Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 15. KAFLI

Baráttan fyrir trúfrelsi

Baráttan fyrir trúfrelsi

Í ÞESSUM KAFLA

Kristur hefur hjálpað fylgjendum sínum að berjast fyrir lagalegri viðurkenningu og réttinum til að hlýða lögum Guðs.

1, 2. (a) Hvað sannar að þú sért ríkisborgari Guðsríkis? (b) Hvers vegna hafa Vottar Jehóva stundum þurft að berjast fyrir trúfrelsi?

ERTU ríkisborgari Guðsríkis? Þú ert það vissulega ef þú ert vottur Jehóva. Og hvaða sönnun hefurðu fyrir þegnrétti þínum? Ekki er það vegabréf eða eitthvert skjal gefið út af stjórnvöldum. Sönnunin er fólgin í því hvernig þú tilbiður Jehóva Guð. Sönn tilbeiðsla er annað og meira en trúarskoðanir. Hún er fólgin í því sem þú gerir – að þú hlýðir lögum Guðsríkis. Tilbeiðsla okkar snertir öll svið lífsins, meðal annars uppeldi barnanna og afstöðu okkar til læknismeðferðar.

2 En heimurinn, sem við búum í, virðir ekki alltaf þegnréttinn sem er okkur svo kær né þær kröfur sem hann gerir til okkar. Stjórnvöld sumra landa hafa reynt að takmarka frelsi okkar til að tilbiðja Guð eða afnema það með öllu. Þegnar Krists hafa stundum þurft að berjast fyrir frelsi sínu til að lifa eftir lögum konungsins Messíasar. Kemur það á óvart? Nei. Þjónar Jehóva á biblíutímanum þurftu oft að berjast fyrir frelsi sínu til að tilbiðja hann.

3. Hverju stóð þjóð Guðs frammi fyrir á dögum Esterar drottningar?

3 Tökum dæmi. Á dögum Esterar drottningar þurfti þjóð Guðs að berjast fyrir tilveru sinni. Hvers vegna? Vegna þess að illmennið Haman, sem var forsætisráðherra Persa, lagði til við Ahasverus konung (öðru nafni Xerxes) að allir Gyðingar í ríkinu yrðu drepnir því að „lög þessarar þjóðar eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða“, eins og hann orðaði það. (Est. 3:8, 9, 13) Sneri Jehóva baki við þjónum sínum? Nei, hann blessaði Ester og Mordekaí þegar þau báðu Persakonung að vernda þjóð Guðs. – Est. 9:20-22.

4. Hvað ræðum við í þessum kafla?

4 Hvað um okkar tíma? Eins og fram kom í kaflanum á undan hafa veraldleg yfirvöld stundum verið andsnúin vottum Jehóva. Í þessum kafla ræðum við hvernig þau hafa reynt að takmarka frelsi okkar til að tilbiðja Guð. Við beinum athygli okkar að þrem sviðum: (1) tilverurétti okkar sem safnaðar og réttinum til að tilbiðja eins og við viljum, (2) frelsinu til að velja læknismeðferð sem samræmist  meginreglum Biblíunnar og (3) rétti foreldra til að ala börnin upp í samræmi við leiðbeiningar Jehóva. Við könnum svo hvernig dyggir þegnar ríkis Messíasar hafa barist hetjulega til að verja dýrmætan þegnrétt sinn og hvernig barátta þeirra hefur blessast.

Baráttan fyrir lagalegri viðurkenningu og grundvallarréttindum

5. Hvaða kostir fylgja því fyrir okkur að vera lögskráð trúfélag?

5 Þurfum við lagalega viðurkenningu yfirvalda til að tilbiðja Jehóva? Nei, en hún auðveldar okkur tilbeiðsluna – til dæmis að halda samkomur og mót að vild í okkar eigin ríkissölum og mótshöllum, að prenta og flytja inn biblíutengd rit og segja fólki frá fagnaðarerindinu án hindrunar. Vottar Jehóva eru lögskráð trúfélag í fjölda landa og njóta sama trúfrelsis og þeir sem tilheyra öðrum lögskráðum trúfélögum. En hvað hefur gerst þegar stjórnvöld hafa synjað okkur um lagalega viðurkenningu eða reynt að takmarka grundvallarréttindi okkar?

