Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 4. KAFLI

Jehóva upphefur nafn sitt

Jehóva upphefur nafn sitt

Í ÞESSUM KAFLA

Þjónar Jehóva halda nafni hans á lofti eins og vera ber.

1, 2. Hvernig heldur Nýheimsþýðingin nafni Guðs á lofti?

ÞAÐ var á svölum en sólbjörtum þriðjudagsmorgni hinn 2. desember 1947 að fámennur hópur andasmurðra bræðra á Betel í Brooklyn í New York hófst handa við viðamikið verkefni. Verkið var krefjandi en þeir héldu ótrauðir áfram næstu 12 árin. Sunnudaginn 13. mars árið 1960 var verkinu loksins lokið og þeir skiluðu af sér nýrri þýðingu Biblíunnar. Þrem mánuðum síðar, hinn 18. júní 1960, tilkynnti bróðir Nathan Knorr við mikil fagnaðarlæti á móti í Manchester á Englandi að síðasta bindi þýðingarinnar væri komið út. Hún nefndist Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar. Ræðumaðurinn talaði fyrir munn allra viðstaddra þegar hann sagði: ,Í dag er mikill gleðidagur hjá vottum Jehóva um allan heim!‘ Eitt áberandi einkenni þessarar nýju þýðingar var þeim sérstakt gleðiefni: Nafn Guðs var að finna alls staðar þar sem það stóð í frumtexta Biblíunnar.

Tilkynnt var á mótinu „Vöxtur safnaðar Guðs“ árið 1950 að Nýheimsþýðing Grísku ritninganna væri komin út. Til vinstri: Yankee Stadium í New York-borg. Til hægri: Gana

2 Nafn Guðs er látið falla niður í mörgum þýðingum Biblíunnar. Andasmurðir þjónar Jehóva ákváðu hins vegar að standa gegn þeirri ráðagerð Satans að fela nafn Guðs svo að það félli í gleymsku. Í inngangsorðum Nýheimsþýðingarinnar, sem var kynnt þann dag, segir: „Helsta einkenni þessarar þýðingar er að nafn Guðs endurheimtir þann sess sem því ber.“ Nafn Guðs, eiginnafnið Jehóva, stendur meira en 7.000 sinnum í Nýheimsþýðingunni. Það er óhætt að segja að þessi þýðing hafi haldið nafni föður okkar á himni hátt á lofti – nafninu Jehóva.

3. (a) Hvað skildu bræður okkar varðandi merkingu nafnsins Jehóva? (b) Hvernig ber að skilja 2. Mósebók 3:13, 14? (Sjá greinina „ Hvað merkir nafn Guðs?“)

3 Á árum áður töldu Biblíunemendurnir að nafn Guðs merkti: „Ég er sá sem ég er.“ (2. Mós. 3:14) Því stóð í Varðturninum 1. janúar 1926: „Nafnið Jehóva lýsir því að tilvera hans er óháð öllu öðru ... hann á sér hvorki upphaf né endi.“ Um það leyti sem þýðendur Nýheimsþýðingarinnar hófust handa hafði Jehóva aftur á móti leitt þjónum  sínum fyrir sjónir að nafnið hefði dýpri merkingu. Það gefur ekki aðeins til kynna að tilvera hans sé óháð öllu öðru heldur fyrst og fremst að hann sé Guð fyrirætlunar og framkvæmda. Þeir komust að raun um að nafnið merkir bókstaflega „hann lætur verða“. Hann lét alheiminn og skynsemigæddar sköpunarverur sínar verða til og heldur áfram að láta vilja sinn og fyrirætlun verða að veruleika. En hvers vegna er afar mikilvægt að nafn Guðs sé upphafið og hvernig getum við átt þátt í að upphefja það?

Nafn Guðs helgað

4, 5. (a) Um hvað erum við að biðja þegar við segjum: „Helgist þitt nafn“? (b) Hvernig og hvenær helgar Guð nafn sitt?

4 Jehóva vill að nafn sitt sé hátt upp hafið. Það er reyndar helsta markmið hans að helga nafn sitt eins og sjá má af faðirvorinu. „Helgist þitt nafn,“ sagði Jesús. (Matt. 6:9) Um hvað erum við að biðja þegar við förum með bænarorð eins og þessi?

