Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 18. KAFLI

Hvernig er starfsemi Guðsríkis fjármögnuð?

Hvernig er starfsemi Guðsríkis fjármögnuð?

Í ÞESSUM KAFLA

Hvers vegna styðja þjónar Jehóva starfsemi ríkis hans með fjárframlögum og hvernig?

1, 2. (a) Hvernig svaraði bróðir Russell presti sem langaði til að vita hvernig starfsemi Biblíunemendanna væri háttað? (b) Um hvað er fjallað í þessum kafla?

EINHVERJU sinni kom prestur Siðbótarkirkjunnar að máli við bróður Charles T. Russell og spurði hann hvernig starfsemi Biblíunemendanna væri háttað.

„Við leitum aldrei samskota,“ svaraði bróðir Russell.

„Hvaðan fáið þið þá peninga?“ spurði presturinn.

„Þú átt varla eftir að trúa því ef ég segi þér sannleikann eins og hann er,“ svaraði Russell. „Þegar fólk sækir samkomur hjá okkur er aldrei stungið samskotabauk að því. En það veit að við erum með útgjöld. Það hugsar með sér: Þessi salur kostar eitthvað ... Hvernig get ég lagt eitthvað smávegis af mörkum?“

Presturinn horfði vantrúaður á bróður Russell.

„Ég er einfaldlega að segja þér sannleikann,“ hélt Russell áfram. „Fólk spyr mig beinlínis: ‚Hvernig get ég lagt eitthvað smávegis af mörkum?‘ Þegar einhver nýtur blessunar og getur látið eitthvað af hendi rakna vill hann nota það í þágu Drottins. Ef hann á ekkert hvers vegna ættum við þá að fara fram á það við hann?“ *

2 Bróðir Russell var ‚einfaldlega að segja sannleikann‘. Þjónar Guðs hafa lengi stutt sanna tilbeiðslu með frjálsum framlögum. Í þessum kafla lítum við á nokkur dæmi um það í Biblíunni og úr sögu okkar á síðari tímum. Þegar við skoðum hvernig starfsemi Guðsríkis er fjármögnuð nú á tímum ættum við öll að spyrja okkur hvernig við getum lagt okkar af mörkum.

„Sérhver skal færa Drottni gjöf eftir því sem hjarta hans býður“

3, 4. (a) Hvaða traust ber Jehóva til þeirra sem tilbiðja hann? (b) Hvernig studdu Ísraelsmenn gerð tjaldbúðarinnar?

3 Jehóva ber traust til þeirra sem tilbiðja hann. Hann veit að þeir sýna honum ást sína og hollustu með fúsum framlögum sínum eftir því sem þeir fá tækifæri til. Lítum á tvö dæmi úr sögu Ísraels.

 4 Eftir að Jehóva hafði leitt Ísraelsmenn út úr Egyptalandi sagði hann þeim að gera sér færanlega tjaldbúð þar sem átti að tilbiðja hann. Það þurfti töluverða fjármuni til að gera tjaldbúðina með öllu tilheyrandi. Jehóva sagði Móse að gefa fólkinu tækifæri til að styðja verkefnið með fjármunum sínum. „Sérhver skal færa Drottni gjöf eftir því sem hjarta hans býður honum,“ sagði hann. (2. Mós. 35:5) Hvernig brást þjóðin við sem hafði skömmu áður verið þjökuð vægðarlaust með miklum þrældómi? (2. Mós. 1:14) Hún studdi verkið skilyrðislaust. Fólkið gaf fúslega gull, silfur og önnur verðmæti sem það hafði líklega fengið að mestu leyti hjá Egyptum, fyrrverandi húsbændum sínum. (2. Mós. 12:35, 36) Ísraelsmenn gáfu meira en nóg svo að það þurfti að lokum að biðja þá að hætta að koma með gjafir. – 2. Mós. 36:4-7.

