Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 17. KAFLI

Menntun handa þjónum Guðsríkis

Menntun handa þjónum Guðsríkis

Í ÞESSUM KAFLA

Skólar á vegum safnaðarins búa þjóna Guðsríkis undir að gera verkefnum sínum skil.

1-3. Hvernig færði Jesús út kvíarnar og hvaða spurningar vakna?

JESÚS er búinn að boða fagnaðarerindið víðs vegar um Galíleu í tvö ár. (Lestu Matteus 9:35-38.) Hann hefur heimsótt þorp og bæi, kennt í samkunduhúsum og boðað fagnaðarerindið um ríkið. Fólk hópast að honum hvert sem hann kemur. „Uppskeran er mikil,“ segir hann og bætir við að það vanti fleiri verkamenn.

2 Jesús færði út kvíarnar. Hvernig? Hann sendi postulana 12 að „boða Guðs ríki“. (Lúk. 9:1, 2) Vera má að postularnir hafi haft ýmsar spurningar um þetta verkefni. Áður en Jesús sendi þá af stað gerði hann hið sama fyrir þá eins og faðir hans hafði gert fyrir hann – hann kenndi þeim og leiðbeindi.

3 Það koma ýmsar spurningar upp í hugann: Hvaða kennslu fékk Jesús hjá föður sínum? Hvernig kenndi hann postulunum? Hvað um okkar tíma – hefur konungurinn Messías kennt fylgjendum sínum að gera verkefnum sínum skil? Og hvernig hefur hann þá kennt þeim?

‚Ég tala það eitt sem faðirinn hefur kennt mér‘

4. Hvar og hvenær fékk Jesús kennslu hjá föður sínum?

4 Jesús sagðist hafa fengið kennslu hjá föður sínum. ‚Ég tala það eitt sem faðirinn hefur kennt mér,‘ sagði hann meðan hann þjónaði hér á jörð. (Jóh. 8:28) Hvar og hvenær fékk Jesús þessa kennslu? Hún hófst greinilega eftir að hann, frumburður Guðs, var skapaður. (Kól. 1:15) Hann hlustaði á kennara sinn á himnum og fylgdist með honum um óralangan tíma. (Jes. 30:20) Þannig fékk hann óviðjafnanlega menntun og kynntist náið eiginleikum föður síns, verkum og vilja.

5. Hvað kenndi faðirinn syni sínum um starfið sem hann átti að vinna á jörð?

5 Þegar fram liðu stundir fræddi Jehóva son sinn um starfið sem hann átti að vinna á jörð. Lítum á spádóm sem lýsir sambandi kennarans mikla, Jehóva, og frumgetins sonar hans. (Lestu Jesaja 50:4, 5.) Jehóva vakti son  sinn „á hverjum morgni“, segir í spádóminum. Þarna er dregin upp mynd af kennara sem vekur nemanda sinn snemma morguns til að kenna honum. Í biblíuhandbók segir: „Það er eins og Jehóva ... fari með nemandann í skólann og kenni honum hvað hann eigi að boða og hvernig.“ Í þessum himneska „skóla“ kenndi Jehóva syni sínum ‚hvað hann ætti að segja og hvað hann ætti að tala‘. (Jóh. 12:49) Faðirinn fræddi soninn einnig um kennsluaðferðir. * Jesús notaði þekkingu sína vel meðan hann var á jörð, ekki aðeins þegar hann boðaði fagnaðarerindið heldur einnig þegar hann kenndi fylgjendum sínum hvernig þeir ættu að fara að.

6, 7. (a) Hvað kenndi Jesús postulunum og undir hvað bjó hann þá? (b) Hvers konar kennslu hefur Jesús veitt fylgjendum sínum á okkar dögum?

