Fílemonsbréfið 1:1–25

  • Kveðjur (1–3)

  • Kærleikur og trú Fílemons (4–7)

  • Páll biður um greiða varðandi Onesímus (8–22)

  • Kveðjuorð (23–25)

1  Frá Páli, sem er fangi vegna Krists Jesú, og Tímóteusi bróður okkar, til okkar kæra samstarfsmanns, Fílemons,  sem og Appíu systur okkar, Arkippusar samherja okkar og safnaðarins sem kemur saman í húsi þínu.  Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.  Ég þakka Guði mínum í hvert sinn sem ég minnist á þig í bænum mínum  því að ég heyri talað um trú þína og kærleikann sem þú berð til Drottins Jesú og allra hinna heilögu.  Ég bið þess að sameiginleg trú okkar hreyfi við þér þannig að þú sjáir allt það góða sem við njótum vegna Krists.  Það gladdi mig mikið og hughreysti að heyra um kærleika þinn þar sem þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu* hinna heilögu.  Ég gæti talað djarfmannlega sem postuli Krists og skipað þér að gera það sem er rétt  en ég kýs frekar að höfða til þín á grundvelli kærleikans þar sem ég, Páll, er orðinn gamall og auk þess sit ég nú í fangelsi vegna Krists Jesú. 10  Ég bið þig um greiða í tengslum við barnið mitt, hann Onesímus, en hér í fangelsinu* varð ég honum sem faðir. 11  Áður kom hann þér að engu gagni en nú er hann bæði þér og mér gagnlegur. 12  Ég sendi hann aftur til þín, hann sem er eins og hjartað í brjósti mér.* 13  Helst hefði ég viljað halda honum hér hjá mér til að hann gæti þjónað mér í þinn stað meðan ég sit í fangelsi vegna fagnaðarboðskaparins. 14  En ég vil ekki gera neitt án þíns samþykkis. Ég vil að þú gerir mér þennan greiða af fúsum vilja en ekki tilneyddur. 15  Kannski var hann í burtu frá þér um stuttan tíma* til þess að þú gætir fengið að hafa hann hjá þér fyrir fullt og allt, 16  ekki lengur sem þræl heldur meira en þræl, sem kæran bróður. Hann er mér sérstaklega kær. Hve miklu fremur þá þér, bæði sem þræll og sem bróðir í þjónustu Drottins.* 17  Ef þú álítur mig vin* þinn skaltu því taka vel á móti honum eins og væri það ég. 18  Og ef hann hefur gert eitthvað á hlut þinn eða skuldar þér eitthvað skaltu skrifa það á minn reikning. 19  Ég, Páll, skrifa með eigin hendi: Ég borga það. Og ég þarf varla að minnast á að þú skuldar mér jafnvel sjálfan þig. 20  Já, bróðir, gerðu mér þennan greiða vegna Drottins. Endurnærðu hjarta* mitt vegna Krists. 21  Ég skrifa þér vegna þess að ég er viss um að þú verðir við beiðni minni. Ég veit að þú gerir jafnvel meira en það sem ég bið þig um. 22  Og eitt að lokum: Hafðu til herbergi handa mér því að ég vonast til að bænir ykkar verði til þess að ég geti heimsótt ykkur.* 23  Epafras, sem situr með mér í fangelsi vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér 24  og einnig Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samstarfsmenn mínir. 25  Megi Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og blessa það hugarfar sem þið sýnið.

Neðanmálsgreinar

Eða „styrkt kærleiksbönd“.
Orðrétt „í fjötrunum“.
Eða „sem mér er innilega annt um“.
Orðrétt „um stund“.
Orðrétt „bæði í holdinu og í Drottni“.
Eða „samstarfsmann“.
Eða „Styrktu kærleiksþel“.
Eða „ég verði látinn laus ykkur til góðs“.