Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 20. KAFLI

Hjálparstarf sem er Jehóva til heiðurs

Hjálparstarf sem er Jehóva til heiðurs

Í ÞESSUM KAFLA

Kristinn kærleikur að verki á neyðarstund.

1, 2. (a) Í hvaða þrengingum lentu kristnir menn í Júdeu? (b) Hvernig sýndu trúsystkini annars staðar þeim kærleika?

HUNGURSNEYÐ varð í Júdeu um árið 46 e.Kr. Korn er af skornum skammti og verðið hefur rokið upp úr öllu valdi. Lærisveinar Krists í Júdeu, sem eru Gyðingar, hafa ekki efni á að kaupa sér til matar. Þeir svelta heilu hungri. En þeir eiga eftir að finna fyrir verndarhendi Jehóva með nýjum og öðrum hætti en lærisveinar Krists hafa þekkt hingað til. Hvað gerist?

2 Kristna menn í Antíokkíu í Sýrlandi, bæði af gyðinglegum uppruna og öðrum, langar til að liðsinna bágstöddum kristnum Gyðingum í Jerúsalem og Júdeu. Þeir safna fé þeim til hjálpar og velja síðan tvo ábyrga bræður úr hópnum, þá Barnabas og Sál, til að færa öldungum safnaðarins í Jerúsalem féð. (Lestu Postulasöguna 11:27-30; 12:25.) Þú getur rétt ímyndað þér hve snortin þurfandi bræður og systur í Júdeu hafa verið af þessu kærleiksverki trúsystkina sinna í Antíokkíu.

3. (a) Hvernig líkja þjónar Guðs á okkar dögum eftir frumkristnum mönnum í Antíokkíu? Nefndu dæmi. (Sjá einnig greinina „ Fyrsta meiri háttar neyðaraðstoð okkar á síðari tímum“.) (b) Við hvaða spurningum er leitað svara í þessum kafla?

3 Þetta hjálparstarf, sem átti sér stað á fyrstu öld, er elsta þekkta dæmið um að kristnir menn í einum heimshluta hafi sent trúsystkinum annars staðar í heiminum hjálpargögn. Við tökum okkur bræður og systur í Antíokkíu til fyrirmyndar. Þegar við fréttum að trúsystkini okkar annars staðar hafi orðið illa úti af völdum náttúruhamfara eða annarra orsaka komum við þeim til hjálpar. * Til að átta okkur á hvernig hjálparstarf okkar tengist annarri starfsemi sem við höfum með höndum skulum við leita svara við þrem spurningum: Hvers vegna lítum við á hjálparstarf sem þátt í þjónustu okkar við Guð? Hvaða markmið höfum við með hjálparstarfi okkar? Hvernig er hjálparstarfið sjálfum okkur til góðs?

Hjálparstarf er heilög þjónusta

4. Hvað sagði Páll söfnuðinum í Korintu um þjónustu kristinna manna?

4 Í síðara bréfinu til safnaðarins í Korintu sýnir Páll fram á að kristnir menn hafi tvíþætta þjónustu með höndum. Þó  að bréfið hafi verið ætlað hinum andasmurðu eiga orð Páls einnig við ‚aðra sauði‘ Krists nú á dögum. (Jóh. 10:16) Annar þáttur þjónustunnar er ‚þjónusta sáttargerðarinnar‘, það er að segja boðunin og kennslan. (2. Kor. 5:18-20; 1. Tím. 2:3-6) Hinn þátturinn er þjónusta sem við veitum trúsystkinum. Páll nefnir sérstaklega ,samskot til hinna heilögu‘ eða þjónustu í þágu þeirra eins og það er orðað í frummálinu. (2. Kor. 8:4) Þegar talað er um „þjónustu sáttargerðarinnar“ og þjónustu í þágu hinna heilögu er í báðum tilvikum notuð beygingarmynd gríska orðsins diakoniʹa. Hvaða þýðingu hefur það?