6 Í byrjun kaflans kom fram að Jesús hafi kennt postulunum. Hvað kenndi hann þeim? Samkvæmt 10. kafla Matteusarguðspjalls gaf hann þeim skýrar leiðbeiningar um boðunina, meðal annars eftirfarandi: hvar þeir áttu að boða (vers 5 og 6), hvaða boðskap þeir áttu að boða (vers 7), að þeir þyrftu að treysta Jehóva (vers 9 og 10), hvernig þeir ættu að taka fólk tali (vers 11-13), hvernig þeir ættu að bregðast við höfnun (vers 14 og 15) og viðbrögð við ofsóknum (vers 16-23). * Með markvissri kennslu sinni bjó hann postulana undir að fara með forystu í boðun fagnaðarerindisins á fyrstu öld.

7 Hvað um okkar daga? Jesús, konungur Guðsríkis, hefur falið fylgjendum sínum mikilvægasta verkefni sem hugsast getur, það er að segja að boða „fagnaðarerindið um ríkið ... um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. (Matt. 24:14) Hefur konungurinn kennt okkur að vinna þetta þýðingarmikla verk? Svo sannarlega. Af himni ofan hefur hann séð til þess að fylgjendur sínir fái kennslu og þjálfun í að boða fagnaðarerindið meðal almennings og rækja ýmsar skyldur innan safnaðarins.

Þjónunum kennt að boða fagnaðarerindið

8, 9. (a) Hvert var meginmarkmið Boðunarskólans? (b) Hvernig hefur samkoman í miðri viku auðveldað þér að gera boðuninni betri skil?

8 Söfnuður Jehóva hefur lengi notað mót og safnaðarsamkomur, svo sem þjónustusamkomuna, sem vettvang til að kenna þjónum hans að boða fagnaðarerindið og þjálfa þá. En upp úr 1940 settu bræðurnir, sem fóru með forystu við aðalstöðvarnar, á laggirnar skóla til að veita frekari menntun. Og skólunum hefur fjölgað með tímanum.

9 Boðunarskólinn. Eins og fram kom í kaflanum á undan tók þessi skóli til starfa árið 1943. Var markmið  hans aðeins að þjálfa nemendur í að flytja ræður á safnaðarsamkomum? Nei. Meginmarkmið skólans var að þjálfa þjóna Jehóva í að nota tunguna til að lofa hann í boðunarstarfinu. (Sálm. 150:6) Allir bræður og systur, sem voru skráð í skólann, urðu færari boðberar fagnaðarerindisins. Núna er þessi þjálfun veitt á samkomunni í miðri viku.

10, 11. Hverjum er Gíleaðskólinn ætlaður núna og hvaða markmiði þjónar námsskráin?

10 Biblíuskólinn Gíleað. Biblíuskólinn Gíleað, sem nú heitir svo, tók til starfa mánudaginn 1. febrúar 1943. Skólinn hafði upphaflega það hlutverk að mennta brautryðjendur og aðra þjóna Guðs í fullu starfi til að vera trúboðar einhvers staðar í heiminum. Síðan í október 2011 hefur hann hins vegar aðeins verið ætlaður sérbrautryðjendum, farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra, Betelítum og trúboðum sem hafa ekki enn sótt skólann.

11 Hvaða markmiði þjónar námsskrá Gíleaðskólans? Gamalreyndur leiðbeinandi við skólann segir: „Að styrkja trú nemenda með rækilegu biblíunámi, og hjálpa þeim að þroska með sér þá eiginleika sem þarf til að ráða við þær áskoranir sem fylgja verkefnum þeirra. Annað meginmarkmið námsskrárinnar er að vekja enn sterkari löngun með nemendunum til að boða fagnaðarerindið.“ – Ef. 4:11.

12, 13. Hvaða áhrif hefur Gíleaðskólinn haft á boðunina í heiminum? Nefndu dæmi.