6. Í hvaða aðstöðu voru vottar Jehóva í Ástralíu upp úr 1940?

6 Ástralía. Árið 1941 úrskurðaði landstjóri Ástralíu að trúarskoðanir okkar væru „skaðlegar“ stríðsrekstrinum. Starfsemi safnaðarins var bönnuð. Vottar Jehóva gátu hvorki haldið samkomur né boðað trúna fyrir opnum tjöldum. Öllum deildum á Betel var lokað og hald var lagt á ríkissalina. Það var meira að segja bannað að eiga biblíuskýringarritin okkar. Vottarnir í Ástralíu störfuðu með leynd í rúmlega tvö ár en banninu var aflétt með dómi Hæstaréttar Ástralíu 14. júní 1943.

7, 8. Lýstu hvernig þjónar Guðs hafa þurft að berjast fyrir trúfrelsi sínu í Rússlandi.

7 Rússland. Starf votta Jehóva var bannað áratugum saman í valdatíð kommúnista en söfnuðurinn var loks skráður sem trúfélag í Sovétríkjunum árið 1991. Við hlutum skráningu í Rússneska ríkjasambandinu árið 1992, eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Andstæðingum okkar, ekki síst hópi sem tengdist rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, var brugðið að sjá hve hratt fjölgaði í söfnuðinum. Andstæðingarnir kærðu söfnuðinn fimm sinnum fyrir glæpsamlegt athæfi á árabilinu 1995 til 1998 en í engu tilfelli fann saksóknari nokkrar vísbendingar um lögbrot. Andstæðingarnir létu ekki deigan síga og höfðuðu einkamál árið 1998. Vottarnir unnu málið á fyrsta dómstigi en andstæðingarnir áfrýjuðu og söfnuðurinn tapaði fyrir yfirrétti í maí 2001. Málið var tekið fyrir að nýju í október það ár og árið 2004 var úrskurðað að lögskráð félag vottanna í Moskvu skyldi lagt niður og starfsemi þess bönnuð.

8 Ofsóknaralda fylgdi í kjölfarið. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:12.) Vottar máttu þola áreitni og árásir. Trúarleg rit voru gerð upptæk og mjög erfitt reyndist að reisa eða leigja  húsnæði til samkomuhalds. Hugsaðu þér hvernig bræðrum okkar og systrum hlýtur að hafa liðið í þessum erfiðleikum. Árið 2001 höfðu vottarnir sótt um að Mannréttindadómstóll Evrópu tæki málið fyrir og árið 2004 létu þeir dómstólnum í té nánari upplýsingar. Mannréttindadómstóllinn dæmdi í málinu árið 2010. Rétturinn var ekki í nokkrum vafa um að trúarfordómar byggju að baki banninu á hendur vottunum í Rússlandi. Í úrskurðinum sagði að það væri engin ástæða til að staðfesta dóm undirréttar því að það væru engar vísbendingar um að nokkur vottur hefði gerst brotlegur við lög. Í dómsorðinu sagði enn fremur að bannið hefði það markmið að svipta vottana lagalegum réttindum sínum. Mannréttindadómstóllinn staðfesti að vottar Jehóva ættu að njóta trúfrelsis. Sigrar af þessu tagi eru mjög hvetjandi fyrir þjóna Guðs í Rússlandi, þó svo að yfirvöld þar í landi hafi ekki farið eftir úrskurði Mannréttindadómstólsins.

Titos Manoussakis. (Sjá grein 9.)

9-11. Hvernig hafa þjónar Jehóva barist fyrir því í Grikklandi að fá að halda samkomur og með hvaða árangri?

9 Grikkland. Árið 1983 leigði Titos Manoussakis herbergi í borginni Heraklion á Krít til þess að lítill hópur votta Jehóva gæti haldið þar samkomur. (Hebr. 10:24, 25) En það leið ekki á löngu áður en prestur í rétttrúnaðarkirkjunni kærði vottana fyrir að nota herbergið til að halda trúarsamkomur. Á hvaða forsendum? Einfaldlega þeim að trúarskoðanir vottanna styngju í stúf við skoðanir rétttrúnaðarkirkjunnar. Yfirvöld höfðuðu mál á hendur Titosi Manoussakis og þrem öðrum vottum í bænum. Þeir voru sektaðir og dæmdir til tveggja mánaða fangelsisvistar. Vottarnir eru trúir þegnar Guðsríkis og litu svo á að dómurinn bryti gegn rétti þeirra til að njóta trúfrelsis. Þeir áfrýjuðu því málinu til æðri dómstiga heima fyrir og að síðustu til Mannréttindadómstóls Evrópu.