5. Hvaða þýðingu hefur það að Páll skuli tala um hjálparstarf sem þjónustu?

5 Með því að nota sama gríska orðið til að lýsa þessu tvennu flokkar Páll hjálparstarf með annarri þjónustu sem fram fór í kristna söfnuðinum. Hann hafði áður sagt: „Mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami. Mismunur er á framkvæmdum ... Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar.“ (1. Kor. 12:4-6, 11) Páll talar um að hin ýmsu þjónustustörf í söfnuðinum séu þáttur í guðsdýrkun okkar og heilagri þjónustu. * (Rómv. 12:1, 6-8) Það er ósköp eðlilegt að hann skyldi telja það viðeigandi að nota tíma sinn að hluta til til að „færa hjálp hinum heilögu“. – Rómv. 15:25, 26.

6. (a) Hvernig rökstyður Páll að hjálparstarf sé þáttur í tilbeiðslu okkar? (b) Lýstu hvernig hjálparstarfi okkar í heiminum er háttað. (Sjá yfirlitið „ Þegar neyðarástand skapast“ á bls. 214.)

6 Páll sýndi kristnum mönnum í Korintu fram á hvers vegna hjálparstarf væri þáttur í þjónustu þeirra og tilbeiðslu á Jehóva. Hann rökstyður það þannig: Kristnir menn, sem vinna að hjálparstarfi, gera það vegna þess að þeir ‚fara eftir fagnaðarerindi Krists‘. (2. Kor. 9:13) Þeir hjálpa trúsystkinum vegna þess að þá langar til að breyta í samræmi við kenningar Krists. Páll segir að góðverk þeirra í þágu trúsystkina sinna séu í rauninni merki þess „hve ríkulega Guð hefur veitt [þeim] náð sína“. (2. Kor. 9:14; 1. Pét. 4:10) Í Varðturninum 1. desember 1975 var rætt um aðstoð við nauðstödd trúsystkini en hún er meðal annars fólgin í hjálparstarfi. Þar sagði réttilega: „Við skulum aldrei efast um að þess konar þjónusta er afar mikilvæg í augum Jehóva Guðs og sonar hans, Jesú Krists.“ Já, hjálparstarf er mikilvægur þáttur heilagrar þjónustu. – Rómv. 12:1, 7; 2. Kor. 8:7; Hebr. 13:16.

Hjálparstarf með skýr markmið

7, 8. Hvert er fyrsta markmiðið með hjálparstarfi okkar? Skýrðu svarið.

7 Hvaða markmið höfum við með hjálparstarfi okkar? Páll ræðir um það í síðara bréfinu til safnaðarins í Korintu. (Lestu 2. Korintubréf 9:11-15.) Í þessum versum bendir hann á þrjú meginmarkmið sem við náum með þeirri þjónustu sem við innum af hendi, það er að segja hjálparstarfinu. Skoðum þessi markmið hvert um sig.

 8 Í fyrsta lagi er hjálparstarf okkar Jehóva til lofs. Taktu eftir hve oft Páll vekur athygli trúsystkina sinna á Jehóva Guði í þessum fimm versum sem vitnað er í hér að ofan. Hann minnir þá tvívegis á að ‚margir þakki Guði‘. (Vers 11, 12) Hann nefnir að hjálparstarfið verði til þess að kristnir menn ‚lofi Guð‘ og ‚sjái hve ríkulega Guð hafi veitt þeim náð sína‘. (Vers 13, 14) Og hann lýkur máli sínu um hjálparstarfið með orðunum: „Þökk sé Guði.“ – Vers 15; 1. Pét. 4:11.

