Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 14. KAFLI

Þeir styðja stjórn Guðs og enga aðra

Þeir styðja stjórn Guðs og enga aðra

Í ÞESSUM KAFLA

Þjónar Guðs sýna ríki hans hollustu. Þess vegna tilheyra þeir ekki heiminum.

1, 2. (a) Hvaða meginreglu hafa fylgjendur Jesú haft að leiðarljósi allt fram á þennan dag? (b) Hvernig hafa óvinir reynt að sigra okkur og hvernig hefur þeim tekist til?

JESÚS stóð frammi fyrir Pílatusi, voldugasta dómara Gyðingaþjóðarinnar í veraldlegum málum. Þar setti hann fram meginreglu sem sannir fylgjendur hans hafa haft að leiðarljósi æ síðan. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ sagði hann. „Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóh. 18:36) Pílatus lét taka Jesú af lífi en sigurinn var skammvinnur því að Jesús var reistur upp frá dauðum. Keisarar hins volduga Rómaveldis reyndu að útrýma fylgjendum hans en höfðu ekki erindi sem erfiði. Kristnir menn breiddu boðskapinn um ríkið út um heim fornaldar. – Kól. 1:23.

2 Eftir að ríki Guðs var stofnsett árið 1914 reyndu sum voldugustu herveldi sögunnar að útrýma þjónum Guðs. En engum hefur tekist að sigra okkur. Margar ríkisstjórnir og pólitískar hreyfingar hafa reynt að þvinga okkur til að styðja sig í átökum. En þeim hefur ekki tekist að sundra okkur. Þegnar ríkis Guðs búa nánast meðal allra þjóða heims. Engu að síður erum við sameinuð og myndum ósvikið bræðralag sem er óháð landamærum. Við erum algerlega hlutlaus í stjórnmálum heimsins. Eining okkar sannar svo ekki verður um villst að ríki Guðs er við völd og að konungurinn Jesús Kristur leiðir þegna sína, fágar þá og verndar. Hvernig hefur hann gert það? Við skulum kynna okkur nokkra af þeim sigrum sem hann hefur veitt okkur á vettvangi laga og réttar og kanna hvernig hann hefur hjálpað okkur að tilheyra ekki heiminum. – Jóh. 17:14.

Það reynir á afstöðu okkar í mikilvægu máli

3, 4. (a) Hvað gerðist um það leyti sem ríki Guðs tók til starfa? (b) Hafa þjónar Guðs alltaf skilið til fulls hvað felst í hlutleysi? Skýrðu svarið.

3 Eftir að ríki Guðs tók til starfa braust út stríð á himni og Satan var kastað niður til jarðar. (Lestu Opinberunarbókina 12:7-10, 12.) Stríð geisaði einnig á jörð og það  reyndi á staðfestu þjóna Guðs. Þeir voru ákveðnir í að líkja eftir Jesú og tilheyra ekki heiminum. En í fyrstu skildu þeir ekki fyllilega hvað það útheimti af þeim að halda sig utan við stjórnmál að öllu leyti.

4 Sem dæmi má nefna sjötta bindið í bókaröðinni Millennial Dawn * sem kom út árið 1904. Þar voru kristnir menn hvattir til að taka ekki þátt í stríði. Hins vegar voru leidd rök að því að ef kristinn maður væri kallaður í herinn ætti hann að reyna að fá að vinna einhver störf þar sem hann þyrfti ekki að bera vopn. Ef það tækist ekki og hann væri sendur í bardaga ætti hann að gæta þess vel að fremja ekki morð. Herbert Senior bjó í Bretlandi og lét skírast árið 1905. Hann lýsti ástandinu á þeim tíma og sagði: „Bræður voru ráðvilltir og það voru engar skýrar leiðbeiningar gefnar um það hvort það væri í lagi að ganga í herinn að því tilskildu að maður bæri ekki vopn.“