5 Í 1. kafla þessarar bókar kemur fram að bænarorðin „helgist þitt nafn“ eru ein af þrem beiðnum í faðirvorinu sem snúa að fyrirætlun Jehóva. Hinar tvær eru: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji.“ (Matt. 6:10) Við biðjum Jehóva sem sagt að láta til skarar skríða og helga nafn sitt, rétt eins og við biðjum hann að láta ríki sitt koma og vilja sinn verða. Með öðrum orðum biðjum við Jehóva að hreinsa nafn sitt og losa það við þá smán sem það hefur mátt þola síðan uppreisnin var gerð í Eden. Hvernig bregst Jehóva við slíkri bæn? „Ég mun helga mitt mikla nafn sem hefur verið vanhelgað á meðal þjóðanna,“ segir hann. (Esek. 36:23; 38:23) Jehóva helgar nafn sitt að öllu sköpunarverkinu ásjáandi þegar hann útrýmir öllu illu í Harmagedón.

6. Hvernig getum við átt þátt í að helga nafn Guðs?

6 Jehóva hefur alla tíð leyft þjónum sínum að eiga þátt í að helga nafn sitt. Við getum auðvitað ekki gert nafn Guðs heilagara en það er. Það er nú þegar heilagt í æðsta skilningi þess orðs. Hvernig getum við þá helgað það? Jesaja segir: „Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan.“ Og Jehóva sagði sjálfur um þjóð sína: ,Hún mun helga nafn mitt og óttast Guð Ísraels.‘ (Jes. 8:13, Biblían 1981; Jes. 29:23) Við helgum því nafn Guðs með því að líta á það sem æðra öllum öðrum nöfnum og aðgreint frá þeim, með því að virða það sem það stendur fyrir og með því að hjálpa öðrum að líta á það sem heilagt. Við sýnum sérstaklega lotningu okkar fyrir nafni Guðs með því að viðurkenna að hann ráði yfir okkur og hlýða honum af öllu hjarta. – Orðskv. 3:1; Opinb. 4:11.

 Búin undir að bera nafn Guðs og upphefja það

7, 8. (a) Hvers vegna leið nokkur tími áður en þjónar Guðs fengu að bera nafn hans? (b) Hvað skoðum við í framhaldinu?

7 Nafn Guðs hefur komið fyrir í þeim ritum sem þjónar hans hafa gefið út allt frá áttunda áratug nítjándu aldar. Nafnið Jehóva er til dæmis að finna í Varðturni Síonar í ágúst árið 1879 og í söngbókinni Songs of the Bride sem kom út sama ár. En áður en Jehóva veitti þjónum sínum þann mikla heiður að kenna sig opinberlega við nafn hans virðist hann hafa séð til þess að þeir uppfylltu skilyrðin sem fylgdu því. Hvernig bjó Jehóva Biblíunemendurna undir að fá að bera nafn hans?

8 Þegar við lítum um öxl sjáum við að á áratugunum kringum aldamótin 1900 veitti Jehóva þjónum sínum gleggri skilning á mikilvægum sannindum sem tengdust nafni hans. Við skulum líta á þrjú dæmi.

9, 10. (a) Hvers vegna beindi Varðturninn mikilli athygli að Jesú fyrst í stað? (b) Hvað breyttist árið 1919 og hvaða áhrif hafði það? (Sjá einnig „ Hvernig hefur Varðturninn upphafið nafn Guðs?“)

9 Í fyrsta lagi áttuðu þjónar Jehóva sig á hve nafn hans væri mikilvægt. Til að byrja með töldu Biblíunemendurnir að lausnargjaldið væri aðalkenning Biblíunnar. Það er skýringin á því að Varðturninn beindi oft athygli lesenda að Jesú. Á fyrsta árinu eftir að blaðið hóf göngu sína var nafnið Jesús nefnt tífalt oftar en Jehóva. Í grein í Varðturninum 15. mars 1976 kemur fram að fyrstu árin hafi Biblíunemendurnir lagt „óhóflega áherslu“ á Jesú. En smám saman leiddi Jehóva þeim fyrir sjónir hvílíkt vægi nafn hans sjálfs hefur í Biblíunni. Hvaða áhrif hafði það á Biblíunemendurna? Í áðurnefndri grein í Varðturninum segir að þeir hafi tekið „að veita Jehóva, föður Messíasar, meiri virðingu“, ekki síst frá 1919. Á næsta áratug stóð nafnið Jehóva meira en 6.500 sinnum í Varðturninum.