9. Hvernig getur hjálparstarf okkar breytt afstöðu fólks? Nefndu dæmi.

9 Þjónar Jehóva nú á tímum líta á hjálparstarf sem tækifæri til að heiðra Jehóva og prýða kenningu hans, rétt eins og Páll gerði. (1. Kor. 10:31; Tít. 2:10) Hjálparstarf á oft töluverðan þátt í að eyða neikvæðni gagnvart Jehóva og vottum hans. Nefnum dæmi: Á svæði þar sem fellibylur hafði gengið yfir bjó kona sem hafði sett miða á hurðina hjá sér til að afþakka heimsóknir votta Jehóva. Dag nokkurn sá hún hjálparstarfsmenn vera að lagfæra hús handan götunnar. Dögum saman fylgdist hún með þessu vingjarnlega fólki og ákvað loks að spyrja hverjir þetta væru. Hún var steinhissa þegar hún uppgötvaði að sjálfboðaliðarnir voru vottar Jehóva. „Ég hef haft ykkur fyrir rangri sök,“ sagði hún. Þetta varð til þess að hún tók miðann af hurðinni.

10, 11. (a) Hvaða dæmi sýna að við náum öðru markmiðinu með hjálparstarfi okkar? (b) Hvaða rit auðveldar hjálparstarfsmönnum verkið? (Sjá greinina „ Hjálpargagn handa hjálparstarfsmönnum“.)

10 Í öðru lagi ‚bætum við úr skorti‘ trúsystkina okkar. (2. Kor. 9:12a) Okkur langar til að fullnægja brýnustu þörfum bræðra okkar og systra og lina þjáningar þeirra eftir bestu getu. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem tilheyra kristna söfnuðinum mynda ‚einn líkama‘ og ef „einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum“. (1. Kor. 12:20, 26) Slík er bróðurástin og umhyggjan að fjöldi bræðra og systra er reiðubúinn að henda öllu frá sér fyrirvaralaust, sækja verkfærin sín og hraða sér á hamfarasvæði til að liðsinna trúsystkinum. (Jak. 2:15, 16) Skjálftaflóðbylgja skall á Japan árið 2011. Í framhaldi af því sendi deildarskrifstofan í Bandaríkjunum bréf til svæðisbyggingarnefnda þar í landi og spurði hvort „fáeinir færir vottar“ væru tiltækir til að aðstoða við að endurbyggja ríkissali í Japan. Hver voru viðbrögðin? Á fáeinum vikum sóttu næstum 600 sjálfboðaliðar um að fá að hjálpa og lýstu sig reiðubúna að fljúga til Japans á eigin kostnað. „Viðbrögðin eru framar öllum vonum,“ segir í bréfi frá deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum. Þegar bróðir í Japan spurði hjálparstarfsmann hvers vegna hann hefði komið frá útlöndum til að hjálpa var svarið: „Trúsystkini okkar í Japan eru hluti af ‚líkama okkar‘. Við finnum fyrir sársauka þeirra og þjáningum.“ Hjálparstarfsmenn hafa stundum sett sig í lífshættu til að aðstoða trúsystkini sín. Það er fórnfús kærleikur sem býr að baki. * – 1. Jóh. 3:16.

 11 Fólk utan safnaðarins hefur líka farið jákvæðum orðum um hjálparstarf okkar. Í kjölfar náttúruhamfara í Arkansas í Bandaríkjunum árið 2013 sagði dagblað nokkurt um skjót viðbrögð sjálfboðaliða Votta Jehóva: „Sjálfboðasveitir Votta Jehóva eru listilega vel skipulagðar og geta brugðist fljótt og fagmannlega við þegar náttúruhamfarir verða.“ Eins og Páll postuli komst að orði leggjum við okkur vel fram við að ‚bæta úr skorti‘ trúsystkina okkar.

12-14. (a) Hvers vegna er mjög mikilvægt að ná þriðja markmiði hjálparstarfsins? (b) Hvaða ummæli sýna fram á mikilvægi þess að halda áfram að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur?

