1. Korintubréf 9:1–27

  • Fordæmi Páls sem postula (1–27)

    • „Þú skalt ekki múlbinda naut“ (9)

    • „Ég væri illa staddur ef ég boðaði ekki fagnaðarboðskapinn“ (16)

    • Að vera öllum allt (19–23)

    • Sjálfstjórn í kapphlaupinu um lífið (24–27)

9  Er ég ekki frjáls? Er ég ekki postuli? Hef ég ekki séð Jesú, Drottin okkar? Eruð þið ekki árangurinn af starfi mínu í þjónustu Drottins?  Þótt ég sé ekki postuli fyrir aðra er ég það vissulega fyrir ykkur. Þið eruð innsiglið sem staðfestir að ég sé postuli Drottins.  Vörn mín gagnvart þeim sem setja út á mig er þessi:  Höfum við ekki rétt* til að borða og drekka?  Höfum við ekki rétt til að ferðast um með trúaða eiginkonu* eins og hinir postularnir, bræður Drottins og Kefas?*  Eða erum við Barnabas þeir einu sem þurfa að vinna til að sjá fyrir sér?  Hver gegnir nokkurn tíma herþjónustu á eigin kostnað? Hver plantar víngarð án þess að borða af ávexti hans? Eða hver gætir hjarðar án þess að fá nokkuð af mjólkinni?  Segi ég þetta út frá mannlegu sjónarmiði? Segja ekki lögin það sama?  Í lögum Móse stendur: „Þú skalt ekki múlbinda naut þegar það þreskir korn.“ Eru það nautin sem Guði er umhugað um? 10  Eða er það okkar vegna sem hann segir þetta? Reyndar var þetta skrifað okkar vegna því að sá sem plægir og sá sem þreskir eiga að gera það í von um að fá hluta af uppskerunni. 11  Fyrst við höfum sáð andlegum gæðum meðal ykkar, er þá til of mikils mælst að við uppskerum efnislegar nauðsynjar hjá ykkur? 12  Ef aðrir hafa þann rétt að fá þetta hjá ykkur, höfum við það ekki miklu frekar? Við höfum þó ekki nýtt okkur þann rétt* heldur sættum okkur við allt svo að við öftrum því á engan hátt að fagnaðarboðskapurinn um Krist breiðist út. 13  Vitið þið ekki að þeim sem sinna heilögum skyldum er séð fyrir mat í musterinu og þeir sem þjóna við altarið fá sinn hlut af því sem fórnað er á altarinu? 14  Þannig hefur Drottinn líka fyrirskipað að þeir sem boða fagnaðarboðskapinn skuli lifa af fagnaðarboðskapnum. 15  En ég hef ekki notfært mér neitt af þessu. Ég skrifa þetta ekki heldur til að þetta sé gert fyrir mig því að frekar vildi ég deyja en ... Enginn fær að taka það frá mér sem ég hrósa mér af. 16  Þó að ég boði fagnaðarboðskapinn hef ég enga ástæðu til að hrósa mér af því vegna þess að mér er skylt að gera það. Já, ég væri illa staddur ef ég boðaði ekki fagnaðarboðskapinn. 17  Ef ég geri það fúslega fæ ég laun en þótt ég gerði það gegn vilja mínum ynni ég samt það verk sem mér var falið. 18  Hvaða laun fæ ég þá? Að geta boðað fagnaðarboðskapinn öðrum að kostnaðarlausu til að misnota ekki rétt* minn sem fylgir því að boða fagnaðarboðskapinn. 19  Þó að ég sé frjáls maður hef ég gert sjálfan mig að þræli allra til að geta áunnið sem flesta. 20  Gyðingum hef ég verið eins og Gyðingur til að ávinna Gyðinga. Þeim sem eru undir lögunum hef ég verið eins og ég væri undir lögunum til að ávinna þá sem eru það þó að ég sé ekki sjálfur undir lögunum. 21  Þeim sem eru ekki undir lögunum hef ég verið eins og ég væri ekki undir lögunum til að ávinna þá sem eru það ekki. Samt er ég ekki án laga frammi fyrir Guði heldur undir lögum Krists. 22  Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til að ávinna hina óstyrku. Ég er orðinn öllum allt. Þannig geri ég það sem ég get til að bjarga að minnsta kosti nokkrum. 23  Ég geri allt vegna fagnaðarboðskaparins svo að ég geti miðlað honum til annarra. 24  Vitið þið ekki að þeir sem taka þátt í kapphlaupi hlaupa allir en aðeins einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið hljótið þau. 25  Allir sem keppa í íþróttum* sýna sjálfstjórn á öllum sviðum. Þeir gera það auðvitað til að hljóta sigursveig sem visnar en við sigursveig sem visnar ekki. 26  Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég beini höggum mínum þannig að ég slái ekki vindhögg. 27  Ég beiti sjálfan mig hörðu* og geri líkamann að þræli mínum svo að ég, sem hef kennt öðrum, reynist ekki óhæfur* einhverra hluta vegna.

Neðanmálsgreinar

Orðrétt „vald“.
Eða „með systur sem eiginkonu“.
Einnig nefndur Pétur.
Orðrétt „það vald“.
Orðrétt „vald“.
Eða „Allir íþróttamenn“.
Eða „refsa sjálfum mér; aga sjálfan mig harðlega“.
Eða „verði ekki dæmdur úr leik“.