10 Biblíunemendurnir sýndu að þeir elskuðu nafn Guðs með því að vekja viðeigandi athygli á því. Þeir tóku að „kunngjöra nafn Drottins“, nafnið Jehóva, líkt og Móse gerði endur fyrir löngu. (5. Mós. 32:3; Sálm. 34:4) Og Jehóva gaf gaum að kærleikanum sem þeir sýndu nafni hans og blessaði þá, rétt eins og lofað var í Biblíunni. – Sálm. 119:132; Hebr. 6:10, Biblían 1981.

11, 12. (a) Hvernig breyttust áherslurnar í ritum Biblíunemendanna upp úr 1919? (b) Að hverju var Jehóva að beina athygli þjóna sinna og til hvers?

11 Í öðru lagi fengu sannkristnir menn réttan skilning á því verkefni sem Guð hafði falið þeim. Upp úr 1919 tóku hinir andasmurðu bræður, sem fóru með forystuna, að rannsaka spádóma Jesaja. Í framhaldi af því breyttust áherslurnar í ritunum sem þeir gáfu út. Hvers vegna reyndist þessi breyting vera ,matur á réttum tíma‘? – Matt. 24:45.

12 Orð Jesaja: „Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn, þjónn minn sem ég hef útvalið,“ höfðu aldrei verið rædd  að neinu marki í Varðturninum fyrir 1919. (Lestu Jesaja 43:10-12.) En upp úr 1919 var farið að fjalla um þetta vers í ritunum. Allir andasmurðir voru hvattir til að taka þátt í því verki sem Jehóva hafði falið þeim, það er að segja að vitna um hann. Á stuttu árabili frá 1925 til 1931 var rætt um 43. kafla Jesaja í 57 tölublöðum Varðturnsins, og orð spámannsins voru í öllum tilfellum heimfærð upp á sannkristna menn. Ljóst er að á þessum árum beindi Jehóva athygli þjóna sinna að því verki sem þeir áttu að vinna. Til hvers? Meðal annars til að reyna hæfni þeirra. (1. Tím. 3:10) Áður en Biblíunemendurnir gátu borið nafn Jehóva með réttu urðu þeir að sýna með verkum sínum að þeir væru sannir vottar hans. – Lúk. 24:47, 48.

13. Hvernig kemur fram í Biblíunni hvað sé öllu öðru mikilvægara?

13 Í þriðja lagi áttuðu þjónar Jehóva sig á hve mikilvægt væri að helga nafn hans. Á þriðja áratug síðustu aldar gerðu þeir sér grein fyrir að ekkert væri þýðingarmeira en að nafn Guðs væri helgað. Hvernig kemur þessi mikilvægi sannleikur fram í Biblíunni? Lítum á tvö dæmi sem sýna fram á það. Hver var aðalástæðan fyrir því að Jehóva bjargaði Ísraelsmönnum frá Egyptalandi? „Að ... nafn mitt verði boðað um alla jörðina,“ sagði hann. (2. Mós. 9:16) Og hvers vegna sýndi Jehóva Ísraelsmönnum miskunn þegar þeir gerðu uppreisn gegn honum? Það var af sömu ástæðu. Hann gerði það sökum nafns síns „svo að það yrði ekki vanhelgað í augum þjóðanna“. (Esek. 20:8-10) Hvaða ályktun drógu Biblíunemendurnir af þessum og öðrum frásögum Biblíunnar?

14. (a) Hvað skildu þjónar Guðs skömmu fyrir 1930? (b) Hvaða áhrif hafði það á boðunina að Biblíunemendurnir skildu hvert væri mál málanna? (Sjá einnig greinina „ Mikil hvatning til að boða trúna“.)