5. Hvernig var byrjað að varpa skýrara ljósi á hlutleysi í Varðturninum 1. september 1915?

5 Í Varðturninum 1. september 1915 var byrjað að varpa skýrara ljósi á þetta mál. Um leiðbeiningarnar, sem gefnar voru í Studies in the Scriptures, sagði: „Okkur er spurn hvort þessi stefna sé ekki tilslökun frá meginreglum kristninnar.“ En hvað nú ef kristnum manni væri hótað að hann yrði skotinn ef hann neitaði að klæðast hermannabúningi og gegna herþjónustu? Í greininni sagði: „Væri nokkuð verra að vera skotinn fyrir að vera trúr Friðarhöfðingjanum og fyrir að neita að óhlýðnast skipun hans, en að vera skotinn í þjónustu þessara jarðnesku konunga og virðast hafa stutt þá, eða virðast að minnsta kosti hafa farið á svig við kenningar konungsins á himnum? Af þessu tvennu myndum við kjósa fyrri kostinn – að deyja vegna þess að við vorum trú konungi okkar á himnum.“ Þrátt fyrir þessi beinskeyttu orð sagði að lokum í greininni: „Við erum ekki að hvetja til þessa. Þetta er aðeins tillaga.“

6. Hvað má læra af bróður Herbert Senior?

6 Sumir af bræðrunum sáu málið í skýru ljósi og tóku ákveðna afstöðu. Herbert Senior, sem áður er vitnað til, sagði: „Ég sá engan grundvallarmun á því að skipa upp skothylkjum [gegna herþjónustu en bera ekki vopn] og hlaða byssu með skothylkjunum til að skjóta þeim.“ (Lúk. 16:10) Herberti var varpað í fangelsi fyrir að neita af samviskuástæðum að gegna herþjónustu. Hann og 4 aðrir bræður tilheyrðu hópi 16 samviskufanga sem sátu um tíma í Richmond-fangelsinu í Bretlandi. Þeir tilheyrðu ýmsum trúfélögum og urðu síðar þekktir sem fangarnir sextán í Richmond. Einu sinni voru Herbert og fleiri í hópnum sendir með leynd til víglínunnar í Frakklandi. Þar voru þeir dæmdir til dauða og stillt upp frammi fyrir aftökusveit.  Þeir voru þó ekki skotnir heldur var dómnum breytt í tíu ára fangelsi.

„Ég skildi að þjónar Guðs áttu að stunda frið við alla, jafnvel þegar stríð væri yfirvofandi.“ – Simon Kraker (Sjá grein 7.)

7. Hver var staðan hjá þjónum Guðs við upphaf síðari heimsstyrjaldar?

7 Um það leyti sem síðari heimsstyrjöldin braust út höfðu þjónar Jehóva sem heild fengið mun skýrari mynd af því hvað það þýddi að vera hlutlaus og hvað þeir þurftu að gera til að líkja eftir Jesú. (Matt. 26:51-53; Jóh. 17:14-16; 1. Pét. 2:21) Í Varðturninum 1. nóvember 1939 birtist til dæmis tímamótagrein sem hét „Hlutleysi“. Þar sagði: „Sáttmálaþjóð Jehóva þarf nú að fylgja þeirri reglu að vera algerlega hlutlaus gagnvart þjóðunum sem eiga í stríði.“ Simon Kraker, sem starfaði síðar við aðalstöðvarnar í Brooklyn í New York, sagði um þessa grein: „Ég skildi að þjónar Guðs áttu að stunda frið við alla, jafnvel þegar stríð væri yfirvofandi.“ Þessi andlega fæða kom á réttum tíma. Það átti eftir að reyna meira en nokkru sinni fyrr á hollustu þjóna Guðs við ríki hans, og greinin bjó þá undir það.

Flóðbylgja ofsókna

8, 9. Hvernig rættist spádómur Jóhannesar postula?