12 Í þriðja lagi hjálpum við nauðstöddum að koma reglu á þjónustuna við Jehóva. Hvers vegna er það mikilvægt? Páll segir að þeir sem fái neyðaraðstoð finni hjá sér sterka löngun til að ‚þakka Guði‘. (2. Kor. 9:12b) Er hægt að hugsa sér betri leið fyrir nauðstadda til að þakka Jehóva en að koma reglu á þjónustuna við hann eins fljótt og hægt er? (Fil. 1:10) Árið 1945 stóð eftirfarandi í Varðturninum: „Páll samþykkti ... að safnað væri framlögum vegna þess að þau léttu undir með ... þurfandi trúsystkinum þeirra svo að þau höfðu meira svigrúm og krafta til að vitna um Jehóva.“ Markmið okkar er enn hið sama. Trúsystkini okkar styrkja bæði bágstadda nágranna sína og sjálfa sig með því að komast aftur í boðunarstarfið. – Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.

13 Hvað segja þeir sem hafa notið góðs af neyðaraðstoð, byrjað að boða fagnaðarerindið á ný og fengið styrk af því? „Það var fjölskyldunni til blessunar að fara í boðunarstarfið,“ segir bróðir. „Þegar við reyndum að hughreysta aðra fengum við stundarfrið fyrir okkar eigin áhyggjum.“ Systir sagði: „Ég hætti að hugsa um eyðilegginguna í kringum mig meðan ég einbeitti mér að boðuninni. Það veitti mér vissa öryggiskennd.“ Önnur systir sagði eftirfarandi: „Það var margt sem við fengum engu um ráðið en boðunin veitti okkur fjölskyldunni ákveðna stefnu í tilverunni. Með því að segja fólki frá voninni um nýja heiminn styrktum við sannfæringu sjálfra okkar um að Guð geri alla hluti nýja.“

14 Það er einnig mikilvægt fyrir bræður og systur á hamfarasvæðum að byrja að sækja samkomur aftur sem allra fyrst. Kiyoko var tæplega sextug þegar hún missti allar eigur sínar í skjálftaflóðbylgju. Hún átti ekkert nema ilskóna og fötin sem hún stóð í og hafði ekki hugmynd um hvað tæki við. Öldungur sagði henni þá að þau myndu halda samkomu í bílnum hans. „Við vorum tvær systur í bílnum ásamt öldungi og konunni hans,“ segir Kiyoko. „Samkoman var einföld en eins og fyrir kraftaverk gleymdi ég flóðbylgjunni. Ég fann fyrir innri ró. Þetta sýndi mér fram á hve samkomurnar eru áhrifamiklar.“ Önnur systir sagði um  samkomur sem hún sótti eftir að náttúruhamfarir höfðu gengið yfir: „Þær voru haldreipi mitt.“ – Rómv. 1:11, 12; 12:12.

Hjálparstarf hefur varanleg áhrif

15, 16. (a) Hvaða áhrif hafði það á kristna menn í Korintu og annars staðar að styðja hjálparstarf? (b) Hvaða jákvæðu áhrif hefur hjálparstarf nú á dögum?

15 Þegar Páll ræðir um hjálparstarfið skýrir hann einnig fyrir söfnuðinum í Korintu hve jákvæð áhrif það hafi á þá og aðra þjóna Guðs að taka þátt í því. Hann segir: „Þeir [kristnir Gyðingar í Jerúsalem sem fengu aðstoðina] munu biðja fyrir ykkur og þrá ykkur vegna þess að þeir sjá hve ríkulega Guð hefur veitt ykkur náð sína.“ (2. Kor. 9:14) Örlæti kristinna manna í Korintu, sem voru sumir af heiðnum uppruna, varð til þess að kristnir Gyðingar í Jerúsalem báðu fyrir þeim og það styrkti kærleiksböndin milli þeirra.