12 Hvaða áhrif hefur Gíleaðskólinn haft á boðunina í heiminum? Síðan 1943 hafa rúmlega 8.500 vottar setið skólann * og trúboðar frá Gíleað hafa starfað í meira en 170 löndum víða um heim. Trúboðarnir nota menntun sína vel. Þeir eru ötulir við boðunina og kenna öðrum að gera slíkt hið sama. Í mörgum tilvikum hafa þeir rutt brautina á svæðum þar sem voru fáir ef nokkrir boðberar Guðsríkis.

13 Tökum Japan sem dæmi. Skipuleg boðun meðal almennings stöðvaðist næstum því í síðari heimsstyrjöldinni. Í ágúst 1949 voru innan við tíu innfæddir boðberar í Japan. En í árslok voru 13 trúboðar frá Gíleað önnum kafnir að boða fagnaðarerindið þar. Margir trúboðar fylgdu í kjölfarið. Í fyrstu einbeittu þeir sér að því að starfa í stærstu borgunum en fluttu sig síðar til annarra borga. Þeir hvöttu nemendur sína og aðra eindregið til að gerast brautryðjendur. Brennandi áhugi trúboðanna skilaði sér. Núna eru yfir 216.000 boðberar í Japan og næstum 40 prósent þeirra eru brautryðjendur. *

14. Hvað sannar tilvist þeirra skóla sem söfnuðurinn starfrækir? (Sjá einnig yfirlitsgreinina „ Skólar handa þjónum Guðsríkis“, bls. 188.)

14 Aðrir skólar á vegum safnaðarins. Brautryðjendaskólinn, Biblíuskólinn fyrir hjón og Biblíuskólinn fyrir  einhleypa bræður hafa hjálpað nemendum að styrkja sinn andlega mann og taka góða forystu í boðun fagnaðarerindisins. * Allir þessir skólar eru eindregin sönnun þess að konungurinn hafi menntað fylgjendur sína svo að þeir geti gert boðuninni góð skil. – 2. Tím. 4:5.

Bræður fá kennslu til að sinna sérstökum verkefnum

15. Hvernig vilja bræður, sem gegna ábyrgðarstörfum, líkja eftir Jesú?

15 Víkjum aftur að spádómi Jesaja þar sem talað er um að Jesús hafi fengið kennslu hjá Jehóva. Í þessum himneska „skóla“ lærði sonurinn að „styrkja hinn þreytta með orðum“. (Jes. 50:4) Jesús gerði eins og honum hafði verið kennt. Meðan hann var á jörð endurnærði hann þá sem ‚erfiðuðu og þunga voru hlaðnir‘. (Matt. 11:28-30) Þeir sem gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum líkja eftir Jesú og reyna að endurnæra bræður sína og systur. Ýmsir skólar hafa verið settir á laggirnar til að hjálpa hæfum bræðrum að þjóna trúsystkinum sínum enn betur.

16, 17. Hvert er markmiðið með Ríkisþjónustuskólanum? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

 16 Ríkisþjónustuskóli. Þessi skóli tók til starfa 9. mars 1959 í South Lansing í New York. Farandumsjónarmönnum og safnaðarþjónum (sem nú kallast umsjónarmaður öldungaráðsins) var boðið að sitja mánaðarlangt námskeið þar. Síðar var námskeiðið þýtt úr ensku á önnur tungumál og smám saman fengu bræður út um allan heim tækifæri til að sitja það. *

Bróðir Lloyd Barry kennir í Ríkisþjónustuskólanum í Japan árið 1970.

17 Í árbók Votta Jehóva 1962 segir um markmið Ríkisþjónustuskólans: „Í öllu annríki þessa heims þarf umsjónarmaður í söfnuði Votta Jehóva að geta skipulagt líf sitt þannig að hann geti sýnt öllum í söfnuðinum viðeigandi umhyggju og verið þeim til blessunar. En hann má ekki vanrækja fjölskyldu sína til að sinna söfnuðinum. Hann þarf að hafa góða dómgreind. Safnaðarþjónar um heim allan hafa fengið prýðistækifæri til að safnast saman í Ríkisþjónustuskólanum. Þar fá þeir menntun sem hjálpar þeim að gera það sem Biblían segir að umsjónarmaður  eigi að geta áorkað.“ – 1. Tím. 3:1-7; Tít. 1:5-9.