8 Jóhannes postuli spáði að drekinn, Satan djöfullinn, myndi reyna að útrýma stuðningsmönnum Guðsríkis eftir  að það tæki til starfa árið 1914. Hann myndi spúa úr munni sér táknrænu flóði, samkvæmt spádómi Jóhannesar. * (Lestu Opinberunarbókina 12:9, 15.) Hvernig rættist spádómurinn? Upp úr 1920 hófust miklar ofsóknir á hendur þjónum Guðs. Simoni Kraker var varpað í fangelsi vegna hollustu sinnar við ríki Guðs, rétt eins og fjölda annarra bræðra í Norður-Ameríku á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Á stríðsárunum voru vottar Jehóva meira en tveir þriðju allra fanga sem sátu í alríkisfangelsum í Bandaríkjunum vegna trúarlegrar afstöðu til stríðsins.

9 Satan og handbendi hans ætluðu sér að þvinga þegna Guðsríkis til að láta undan, hvar í heimi sem þeir byggju. Í Afríku, Evrópu og Bandaríkjunum voru þeir leiddir fyrir dómstóla og úrskurðarnefndir um reynslulausn. En hlutleysi þeirra varð ekki haggað og fyrir vikið máttu þeir sæta fangavist, barsmíðum og misþyrmingum. Í Þýskalandi voru þjónar Guðs beittir gríðarlegri hörku af því að þeir neituðu að heilsa með hitlerskveðju og leggja stríðinu lið. Talið er að 6.000 vottar hafi verið í haldi í fangabúðum á valdatíma nasista og meira en 1.600 vottar af þýsku þjóðerni og öðrum þjóðernum hafi dáið fyrir hendi kvalara sinna. Satan tókst þó ekki að vinna þjónum Guðs varanlegt tjón. – Mark. 8:34, 35.

‚Jörðin svelgir vatnsflóðið‘

10. Hvað táknar „jörðin“ og hvernig hefur hún komið þjónum Guðs til varnar?

10 Í spádómi Jóhannesar postula kemur fram að „jörðin“ svelgi „vatnsflóðið“. Það merkir að sanngjarnar valdastofnanir þessa heims komi þjónum Guðs til hjálpar og létti á ofsóknunum. Hvernig hefur þessi hluti spádómsins ræst? Á þeim áratugum, sem eru liðnir frá síðari heimsstyrjöldinni, hefur „jörðin“ oft komið dyggum stuðningsmönnum Guðsríkis til varnar. (Lestu Opinberunarbókina 12:16.) Áhrifamiklir dómstólar hafa til dæmis varið rétt votta Jehóva til að gegna ekki herþjónustu og til að taka ekki þátt í þjóðernislegum athöfnum. Lítum fyrst á nokkra mikilvæga sigra sem Jehóva hefur veitt þjónum sínum í deilunni um herþjónustu. – Sálm. 68:21.

11, 12. Lýstu málum þeirra Sicurella og Þlimmenosar og lokaúrskurðinum fyrir dómi.

11 Bandaríkin. Anthony Sicurella ólst upp sem vottur Jehóva ásamt systkinum sínum fimm. Hann lét skírast 15 ára. Þegar hann varð 21 árs lét hann skrá sig hjá herkvaðningarstofunni sem trúboða. Tveim árum síðar, árið 1950, sótti hann um að breyta skráningunni þannig að það væri af samviskuástæðum sem hann gegndi ekki herþjónustu. Dómsmálaráðuneytið synjaði umsókn hans þó að ekkert athugavert kæmi fram í skýrslu Alríkislögreglunnar.  Eftir að mál Anthonys hafði farið gegnum nokkur dómstig kom það fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna. Hæstiréttur dæmdi honum í vil og sneri við dómi undirréttar. Þessi dómur gaf fordæmi fyrir aðra bandaríska borgara sem neituðu að gegna herþjónustu af samviskuástæðum.

