Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 11. KAFLI

Siðferðileg hreinsun endurspeglar heilagleika Guðs

Siðferðileg hreinsun endurspeglar heilagleika Guðs

Í ÞESSUM KAFLA

Konungurinn hefur kennt þegnum sínum að virða siðferðisreglur Guðs.

Sjáðu sjálfan þig fyrir þér ganga inn um hliðið að ytri forgarði hins mikla andlega musteris Jehóva.

1. Hverju lýsti Esekíel sem vekur með okkur lotningu?

SEGJUM að þú yrðir fyrir svipaðri lífsreynslu og Esekíel spámaður lýsti fyrir einum 25 öldum. Þú gengur í áttina að miklu og skínandi musteri. Voldugur engill bíður eftir þér til að sýna þér þessar miklu byggingar. Þú gengur upp sjö tröppur sem liggja að einu af hliðunum þrem sem opnast inn í musterið. Forsalurinn er engin smásmíði! Þar er hátt til lofts – einir 30 metrar. Þú finnur til smæðar þinnar. Með fram veggjunum eru stúkur þar sem verðir hafa aðsetur. Súlurnar eru með skreytingu sem minnir á fögur pálmatré. – Esek. 40:1-4, 10, 14, 16, 22; 41:20.

2. (a) Hvað táknar musterið í sýn Esekíels? (Sjá einnig neðanmálsgrein.) (b) Á hvað minna forsalir musterisins, pálmaskreytingarnar og verðirnir?

2 Esekíel sér þetta musteri í sýn, og hann lýsir því svo ítarlega að lýsingin nær yfir kafla 40 til 48 í spádómsbók hans. Þetta musteri táknar það fyrirkomulag sem Jehóva hefur á hreinni tilbeiðslu. Hvert smáatriði hefur ákveðna merkingu varðandi tilbeiðslu okkar núna á síðustu dögum. * Hvað tákna þessir háreistu forsalir? Þeir minna á að þeir sem ganga táknrænt séð inn í musteri Jehóva verða að lifa eftir háleitum og réttlátum meginreglum hans. Pálmatrén, sem rist eru á veggina, merkja hið sama því að í Biblíunni eru pálmar stundum látnir tákna réttlæti. (Sálm. 92:13) Og hvað um stúkurnar þar sem verðirnir standa? Það er greinilegt að þeir sem virða ekki meginreglur Guðs fá ekki að ganga inn til hinnar fögru og hreinu tilbeiðslu sem er leiðin til lífsins. – Esek. 44:9.

3. Hvers vegna hafa fylgjendur Krists þurft að hreinsast jafnt og þétt?

3 Hvernig hefur spádómleg sýn Esekíels ræst? Eins og fram kom í 2. kafla þessarar bókar fékk Jehóva Kristi það verkefni að láta þjóna sína ganga í gegnum mikla hreinsun á árabilinu 1914 fram á fyrri hluta árs 1919. Var hreinsuninni þá lokið? Engan veginn. Alla síðustu öld hefur Kristur séð um að heilögum hegðunarreglum Jehóva væri framfylgt. Fylgjendur hans hafa þurft að hreinsast jafnt og þétt. Hvers vegna? Vegna þess að Kristur hefur safnað sér fylgjendum úr siðspilltum heimi og Satan er óþreytandi að reyna að draga  þá aftur út í spillingardíkið. (Lestu 2. Pétursbréf 2:20-22.) Við skulum líta á þrjú svið þar sem sannkristnir menn hafa verið hreinsaðir og fágaðir jafnt og þétt. Fyrst skoðum við nokkur dæmi um siðferðilega hreinsun, síðan hvað gert er til að halda söfnuðinum hreinum og að lokum ræðum við um fjölskylduna.

Siðferðileg hreinsun

4, 5. Hvaða aðferð hefur Satan beitt lengi og með hvaða afleiðingum?

4 Þjónar Jehóva hafa alltaf haft mikinn áhuga á að vera siðsamir og ráðvandir. Þeir hafa þess vegna tileinkað sér æ skýrari viðmið á þessu sviði. Lítum á fáein dæmi.