10 Árið 1996 var loks dæmt í málinu en dómurinn var mikið áfall fyrir andstæðinga sannrar tilbeiðslu. Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins segir að „Vottar Jehóva falli undir skilgreininguna ‚þekkt trúfélag‘ eins og gert er ráð fyrir í grískum lögum“ og að úrskurður á lægri dómstigum hafi haft „bein áhrif á frelsi kærenda til að iðka trú sína“. Dómstóllinn úrskurðaði einnig að það væri ekki á valdi stjórnar Grikklands að „ákvarða hvort trúarskoðanir eða þær leiðir, sem eru farnar til að tjá slíkar trúarskoðanir, séu lögmætar“. Dómunum yfir vottunum var snúið við og frelsi þeirra til trúariðkana staðfest.

11 Varð þessi sigur til þess að binda enda á allan málarekstur í Grikklandi? Nei, því miður. Árið 2012 var loksins útkljáð hliðstætt mál í bænum Kassandreia eftir næstum  12 ára baráttu fyrir dómstólum. Í þessu tilviki var það einn af biskupum rétttrúnaðarkirkjunnar sem hleypti málinu af stað. Ríkisráðið, sem er æðsti stjórnlagadómstóll Grikklands, dæmdi í málinu og féll dómurinn þjónum Guðs í vil. Í niðurstöðu dómsins er vísað til þess að í stjórnarskrá Grikklands sé kveðið á um trúfrelsi og hrakin sú margendurtekna ásökun að Vottar Jehóva séu ekki þekkt trúfélag. Í dómsorðinu segir: „Kenningar ‚Votta Jehóva‘ eru ekkert leyndarmál og þar af leiðandi játa þeir þekkta trú.“ Vottarnir í litla söfnuðinum í Kassandreia fagna því að geta nú haldið samkomur í sínum eigin ríkissal.

12, 13. Hvernig hafa andstæðingar í Frakklandi reynt að ‚misnota lögin‘ til að valda erfiðleikum og með hvaða árangri?

12 Frakkland. Sumir andstæðingar þjóna Guðs hafa beitt þeirri aðferð að ‚misnota lögin‘ til að valda erfiðleikum. (Lestu Sálm 94:20.) Sem dæmi má nefna að um 1995 tóku skattayfirvöld í Frakklandi að rannsaka fjármál Association Les Témoins de Jéhovah (ATJ) en það er eitt af þeim lögskráðu félögum sem Vottar Jehóva starfrækja í Frakklandi. Fjárlagaráðherra landsins ljóstraði upp raunverulegu markmiði rannsóknarinnar þegar hann sagði: „Rannsóknin gæti leitt til gjaldþrotaskipta eða málshöfðunar ... sem myndi líklega setja starfsemi félagsins úr skorðum eða neyða það til að hætta starfsemi á yfirráðasvæði okkar.“ Ekkert misferli kom í ljós við rannsóknina en þrátt fyrir það lögðu yfirvöld mjög háan skatt á félagið. Ef álagningin hefði verið staðfest hefðu bræður okkar varla átt um annað að velja en að loka deildarskrifstofunni og selja fasteignirnar til að greiða þennan gríðarlega háa skatt. Þetta var mikið áfall en þjónar Guðs gáfust ekki upp. Þeir mótmæltu af krafti þessari ranglátu meðferð og skutu máli sínu að lokum til Mannréttindadómstóls Evrópu árið 2005.

