Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 22. KAFLI

Ríki Guðs lætur vilja hans verða á jörð

Ríki Guðs lætur vilja hans verða á jörð

Í ÞESSUM KAFLA

Ríki Guðs uppfyllir öll loforð hans varðandi mannkynið og jörðina.

1, 2. (a) Hvers vegna getur stundum verið erfitt að sjá paradís framtíðarinnar fyrir sér sem veruleika? (b) Hvað getur hjálpað okkur að styrkja trúna á fyrirheit Guðs?

TRÚFASTUR bróðir gengur inn í ríkissalinn, þreyttur eftir erfiðan vinnudag. Yfirmaðurinn hans er kröfuharður og hefur komið illa fram við hann. Það er þrautin þyngri að framfleyta fjölskyldunni og í ofanálag hefur bróðirinn áhyggjur af veikindum konunnar sinnar. Hann varpar öndinni léttara þegar samkoman hefst með söng. Hann er ánægður að vera með bræðrum sínum og systrum í ríkissalnum. Söngtextinn fjallar um lífið í paradís, og hvetur hann til að sjá sjálfan sig fyrir sér þegar vonin er orðin að veruleika. Honum hefur alltaf þótt vænt um þennan söng, og það hefur róandi áhrif á hrjáð hjarta hans að syngja hann með fjölskyldunni.

2 Kannastu við þessa tilfinningu? Það gerum við flest okkar. En lífið í þessum gamla heimi er nú einu sinni þannig að það getur stundum verið ósköp erfitt að sjá paradís framtíðarinnar fyrir sér sem veruleika. Við lifum „örðugar tíðir“ og heimurinn, sem við búum í, er ekki beinlínis paradís. (2. Tím. 3:1) Hvað getur auðveldað okkur að hugsa um paradís sem veruleika? Skoðum málið. Hvernig vitum við með vissu að ríki Guðs tekur bráðlega völd yfir öllu mannkyni? Við skulum líta á fáeina af spádómum Jehóva sem þjónar hans sáu rætast endur fyrir löngu. Síðan skoðum við hvernig þessir spádómar og fleiri eru að rætast á stórfenglegan hátt núna. Eftir að hafa styrkt trúna með þessum hætti skulum við ræða hvað þessir sömu spádómar þýða fyrir okkur í framtíðinni.

Hvernig efndi Jehóva loforð sín forðum daga?

3. Hvaða loforð hughreysti Gyðinga í útlegðinni í Babýlon?

3 Reynum að sjá fyrir okkur hvernig lífið hefur verið hjá Gyðingum sem bjuggu í útlegð í Babýlon á sjöttu öld f.Kr. Margir höfðu alist upp í útlegðinni og reyndar foreldrar þeirra líka. Lífið var ekki auðvelt. Babýloníumenn gerðu gys að þeim fyrir að trúa á Jehóva. (Sálm. 137:1-3) Jehóva  hafði lofað að leiða þjóð sína heim aftur. Trúir Gyðingar höfðu haldið í þessa björtu von áratugum saman. Jehóva sagði að aðstæður yrðu unaðslegar þegar heim kæmi. Hann sagði jafnvel að Júda yrði eins og Edengarðurinn – paradís. (Lestu Jesaja 51:3.) Fyrirheit sem þessi voru greinilega gefin til að hughreysta þjóna Guðs og draga úr efasemdum sem gátu sótt á þá. Hvernig þá? Lítum á nokkra af spádómunum.