5 Kynferðislegt siðleysi. Jehóva ætlaðist til að kynlíf hjóna væri hreint og fagurt. Satan nýtur þess að spilla þessari gjöf Guðs, gera hana óhreina og nota hana til að freista þjóna Guðs með þeim afleiðingum að þeir glati velþóknun hans. Satan beitti þessari aðferð með sorglegum afleiðingum á dögum Bíleams, og hann hefur beitt henni af meiri krafti en nokkru sinni fyrr núna á síðustu dögum. – 4. Mós. 25:1-3, 9; Opinb. 2:14.

6. Hvaða heit var birt í Varðturninum, hvernig var það notað og hvers vegna var það að lokum aflagt? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

6 Til að sporna gegn þessum tilraunum Satans birtist í Varðturninum 15. júní 1908 heit þar sem sagði meðal annars: „Ég mun alltaf og alls staðar koma nákvæmlega eins fram við hitt kynið í einrúmi og ég geri í fjölmenni.“ * Það var engin skylda að vinna þetta heit en margir gerðu það samt og fengu nafn sitt birt í Varðturni Síonar. Mörgum árum síðar var ljóst að það var að breytast í hálfgerða siðvenju að fara með þetta heit, þó að það hafi verið mörgum til góðs á sínum tíma. Heitið var því aflagt sem slíkt. Hinar háleitu siðferðisreglur, sem það byggðist á, voru hins vegar alltaf í heiðri hafðar.

7. Á hvaða vandamáli var tekið í Varðturninum árið 1935 og hvaða siðferðisreglur voru ítrekaðar?

7 Árásir Satans hörðnuðu. Í Varðturninum 1. mars 1935 var rætt hreint og beint um vandamál sem fór vaxandi meðal þjóna Guðs. Sumir héldu greinilega að þeir væru einhvern veginn undanþegnir því að fylgja siðferðisreglum Jehóva í einkalífinu, svo framarlega sem þeir boðuðu fagnaðarerindið. Í Varðturninum sagði umbúðalaust: „Við verðum að hafa hugfast að það er meira krafist af okkur en að boða bara fagnaðarerindið. Vottar Jehóva eru fulltrúar hans og sú skylda hvílir á þeim að vera verðugir fulltrúar Jehóva og ríkis hans.“ Síðan gaf blaðið skýrar leiðbeiningar um hjónaband og kynferðismál. Það var þjónum Guðs hvatning til að forðast kynferðislegt siðleysi. – 1. Kor. 6:18.

8. Af hverju hefur oft verið skýrt í Varðturninum hvað sé fólgið í gríska orðinu porneiʹa?

8 Á síðustu áratugum hefur æ ofan í æ verið bent á það í Varðturninum hver sé merking orðsins porneiʹa en það er notað í Grísku ritningunum um kynferðislegt siðleysi. Orðið lýsir margs konar siðlausum athöfnum, ekki aðeins samförum.  Í meginatriðum nær orðið porneiʹa yfir allar þær lostafullu athafnir sem eru stundaðar í vændishúsum. Fylgjendur Krists hafa því verið verndaðir fyrir þeirri kynferðislegu spillingu og óeðli sem hefur heltekið svo marga í heimi nútímans. – Lestu Efesusbréfið 4:17-19.

9, 10. (a) Hvaða siðferðilega mál var tekið fyrir í Varðturninum árið 1935? (b) Hvað kennir Biblían varðandi áfengi?