13 Dómur féll í málinu 30. júní 2011. Í úrskurðinum kemur fram að rétturinn til trúfrelsis eigi að hindra að ríkið leggi mat á hvort trúarskoðanir séu lögmætar og séu iðkaðar með lögmætum hætti. Ríkið eigi ekki að gera það nema í ýtrustu neyð. Síðan segir í dómsorðinu: „Skattlagningin ... hafði þau áhrif að loka fyrir nauðsynlegt fjármagn til félagsins og kom síðan í veg fyrir að félagið gæti tryggt að áhangendur þess fengju að iðka trú sína að vild.“ Dómurinn var einróma og Vottum Jehóva í vil. Þjónum Jehóva til mikillar ánægju skiluðu frönsk stjórnvöld að lokum skattinum, sem hafði verið lagður á ATJ, auk vaxta. Í samræmi við úrskurð Mannréttindadómstólsins var sömuleiðis aflétt lögveðinu sem hafði verið tekið í fasteignum deildarskrifstofunnar.

Þú getur beðið reglulega fyrir trúsystkinum þínum sem þjást og líða vegna ranglætis af hendi yfirvalda.

14. Hvernig getur þú orðið að liði í baráttunni fyrir trúfrelsi?

14 Þjónar Jehóva nú á dögum berjast fyrir frelsinu til að tilbiðja hann á þann hátt sem hann hefur fyrirskipað, rétt  eins og þau Ester og Mordekaí gerðu forðum daga. (Est. 4:13-16) Getur þú lagt lóð á vogarskálarnar? Já. Þú getur beðið reglulega fyrir trúsystkinum þínum sem þjást og líða vegna ranglætis af hendi yfirvalda. Bænir þínar geta verið bræðrum og systrum okkar mikil hjálp í þrengingum og ofsóknum. (Lestu Jakobsbréfið 5:16.) Svarar Jehóva slíkum bænum? Þeir sigrar, sem við höfum unnið fyrir dómstólum, benda eindregið til þess. – Hebr. 13:18, 19.

Frelsi til að velja læknismeðferð í samræmi við trúarskoðanir okkar

15. Hvaða afstöðu taka þjónar Guðs til blóðgjafa og hvers vegna?

15 Eins og rætt var í 11. kafla hafa þegnar Guðsríkis fengið skýrar leiðbeiningar í Biblíunni um að misnota ekki blóð en það er harla algengt nú á tímum. (1. Mós. 9:5, 6; 3. Mós. 17:11; lestu Postulasöguna 15:28, 29.) Þó að við þiggjum ekki blóðgjöf viljum við fá bestu læknismeðferð sem kostur er á handa sjálfum okkur og ástvinum okkar, svo framarlega sem hún stangast ekki á við lög Guðs. Æðstu dómstólar margra þjóða hafa staðfest að fólk á þann rétt að þiggja eða hafna læknismeðferð í samræmi við samvisku sína og trúarskoðanir. Í sumum löndum hefur þó reynt verulega á þjóna Guðs að þessu leyti. Lítum á nokkur dæmi.

16, 17. Hvað uppgötvaði systir í Japan eftir að hún gekkst undir skurðaðgerð og hvernig var bænum hennar svarað?

16 Japan. Misae Takeda, 63 ára húsmóðir í Japan, þurfti að gangast undir stóra skurðaðgerð. Sem dyggur þegn Guðsríkis gerði hún lækninum sínum grein fyrir því að hún vildi ekki fá blóðgjöf. Nokkrum mánuðum síðar uppgötvaði hún sér til skelfingar að henni hafði verið gefið blóð í framhaldi af aðgerðinni. Henni fannst hún hafa verið blekkt og svívirt og höfðaði mál á hendur læknum og spítala í júní 1993. Þessi hógværa og hægláta kona bjó yfir óhagganlegri trú. Hún bar djarfmannlega vitni fyrir fullum réttarsal og sat í vitnastúkunni í meira en klukkustund þótt hún væri mjög veikburða. Hún kom fyrir réttinn í síðasta sinn aðeins mánuði áður en hún dó. Trú hennar og hugrekki er aðdáunarvert. Misae sagðist hafa beðið Jehóva stöðugt um að blessa baráttu sína. Hún treysti að hún yrði bænheyrð. Var hún það?