4. Hvernig fullvissaði Jehóva Gyðinga um að þeir yrðu óhultir í heimalandi sínu?

4 Öryggi. Það var ekki bókstafleg paradís sem beið útlaganna þegar þeir sneru heim heldur fjarlægt land sem hafði legið í eyði í 70 ár. Fáir þeirra höfðu séð það áður. Ljón voru algeng í biblíulöndunum á þeim tíma og hið sama er að segja um úlfa, hlébarða og fleiri rándýr. Fjölskyldufaðir velti ef til vill fyrir sér hvernig hann gæti tryggt öryggi eiginkonu sinnar og barna. Og hvernig átti hann að vernda sauðféð og nautgripina? Það var fullkomlega eðlilegt að hafa áhyggjur af þessu. Hugsaðu þér hve loforð Guðs í Jesaja 11:6-9 hlýtur að hafa verið traustvekjandi. (Lestu.) Með þessum fallegu ljóðrænu orðum fullvissaði Jehóva útlagana um að þeir og búpeningur þeirra yrði óhultur. Ljónið myndi bíta gras í þeim skilningi að það myndi ekki ráðast á nautgripi Gyðinga. Trúir þjónar Guðs þurftu ekki að óttast þessi rándýr. Jehóva lofaði að þjónar hans yrðu óhultir í Júda, meira að segja í eyðimörkinni og skógunum. – Esek. 34:25.

5. Hvaða spádómar fullvissuðu útlagana um að Jehóva myndi sjá vel fyrir þörfum þeirra þegar heim kæmi?

5 Allsnægtir. Það var fleira sem gat valdið Gyðingum áhyggjum. Skyldu þeir geta brauðfætt fjölskylduna þegar heim kæmi? Hvar áttu þeir að búa? Verður einhverja vinnu að fá og verður hún betri en stritið í útlegðinni undir oki herraþjóðarinnar? Jehóva sýndi þjónum sínum þá umhyggju að svara þessum spurningum líka í spádómunum sem hann innblés. Hann lofaði að hlýðnir þjónar hans gætu treyst á regnið og þar af leiðandi myndi landið gefa af sér „kjarnmikið og gott“ korn. (Jes. 30:23) Og Jehóva lofaði þjónum sínum að þeir myndu eiga þak yfir höfuðið og hafa gefandi vinnu: „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra. Menn munu ekki reisa hús sem annar býr í, ekki planta og annar neyta.“ (Jes. 65:21, 22) Á margan hátt yrði lífið unaðslegt í samanburði við útlegðina í hinni heiðnu Babýlon. En hvað um alvarlegasta málið, vandann sem leiddi til þess að þeir voru sendir í útlegð á sínum tíma?

6. Hvað hafði lengi vantað upp á heilbrigði Gyðinga og hvernig hughreysti Jehóva útlagana sem áttu eftir að snúa heim?

6 Heilbrigt samband við Guð. Sambandi Gyðinga við Jehóva hafði hrakað löngu áður en þeir voru sendir í útlegð. Jehóva sagði um þjóð sína fyrir munn Jesaja spámanns:  „Höfuðið er allt í sárum, hjartað allt sjúkt.“ (Jes. 1:5) Í andlegum skilningi voru þeir blindir og heyrnarlausir því að þeir hlustuðu ekki á ráðleggingar Jehóva og lokuðu augunum þegar hann vildi upplýsa þá. (Jes. 6:10; Jer. 5:21; Esek. 12:2) Hvað nú ef það færi á sama veg hjá útlögunum eftir að þeir sneru heim? Við hvaða öryggi myndu þeir þá búa? Myndu þeir ekki bara missa velþóknun Jehóva á nýjan leik? Loforð Jehóva var mjög traustvekjandi. Hann sagði: „Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.“ (Jes. 29:18) Jehóva myndi lækna iðrandi þjóð sína eftir að hafa agað hana. Hann myndi leiðbeina henni og upplýsa hana meðan hún væri hlýðin og móttækileg.

7. Hvernig rættist það sem Guð lofaði útlægum þjónum sínum og hvers vegna ætti það að styrkja trú okkar?

7 Stóð Jehóva við orð sín? Sagan svarar því. Gyðingar bjuggu við öryggi, allsnægtir og heilbrigt samband við Guð eftir að þeir sneru heim. Jehóva verndaði þá til dæmis fyrir grannþjóðum sem voru voldugri og fjölmennari en þeir. Rándýr lögðust ekki á búpening þeirra. Spádómar manna eins og Jesaja, Jeremía og Esekíels um paradís rættust reyndar ekki nema að hluta til, en það sem þjónar Guðs sáu var hrífandi og nóg til að styrkja þá á þeim tíma. Það styrkir trú okkar að íhuga það sem Jehóva gerði fyrir þjóð sína forðum daga. Hvernig yrði meiri uppfylling þessara spádóma úr því að þessi takmarkaða uppfylling var svona hrífandi? Við skulum kanna hvað Jehóva hefur gert fyrir okkur sem nú lifum.

