Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 1. KAFLI

„Ég mun leita þess sem villist“

„Ég mun leita þess sem villist“

Lambið er rammvillt. Einhvern veginn varð það viðskila við hjörðina þar sem það var á beit úti í haga. Nú sér það hvorki hjörðina né hirðinn. Það er farið að skyggja og rándýr eru komin á kreik. Lambið er hrætt og varnarlaust. Allt í einu heyrir það kunnuglega rödd – rödd hirðisins. Hann kemur hlaupandi, tekur lambið í fang sér, bregður yfirhöfninni utan um það og ber það heim.

JEHÓVA líkir sjálfum sér aftur og aftur við slíkan fjárhirði. Hann segir í Biblíunni: „Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim.“ – Esekíel 34:11, 12.

„Hjörð mín sem ég held í haga“

Hverjir eru í hjörð Jehóva? Í stuttu máli sagt eru það þeir sem elska hann og tilbiðja. Biblían segir: „Föllum fram og tilbiðjum, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum. Því að hann er vor Guð og vér erum gæslulýður hans, hjörðin sem hann gætir.“ (Sálmur 95:6, 7) Tilbiðjendur Jehóva fylgja honum fúslega rétt eins og sauðir elta fjárhirðinn. En eru þeir gallalausir? Nei. Þjónar Guðs hafa stundum verið „á dreif“, ,týndir sauðir‘ og „sem villuráfandi sauðir“. (Esekíel 34:12; Matteus 15:24; 1. Pétursbréf 2:25) En þegar einhver fjarlægist söfnuðinn lítur Jehóva ekki svo á að hann sé horfinn fyrir fullt og allt, heldur vonar innilega að hann snúi aftur.

 Finnst þér enn að Jehóva gæti þín? Hvernig gætir Jehóva hjarðar sinnar nú á dögum? Lítum á þrennt:

Hann nærir trú okkar. Jehóva segir: „Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi ... Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi.“ (Esekíel 34:14) Jehóva hefur alltaf gefið okkur andlega fæðu á réttum tíma og hún er bæði fjölbreytt og næringarrík. Manstu eftir ræðu, grein eða myndbandi sem var eins og svar við bænum þínum? Fannst þér það ekki vera skýrt merki um að Jehóva þætti vænt um þig?

Hann verndar okkur og styður. Jehóva lofar að „sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða“. (Esekíel 34:16) Hann styrkir þá sem eru veikburða eða eru að bugast undan áhyggjum og kvíða. Hann bindur um sár okkar svo að þau grói, jafnvel sár sem trúsystkini hafa valdið. Og hann sækir þá sem hafa hrakist af leið og eru að glíma við neikvæðar tilfinningar.

Hann finnur til ábyrgðar gagnvart okkur. „Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til,“ segir Jehóva. „Ég mun leita þess sem villist.“ (Esekíel 34:12, 16) Jehóva lítur ekki svo á að það sé öll von úti um sauð sem týnist. Hann veit ef vantar sauð í hjörðina. Hann leitar hans og gleðst þegar hann finnur hann. (Matteus 18:12-14) Hann segir við sanna þjóna sína: „Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga.“ (Esekíel 34:31) Þú tilheyrir þessari hjörð.

Jehóva lítur ekki svo á að það sé öll von úti um sauð sem týnist. Hann gleðst þegar hann finnur hann.

„Endurnýja daga vora eins og til forna“

Af hverju leitar Jehóva að þér og hvetur þig til að snúa aftur til sín? Af því að hann vill að þér líði vel. Hann lofar að blessa sauði sína. (Esekíel 34:26) Hann stendur við þetta loforð. Þú hefur kynnst því af eigin raun.

Rifjaðu upp hvernig þér var innanbrjósts þegar þú kynntist Jehóva. Fannst þér ekki stórkostlegt að fá að vita hvað Guð heitir og hvað hann ætlar að gera fyrir mannkynið? Manstu hve hressandi það var að sækja mót og vera innan um trúsystkini? Manstu hvernig þér leið þegar þú komst heim úr boðunarstarfinu eftir að hafa hitt einhvern sem sýndi ósvikinn áhuga? Varstu ekki glaður og ánægður?

Þú getur upplifað þessa gleði aftur. Þjónn Guðs bað endur fyrir löngu: „Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér aftur, endurnýja daga vora eins og til forna.“ (Harmljóðin 5:21) Jehóva svaraði þessari bæn. Fólk hans sneri aftur og þjónaði honum á ný af mikilli gleði. (Nehemíabók 8:17) Jehóva mun gera það sama fyrir þig.

Það er auðvitað hægara sagt en gert að snúa aftur til Jehóva. Lítum nú á nokkrar hindranir sem þarf að yfirstíga og hvernig þú getur farið að því.