17 Þrem árum eftir að Misae Takeda lést dæmdi Hæstiréttur Japans henni í vil og féllst á að það hefði verið rangt að gefa henni blóð gegn ótvíræðum óskum hennar. Í dóminum, sem féll 29. febrúar 2000, sagði að virða beri „ákvörðunarréttinn“ í slíkum tilvikum sem „persónuleg réttindi“. Misae Takeda var ákveðin í að berjast fyrir rétti sínum til að fá læknismeðferð í samræmi við biblíufrædda samvisku sína. Vottar Jehóva í Japan geta nú fengið læknismeðferð án þess að eiga á hættu að þeim sé gefið blóð gegn vilja sínum, þökk sé baráttu hennar.

Pablo Albarracini. (Sjá greinar 18 til 20.)

18-20. (a) Hvernig leit Hæstiréttur Argentínu á yfirlýsingu sjúklings um að hann hafnaði blóðgjöf? (b) Hvaða ráðstöfun getum við gert til að sýna að við séum undirgefin Kristi þegar læknismeðferð á í hlut?

 18 Argentína. Hvernig geta þegnar Guðsríkis verið undir það búnir að taka þurfi ákvörðun um læknismeðferð ef þeir eru meðvitundarlausir? Við getum borið á okkur fullgilda yfirlýsingu sem talar máli okkar. Pablo Albarracini gerði það. Í maí 2012 varð hann vitni að ránstilraun og varð fyrir nokkrum byssuskotum. Hann var meðvitundarlaus þegar á spítalann kom og gat því ekki skýrt frá afstöðu sinni til blóðgjafar. Hins vegar bar hann á sér vottfesta yfirlýsingu um læknismeðferð sem hann hafði undirritað rúmlega fjórum árum áður. Ástand hans var alvarlegt og sumir af læknunum töldu að það þyrfti að gefa honum blóð til að bjarga lífi hans. Læknarnir vildu samt virða óskir hans. Faðir Pablos, sem var ekki vottur, fékk hins vegar réttartilskipun þess efnis að ekki bæri að virða óskir sonarins.

19 Lögmaður eiginkonu Pablos áfrýjaði úrskurðinum þegar í stað. Áfrýjunardómstóllinn sneri við ákvörðun undirréttar skömmu síðar og úrskurðaði að virða ætti óskir sjúklingsins sem fram kæmu í yfirlýsingu hans um læknismeðferð. Faðir Pablos áfrýjaði til Hæstaréttar Argentínu. En Hæstiréttur taldi „enga ástæðu til að véfengja“ að yfirlýsing Pablos um að hafna blóðgjöf væri „gefin af yfirvegun, ásetningi og án nauðungar“. Í dómsorði Hæstaréttar sagði: „Sérhver fullveðja einstaklingur með óskerta dómgreind er fær um að gefa fyrirmæli fyrir fram um læknismeðferð og getur þegið eða hafnað ákveðinni meðferð ... Lækni, sem ber ábyrgð á sjúklingi, ber að virða þessi fyrirmæli.“

Hefurðu útfyllt yfirlýsingu um læknismeðferð?

20 Pablo Albarracini hefur náð sér að fullu. Þau hjónin eru ánægð með að hann skyldi ganga frá yfirlýsingu um læknismeðferð. Með því að gera þessa einföldu en mikilvægu ráðstöfun sýndi Pablo að hann væri undirgefinn Kristi, konungi Guðsríkis. Hefur þú og fjölskylda þín gert svipaðar ráðstafanir?

April Cadoreth. (Sjá greinar 21 til 24.)

21-24. (a) Hvernig bar það til að Hæstiréttur Kanada tók merka ákvörðun varðandi ungmenni undir lögræðisaldri? (b) Hvernig getur þetta mál verið ungum þjónum Jehóva til hvatningar?

21 Kanada. Dómstólar virða yfirleitt rétt foreldra til að velja bestu læknismeðferð handa börnum sínum. Stundum hafa dómstólar jafnvel úrskurðað að virða beri óskir þroskaðra ungmenna undir lögræðisaldri um læknismeðferð. April Cadoreth er eitt þessara ungmenna. April var lögð inn á spítala með alvarlegar innvortis blæðingar þegar hún var 14 ára. Fáeinum mánuðum áður hafði hún útfyllt yfirlýsingu um læknismeðferð með skriflegum fyrirmælum þess efnis að hún þægi ekki blóðgjöf, jafnvel í neyðartilfelli. Læknirinn, sem annaðist hana, ákvað að virða ekki skýrar óskir hennar og fékk réttartilskipun þess efnis að það mætti gefa henni blóð. Henni voru síðan gefnar þrjár einingar af rauðkornaþykkni með valdi. Síðar líkti April þessari aðgerð við nauðgun.