5. Hvernig brugðust Ísraelsmenn við þegar Davíð gaf þeim tækifæri til að leggja fram fjármuni til að reisa musterið?

5 Um 475 árum síðar gaf Davíð af „einkaeign“ sinni til að kosta byggingu musterisins en það var fyrsta varanlega miðstöð sannrar tilbeiðslu á jörð. Síðan gaf hann samlöndum sínum tækifæri til að leggja sitt af mörkum og spurði: „Hver er nú reiðubúinn að færa Drottni gjöf?“ Þjóðin færði Jehóva gjafir sínar „fúslega og af heilum hug“. (1. Kron. 29:3-9) Davíð vissi vel hvaðan þessar gjafir voru upphaflega komnar og sagði í bæn til Jehóva: „Allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér.“ – 1. Kron. 29:14.

6. Hvaða kostnaði þarf ríki Guðs að standa undir og hvaða spurningar vakna?

6 Hvorki Móse né Davíð þurftu að beita þrýstingi til að fá þjóðina til að gefa. Fólkið gaf fjármuni fúslega og af heilum hug. Hvað um okkar daga? Við vitum mætavel að starfsemin, sem ríki Guðs stendur fyrir, kostar sitt. Það þarf töluvert fé til að gefa út Biblíuna og biblíutengd rit og dreifa þeim, byggja samkomuhús og deildarskrifstofur og veita trúsystkinum neyðaraðstoð þegar náttúruhamfarir verða. Það er því eðlilegt að spyrja hvernig við öflum nauðsynlegra fjármuna. Þarf að ýta við fylgjendum konungsins svo að þeir gefi fé?

Við munum „aldrei betla eða biðja menn um stuðning“

7, 8. Hvers vegna afla þjónar Jehóva ekki fjár með því að betla eða biðja um framlög?

7 Bróðir Russell og félagar hans vildu ekki nota þær fjáröflunarleiðir sem tíðkuðust í kirkjum kristna heimsins. Russell sagði í öðru tölublaði Varðturnsins undir yfirskriftinni „Vilt þú ‚Varðturn Síonar‘?“: „Við trúum að JEHÓVA styðji við bakið á ‚Varðturni Síonar‘ og meðan svo er mun blaðið aldrei betla eða biðja menn um stuðning. Þegar hann sem segir: ‚Allt gull og silfur fjallanna er  mitt,‘ hættir að sjá fyrir nægu fé munum við skilja það svo að kominn sé tími til að hætta útgáfu blaðsins.“ (Hag. 2:7-9) Þetta var fyrir meira en 130 árum og Varðturninn og söfnuðurinn, sem gefur hann út, eru enn í fullu fjöri.

8 Þjónar Jehóva betla ekki né biðja um fé. Þeir láta ekki samskotabauka ganga milli manna og senda ekki út bréf til að falast eftir fé. Þeir halda ekki bingó, basara eða tombólur til að afla fjár. Þeir halda sig við það sem sagði í Varðturninum endur fyrir löngu: „Við höfum aldrei talið við hæfi að falast eftir fé til að styðja málstað Drottins eins og algengt er ... Við teljum að það sé móðgandi og ótækt í augum Drottins að afla fjár með ýmiss konar betli í nafni hans, og hann blessi hvorki gefendurna né verkið sem er unnið fyrir féð.“ *

„Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu“

9, 10. Nefndu eina ástæðu fyrir því að við gefum fúslega.

9 Það þarf ekki að þvinga þegna Guðsríkis til að gefa. Þvert á móti fögnum við því að nota fjármuni okkar og eignir til að styðja starfsemi Guðsríkis. Hvers vegna erum við svona fús til að láta eitthvað af hendi rakna? Lítum á þrjár ástæður fyrir því.

10 Í fyrsta lagi gefum við fúslega vegna þess að við elskum Jehóva og okkur langar til að gera „það sem honum er þóknanlegt“. (1. Jóh. 3:22) Jehóva er ánægður þegar þjónar hans gefa af fúsu geði. Lítum á það sem Páll postuli skrifaði um gjafmildi kristinna manna. (Lestu 2. Korintubréf 9:7.) Það þarf ekki að þvinga sannkristinn mann til að gefa og hann gefur ekki með ólund. Hann gefur vegna þess að hann hefur „ásett sér í hjarta sínu“ að gera það. * Hann gefur eftir að hafa velt fyrir sér ákveðinni þörf og íhugað hvernig hann geti lagt sitt af mörkum. Jehóva þykir vænt um slíkan þjón sinn því að hann „elskar glaðan gjafara“. Í annarri biblíuþýðingu segir: „Guð elskar fólk sem hefur yndi af að gefa.“

Börnin í Mósambík hafa líka ánægju af því að gefa.

