Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 9. HLUTI

Hvernig er best að búa sig undir samkomur?

Hvernig er best að búa sig undir samkomur?

Kambódía

Úkraína

Ef þú ert að kynna þér Biblíuna með hjálp votta Jehóva ertu trúlega vanur að fara yfir námsefnið fyrir fram. Til að hafa sem mest gagn af safnaðarsamkomum er gott að hafa sama háttinn á. Við náum bestum árangri ef við venjum okkur á að búa okkur undir samkomurnar.

Veldu hentugan stað og stund. Hvenær áttu auðveldast með að einbeita þér? Er það snemma morguns áður en þú hefur dagleg störf eða er það að kvöldi til eftir að börnin eru komin í háttinn? Taktu frá ákveðinn tíma, hvort sem hann er langur eða stuttur, og reyndu að láta ekkert koma í veg fyrir að þú notir hann til undirbúnings. Veldu hljóðlátan stað og slökktu á útvarpi, sjónvarpi, farsíma og öðru sem gæti truflað. Byrjaðu á því að fara með bæn. Það hjálpar þér að ýta daglegum áhyggjum til hliðar þannig að þú getir einbeitt þér að orði Guðs. – Filippíbréfið 4:6, 7.

Merktu við aðalatriðin og búðu þig undir að taka þátt í umræðum. Byrjaðu á því að sjá heildarmyndina. Líttu á fyrirsögn kaflans eða greinarinnar, veltu fyrir þér hvernig millifyrirsagnir tengjast henni og skoðaðu myndir og upprifjunarspurningar sem draga fram aðalatriðin. Lestu síðan efnið grein fyrir grein og leitaðu að svari við spurningunni sem er neðanmáls. Flettu upp á ritningarstöðum sem vísað er í, lestu þá og hugleiddu hvernig þeir varpa ljósi á efnið. (Postulasagan 17:11) Þegar þú getur svarað spurningunni skaltu strika undir eða merkja við fáein lykilorð í greininni sem minna þig á svarið. Þá geturðu rétt upp hönd á samkomunni ef þú vilt og tjáð þig stuttlega um málið með eigin orðum.

Þú eykur við biblíuþekkingu þína og bætir við ,forðabúrið‘ með því að lesa og hugleiða það fjölbreytta efni sem rætt er á samkomum í hverri viku. – Matteus 13:51, 52.

  • Hvaða góðu venjur geta hjálpað þér að búa þig undir samkomur?

  • Hvernig geturðu búið þig undir að svara á samkomum?