Jóhannes 12:1–50

  • María smyr fætur Jesú með olíu (1–11)

  • Jesús ríður sigri hrósandi inn í Jerúsalem (12–19)

  • Jesús segir fyrir um dauða sinn (20–37)

  • Vantrú Gyðinga er uppfylling á spádómi (38–43)

  • Jesús kom til að bjarga heiminum (44–50)

12  Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus bjó, maðurinn sem hann hafði reist upp frá dauðum.  Þar var honum boðið til kvöldverðar og Marta þjónaði til borðs en Lasarus var meðal þeirra sem borðuðu* með honum.  María tók þá pund* af mjög dýrri ilmolíu, hreinni nardusolíu, hellti henni á fætur Jesú og þerraði þá með hári sínu. Húsið fylltist af ilmi olíunnar.  Þá sagði Júdas Ískaríot, einn af lærisveinum hans, sá sem átti eftir að svíkja hann:  „Af hverju var þessi ilmolía ekki seld fyrir 300 denara* og þeir gefnir fátækum?“  Hann sagði þetta þó ekki vegna þess að honum væri annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann sá um peningabaukinn og stal úr honum.  Jesús sagði þá: „Látið hana í friði svo að hún geti undirbúið greftrunardag minn eins og siður er.  Fátæka hafið þið alltaf hjá ykkur en mig hafið þið ekki alltaf.“  Nú hafði mikill fjöldi Gyðinga komist að því að Jesús væri þarna og þeir komu, ekki aðeins vegna hans heldur líka til að sjá Lasarus sem hann hafði reist upp frá dauðum. 10  Yfirprestarnir lögðu þá á ráðin um að drepa Lasarus einnig 11  því að það var vegna hans sem margir Gyðingar fóru þangað og tóku að trúa á Jesú. 12  Daginn eftir frétti mannfjöldinn sem var kominn til hátíðarinnar að Jesús væri á leiðinni til Jerúsalem. 13  Fólkið tók þá pálmagreinar, fór til móts við hann og hrópaði: „Viltu vernda hann!* Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva,* konungur Ísraels.“ 14  Jesús fann ungan asna og settist á bak, eins og skrifað er: 15  „Óttastu ekki, dóttir Síonar. Sjáðu! Konungur þinn kemur og ríður ösnufola.“ 16  Lærisveinarnir skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var orðinn dýrlegur rifjaðist upp fyrir þeim að það sem gert var fyrir hann var alveg eins og skrifað var um hann. 17  Fólkið sem hafði verið með Jesú þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni* og reisti hann upp frá dauðum sagði frá því sem hafði gerst. 18  Þetta var líka ástæðan fyrir því að fólk fór á móti honum – það hafði heyrt um kraftaverkið sem hann hafði gert. 19  Farísearnir sögðu þá sín á milli: „Þið sjáið að okkur miðar ekkert áfram. Allur heimurinn eltir hann.“ 20  Nokkrir Grikkir höfðu einnig komið til að tilbiðja Guð á hátíðinni. 21  Þeir komu til Filippusar, sem var frá Betsaídu í Galíleu, og sögðu: „Herra, okkur langar til að hitta Jesú.“ 22  Filippus fór til Andrésar og sagði honum það og síðan fóru þeir báðir og sögðu Jesú frá því. 23  En Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að Mannssonurinn verði upphafinn. 24  Ég segi ykkur með sanni: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það bara eitt korn en ef það deyr ber það mikinn ávöxt. 25  Sá sem elskar líf* sitt týnir því en sá sem hatar líf* sitt í þessum heimi varðveitir það og hlýtur eilíft líf. 26  Sá sem vill þjóna mér skal fylgja mér og þar sem ég er, þar verður þjónn minn einnig. Faðirinn mun heiðra þann sem vill þjóna mér. 27  Nú er ég* kvíðinn og hvað á ég að segja? Faðir, bjargaðu mér frá þessari stund. En ég er samt kominn til að mæta þessari stund. 28  Faðir, gerðu nafn þitt dýrlegt.“ Þá heyrðist rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og geri það aftur dýrlegt.“ 29  Fólkið sem stóð þar hjá heyrði þetta og sagðist hafa heyrt þrumu. Aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ 30  Jesús sagði: „Þessi rödd heyrðist ekki mín vegna heldur ykkar vegna. 31  Nú verður þessi heimur dæmdur, nú verður stjórnanda þessa heims kastað út. 32  En þegar mér verður lyft upp af jörðinni dreg ég til mín alls konar fólk.“ 33  Hann sagði þetta til að gefa til kynna með hvaða hætti hann myndi deyja innan skamms. 34  Þá svaraði fólkið: „Í lögunum segir að Kristur lifi að eilífu. Hvernig geturðu þá sagt að Mannssyninum verði lyft upp? Hver er þessi Mannssonur?“ 35  Jesús sagði þá: „Ljósið verður meðal ykkar stutta stund í viðbót. Gangið meðan þið hafið ljósið svo að myrkrið sigri ykkur ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. 36  Trúið á ljósið meðan þið hafið ljósið svo að þið verðið synir ljóssins.“ Eftir að Jesús hafði sagt þetta fór hann burt og faldi sig fyrir fólkinu. 37  Þótt hann hefði unnið fjölda kraftaverka í augsýn þess trúði það ekki á hann. 38  Þannig rættust orð Jesaja spámanns sem sagði: „Jehóva,* hver trúir því sem við höfum skýrt frá? Og hverjum hefur Jehóva* opinberað mátt* sinn?“ 39  Jesaja tiltók líka aðra ástæðu fyrir því að fólkið gat ekki trúað: 40  „Hann hefur blindað augu þess og hert hjörtu þess svo að það sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi við og ég lækni það.“ 41  Jesaja sagði þetta vegna þess að hann sá dýrð hans og talaði um hann. 42  Samt trúðu margir á hann, jafnvel sumir leiðtoganna, en þeir viðurkenndu það ekki vegna faríseanna svo að þeim yrði ekki útskúfað úr samkundunni. 43  Þeim var meira í mun að fá heiður frá mönnum en heiður frá Guði. 44  En Jesús hrópaði: „Sá sem trúir á mig trúir ekki aðeins á mig heldur líka þann sem sendi mig 45  og sá sem sér mig sér líka þann sem sendi mig. 46  Ég kom til að vera ljós í heiminum þannig að enginn sem trúir á mig sé áfram í myrkrinu. 47  Ég dæmi samt ekki þá sem heyra orð mín en fylgja þeim ekki því að ég kom til að bjarga heiminum en ekki til að dæma hann. 48  Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum hefur sinn dómara. Orðið sem ég hef talað verður dómari hans á síðasta degi. 49  Ég hef ekki talað að eigin frumkvæði heldur hefur faðirinn sem sendi mig sagt mér hvað ég eigi að segja og um hvað ég eigi að tala. 50  Og ég veit að fyrirmæli hans veita eilíft líf. Allt sem ég segi tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér.“

Neðanmálsgreinar

Eða „lágu til borðs“.
Það er, rómverskt pund, 327 g.
Sjá orðaskýringar.
Á grísku Hósanna′.
Sjá orðaskýringar.
Eða „minningargröfinni“.
Eða „sál“.
Eða „sál“.
Eða „sál mín“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „arm“.