2. Korintubréf 7:1–16

  • Hreinsum okkur af öllu sem óhreinkar (1)

  • Páll gleðst yfir Korintumönnum (2–4)

  • Títus færir góðar fréttir (5–7)

  • Hryggð Guði að skapi og iðrun (8–16)

7  Þið elskuðu, fyrst við höfum fengið þessi loforð skulum við hreinsa okkur af öllu sem óhreinkar líkama og huga* og verða þannig æ heilagari í guðsótta.  Gefið okkur rúm í hjörtum ykkar. Við höfum ekki beitt neinn órétti, ekki spillt neinum og ekki blekkt neinn í eiginhagsmunaskyni.  Ég segi þetta ekki til að dæma ykkur. Eins og ég hef áður sagt eigið þið stað í hjörtum okkar og eruð með okkur hvort sem við lifum eða deyjum.  Ég tala mjög opinskátt við ykkur. Ég er mjög stoltur af ykkur. Ég hef fengið mikla hughreystingu og er fullur gleði í öllum raunum okkar.  Við höfðum enga ró í okkur þegar við komum til Makedóníu heldur þrengdi stöðugt að okkur á allan hátt – það var andstaða utan frá og áhyggjur innra með okkur.  En Guð, sem hughreystir niðurdregna, hughreysti okkur með komu* Títusar.  Og það var ekki aðeins heimsókn hans sem hughreysti okkur heldur líka sú uppörvun sem hann fékk hjá ykkur. Hann sagði okkur að þið þráðuð að sjá mig, væruð sorgmædd og bæruð einlæga umhyggju fyrir mér. Það gladdi mig enn meir.  Þó að ég hafi hryggt ykkur með bréfi mínu sé ég ekki eftir því. Ég sá reyndar eftir því í fyrstu (þegar ég sá að bréfið hryggði ykkur, þótt ekki væri nema um stund)  en nú gleðst ég, ekki beint yfir því að þið hryggðust heldur hinu að hryggðin leiddi til iðrunar. Þið hryggðust Guði að skapi og biðuð því ekki tjón af okkar völdum. 10  Hryggðin sem er Guði að skapi veldur iðrun sem leiðir til björgunar og enginn þarf að sjá eftir. En að hryggjast að hætti heimsins leiðir til dauða. 11  Sjáið hve djúpstæð áhrif það hafði að þið skylduð hryggjast Guði að skapi. Þið hreinsuðuð mannorð ykkar, reiddust yfir því sem hafði gerst, óttuðust Guð og fenguð sterka löngun til að leiðrétta það sem miður hafði farið, já, brennandi áhuga á því. Þið hafið sýnt á allan hátt að þið eruð hrein* í þessu máli. 12  Þótt ég hafi skrifað ykkur gerði ég það ekki vegna mannsins sem gerði rangt né þess sem varð fyrir ranglætinu heldur til að þið sýnduð frammi fyrir Guði hve umhugað ykkur væri um að hlusta á okkur. 13  Þetta hefur hughreyst okkur. Við glöddumst jafnvel enn meir að sjá hve Títus var glaður, en þið hafið öll uppörvað hann. 14  Ég hef sagt honum hve stoltur ég er af ykkur og þið hafið ekki brugðist vonum mínum. Það sem við sögðum Títusi um ykkur var rétt, eins og reyndar allt annað sem við höfum sagt ykkur. 15  Og honum er enn hlýrra til ykkar þegar hann hugsar til þess hve hlýðin þið öll eruð og hvernig þið tókuð á móti honum með djúpri virðingu. 16  Það gleður mig að ég skuli geta treyst ykkur í einu og öllu.*

Neðanmálsgreinar

Orðrétt „hold og anda“.
Orðrétt „nærveru“.
Eða „saklaus“.
Eða hugsanl. „geta verið hughraustur ykkar vegna“.