1. Korintubréf 14:1–40

  • Að geta spáð og talað önnur tungumál (1–25)

  • Safnaðarsamkomur fari skipulega fram (26–40)

    • Staða kvenna í söfnuðinum (34, 35)

14  Keppið eftir kærleikanum en sækist líka eftir* andlegu gjöfunum og þá helst því að geta spáð.  Sá sem hefur þá gjöf að geta talað annað tungumál talar ekki við menn heldur Guð. Hann talar um heilaga leyndardóma með hjálp andans en enginn skilur hann.  En sá sem spáir byggir aðra upp, hvetur þá og hughreystir með orðum sínum.  Sá sem talar annað tungumál byggir sjálfan sig upp en sá sem spáir byggir upp söfnuðinn.  Ég vildi að þið gætuð allir talað önnur tungumál en þó frekar að þið gætuð spáð. Sá sem spáir er meiri en sá sem talar önnur tungumál nema það sé túlkað* svo að söfnuðurinn byggist upp.  En nú, bræður, hvaða gagn hefðuð þið af því ef ég kæmi til ykkar og talaði önnur tungumál nema ég flytti ykkur líka opinberun, þekkingu eða spádóm eða kenndi ykkur eitthvað?  Hið sama er að segja um dauða hluti sem gefa frá sér hljóð, svo sem flautu eða hörpu. Hvernig er hægt að vita hvað er leikið á flautuna eða hörpuna ef tónarnir eru allir eins?  Hver býr sig til bardaga ef lúðurinn gefur frá sér ógreinilegt hljóð?  Eins er það með ykkur. Hvernig er hægt að vita hvað þið segið ef þið notið ekki tunguna til að tala auðskilið mál? Þið talið þá út í bláinn. 10  Þó að til séu mörg tungumál í heiminum er ekkert þeirra merkingarlaust. 11  Ef ég skil ekki málið er ég eins og útlendingur gagnvart þeim sem talar og hann eins og útlendingur gagnvart mér. 12  Þetta á líka við um ykkur. Fyrst þið þráið ákaft að fá gjafir andans skuluð þið sækjast eftir að verða auðugir að þeim gjöfum sem byggja söfnuðinn upp. 13  Sá sem fær þá gjöf að tala annað tungumál ætti því að biðja þess að geta líka túlkað* það. 14  Ef ég bið á öðru tungumáli er það gjöf andans sem biður en hugur minn á ekki hlut að máli. 15  Hvað er þá til ráða? Ég ætla að biðja með gjöf andans en líka að biðja frá eigin brjósti. Ég ætla að syngja lofsöng með gjöf andans en líka að syngja lofsöng eins og hugurinn býður. 16  Hvernig getur venjulegur maður ykkar á meðal annars sagt „amen“ þegar þú hefur þakkað Guði og lofað hann með gjöf andans? Hann skilur ekki það sem þú segir. 17  Þakkarbæn þín getur vissulega verið góð en hún styrkir ekki hinn. 18  Ég þakka Guði að ég tala fleiri tungumál en þið allir. 19  Í söfnuðinum vil ég þó frekar tala fimm orð sem skiljast,* til að geta frætt aðra,* en tíu þúsund orð á framandi tungumáli. 20  Bræður, hugsið ekki eins og börn en verið eins og börn gagnvart illskunni og hugsið eins og þroskað fólk. 21  Í lögunum stendur: „‚Með tungum útlendinga og vörum ókunnugra tala ég til þessa fólks og jafnvel þá neitar það að hlusta á mig,‘ segir Jehóva.“* 22  Gjöfin að tala önnur tungumál er því ekki tákn fyrir þá sem trúa heldur hina vantrúuðu. Gjöfin að spá er hins vegar ekki fyrir vantrúaða heldur hina trúuðu. 23  Hugsið ykkur að allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu framandi tungumál og svo kæmi líka venjulegt fólk eða vantrúaðir. Myndu þeir þá ekki segja að þið væruð gengnir af vitinu? 24  En ef þið mynduð allir spá og vantrúaður eða venjulegur maður kæmi, þá væri það sem þið segið áminning fyrir hann og hvatning til að líta í eigin barm. 25  Honum verður þá ljóst hvað leynist í hjarta hans og hann fellur á grúfu, tilbiður Guð og segir: „Guð er sannarlega hjá ykkur.“ 26  Hvað á þá að gera, bræður? Þegar þið komið saman hefur hver sitt fram að færa, einn kennslu, annar sálm og enn einn opinberun. Einn hefur gjöfina að tala framandi tungumál og annar að túlka. Sjáið til þess að allt sé uppbyggilegt. 27  Og ef einhverjir tala framandi tungumál mega þeir ekki vera fleiri en tveir eða í mesta lagi þrír. Þeir eiga að skiptast á og einhver þarf að túlka.* 28  En ef enginn er til að túlka* eiga þeir að vera hljóðir á samkomum* og tala við sjálfa sig og Guð. 29  Látið tvo eða þrjá spámenn tala og hinir skulu gera sér grein fyrir merkingunni. 30  En ef einhver annar sem situr þar fær opinberun ætti sá sem hefur orðið að þagna. 31  Þannig getið þið allir spáð, einn í einu, til að allir læri og hljóti uppörvun. 32  Spámennirnir eiga að hafa stjórn á hvernig þeir nota gjafirnar sem andinn hefur gefið þeim. 33  Guð er ekki Guð óreiðu heldur friðar. Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu 34  eiga konur að vera hljóðar því að þeim leyfist ekki að tala í söfnuðinum heldur eiga þær að vera undirgefnar eins og segir líka í lögunum. 35  Ef þær vilja skilja eitthvað betur eiga þær að spyrja eiginmenn sína heima fyrir af því að það er ekki við hæfi að kona tali í söfnuðinum. 36  Kom orð Guðs frá ykkur eða hefur það ekki borist lengra en til ykkar? 37  Ef einhver telur sig vera spámann eða hafa fengið andann þarf hann að viðurkenna að það sem ég skrifa ykkur eru fyrirmæli Drottins. 38  Ef einhver vísar þessu á bug verður honum vísað á bug.* 39  Bræður mínir, sækist þess vegna eftir því að spá en bannið þó engum að tala önnur tungumál. 40  En allt skal fara fram á sómasamlegan og skipulegan hátt.

Neðanmálsgreinar

Eða „sækist líka ákaft eftir“.
Eða „þýtt“.
Eða „þýtt“.
Eða „eins og hugurinn býður“.
Eða „frætt aðra munnlega“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „þýða“.
Eða „þýða“.
Orðrétt „í söfnuðinum“.
Eða hugsanl. „Ef einhver er fáfróður verður hann áfram fáfróður“.