Hoppa beint í efnið

Viltu vita svörin?

Viltu vita svörin?

SVÖRIN við hverju? Við mikilvægustu spurningum lífsins. Ef til vill hefurðu velt eftirfarandi spurningum fyrir þér:

  • Er Guði annt um okkur?

  • Taka styrjaldir og þjáningar einhvern tíma enda?

  • Hvað gerist við dauðann?

  • Er einhver von um að sjá látna ástvini aftur?

  • Hvernig bænir heyrir Guð?

  • Hvernig er hægt að finna hamingjuna?

Hvar myndirðu leita svara við þessum spurningum? Ef þú færir á bókasafn eða í bókabúð gætirðu ef til vill fundið þúsundir bóka sem eru taldar geyma svörin. En oft stangast hver bókin á við aðra. Og sumar bækur virðast vera í gildi um stundarsakir en úreldast fljótt og eru þá endurskoðaðar eða endurnýjaðar.

En til er bók sem hefur að geyma áreiðanleg svör. Þessi bók segir okkur sannleikann. Jesús Kristur sagði í bæn til Guðs: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Núna þekkjum við orð Guðs sem Biblíuna. Á næstu blaðsíðum er að finna skýr og hnitmiðuð svör Biblíunnar við spurningunum hér að ofan.

 Er Guði annt um okkur?

AF HVERJU VAKNAR ÞESSI SPURNING? Við búum í heimi þar sem grimmd og óréttlæti ræður ríkjum. Í mörgum trúarbrögðum er kennt að það sé vilji Guðs að við þjáumst.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? Guð er aldrei valdur að hinu illa. „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt,“ segir í Jobsbók 34:10. Guð hefur dásamlega fyrirætlun með mennina. Þess vegna kenndi Jesús okkur að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum . . . Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Guði er svo innilega annt um okkur að hann hefur lagt mikið á sig til að tryggja að fyrirætlun sín nái fram að ganga. — Jóhannes 3:16.

Sjá einnig 1. Mósebók 1:26-28; Jakobsbréfið 1:13 og 1. Pétursbréf 5:6, 7.

Taka styrjaldir og þjáningar einhvern tíma enda?

AF HVERJU VAKNAR ÞESSI SPURNING? Ár eftir ár fellur gríðarlegur fjöldi fólks í styrjöldum. Þjáningarnar í heiminum snerta okkur öll á einhvern hátt.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? Guð hefur sagt að í framtíðinni ætli hann að koma á friði um alla jörðina. Undir stjórn ríkis hans, sem hefur aðsetur á himnum, munu mennirnir ekki „temja sér hernað framar“. Þeir munu „smíða plógjárn úr sverðum sínum“. (Jesaja 2:4) Guð mun binda enda á allt óréttlæti og þjáningar. Í Biblíunni er að finna þetta loforð: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið [þar á meðal allt óréttlæti og þjáningar].“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Sjá einnig Sálm 37:10, 11; 46:10 og Míka 4:1-4.

Hvað gerist við dauðann?

AF HVERJU VAKNAR ÞESSI SPURNING? Í flestum trúarbrögðum heims er kennt að eitthvað innra með manninum lifi áfram eftir dauðann. Sum trúarbrögð fullyrða að hinir dánu geti gert hinum lifandi mein eða að Guð refsi hinum illu með því að dæma þá til eilífrar hegningar í logandi víti.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? Við dauðann hætta menn að vera til. „Hinir dauðu vita ekki neitt,“ segir í Prédikaranum 9:5. Þar sem hinir dánu vita ekkert, skynja ekkert og upplifa ekkert geta þeir hvorki gert hinum lifandi mein né hjálpað þeim. — Sálmur 146:3, 4.

Sjá einnig 1. Mósebók 3:19 og Prédikarann 9:6, 10.

 Er einhver von um að sjá látna ástvini aftur?

