“ Og þeir barmafylltu þau.  Síðan sagði hann: „Ausið nú svolitlu upp og farið með það til veislustjórans.“ Þeir gerðu það.  Veislustjórinn bragðaði á vatninu sem nú var orðið að víni en vissi ekki hvaðan það kom. (Þjónarnir sem jusu upp vatninu vissu það hins vegar.) Veislustjórinn kallaði á brúðgumann 10  og sagði: „Allir aðrir bera fram góða vínið fyrst og síðan hið lakara þegar fólk er orðið ölvað. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ 11  Þetta var fyrsta kraftaverk Jesú og hann gerði það í Kana í Galíleu. Það opinberaði dýrð hans og lærisveinar hans trúðu á hann. 12  Eftir þetta fór hann með móður sinni, bræðrum og lærisveinum niður til Kapernaúm en þau stöldruðu ekki við nema fáeina daga. 13  Nú voru páskar Gyðinga í nánd og Jesús fór upp til Jerúsalem. 14  Í musterinu sá hann þá sem seldu nautgripi, sauðfé og dúfur og víxlarana sem sátu þar. 15  Hann gerði sér svipu úr reipum og rak þá alla út úr musterinu ásamt sauðfénu og nautgripunum, dreifði peningum víxlaranna út um allt og velti borðum þeirra um koll. 16  Og hann sagði við dúfnasalana: „Burt með þetta héðan! Hættið að nota hús föður míns sem sölumarkað!“* 17  Lærisveinarnir minntust þess að skrifað er: „Ég brenn af ákafa vegna húss þíns.“ 18  Gyðingar sögðu þá við hann: „Hvaða tákn geturðu gefið okkur um að þú hafir rétt til að gera þetta?“ 19  Jesús svaraði: „Rífið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“ 20  Þeir sögðu þá: „Þetta musteri var 46 ár í smíðum og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“ 21  En musterið sem hann átti við var líkami hans. 22  Þegar hann var risinn upp frá dauðum minntust lærisveinarnir þess að hann hafði stundum sagt þetta, og þeir trúðu Ritningunum og því sem Jesús hafði sagt. 23  Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á nafn hans því að þeir sáu kraftaverkin sem hann gerði. 24  En Jesús sagði þeim ekkert í trúnaði því að hann þekkti þá alla 25  og hann þurfti ekki að láta segja sér neitt um mennina þar sem hann vissi hvað bjó í mönnunum.

Neðanmálsgreinar

Orðrétt „Hvað til mín og til þín, kona?“ Orðtak sem gefur til kynna andmæli. Orðið „kona“ lýsir ekki óvirðingu.
Líklega er átt við mælieininguna bat sem jafngilti 22 l.
Eða „markaðstorg; verslun“.