Hvernig hefur Jehóva byrjað að uppfylla fyrirheit sín á okkar dögum?

8. Í hvers konar ‚landi‘ búa þjónar Guðs nú á dögum?

8 Þjónar Jehóva nú á dögum mynda ekki bókstaflega þjóð og búa ekki í einu ákveðnu landi. Andasmurðir kristnir menn eru hins vegar andleg þjóð sem er nefnd „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) ‚Aðrir sauðir‘ búa og starfa með þeim í andlegu ‚landi‘ en það er sá vettvangur þar sem þeir tilbiðja Jehóva Guð í sameiningu. Líf þeirra snýst um þessa tilbeiðslu. (Jóh. 10:16; Jes. 66:8) Og hvers konar „land“ hefur Jehóva gefið okkur? Það er unaðsleg andleg paradís þar sem loforð Guðs um Edengarð hafa ræst í andlegum skilningi. Lítum á nokkur dæmi.

9, 10. (a) Hvernig rætist spádómurinn í Jesaja 11:6-9 núna? (b) Hvernig sýna þjónar Guðs að þeir séu friðsamir?

9 Öryggi. Í spádóminum í Jesaja 11:6-9 er dregin upp fögur mynd af sátt og samlyndi. Hún lýsir friði milli villidýra annars vegar og manna og húsdýra hins vegar. Rætist þessi spádómlega mynd í andlegum skilningi núna? Já, í 9. versi kemur fram hvers vegna villidýrin gera ekki illt og valda ekki skaða: „Því að allt landið verður fullt af þekkingu  á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“ Fá dýrin þekkingu á Jehóva og breyta hátterni sínu? Nei, það er fólk sem breytist þegar það kynnist hinum hæsta Guði og lærir að líkja eftir friðsemd hans. Þess vegna sjáum við þennan spádóm rætast með stórfenglegum hætti í andlegu paradísinni. Fylgjendur Krists leggja af grimmd og dýrslega hegðun undir stjórn Guðsríkis og læra að lifa í sátt og samlyndi við trúsystkini sín.

10 Tökum dæmi. Í þessari bók höfum við rætt um hlutleysi kristinna manna, bæði biblíulegan grundvöll þeirrar afstöðu sem þjónar Guðs taka og ofsóknirnar sem þeir hafa mátt þola vegna hlutleysis síns. Er ekki einstakt að í þessum ofbeldisfulla heimi skuli vera til nokkuð fjölmenn „þjóð“ sem neitar að taka þátt í hvers kyns ofbeldi, jafnvel þótt hótað sé lífláti? Það er skýr sönnun þess að þegnar konungsins Messíasar séu friðsamir eins og Jesaja lýsir. Jesús sagði að fylgjendur sínir myndu þekkjast á því að þeir elskuðu hver annan. (Jóh. 13:34, 35) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ starfar undir umsjón Krists í söfnuðinum og kennir öllum sannkristnum mönnum að vera friðsamir, kærleiksríkir og mildir í lund. – Matt. 24:45-47.

11, 12. Hvers konar hungursneyð ríkir í heiminum en hvernig hefur Jehóva séð fyrir þjónum sínum?

 11 Allsnægtir. Það ríkir andleg hungursneyð í heiminum. Í Biblíunni segir: „Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn Guð, að ég sendi hungur til landsins, hvorki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir orði Drottins.“ (Amos 8:11) Svelta þegnar Guðsríkis líka heilu hungri? Jehóva lýsti muninum á þjónum sínum og óvinum og sagði: „Þjónar mínir munu eta en yður mun hungra, þjónar mínir munu drekka en yður mun þyrsta, þjónar mínir munu gleðjast en von yðar mun bregðast.“ (Jes. 65:13) Hefurðu séð þessi orð rætast?

