1. Tímóteusarbréf 4:1–16

  • Varað við kenningum illra anda (1–5)

  • Að vera góður þjónn Krists (6–10)

    • Líkamleg æfing og guðrækni (8)

  • Gættu að kennslunni (11–16)

4  En hið innblásna orð* segir greinilega að þeir tímar komi að sumir muni falla frá trúnni því að þeir hlusti á villandi innblásin orð* og kenningar illra anda,  á hræsnisfulla lygara sem eru brennimerktir á samvisku sinni.  Þeir banna fólki að giftast og skipa því að halda sig frá mat sem Guð skapaði til að þeir sem trúa og þekkja sannleikann til hlítar geti neytt hans og þakkað Guði.  Allt sem Guð hefur skapað er gott og engu ætti að hafna ef tekið er við því með þakklæti  því að það helgast með orði Guðs og bæn.  Með því að gefa bræðrum og systrum þessar leiðbeiningar sýnirðu að þú ert góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningunni sem þú hefur fylgt gaumgæfilega.  En hafnaðu skammarlegum skröksögum eins og þeim sem gamlar konur eiga til að segja. Æfðu þig heldur markvisst í að vera guðrækinn.  Líkamleg æfing er gagnleg að vissu marki en guðræknin er gagnleg á allan hátt því að hún gefur loforð bæði fyrir þetta líf og lífið sem er fram undan.  Þessi orð eru sönn og það má treysta þeim fullkomlega. 10  Þess vegna stritum við og leggjum hart að okkur því að við höfum bundið von okkar við lifandi Guð sem er frelsari alls konar fólks, sér í lagi þeirra sem eru trúfastir. 11  Haltu áfram að gefa þessi fyrirmæli og kenna þau. 12  Láttu engan líta niður á þig þótt þú sért ungur. Vertu heldur fyrirmynd hinna trúföstu í tali, hegðun, kærleika, trú og hreinleika. 13  Leggðu þig fram við upplestur og við að hvetja* og kenna þar til ég kem. 14  Vanræktu ekki gjöfina sem þér var gefin þegar spáð var um þig og öldungaráðið lagði hendur yfir þig. 15  Hugleiddu þetta vel, vertu upptekinn af því svo að framför þín sé öllum augljós. 16  Gættu stöðugt að sjálfum þér og kennslunni. Haltu ótrauður áfram að sinna þessu því að þá bjargarðu bæði sjálfum þér og þeim sem hlusta á þig.

Neðanmálsgreinar

Orðrétt „En andinn“.
Orðrétt „villandi anda“.
Eða „áminna“.