11. Hvað er okkur hvatning til að gefa Jehóva það besta sem við getum?

11 Í öðru lagi getum við gefið til að þakka Jehóva alla þá blessun sem hann hefur veitt okkur. Lítum á meginreglu í Móselögunum sem ætti að vera okkur hvatning til að skoða hjarta okkar. (Lestu 5. Mósebók 16:16, 17.) Þegar karlmenn í Ísrael sóttu hátíðirnar þrjár á hverju ári átti hver og einn að koma með gjöf „í samræmi við þá blessun“ sem Jehóva hafði veitt honum. Áður en hátíð hófst átti hver karlmaður að velta fyrir sér hvernig Jehóva hefði blessað hann, skoða hug sinn og ákveða síðan hver væri besta gjöfin sem hann gæti fært honum. Þegar við íhugum á hve  marga vegu Jehóva hefur blessað okkur finnum við líka löngun hjá okkur til að gefa honum eins góða gjöf og við getum. Þegar við gefum af heilum hug, meðal annars af fjármunum okkar, látum við í ljós hve mikils við metum blessunina sem Jehóva hefur veitt okkur. – 2. Kor. 8:12-15.

12, 13. Hvernig vitna framlög okkar um að við elskum konunginn og hve mikið gefur hver og einn?

12 Í þriðja lagi sýnum við að við elskum konunginn Jesú Krist með því að gefa fúslega. Hvernig þá? Mundu hvað Jesús sagði lærisveinunum síðasta kvöldið sem hann var maður á jörð. (Lestu Jóhannes 14:23.) „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð,“ sagði hann. „Orð“ Jesú er meðal annars þau fyrirmæli hans að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Við varðveitum þetta „orð“ með því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja boðun fagnaðarerindisins, og nota tíma okkar, krafta og fjármuni til þess. Þannig sýnum við að við elskum konung okkar og Messías.

 13 Við erum dyggir þegnar Guðsríkis og þráum af öllu hjarta að veita því stuðning okkar með fjárframlögum. Hve mikið leggjum við af mörkum? Það ákveðum við sjálf. Hver og einn gefur eins og hann hefur tök á. En mörg af trúsystkinum okkar hafa lítið handa á milli. (Matt. 19:23, 24; Jak. 2:5) Það er hughreystandi fyrir þau að vita að Jehóva og sonur hans kunna að meta smá framlög sem eru gefin af heilum hug og hjarta. – Mark. 12:41-44.

Hvernig berst féð?

14. Hvað fóru vottar Jehóva fram á áratugum saman þegar þeir dreifðu ritum?

14 Áratugum saman dreifðu vottar Jehóva biblíutengdum ritum gegn framlagi. Upphæðin, sem óskað var eftir, var höfð eins lág og hægt var til að jafnvel þeir sem hefðu lítil fjárráð gætu fengið rit í hendur. Ef húsráðandi virtist hafa áhuga en hafði ekki efni á að láta neitt af hendi rakna voru boðberar auðvitað meira en fúsir til að skilja ritin eftir án endurgjalds. Þeir vildu umfram allt koma þeim í hendur einlægs fólks sem gat lesið þau og haft gagn af.

15, 16. (a) Hvaða breytingu fór hið stjórnandi ráð af stað með árið 1990? (b) Hvernig er hægt að gefa frjáls framlög? (Sjá einnig yfirlitið „ Hvernig eru framlögin notuð?“)

15 Árið 1990 hófst hið stjórnandi ráð handa við að breyta þessu fyrirkomulagi. Í Bandaríkjunum var farið að bjóða öll rit gegn frjálsu framlagi það ár. Í bréfi til allra safnaða þar í landi stóð: „Boðberar og fólk almennt, sem sýnir áhuga, getur fengið tímarit og önnur rit án þess að óskað sé eftir ákveðnu framlagi eða það sé einu sinni gefið í skyn að það sé skilyrði fyrir því að fá rit í hendur ... Þeir sem vilja gefa framlag til að taka þátt í kostnaðinum við fræðslustarf okkar mega gera það, en þeir geta fengið rit frá okkur hvort sem þeir gefa framlag eða ekki.“ Með þessu fyrirkomulagi var lögð áhersla á að starfsemi okkar væri trúarlegs eðlis og unnin í sjálfboðavinnu, og einnig að við ‚prönguðum ekki með orð Guðs‘. (2. Kor. 2:17) Þegar fram liðu stundir var þessu kerfi komið á hjá deildarskrifstofum út um allan heim.

