3. Jóhannesarbréf 1:1–14

  • Kveðja og bæn (1–4)

  • Gajusi hrósað (5–8)

  • Díótrefes vill vera fremstur (9, 10)

  • Demetríus hefur gott orð á sér (11, 12)

  • Áform um heimsókn og kveðjur (13, 14)

1  Frá öldungnum til hins elskaða Gajusar sem er mér mjög kær.  Kæri bróðir, ég bið þess að þér megi heilsast vel og ávallt vegna vel í öllu, rétt eins og nú.  Ég varð mjög glaður þegar bræður komu og vitnuðu um að þú haldir þig fast við sannleikann, já, að þú haldir áfram að ganga á vegi sannleikans.  Ekkert gleður mig meira en* að heyra að börnin mín gangi á vegi sannleikans.  Þú sýnir trúfesti þína, kæri bróðir, með því sem þú gerir fyrir bræðurna, jafnvel þá sem þú þekkir ekki.  Þeir hafa sagt söfnuðinum frá kærleika þínum. Viltu aðstoða þá eins og viðeigandi er í augum Guðs þegar þeir halda ferð sinni áfram  því að þeir lögðu af stað vegna nafns hans og þiggja ekki neitt af fólki af þjóðunum.  Þess vegna er okkur skylt að vera gestrisin við þá svo að við verðum samstarfsmenn í þágu sannleikans.  Ég skrifaði nokkur orð til safnaðarins en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal ykkar, virðir ekki neitt sem við segjum. 10  Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að vekja athygli á verkum hans, hvernig hann rægir okkur úti um allt.* Og hann lætur það ekki nægja heldur virðir hann hvorki bræðurna né býður þá velkomna, og þegar aðrir vilja bjóða þá velkomna reynir hann að hindra það og reka þá úr söfnuðinum. 11  Kæri bróðir, líktu ekki eftir því sem er illt heldur því sem er gott. Sá sem gerir hið góða er Guðs megin. Sá sem gerir hið illa hefur ekki séð Guð. 12  Allir hafa gott eitt að segja um Demetríus og sannleikurinn staðfestir að þeir hafa rétt fyrir sér. Við vitnum líka um hann og þú veist að vitnisburður okkar er sannur. 13  Ég hef margt að skrifa þér en mig langar ekki til að halda áfram að skrifa þér með penna og bleki. 14  Ég vonast hins vegar til að sjá þig fljótlega og tala við þig augliti til auglitis. Friður sé með þér. Vinirnir biðja að heilsa. Ég bið að heilsa vinunum hverjum fyrir sig.

Neðanmálsgreinar

Eða hugsanl. „fyllir mig eins miklu þakklæti og“.
Orðrétt „blaðrar um okkur með ljótum orðum“.