12 Andleg fæða streymir til okkar eins og fljót sem dýpkar og breiðir úr sér. Biblíuskýringarit okkar, hljóðbækur, myndbönd, samkomur, mót og efnið, sem birtist á vefsetri okkar, eru eins og stríður straumur andlegrar næringar í andlega sveltandi heimi. (Esek. 47:1-12; Jóel 4:18) Finnst þér ekki heillandi hvernig Jehóva efnir loforð sitt um að sjá okkur fyrir andlegum allsnægtum í daglega lífinu? Gætirðu þess að nærast reglulega við nægtaborð Jehóva?

Söfnuðirnir eru okkur hjálp til að vera vel nærð, örugg og heilbrigð í andlegum skilningi.

13. Hvernig hefurðu séð loforð Jehóva rætast um að blindir fái sjón og heyrnarlausir heyri?

13 Heilbrigt samband við Guð. Andleg blinda og heyrnarleysi hafa lagst yfir heiminn eins og faraldur. (2. Kor. 4:4) En Kristur læknar meinsemdir og sjúkdóma út um allan heim. Hefurðu séð blinda fá sjón og heyrnarlausa fá heyrn? Ef þú hefur séð fólk fá nákvæma þekkingu á sannleikanum í Biblíunni, og séð það kasta frá sér þeim trúarlegu lygum sem gerðu að verkum að það hvorki sá né heyrði sannleikann, þá hefurðu séð þetta loforð rætast: „Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.“ (Jes. 29:18) Hundruð þúsunda manna um heim allan fá andlega lækningu af þessu tagi á hverju ári. Hver einasta manneskja, sem yfirgefur Babýlon hina miklu og sameinast okkur í tilbeiðslu í andlegu paradísinni, er lifandi sönnun þess að loforð Jehóva hafa ræst.

14. Hvernig getum við styrkt trúna?

14 Í hverjum kafla þessarar bókar eru færð sterk rök fyrir því að Kristur hafi leitt fylgjendur sína inn í sanna andlega paradís núna við endalokin. Við skulum halda áfram að ígrunda þá margþættu blessun sem við njótum í þessari paradís. Þannig styrkjum við trúna á loforð Jehóva um framtíðina.

„Til komi þitt ríki“

15. Hvers vegna getum við treyst að jörðin verði paradís?

15 Það hefur alla tíð verið ætlun Jehóva að öll jörðin verði paradís. Hann setti Adam og Evu í paradísargarð og fékk þeim það verkefni að fylla jörðina afkomendum sínum og annast öll dýrin. (1. Mós. 1:28) En Adam og Eva  fylgdu Satan í uppreisn hans og kölluðu ófullkomleika, synd og dauða yfir alla afkomendur sína. Fyrirætlun Jehóva breyttist þó ekki. Allt sem hann segir rætist fullkomlega. (Lestu Jesaja 55:10, 11.) Þess vegna getum við treyst að afkomendur Adams og Evu eigi eftir að fylla jörðina, gera sér hana undirgefna og annast allt sköpunarverk Jehóva af alúð og umhyggju í einni samfelldri paradís. Þegar það gerist rætast að fullu þeir spádómar sem útlægir Gyðingar fengu um líf í paradís. Lítum á eftirfarandi.