12 Grikkland. Árið 1983 var Jakovos Þlimmenos fundinn sekur um mótþróa við yfirvöld þar sem hann neitaði að klæðast hermannabúningi. Hann var dæmdur til fangelsisvistar. Eftir að honum var sleppt úr haldi sótti hann um starf sem bókhaldari en var hafnað þar sem hann var á sakaskrá. Hann fór með málið fyrir dóm en eftir að hafa tapað því fyrir grískum dómstólum sótti hann um að Mannréttindadómstóll Evrópu tæki mál hans fyrir. Árið 2000 úrskurðaði yfirnefnd dómstólsins honum í vil en í henni sitja 17 dómarar. Dómurinn hafði fordæmisgildi varðandi mismunun. Áður en hann féll voru meira en 3.500 bræður í Grikklandi á sakaskrá þar sem þeir höfðu setið í fangelsi vegna hlutleysis. Eftir þennan hagstæða dóm voru sett lög í Grikklandi þess efnis að umræddir bræður skyldu vera með hreina sakaskrá. Sett höfðu verið lög fáeinum árum áður sem veittu öllum grískum borgurum rétt til að gegna borgaralegri þjónustu í stað herþjónustu. Þessi lög voru áréttuð þegar stjórnaskrá Grikklands var endurskoðuð.

„Ég bað innilega til Jehóva áður en ég gekk inn í réttarsalinn og fann hvernig hann gaf mér innri ró.“ – Ivailo Stefanov (Sjá grein 13.)

13, 14. Hvaða lærdóm finnst þér mega draga af málum Ivailos Stefanovs og Vahans Bayatyans?

13 Búlgaría. Ivailo Stefanov var kallaður í herinn árið 1994, þá 19 ára gamall. Hann neitaði að ganga í herinn og að gegna nokkrum störfum undir stjórn hersins. Hann var dæmdur til 18 mánaða fangavistar en áfrýjaði dómnum á þeirri forsendu að hann ætti rétt á að neita af samviskuástæðum. Máli hans var að lokum skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Árið 2001, áður en málið var tekið fyrir, var gerð sátt milli yfirvalda og Stefanovs. Búlgörsk stjórnvöld gáfu honum upp sakir en sáttin náði jafnframt til allra búlgarskra þegna sem voru fúsir til að gegna borgaralegri þjónustu. *

14 Armenía. Vahan Bayatyan var kallaður í herinn árið 2001. * Hann neitaði af samviskuástæðum að gegna herskyldu, var leiddur fyrir rétt en tapaði málinu á öllum dómstigum í landinu. Í september 2002 tók hann að afplána tveggja og hálfs árs dóm en var sleppt eftir tíu og hálfan mánuð. Á því tímabili skaut hann máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu sem samþykkti að taka mál hans fyrir. Hinn 27. október 2009 dæmdi dómstóllinn honum í óhag. Þetta var mikið áfall fyrir bræðurna í Armeníu  sem stóðu í svipuðum sporum og Vahan Bayatyan. Yfirnefnd Mannréttindadómstólsins endurskoðaði hins vegar úrskurðinn. Hinn 7. júlí 2011 dæmdi yfirnefndin Vahan Bayatyan í vil. Þetta var í fyrsta sinn sem Mannréttindadómstóllinn viðurkenndi að réttur manna til hugsana-, samvisku- og trúfrelsis næði til þeirra sem neituðu að gegna herþjónustu af samviskuástæðum vegna trúarskoðana sinna. Úrskurðurinn verndar ekki aðeins réttindi votta Jehóva heldur einnig hundraða milljóna manna í þeim ríkjum sem eiga aðild að Evrópuráðinu. *

Bræður í Armeníu eru þakklátir fyrir úrskurð Mannréttindadómstólsins sem viðurkennir réttinn til að neita að gegna herþjónustu af samviskuástæðum vegna trúarskoðana.

Þátttaka í þjóðernislegum athöfnum

15. Hvers vegna taka þjónar Jehóva ekki þátt í þjóðernislegum athöfnum?

15 Þjónar Jehóva sýna ríki Messíasar ekki aðeins hollustu með því að neita að gegna herþjónustu heldur einnig með því að biðjast undan að taka þátt í þjóðernislegum athöfnum. Þjóðernishyggja færðist mjög í aukana eftir að  síðari heimsstyrjöldin braust út. Þegnar margra landa hafa verið krafðir um að heita landi sínu hollustu með því að syngja þjóðsönginn, hylla fánann eða fara með hollustueið. En við sýnum Jehóva óskipta hollustu. (2. Mós. 20:4, 5) Fyrir vikið hefur gengið yfir okkur flóðbylgja ofsókna. En Jehóva hefur látið ‚jörðina‘ svelgja þessa andstöðu að hluta til. Við skulum nefna nokkra markverða sigra sem Jehóva hefur veitt okkur á þessu sviði fyrir atbeina Krists. – Sálm. 3:9.