AF HVERJU VAKNAR ÞESSI SPURNING? Við viljum lifa og við viljum njóta lífsins með þeim sem við elskum. Það er ósköp eðlilegt að þrá að sjá látna ástvini á ný.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? Flestir sem deyja fá upprisu. Jesús gaf þetta loforð: „Allir þeir sem í gröfunum eru munu . . . ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Þeir sem eru reistir upp til lífs á jörð fá tækifæri til að búa þar við paradísaraðstæður í samræmi við upprunalega fyrirætlun Guðs. (Lúkas 23:43) Guð lofar að þeir sem hlýði honum hljóti einnig fullkomna heilsu og eilíft líf. Í Biblíunni segir: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ — Sálmur 37:29.

Sjá einnig Jobsbók 14:14, 15; Lúkas 7:11-17 og Postulasöguna 24:15.

Hvernig bænir heyrir Guð?

AF HVERJU VAKNAR ÞESSI SPURNING? Nánast allir biðja óháð því hvaða trúarbrögðum þeir tilheyra. En mörgum finnst þeir ekki fá bænheyrslu.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? Jesús sagði að í bænum okkar ættum við ekki að endurtaka sömu þuluna aftur og aftur. „Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi,“ sagði hann. (Matteus 6:7) Ef við viljum að Guð heyri bænir okkar verðum við að biðja á þann hátt sem hann hefur velþóknun á. Til að gera það verðum við að kynna okkur hver vilji Guðs er og biðja síðan í samræmi við það. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:14 segir: „Ef við biðjum um eitthvað eftir [Guðs] vilja, þá heyrir hann okkur.“

Sjá einnig Sálm 65:3; Jóhannes 14:6, 14 og 1. Jóhannesarbréf 3:22.

Hvernig er hægt að finna hamingjuna?

AF HVERJU VAKNAR ÞESSI SPURNING? Margir trúa því að peningar, frægð eða fegurð veiti þeim hamingju. Þar af leiðandi sækjast þeir eftir þessum hlutum en komast síðan að raun um að hamingjan gengur þeim úr greipum.

HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? Jesús benti á hvernig finna mætti hamingjuna og sagði: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ (Lúkas 11:28) Eina leiðin til að finna sanna hamingju er að sinna mikilvægustu þörf okkar, það er að segja lönguninni til að þekkja sannleikann um Guð og fyrirætlun hans. Þennan sannleika er að finna í Biblíunni. Ef við þekkjum sannleikann getum við skilið hvað er mikilvægt og hvað ekki. Við öðlumst innihaldsríkara líf ef við látum sannleika Biblíunnar stýra ákvörðunum okkar og verkum.

Sjá einnig Orðskviðina 3:5, 6, 13-18 og 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

 Nú höfum við stuttlega skoðað svör Biblíunnar við sex spurningum. Viltu vita meira? Ef þú ert sannleiksleitandi viltu það örugglega. Ef til vill hefurðu áhuga á að fá svör við spurningum á borð við þessar: Ef Guði er annt um okkur af hverju hefur hann þá leyft svona mikla illsku og þjáningar í aldanna rás? Og hvernig er hægt að gera fjölskyldulífið ánægjulegra? Biblían veitir fullnægjandi svör við þessum spurningum og mörgum fleiri.

Þrátt fyrir það hika margir við að lesa Biblíuna. Í þeirra augum er hún þykk og torskilin bók. Vilt þú fá aðstoð við að finna svörin í Biblíunni? Vottar Jehóva bjóða upp á tvennt sem getur verið þér til mikillar hjálpar.

Í fyrsta lagi stendur þér til boða að fá bókina Hvað kennir Biblían? Hún var skrifuð til að hjálpa uppteknu fólki að kynna sér skýr svör Biblíunnar við mikilvægum spurningum. Í öðru lagi er boðið upp á ókeypis biblíunámskeið. Vottur Jehóva, sem er hæfur biblíukennari, getur komið heim til þín eða á annan hentugan stað og varið smá tíma í hverri viku til að fara yfir biblíulegt efni með þér. Milljónir manna um allan heim hafa notið góðs af slíku námskeiði. Margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir hafi fundið sannleikann.

Það er ekki hægt að finna dýrmætari fjársjóð. Sannleikur Biblíunnar frelsar okkur úr fjötrum hjátrúar, óvissu og ótta. Hann veitir okkur von, hamingju og tilgang í lífinu. Jesús sagði: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:32.