 22 April og foreldrar hennar leituðu til dómstóla til að ná rétti sínum. Tveim árum síðar var málið tekið fyrir hjá Hæstarétti Kanada. April tapaði málinu tæknilega séð í þeim skilningi að lögin, sem beitt var í hennar tilfelli, voru ekki talin stangast á við stjórnarskrá. Rétturinn dæmdi hins vegar að henni skyldi greiddur málskostnaður og dæmdi henni í vil og öðrum þroskuðum ungmennum sem vilja beita rétti sínum til að ákveða sjálf hvaða læknismeðferð þau fá. Í úrskurði réttarins segir: „Þegar læknismeðferð er annars vegar ætti að leyfa ungu fólki undir 16 ára aldri að reyna að sýna fram á að afstaða þess til ákveðinnar læknismeðferðar endurspegli að nægilegu marki sjálfstæða hugsun og þroska.“

23 Þetta mál er mikilvægt að því leyti að Hæstiréttur fjallaði um stjórnarskrárbundin réttindi þroskaðra ungmenna undir lögræðisaldri. Áður en þessi dómur féll gátu dómstólar í Kanada heimilað læknismeðferð barns yngra en 16 ára ef rétturinn taldi að meðferðin væri barninu fyrir bestu.  En eftir þennan dóm geta dómstólar ekki heimilað nokkra læknismeðferð gegn vilja barna yngri en 16 ára án þess að gefa þeim fyrst tækifæri til að sýna fram á að þau séu nógu þroskuð til að taka sínar eigin ákvarðanir.

„Það hefur glatt mig mjög að vita að ég átti örlítinn þátt í að reyna að upphefja nafn Guðs og sanna að Satan sé lygari.“

24 Var þessi þriggja ára barátta erfiðisins virði? „Já,“ svarar April. Hún er brautryðjandi núna og við góða heilsu. Hún segir: „Það hefur glatt mig mjög að vita að ég átti örlítinn þátt í að reyna að upphefja nafn Guðs og sanna að Satan sé lygari.“ Saga Aprilar segir okkur að unga fólkið í söfnuðinum getur tekið djarfmannlega afstöðu og sýnt að það sé sannir þegnar Guðsríkis. – Matt. 21:16.

Frelsi til að ala börnin upp samkvæmt leiðbeiningum Jehóva

25, 26. Hvað gerist stundum í kjölfar skilnaðar?

25 Jehóva hefur falið foreldrum það verkefni að ala börnin upp í samræmi við leiðbeiningar hans. (5. Mós. 6:6-8; Ef. 6:4) Þetta er krefjandi verkefni en það getur reynt enn meira á það ef foreldrarnir skilja. Sé annað foreldrið vottur en hitt ekki geta þau orðið mjög ósammála um uppeldi barnanna. Votturinn er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að ala barnið upp í samræmi við kristnar meginreglur en hitt foreldrið, sem er ekki vottur, er ef til vill á öðru máli. Votturinn ætti auðvitað að hafa hugfast að tengsl foreldra og barns breytast ekki þó að hjónabandinu sé slitið.

26 Það foreldrið, sem er ekki vottur, fer ef til vill fram á forræði yfir barninu eða börnunum til að geta ráðið trúaruppeldi þess. Sumir halda því fram að það sé skaðlegt fyrir börnin að alast upp sem vottar Jehóva. Rökin eru ef til vill þau að börnin fái ekki að halda upp á afmæli, missi af hátíðahöldum og fái ekki „lífsnauðsynlega“ blóðgjöf í neyðartilfelli. Sem betur fer bera flestir dómstólar hag barnanna fyrir brjósti í stað þess að úrskurða um það hvort þeir telji trú annars foreldrisins skaðlega. Lítum á nokkur dæmi.

27, 28. Hvernig brást Hæstiréttur Ohio við þeirri staðhæfingu að það væri skaðlegt fyrir barn að alast upp sem vottur Jehóva?