16, 17. Frammi fyrir hverju stóðu Lillian og William Gobitas og hvað má læra af máli þeirra?

16 Bandaríkin. Árið 1940 féll dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna í máli sem kallað er Minersville School District gegn Gobitis. Átta dómarar af níu dæmdu vottum Jehóva í óhag í þessu máli. Lillian Gobitas, * 12 ára, og bróðir hennar William, 10 ára, vildu sýna Jehóva hollustu og neituðu því að hylla fánann og fara með hollustueiðinn. Þeim var vikið úr skóla. Málið kom fyrir Hæstarétt sem komst að þeirri niðurstöðu að aðgerðir skólans væru í þágu „þjóðareiningar“ og samræmdust því stjórnarskrá. Dómurinn hleypti af stað mikilli ofsóknaröldu. Fleiri vottabörnum var vikið úr skóla, fullorðnir vottar misstu vinnuna og margir vottar urðu fyrir grimmilegum skrílsárásum. Í bókinni The Lustre of Our Country segir að „ofsóknir á hendur vottunum frá 1941 til 1943 hafi verið mestu trúarofsóknir í Bandaríkjunum á 20. öld“.

17 Sigur óvina Guðs var skammlífur. Árið 1943 tók Hæstiréttur fyrir annað mál af svipuðum toga og Gobitis-málið. Það er kallað West Virginia State Board of Education gegn Barnette. Í þetta sinn studdi Hæstiréttur málstað votta Jehóva. Rétturinn hafði aldrei fyrr í sögu Bandaríkjanna breytt um afstöðu á svona skömmum tíma. Eftir þennan úrskurð dró verulega úr beinum ofsóknum á hendur þjónum Jehóva í Bandaríkjunum. Og dómurinn jók réttindi allra bandarískra þegna.

18, 19. Hvað segir Pablo Barros að hafi veitt sér styrk og hvernig geta aðrir þjónar Jehóva líkt eftir honum?

18 Argentína. Þeim Pablo og Hugo Barros, sem voru sjö og átta ára gamlir, var vikið úr skóla árið 1976 fyrir að taka ekki þátt í fánaathöfn. Skólastýran hrinti Pablo einu sinni og sló hann í höfuðið. Hún lét báða drengina sitja eftir í klukkustund og reyndi að neyða þá til að taka þátt í þjóðernislegum athöfnum. Pablo segir um þessa þrekraun þegar hann horfir um öxl: „Ég hefði ekki getað staðist álagið og verið Jehóva trúr nema með hjálp hans.“

19 Málið kom fyrir rétt en dómarinn studdi þá ákvörðun skólans að víkja þeim Pablo og Hugo úr skóla. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Argentínu. Dómur féll árið 1979  og Hæstiréttur sneri við dómi undirréttar. Í dómsorðinu segir: „Umrædd refsing [brottvísun úr skóla] stangast á við stjórnarskrárbundinn rétt til náms (14. grein) og skyldu ríkisins til að tryggja grunnmenntun (5. grein).“ Þessi sigur kom um það bil 1.000 vottabörnum til góða. Hætt var við að víkja sumum úr skóla og aðrir, til dæmis Pablo og Hugo, fengu að snúa aftur í skólana sína.

Margir ungir vottar hafa verið trúfastir í prófraunum.

20, 21. Hvernig styrkir frásagan af Roel og Emily Embralinag trú þína?

