Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 3HLUTI

Hvernig fundu menn sannleika Biblíunnar að nýju?

Hvernig fundu menn sannleika Biblíunnar að nýju?

Biblíunemendur upp úr 1870

Fyrsta tölublað Varðturnsins árið 1879

Varðturninn í nútímabúningi

Í Biblíunni var spáð að falskennarar myndu koma fram innan safnaðarins og rangsnúa kenningum Biblíunnar eftir að Kristur væri dáinn. (Postulasagan 20:29, 30) Og þannig fór þegar fram liðu stundir. Heiðnum trúarhugmyndum var blandað saman við kenningu Jesú og úr varð fölsuð útgáfa af kristninni. (2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Hvernig getum við gengið úr skugga um að við skiljum hvað Biblían kennir?

Sá tími rann upp að Jehóva opinberaði sannleikann. Hann sagði fyrir að ,skilningur manna myndi aukast þegar drægi að endalokunum‘. (Daníel 12:4) Árið 1870 fór lítill hópur manna að leita sannleikans. Þeir komust að raun um að margar kenningar kirkjufélaganna voru ekki sóttar í Biblíuna. Þeir reyndu að glöggva sig á upprunalegum kenningum hennar og Jehóva hjálpaði þeim að skilja þær.

Einlægir menn rannsökuðu Biblíuna vandlega. Þessir biblíunemendur lögðu grunninn að starfi okkar og beittu sömu aðferðum og við notum enn þann dag í dag. Þeir tóku fyrir hvert málefnið á fætur öðru og könnuðu hvað Biblían segði um það. Þegar þeir rákust á torskilin vers leituðu þeir að öðrum versum sem vörpuðu ljósi á textann. Þegar þeir komust að niðurstöðu sem kom heim og saman við Biblíuna í heild skráðu þeir hana niður. Með því að láta Biblíuna túlka sjálfa sig uppgötvuðu þeir sannleikann um nafn Guðs og ríki, fyrirætlun hans með mannkynið og jörðina, hvað gerist við dauðann og um upprisuvonina. Rannsóknir þeirra leystu þá úr fjötrum margra falskra kenninga og trúarathafna. – Jóhannes 8:31, 32.

Árið 1879 gerðu biblíunemendurnir sér grein fyrir að það væri tímabært að kunngera sannleikann vítt og breitt. Það ár hófu þeir útgáfu tímaritsins Varðturninn kunngerir ríki Jehóva og það er gefið út enn þann dag í dag. Núna boðum við sannleika Biblíunnar meðal fólks á meira en 750 tungumálum í 240 löndum. Sannleikur Biblíunnar hefur aldrei verið jafn útbreiddur.

  • Hvað varð um sannleika Biblíunnar eftir að Kristur dó?

  • Hvað gerði mönnum kleift að finna sannleika Biblíunnar að nýju?