16. Hvernig lýsir Biblían örygginu sem við fáum að búa við í paradís?

16 Öryggi. Loksins fullkomnast myndin sem er svo fagurlega lýst í Jesaja 11:6-9, jafnvel í bókstaflegum skilningi. Karlar, konur og börn verða óhult og örugg hvar sem er á jörðinni. Engum stafar hætta af öðrum mönnum né nokkru dýri. Hugsaðu þér hvernig lífið verður þegar þú getur litið á alla jörðina sem heimili þitt og getur synt í ánum, vötnunum og sjónum, farið um fjöll og firnindi og gengið um gresjurnar algerlega öruggur. Þú getur líka verið óhræddur þegar dimmir af nóttu. Spádómurinn í Esekíel 34:25 rætist þannig að þjónar Guðs geta jafnvel ‚búið óhultir í eyðimörkinni og sofið í skógunum‘.

17. Hvers vegna er alveg öruggt að Jehóva sjái vel fyrir þörfum okkar þegar ríki hans stjórnar allri jörðinni?

17 Allsnægtir. Sjáðu fyrir þér þann tíma þegar fátækt, vannæring, hungur og velferðarkerfi verða ekki lengur til. Andlegu allsnægtirnar, sem þjónar Guðs búa við núna, eru trygging fyrir því að konungurinn Messías sjái fyrir þegnum sínum á allan hátt. Þegar Jesús var á jörð sýndi hann í smáum mæli að hann sé fær um að uppfylla slíka spádóma því að hann mettaði þúsundir manna með aðeins fáeinum brauðum og fiskum. (Matt. 14:17, 18; 15:34-36; Mark. 8:19, 20) Þegar ríki Guðs stjórnar allri jörðinni rætast spádómar eins og þessi bókstaflega: „Þá mun hann gefa því regn sem þú sáðir í akurinn og kornið, sem hann gefur af sér, verður kjarnmikið og gott. Á þeim degi mun fénaður þinn ganga í víðlendum grashaga.“ – Jes. 30:23.

18, 19. (a) Hvaða þýðingu hefur spádómurinn í Jesaja 65:20-22 fyrir þig? (b) Í hvaða skilningi náum við „aldri trjánna“?

18 Eins og staðan er núna er það fjarlægur draumur fyrir marga að eiga sér þægilegt heimili og hafa góða og gefandi vinnu. Í þessu spillta kerfi hafa margir á tilfinningunni að þeir þurfi að vinna langan vinnudag og strita óhóflega en hafa samt lítið í aðra hönd handa sér og sínum. Hinir ríku og ágjörnu hirði hins vegar afraksturinn af erfiði þeirra. Hugsaðu þér hvernig lífið verður þegar þessi spádómur rætist út um allan heim: „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra. Menn munu ekki reisa hús sem annar býr í, ekki planta og annar neyta en þjóð mín mun ná aldri trjánna og mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar.“ – Jes. 65:20-22.

 19 Hvað merkir það að við náum „aldri trjánna“? Finnurðu ekki til vissrar lotningar þegar þú stendur hjá stóru og tignarlegu tré og veltir fyrir þér hvað það sé orðið gamalt? Það stóð ef til vill þarna áður en langafi þinn fæddist. Þú hugsar kannski með þér að ef þú yrðir áfram ófullkominn eins og núna myndi tréð sennilega lifa lengur en þú og standa kyrrsælt á sínum stað eftir að þú værir kominn undir græna torfu. Hvílík umhyggja af hálfu Jehóva að fullvissa okkur um að við eigum í vændum langa og friðsæla tilveru í paradís framtíðar. (Sálm. 37:11, 29) Sú stund kemur að okkur finnst langlíf trén vera jafn hverful og grasið. Þau koma og fara en við lifum endalaust.