18. Hvernig njóta allir þjónar Guðs góðs af Ríkisþjónustuskólanum?

18 Allir þjónar Guðs hafa notið góðs af Ríkisþjónustuskólanum. Hvernig þá? Þegar öldungar og safnaðarþjónar fara eftir því sem þeir læra í skólanum endurnæra þeir trúsystkini sín, rétt eins og Jesús gerði. Kanntu ekki að meta hlýleg orð, einhvern sem ljáir þér eyra eða uppörvandi heimsókn öldungs eða safnaðarþjóns sem lætur sér annt um þig? (1. Þess. 5:11) Þessir bræður eru söfnuðinum til mikillar blessunar.

19. Hvaða öðrum skólum hefur fræðslunefndin umsjón með og hvaða hlutverki gegna þeir?

19 Aðrir skólar á vegum safnaðarins. Fræðslunefnd hins stjórnandi ráðs hefur umsjón með öðrum skólum sem eru ætlaðir bræðrum í ábyrgðarstöðum í söfnuðinum. Þessir skólar hafa það markmið að auðvelda safnaðaröldungum, farandumsjónarmönnum og bræðrum í deildarnefndum að rækja skyldur sínar sem best. Námskeiðin eru bræðrunum hvatning til að rækta sinn andlega mann og fylgja meginreglum Biblíunnar í samskiptum við hina dýrmætu sauði sem Jehóva hefur trúað þeim fyrir. – 1. Pét. 5:1-3.

Fyrsti nemendahópur í Þjónustuþjálfunarskólanum í Malaví árið 2007.

20. Hvers vegna gat Jesús sagt: „Guð mun kenna þeim öllum,“ og hvað ætlar þú að gera?

20 Konungurinn Messías hefur greinilega menntað fylgjendur sína vel. Öll þessi menntun kemur ofan frá: Jehóva menntaði son sinn og sonurinn fylgjendur sína. Þess vegna gat Jesús sagt: „Guð mun kenna þeim öllum.“ (Jóh. 6:45; Jes. 54:13) Við skulum vera staðráðin í að notfæra okkur sem best kennsluna sem konungurinn hefur látið okkur í té. Og höfum hugfast að meginmarkmið allrar þessarar menntunar er að styrkja okkar andlega mann þannig að við getum gert boðuninni full skil.

^ gr. 5 Hvernig vitum við að faðirinn fræddi soninn um kennsluaðferðir? Jesús notaði dæmisögur og líkingar ríkulega þegar hann kenndi, og uppfyllti þar með spádóm sem var skráður öldum áður en hann fæddist. (Sálm. 78:2; Matt. 13:34, 35) Jehóva, höfundur þessa spádóms, ákvað greinilega löngu fyrir fram að sonur hans skyldi kenna með dæmisögum og líkingum. – 2. Tím. 3:16, 17.

^ gr. 6 Nokkrum mánuðum síðar kvaddi Jesús til 70 til viðbótar og „sendi þá á undan sér, tvo og tvo,“ til að boða fagnaðarerindið. Hann kenndi þeim einnig áður en hann sendi þá af stað. – Lúk. 10:1-16.

^ gr. 12 Sumir hafa setið Gíleaðskólann oftar en einu sinni.

^ gr. 13 Nánari upplýsingar um áhrif trúboða frá Gíleað á starfið í heiminum er að finna í 23. kafla bókarinnar Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom.

^ gr. 14 Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis er kominn í stað tveggja síðastnefndu skólanna.

^ gr. 16 Ríkisþjónustuskólinn er haldinn á nokkurra ára fresti og námskeiðin eru mislöng. Allir öldungar sitja skólann og síðan 1984 hafa safnaðarþjónar einnig notið góðs af honum.