27 Bandaríkin. Árið 1992 tók Hæstiréttur Ohio fyrir forræðismál af þessu tagi. Faðirinn, sem var ekki vottur, hélt því fram að það væri skaðlegt fyrir ungan son sinn að alast upp sem vottur Jehóva. Undirréttur hafði tekið undir sjónarmið föðurins og veitt honum forræðið. Móðirin, Jennifer Pater, fékk umgengnisrétt við drenginn en mátti ekki „kenna barninu trúarskoðanir Votta Jehóva eða láta það verða fyrir áhrifum af þeim í nokkurri mynd“. Þessi fyrirmæli undirréttar voru svo almennt orðuð að það var hægt að túlka þau þannig að Jennifer mætti ekki einu sinni ræða við Bobby, son sinn, um Biblíuna eða siðferðisreglur hennar. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig henni var innanbrjósts.  Jennifer var miður sín en segist hafa lært að vera þolinmóð og bíða þess að Jehóva skærist í leikinn. „Jehóva var alltaf með mér,“ segir hún. Lögmaður hennar áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Ohio með aðstoð deildarskrifstofu Votta Jehóva.

28 Hæstiréttur var á öðru máli en undirréttur. Í úrskurði hans sagði að „foreldrar hafi þau grundvallarréttindi að fræða börn sín, þar á meðal þann rétt að miðla þeim siðferðis- og trúargildum sínum“. Í dómsorðinu sagði að dómstóllinn hefði engan rétt til að takmarka forræðisréttindi á grundvelli trúar, nema sýnt væri fram á að trúargildi Votta Jehóva væru skaðleg líkamlegri og andlegri velferð barnsins. Rétturinn taldi engin rök fyrir því að trúarskoðanir Vottanna hefðu neikvæð áhrif á andlegt eða líkamlegt heilbrigði barnsins.

Margir dómstólar hafa dæmt kristnum foreldrum í vil í forræðisdeilum.

29-31. Hvers vegna missti dönsk systir forræðið yfir dóttur sinni en hvernig úrskurðaði Hæstiréttur Danmerkur í málinu?

29 Danmörk. Anita Hansen stóð í svipuðum sporum þegar fyrrverandi eiginmaður hennar höfðaði mál og fór fram á forræði yfir Amöndu, sjö ára dóttur þeirra. Héraðsdómur veitti Anitu forræðið árið 2000 en faðir Amöndu áfrýjaði til yfirréttar sem sneri við dómi héraðsdóms og veitti honum forræðið. Yfirréttur taldi að þar sem foreldrarnir hefðu ólíkar lífsskoðanir vegna trúar sinnar væri  faðirinn í betri aðstöðu til að taka á ágreiningi þeirra. Í reyndinni missti Anita forræði yfir Amöndu vegna þess að hún var vottur Jehóva.

30 Meðan Anita gekk gegnum þessa eldraun var hún stundum svo örvilnuð að hún vissi ekki um hvað hún átti að biðja í bænum sínum. „En Rómverjabréfið 8:26 og 27 var mjög hughreystandi fyrir mig,“ segir hún. „Ég fann alltaf að Jehóva skildi hvað ég meinti. Hann vakti yfir mér og studdi mig.“ – Lestu Sálm 32:8; Jesaja 41:10.

31 Anita Hansen áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Danmerkur. Rétturinn sagði í úrskurði sínum: „Úrskurður í forræðisdeilu þarf að byggjast á hlutlægu mati á því hvað sé barninu fyrir bestu.“ Enn fremur kom fram í dómsorðinu að úrskurður um forræði þurfi að byggjast á því hvernig foreldrarnir, hvor um sig, taki á ágreiningi en ekki á „trúarkenningum og afstöðu“ Votta Jehóva. Anitu til mikils léttis viðurkenndi Hæstiréttur að hún væri hæf móðir og veitti henni forræðið yfir Amöndu á nýjan leik.