9 Misnotkun áfengis. Í Varðturninum 1. mars 1935 var bryddað upp á öðru máli af siðferðilegu tagi: „Borið hefur á því að sumir taki þátt í boðunarstarfinu eða inni af hendi aðrar skyldur í söfnuðinum undir áhrifum áfengis. Við hvaða aðstæður er í lagi að neyta víns samkvæmt Biblíunni? Er við hæfi að neyta víns í þeim mæli að það hafi áhrif á þjónustu manns í söfnuði Drottins?“

10 Í framhaldinu var rætt um afstöðu Biblíunnar til áfengra drykkja. Hófleg notkun áfengis er ekki fordæmd í Biblíunni. Ölvun og drykkjuskapur er hins vegar fordæmdur harðlega. (Sálm. 104:14, 15; 1. Kor. 6:9, 10) Til að sýna fram á að það sé ekki við hæfi að taka þátt í heilagri þjónustu undir áhrifum áfengis hefur lengi verið bent á frásögu Biblíunnar af sonum Arons en Guð tók þá af lífi eftir að þeir báru fram óhreinan eld á altari hans. Rétt á eftir kemur fram í sömu frásögu hvað hafi líklega orðið til þess að mennirnir gerðu þetta. Þar segir að Guð hafi bannað með lögum að prestar neyttu áfengis meðan þeir sinntu heilögum skyldustörfum. (3. Mós. 10:1, 2, 8-11) Fylgjendur Krists fara eftir meginreglunni sem býr að baki og gæta þess að vera ekki undir áhrifum áfengis meðan þeir inna heilaga þjónustu sína af hendi.

11. Hvernig hefur gleggri skilningur á alkóhólisma verið þjónum Guðs til blessunar?

11 Á síðustu áratugum hafa fylgjendur Krists fengið gleggri skilning á alkóhólisma, það er að segja áfengisfíkn samfara langvarandi misnotkun. Andleg fæða á réttum tíma hefur hjálpað mörgum að takast á við þennan vanda og ná tökum á lífi sínu. Enn fleiri hafa getað forðast vandann með öllu. Enginn ætti að láta áfengi ræna sig sjálfsvirðingunni, fjölskyldunni og síðast en ekki síst þeirri blessun að tilbiðja Jehóva í hreinleika.

„Við getum ekki ímyndað okkur Drottin anga af tóbaksreyk eða stinga upp í sig nokkru sem saurgar.“ – Charles T. Russell

12. Hvernig litu þjónar Krists á tóbaksnotkun jafnvel áður en síðustu dagar hófust?

12 Tóbaksnotkun. Áður en síðustu dagar hófust voru þjónar Krists farnir að letja fólk þess að nota tóbak. Roskinn bróðir, Charles Capen að nafni, rifjaði upp fyrir mörgum árum fyrstu kynni sín af Charles Taze Russell síðla á 19. öld. Capen var þá 13 ára og stóð ásamt þrem bræðrum sínum á tröppum Biblíuhússins í Allegheny í Pennsylvaniu. Russell gekk fram hjá þeim og spurði í leiðinni: „Eruð þið að reykja, drengir? Ég finn reykingalykt.“ Þeir fullvissuðu hann um að þeir væru ekki að reykja. En þeir voru ekki í neinum vafa um afstöðu hans til tóbaksreykinga. Í Varðturninum  1. ágúst 1895 ræddi bróðir Russell um 2. Korintubréf 7:1 og sagði: „Ég fæ ekki séð að það geti verið Guði til lofs eða nokkrum kristnum manni til góðs að nota tóbak í nokkurri mynd ... Við getum ekki ímyndað okkur Drottin anga af tóbaksreyk eða stinga upp í sig nokkru sem saurgar.“

13. Hvaða hreinsun átti sér stað árið 1973?

13 Tóbak var kallað „andstyggilegt illgresi“ í Varðturninum árið 1935, og bent var á að enginn fengi að tilheyra Betelfjölskyldunni, vera brautryðjandi eða þjóna í farandstarfi sem fulltrúi safnaðar Guðs ef hann reykti eða tyggði tóbak. Árið 1973 átti sér stað enn meiri hreinsun á þessu sviði meðal þjóna Guðs. Í Varðturninum 1. júní það ár kom fram að enginn vottur Jehóva fengi að tilheyra söfnuðinum lengur ef hann héldi áfram þessum lífshættulega, óhreina og kærleikslausa ósið. Þeim sem vildu ekki hætta að nota tóbak yrði vikið úr söfnuðinum. * Kristur hafði stigið enn eitt mikilvægt skref til að hreinsa fylgjendur sína.