14 Skömmu fyrir 1930 skildu þjónar Guðs þýðingu þess sem Jesaja hafði sagt 2.700 árum áður. Hann sagði um Jehóva: „Þannig leiddir þú þjóð þína til að ávinna þér dýrlegt nafn.“ (Jes. 63:14) Biblíunemendurnir skildu að mál málanna væri ekki að þeir björguðust heldur að nafn Guðs helgaðist. (Jes. 37:20; Esek. 38:23) Þessum sannindum var lýst í hnotskurn árið 1929 í bókinni Prophecy. Þar sagði: „Nafn Guðs er mikilvægasta mál sem sköpunin stendur frammi fyrir.“ Þessi nýi skilningur var þjónum Jehóva mikil hvatning til að vitna um hann og taka málstað hans gegn rógi óvinarins.

15. (a) Á hverju höfðu bræður okkar áttað sig upp úr 1930? (b) Hvað var nú tímabært?

15 Við upphaf fjórða áratugarins höfðu bræður okkar áttað sig á hve nafn Guðs væri mikilvægt, fengið gleggri skilning á því verki sem hann hafði falið þeim og sáu í skýrara ljósi hvert væri mikilvægasta mál sögunnar. Nú var tíminn kominn að Jehóva veitti þjónum sínum þann  heiður að kenna sig opinberlega við nafn hans. Við skulum líta á nokkra atburði fortíðar til að kanna hvernig það bar til.

Jehóva velur sér fólk sem ,ber nafn hans‘

16. (a) Með hvaða áberandi hætti upphefur Jehóva nafn sitt? (b) Hverjir báru fyrst nafn Guðs til forna?

16 Jehóva upphefur nafn sitt á áberandi hátt með því að eiga sér fólk á jörð sem ber nafn hans. Ísraelsmenn voru fulltrúar Jehóva og þjóð hans frá 1513 f.Kr. (Jes. 43:12) Þeir héldu hins vegar ekki sáttmálann við Guð, og árið 33 glötuðu þeir sérstöðu sinni sem útvalin þjóð hans. Skömmu síðar sneri hann sér að öðrum þjóðum og valdi sér „lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans“.  (Post. 15:14) Þessi nýja þjóð var nefnd „Ísrael Guðs“ og í henni voru andasmurðir fylgjendur Krists af ýmsum þjóðum. – Gal. 6:16.

17. Hvað tókst Satan?

17 Það mun hafa verið árið 44 sem Guð sá til þess að fylgjendur Krists voru „fyrst kallaðir kristnir“. (Post. 11:26) Í byrjun var þetta heiti einkennandi fyrir sannkristna menn, enda ekki notað um neina aðra. (1. Pét. 4:16) En eins og fram kom í dæmisögu Jesú um hveitið og illgresið tókst Satan að yfirfæra heitið „kristinn“ á falskristna menn. Það fór því svo að um margra alda skeið var erfitt að gera greinarmun á sannkristnum mönnum og fölskum. En það breyttist þegar ,kornskurðartíðin‘ rann upp árið 1914. Hvers vegna? Vegna þess að englar fóru þá að aðskilja falskristna menn frá hinum ósviknu. – Matt. 13:30, 39-41.

18. Hvernig varð bræðrum okkar ljóst að þeir þurftu að finna sér nýtt heiti?

18 Eftir að trúi þjónninn var skipaður til starfa árið 1919 leiddi Jehóva þjónum sínum fyrir sjónir hvaða verkefni hann hafði falið þeim. Þeir áttuðu sig fljótt á því að þeir aðgreindu sig frá öllum falskristnum mönnum með því að boða fagnaðarerindið hús úr húsi. Í framhaldinu varð þeim ljóst að heitið „Biblíunemendur“ var ekki nógu einkennandi. Meginmarkmið þeirra í lífinu var ekki bara að rannsaka Biblíuna heldur að vitna um Guð og heiðra og upphefja nafn hans. Hvaða nafn hæfði þeim þá miðað við verkefnið sem þeir höfðu? Þeirri spurningu var svarað árið 1931.