16 Hvernig er hægt að gefa frjáls framlög? Í ríkissölum Votta Jehóva er að finna látlausa bauka undir framlög. Hver og einn getur lagt framlag sitt í þessa bauka eða sent það beint til einhvers af þeim lögaðilum sem Vottar Jehóva starfrækja. Ár hvert birtist grein í Varðturninum þar sem útlistað er hvernig hægt sé að gefa frjáls framlög.

Hvernig er féð notað?

17-19. Hvernig eru framlög notuð (a) til stuðnings alþjóðastarfinu, (b) til að byggja ríkissali um heim allan og (c) til að standa straum af útgjöldum heimasafnaðarins?

17 Alþjóðastarfið. Fjármagn er notað til að standa undir boðun fagnaðarerindisins út um allan heim. Það kostar  sitt að gefa út rit sem er dreift um heim allan, að byggja deildarskrifstofur og Betelheimili og viðhalda þeim, og starfrækja ýmsa skóla á vegum safnaðarins. Auk þess er séð fyrir trúboðum, farandumsjónarmönnum og sérbrautryðjendum. Framlög okkar eru einnig notuð til að veita trúsystkinum neyðaraðstoð eftir náttúruhamfarir. *

18 Bygging ríkissala um heim allan. Söfnuðir geta fengið fjárhagslega aðstoð til að reisa nýjan ríkissal eða gera upp eldra húsnæði. Eftir því sem framlög berast er hægt að veita fé til að aðstoða aðra söfnuði. *

19 Útgjöld heimasafnaðarins. Framlög til safnaðarins eru notuð til að standa straum af rekstri og viðhaldi ríkissalarins. Öldungarnir geta mælt með að framlag sé sent til deildarskrifstofunnar til stuðnings alþjóðastarfinu. Ef svo er leggja öldungarnir tillögu um það fyrir söfnuðinn. Framlagið er síðan sent ef tillagan er samþykkt. Bróðirinn, sem sér um bókhald safnaðarins, gerir skýrslu um fjármálin í hverjum mánuði og hún er lesin fyrir söfnuðinn.

20. Hvernig geturðu ‚tignað Jehóva með eigum þínum‘?

20 Okkur langar til að ‚tigna Jehóva með eigum okkar‘ þegar við hugsum til alls sem gert er til að boða fagnaðarerindið um ríkið um allan heim og gera fólk að lærisveinum. (Orðskv. 3:9, 10) Eigur okkar eru meðal annars trúin sem við berum í brjósti, ásamt andlegu og líkamlegu atgervi okkar. Við viljum auðvitað nota það sem við búum yfir eins vel og við getum í þjónustu Guðsríkis. En munum að við getum líka notað efnislegar eigur okkar til að tigna Jehóva. Við skulum vera ákveðin í að gefa það sem við getum þegar við getum. Þegar við gefum af fúsu geði heiðrum við Jehóva og sýnum að við styðjum ríki Messíasar.

^ gr. 1 Varðturninn, 15. júlí 1915, bls. 218-219.

^ gr. 8 Varðturninn, 1. ágúst 1899, bls. 201.

^ gr. 10 Fræðimaður segir að gríska orðið, sem er þýtt „ásett sér“, feli í sér þá hugmynd að „vera fyrir fram ákveðinn“. Hann bætir við: „Þó að það gleðji mann ósjálfrátt að gefa ætti að gera það reglubundið og skipulega.“ – 1. Kor. 16:2.

^ gr. 17 Nánari upplýsingar um hjálparstarf er að finna í 20. kafla.

^ gr. 18 Nánari upplýsingar um byggingu ríkissala er að finna í 19. kafla.