32. Hvernig hefur Mannréttindadómstóll Evrópu varið foreldra, sem eru vottar, gegn misrétti?

32 Ýmis Evrópulönd. Í einstaka tilfellum hefur forræðisdeilum verið áfrýjað til alþjóðlegra dómstóla eftir að dómur hefur fallið á æðsta dómstigi heima fyrir. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur einnig fjallað um mál af þessu tagi. Í tveim tilvikum komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að dómstólar í heimalandinu hefðu gert foreldrum mishátt undir höfði eftir því hvort þeir voru vottar eða ekki. Mannréttindadómstóllinn kallar það mismunun og hefur úrskurðað að „það sé óviðunandi að gera greinarmun á fólki byggðan í meginatriðum á ólíkri trú“. Móðir nokkur, sem er vottur og fékk slíkan úrskurð hjá Mannréttindadómstólnum, lýsti hvílíkur léttir það væri fyrir sig og sagði: „Það særði mig ákaflega að vera sökuð um að skaða börnin mín því að ég var aðeins að reyna að veita þeim það sem ég taldi vera þeim fyrir bestu – kristilegt uppeldi.“

33. Hvernig geta foreldrar, sem eru vottar, fylgt meginreglunni í Filippíbréfinu 4:5?

33 Vottar, sem þurfa að berjast fyrir rétti sínum til að kenna börnunum biblíuleg gildi, reyna auðvitað að sýna sanngirni. (Lestu Filippíbréfið 4:5.) Þeir eru þakklátir fyrir að eiga rétt á að ala börn sín upp sem þjóna Guðs en viðurkenna jafnframt rétt hins foreldrisins, sem er ekki vottur, til að taka þátt í uppeldinu ef það vill axla þá ábyrgð. Hve alvarlega taka vottar þá ábyrgð að ala börnin sín upp?

34. Hvað geta kristnir foreldrar lært af Gyðingum á dögum Nehemía?

34 Það má draga lærdóm af afstöðu Gyðinga á dögum Nehemía. Þeir lögðu hart að sér við að lagfæra og endurreisa múra Jerúsalem. Þeir vissu að múrarnir myndu vernda þá og fjölskyldur þeirra gegn óvinaþjóðunum umhverfis. Nehemía hvatti þá þar af leiðandi til að ‚berjast fyrir bræður  sína, syni, dætur, eiginkonur og ættir‘. (Neh. 4:8) Gyðingar voru tilbúnir til að gera hvað sem er til að berjast fyrir öryggi fjölskyldunnar. Nútímaforeldrar, sem eru vottar Jehóva, leggja sömuleiðis hart að sér við að ala börnin sín upp í trúnni. Þeir vita að óheilnæm áhrif dynja á börnunum, bæði í skólanum og hverfinu þar sem þau búa. Þessi áhrif geta meira að segja smeygt sér inn á heimilið með fjölmiðlunum. Foreldrar, gleymið ekki að það er mikils virði að berjast fyrir syni ykkar og dætur til að tryggja að þau búi við öruggar aðstæður þar sem þau geta dafnað sem þjónar Guðs.

Treystu að Jehóva styðji sanna tilbeiðslu

35, 36. Hvernig hefur baráttan fyrir lagalegum réttindum orðið okkur til góðs og hvað ætlar þú að gera?

35 Jehóva hefur blessað baráttu safnaðar síns fyrir tilbeiðslu- og trúfrelsi. Með baráttu sinni fyrir þessum lagalegu réttindum hafa þjónar Guðs oft getað vitnað rækilega fyrir dómstólum og almenningi í heild. (Rómv. 1:8) Með því að vinna mörg dómsmál af þessu tagi hafa þeir jafnframt styrkt borgaraleg réttindi fólks almennt. En við sem erum þjónar Guðs erum ekki að berjast fyrir þjóðfélagsumbótum og ekki heldur að reyna að réttlæta sjálf okkur. Vottar Jehóva hafa fyrst og fremst barist fyrir lagalegum réttindum sínum fyrir dómstólum til að efla sanna tilbeiðslu og festa hana í sessi. – Lestu Filippíbréfið 1:7.

36 Við skulum vera þakklát þeim sem hafa barist fyrir frelsinu til að tilbiðja Jehóva og draga lærdóm af trú þeirra. Við skulum líka vera trúföst og treysta að Jehóva styðji starf okkar og haldi áfram að styrkja okkur svo að við getum gert vilja hans. – Jes. 54:17.