16 Í Varðturninum 1. desember 1945 var rætt um það sem Páll skrifaði um hjálparstarf og bent á þau jákvæðu áhrif sem það hefði. Þar stóð: „Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það styrkir eininguna þegar einn hópur vígðra þjóna Guðs lætur eitthvað af hendi rakna til að fullnægja þörfum annars hóps.“ Hjálparstarfsmenn finna greinilega fyrir því. „Mér fannst ég verða nánari trúsystkinum mínum en nokkru sinni fyrr,“ segir öldungur sem aðstoðaði við hjálparstarf í kjölfar flóða. Þakklát systir, sem fékk aðstoð, orðaði það þannig: „Bræðralag okkar er það næsta sem við komumst paradís á jörð.“ – Lestu Orðskviðina 17:17.

17. (a) Hvernig má heimfæra Jesaja 41:13 upp á hjálparstarf? (b) Nefndu dæmi sem sýna að hjálparstarf er Jehóva til heiðurs og styrkir einingu okkar. (Sjá einnig greinina „ Sjálfboðaliðar um heim allan veita neyðaraðstoð“.)

 17 Þegar hjálparstarfsmenn koma á hamfarasvæði kynnast nauðstödd trúsystkini okkar á sérstakan hátt hvernig Jehóva stendur við loforð sitt: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ (Jes. 41:13) Systir nokkur sagði eftir náttúruhamfarir: „Ég fylltist vonleysi þegar ég horfði upp á eyðilegginguna en Jehóva rétti út hönd sína. Hjálpin, sem ég fékk frá bræðrunum, er ólýsanleg.“ Tveir öldungar töluðu fyrir munn safnaða á svæðinu þar sem þeir starfa en það varð illa úti í jarðskjálfta: „Skjálftinn olli miklum þjáningum en við fundum fyrir hjálpinni sem Jehóva veitir fyrir milligöngu bræðra okkar. Við höfðum lesið um hjálparstarf en nú sáum við það í verki með eigin augum.“

Getur þú lagt hönd á plóginn?

18. Hvað geturðu gert ef þig langar til að taka þátt í hjálparstarfi? (Sjá einnig greinina „ Það mótaði lífsstefnu hans“.)

18 Langar þig til að kynnast gleðinni sem fylgir hjálparstarfi? Ef svo er skaltu hafa í huga að hjálparstarfsmenn eru oft valdir úr hópi þeirra sem vinna við byggingu ríkissala. Láttu öldungana í söfnuðinum þínum vita að þig langi til að fylla út umsókn. Öldungur með mikla reynslu af hjálparstarfi bendir á eftirfarandi: „Farðu ekki á hamfarasvæðið fyrr en þú hefur fengið formlegt boð um það frá hjálparstarfsnefndinni.“ Það stuðlar að því að hjálparstarf okkar gangi skipulega fyrir sig.

19. Hvernig eiga hjálparstarfsmenn þátt í að sýna fram á að við séum lærisveinar Krists í raun og sannleika?

19 Hjálparstarf er einstök leið til að sýna að við elskum hvert annað eins og Kristur sagði okkur að gera. Slíkur kærleikur er merki þess að við séum í raun og sannleika lærisveinar Krists. (Jóh. 13:34, 35) Það er mikil blessun að eiga að ótal fúsa verkamenn sem heiðra Jehóva með því að veita dyggum þegnum ríkis hans neyðaraðstoð þegar þörf krefur.

^ gr. 3 Í þessum kafla er rætt um hjálparstarf í þágu trúsystkina okkar. Oft og tíðum njóta þó fleiri góðs af hjálparstarfi okkar. – Gal. 6:10.

^ gr. 5 Páll notar fleirtölumynd orðsins diaʹkonos (þjónn) þegar hann talar um „safnaðarþjóna“. – 1. Tím. 3:12, New World Translation.

^ gr. 10 Sjá greinina „Aiding Our Family of Believers in Bosnia“ (Hjálp handa trúsystkinum okkar í Bosníu) í Varðturninum 1. nóvember 1994, bls. 23-27.