20 Filippseyjar. Árið 1990 var þeim Roel Embralinag, * 9 ára, og systur hans Emily, sem var 10 ára, vikið úr skóla ásamt rúmlega 65 öðrum vottabörnum fyrir að hylla ekki fánann. Leonardo, faðir Roels og Emilyjar, reyndi árangurslaust að ræða málin við skólayfirvöld. Að lokum óskaði hann eftir að Hæstiréttur fjallaði um málið. Leonardo var ekki með lögfræðing til að reka málið fyrir sig og hafði ekki heldur efni á því. Fjölskyldan bað Jehóva innilega um að leiðbeina sér. Meðan á þessu stóð máttu börnin þola  háð og spott. Leonardo bjóst ekki við að hann ætti nokkurn möguleika á að vinna málið því að hann var ekki löglærður.

21 Það fór þó svo að fjölskyldan fékk lögfræðing að nafni Felino Ganal til að flytja málið. Hann hafði áður starfað hjá einni virtustu lögfræðistofu landsins en var nú orðinn vottur Jehóva og hættur störfum hjá lögfræðistofunni. Úrskurður Hæstaréttar var einróma vottum Jehóva í vil og brottvísunin var felld úr gildi. Enn á ný mistókst að þvinga þjóna Guðs til að vera honum ótrúir.

Hlutleysi skapar einingu

22, 23. (a) Hvers vegna höfum við unnið svona mörg mikilvæg mál fyrir dómstólum? (b) Hvað sannar það að til skuli vera friðsamt bræðralag fólks út um allan heim?

22 Hvers vegna hafa þjónar Jehóva unnið svona mörg mikilvæg mál fyrir dómstólum? Við höfum engin pólitísk áhrif. Þrátt fyrir það hafa sanngjarnir dómarar í fjölda landa og við fjölda dómstóla varið okkur fyrir árásum óbilgjarnra andstæðinga, og í leiðinni hafa þeir gefið fordæmi á sviði stjórnarskrárbundinna réttinda. Það leikur enginn vafi á að Kristur hefur stutt okkur þannig að við höfum fengið sigur í þessum málum. (Lestu Opinberunarbókina 6:2.) Hvers vegna förum við með slík mál fyrir dómstóla? Markmið okkar er ekki að vinna að réttarbótum heldur að tryggja að við getum haldið áfram að þjóna konungi okkar, Jesú Kristi, án hindrunar. – Post. 4:29.

23 Pólitísk átök og djúpstætt hatur hafa sundrað heiminum og brenglað viðhorf margra. Konungurinn Jesús Kristur hefur hins vegar blessað fylgjendur sína um allan heim fyrir að varðveita hlutleysi sitt. Satan hefur reynt að sundra okkur og sigra en beðið ósigur. Ríki Guðs hefur safnað til sín milljónum manna sem neita að „temja sér hernað framar“. Það er hreint kraftaverk að til skuli vera friðsamt bræðralag fólks út um allan heim, og það sannar svo ekki verður um villst að ríki Guðs er við völd. – Jes. 2:4.

^ gr. 4 Bókin er einnig þekkt undir heitinu The New Creation. Bókaröðin Millennial Dawn var síðar kölluð Studies in the Scriptures.

^ gr. 8 Nánari umfjöllun um þennan spádóm er að finna í bókinni Revelation – Its Grand Climax At Hand!, 27. kafla, bls. 184-186.

^ gr. 13 Sáttin fól einnig í sér að búlgörsk stjórnvöld gæfu öllum sem neituðu að gegna herþjónustu af samviskuástæðum kost á að gegna borgaralegri þjónustu undir stjórn borgaralegra yfirvalda.

^ gr. 14 Ítarlegri frásögn af málinu er að finna í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. nóvember 2012, bls. 29-31.

^ gr. 14 Á 20 árum höfðu stjórnvöld í Armeníu hneppt meira en 450 unga votta í fangelsi. Í nóvember 2013 var sá síðasti úr þeim hópi leystur úr haldi.

^ gr. 16 Eftirnafnið var misritað í dómsskjölunum.

^ gr. 20 Eftirnafn fjölskyldunnar var misritað Ebralinag í dómsskjölunum.