20. Hvernig verða dyggir þegnar Guðsríkis fullkomlega heilbrigðir?

20 Fullkomið heilbrigði. Sjúkdómar og dauði varpa dimmum skugga á mannlífið alls staðar í heiminum. Í vissum skilningi erum við öll sjúk – haldin banvænum sjúkdómi sem kallast synd. Eina lækningin er lausnarfórn Krists. (Rómv. 3:23; 6:23) Jesús og meðstjórnendur hans hjálpa fólki að hafa fullt gagn af lausnarfórninni þegar þúsundáraríkið er gengið í garð. Þeir uppræta smám saman hvern snefil af syndinni hjá þeim sem eru trúir Guði. Þá rætist spádómur Jesaja til fullnustu: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er veikur.‘ Syndir fólksins, sem þar býr, hafa verið fyrirgefnar.“ (Jes. 33:24) Hugsaðu þér hvernig tilveran verður þegar enginn verður blindur, heyrnarlaus eða bæklaður. (Lestu Jesaja 35:5, 6.) Engir sjúkdómar verða Jesú ofviða. Hann getur læknað þá alla, hvort sem þeir eru líkamlegir eða geðrænir. Dyggir þegnar Guðsríkis verða fullkomlega heilir heilsu.

21. Hvað verður um dauðann og hvers vegna finnst þér þetta loforð hughreystandi?

21 En hvað um endanlegar afleiðingar sjúkdóma, óumflýjanlegan fylgifisk syndarinnar – dauðann? Hann er „síðasti óvinurinn“, sá sem ber alla ófullkomna menn ofurliði fyrr eða síðar. (1. Kor. 15:26) En er dauðinn óvinnandi andstæðingur í augum Jehóva? Tökum eftir hverju Jesaja spáði: „Hann [mun] afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jes. 25:8) Geturðu séð þetta fyrir þér? Engar jarðarfarir, engir kirkjugarðar, engin sorgartár. Einu tárin, sem fólk fellir, verða gleðitár þegar Jehóva efnir hrífandi loforð sitt um að vekja dána aftur til lífs. (Lestu Jesaja 26:19.) Loksins verða öll sárin, sem dauðinn hefur valdið, gróin fyrir fullt og allt.

22. Hvað gerist þegar ríki Messíasar hefur hrint vilja Guðs í framkvæmd á jörð?

22 Þegar þúsundáraríkið er á enda hefur það hrint vilja Guðs í framkvæmd á jörðinni og Kristur afhendir þá föður sínum stjórnina. (1. Kor. 15:25-28) Mannkynið er loks orðið fullkomið og er tilbúið til að gangast undir lokapróf  þegar Satan er leystur úr undirdjúpinu þar sem hann gat ekkert aðhafst. Síðan útrýmir Kristur þessum illskeytta höggormi og öllum sem fylgja honum að málum. (1. Mós. 3:15; Opinb. 20:3, 7-10) En allir sem elska Jehóva eiga bjarta framtíð fyrir sér. Líklega er ekki hægt að lýsa henni betur en gert er í innblásnu versi í Biblíunni. Þar er því lofað að trúir þjónar Guðs hljóti ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘. – Rómv. 8:21.

Ríki Jehóva uppfyllir öll fyrirheit hans um mannkynið og jörðina.

23, 24. (a) Hvers vegna er öruggt að loforð Guðs rætast? (b) Hvað ætlar þú að gera?

23 Þessi fyrirheit eru ekki byggð á neinni óskhyggju eða draumórum. Það er öruggt að fyrirheit Jehóva rætast. Hvers vegna? Mundu eftir orðum Jesú sem voru rædd í fyrsta kafla þessarar bókar. Hann kenndi fylgjendum sínum að biðja til Jehóva: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:9, 10) Ríki Guðs er engin ímyndun. Það er veruleiki. Það ríkir á himnum núna. Í heila öld hefur það uppfyllt loforð Jehóva með greinilegum hætti og það blasir við okkur í kristna söfnuðinum. Við getum því treyst að öll loforð Jehóva rætist þegar ríki hans kemur og beitir mætti sínum að fullu í þágu jarðar.

24 Við vitum að ríki Guðs kemur. Við vitum að hvert einasta loforð Jehóva rætist. Hvers vegna? Vegna þess að RÍKI GUÐS STJÓRNAR! Við þurfum öll að spyrja okkur: Læt ég ríki Guðs stjórna lífi mínu? Við skulum gera allt sem við getum til að vera dyggir þegnar Guðsríkis núna þannig að við getum notið góðs af fullkominni og réttlátri stjórn þess að eilífu.