Dagskrá móts árið 1931.

19, 20. (a) Hvaða yfirlýsing var samþykkt á móti árið 1931? (b) Hvernig brugðust bræður og systur við þegar nýja nafnið var tekið upp?

19 Í júlí 1931 voru um 15.000 biblíunemendur saman komnir á móti í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum. Það vakti forvitni þeirra að sjá bókstafina J og W framan á dagskrá mótsins. Menn veltu fyrir sér hvað þeir merktu og sumum tókst að giska á hið rétta. Sunnudaginn 26. júlí las bróðir Joseph Rutherford upp kröftuga yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars: „Við ... viljum láta nefna okkur Votta Jehóva og þekkjast undir því nafni.“ Nú skildu allir hvað þessir dularfullu stafir merktu. Þeir stóðu fyrir heitið Vottar Jehóva (Jehovah’s Witnesses á ensku) en það er biblíulegt heiti byggt á Jesaja 43:10.

20 Viðbrögð áheyrenda létu ekki á sér standa. Þeir hrópuðu og klöppuðu lengi. Þessi sterku viðbrögð í Columbus í Ohio heyrðust hinum megin á hnettinum en dagskránni var útvarpað þangað. Þau Ernest og Naomi Barber í Ástralíu minnast þess vel. „Þegar lófatakið hófst í Ameríku stukku bræður og systur í Melbourne á fætur og klöppuðu lengi. Við gleymum því aldrei.“ *

 Nafn Guðs hátt upp hafið um allan heim

21. Hvaða áhrif hafði nýja nafnið á boðunina?

21 Að heita hinu biblíulega nafni Vottar Jehóva gaf þjónum hans aukinn kraft til að boða fagnaðarerindið. Edward og Jessie Grimes voru viðstödd mótið í Columbus árið 1931 en þau voru brautryðjendur. Þau sögðu: „Við fórum að heiman sem biblíunemendur en komum heim sem vottar Jehóva. Það var gleðilegt að bera nafn sem hjálpaði okkur að vegsama nafn Guðs.“ Til að gera það tóku sumir vottar upp nýja aðferð eftir mótið. Þeir kynntu sig með því að rétta húsráðanda spjald sem á stóð: „Ég er vottur JEHÓVA og boða ríki JEHÓVA Guðs.“ Þjónar Guðs voru stoltir af því að vera kenndir við nafnið Jehóva og voru tilbúnir til að boða nær og fjær hve mikilvægt nafnið væri. – Jes. 12:4.

„Við fórum að heiman sem biblíunemendur en komum heim sem vottar Jehóva.“

22. Hvað sýnir að þjónar Jehóva skera sig úr fjöldanum?

22 Nú eru liðnir margir áratugir síðan Jehóva sá til þess að andasmurðir þjónar hans tóku sér nafnið vottar Jehóva. Hefur Satan tekist að torvelda fólki að bera kennsl á þjóna Guðs? Hefur honum tekist að láta okkur týnast meðal trúarbragða heims? Nei. Það er augljósara en nokkru sinni fyrr að við erum vottar Guðs. (Lestu Míka 4:5; Malakí 3:18.) Svo nátengd erum við nafni Guðs að hver sem notar það að einhverju marki er sjálfkrafa talinn vera vottur Jehóva. Hin sanna tilbeiðsla á Jehóva fellur ekki í skuggann af fjallháum falstrúarbrögðum heldur „ber yfir hæstu fjallstinda“. (Jes. 2:2) Tilbeiðslan á Jehóva og hið helga nafn hans er sannarlega hátt upp hafið.

23. Hvaða vitneskja um Jehóva er ákaflega traustvekjandi fyrir þjóna hans, samanber Sálm 121:5?

23 Það er traustvekjandi að hugsa til þess að Jehóva ætlar að verja okkur fyrir árásum Satans bæði núna og í framtíðinni. (Sálm. 121:5) Við höfum því ærna ástæðu til að taka undir með sálmaskáldinu sem orti: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ – Sálm. 33:12.

^ gr. 20 Í 7. kafla, bls. 72-74, er rætt um notkun útvarps í þessum tilgangi.