14. Hvaða lög hefur Guð sett um blóð og hvernig urðu blóðgjafir algengar?

14 Misnotkun blóðs. Guð tók fram á dögum Nóa að það væri rangt að borða blóð. Hann staðfesti þetta bann í lögmálinu sem hann gaf Ísraelsmönnum. Kristni söfnuðurinn fékk sömuleiðis þau fyrirmæli að ‚halda sig frá blóði‘. (Post. 15:20, 29; 1. Mós. 9:4; 3. Mós. 7:26) Það kemur ekki á óvart að Satan skyldi finna leið á okkar dögum til að fá fólk til að óhlýðnast þessu banni Guðs. Læknar gerðu tilraunir með blóðgjafir á 19. öld, en eftir að menn uppgötvuðu blóðflokkana urðu blóðgjafir algengari. Árið 1937 var farið að safna blóði og geyma í blóðbönkum, og í síðari heimsstyrjöldinni var farið að nota það í stórum stíl. Áður en langt um leið voru blóðgjafir orðnar algengar um allan heim.

15, 16. (a) Hvaða afstöðu tóku Vottar Jehóva til blóðgjafa? (b) Hvað hefur verið gert til að auðvelda fylgjendum Krists að fá læknismeðferð án blóðgjafar og hvaða árangur hefur náðst?

15 Árið 1944 kom fram í Varðturninum að það væri í rauninni enginn munur á því að borða blóð og fá það í æð. Þessi biblíulega afstaða var skýrð árið eftir og hert var á henni. Árið 1951 var gefinn út listi með spurningum og svörum til að auðvelda þjónum Guðs að ræða málin við heilbrigðisstarfsmenn. Trúir fylgjendur Krists um allan heim sýndu mikið hugrekki og máttu oft þola fyrirlitningu, fjandskap eða jafnvel hreinar ofsóknir. En Kristur sá til þess að söfnuður hans veitti nauðsynlegan stuðning. Gefnir voru út bæklingar og birtar ítarlegar greinar byggðar á vönduðum rannsóknum.

16 Árið 1979 fóru nokkrir hópar öldunga að heimsækja spítala til að skýra fyrir læknum afstöðu okkar og biblíulegar ástæður hennar, og benda á aðferðir sem beita mætti í stað blóðgjafa. Árið 1980 fengu öldungar í 39 borgum í Bandaríkjunum sérhæfða kennslu til að sinna þessu verkefni. Síðar samþykkti hið stjórnandi ráð að stofnaðar  yrðu spítalasamskiptanefndir út um allan heim. Hefur þessi vinna skilað árangri? Tugþúsundir lækna, meðal annars skurðlæknar og svæfingalæknar, virða nú afstöðu sjúklinga sem eru vottar og veita þeim læknismeðferð án blóðgjafar. Æ fleiri spítalar bjóða beinlínis upp á meðferð án blóðgjafar og sumir telja hana jafnvel bestu læknismeðferð sem völ er á. Er ekki frábært hvernig Jesús hefur verndað fylgjendur sína þannig að Satan hefur ekki tekist að gera þá óhreina í augum Guðs? – Lestu Efesusbréfið 5:25-27.

Æ fleiri spítalar bjóða beinlínis upp á meðferð án blóðgjafar og sumir telja hana jafnvel bestu læknismeðferð sem völ er á.

17. Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir að Kristur skuli hafa hreinsað fylgjendur sína?

17 Við ættum að spyrja okkur hvort við séum þakklát fyrir að Kristur skuli hafa hreinsað fylgjendur sína og kennt þeim að fara eftir háleitum siðferðisreglum Jehóva. Ef svo er skulum við hafa hugfast að Satan reynir linnulaust að rjúfa tengsl okkar við Jehóva og Jesú með því að grafa undan virðingu okkar fyrir siðferðisreglum Jehóva. Söfnuður Jehóva hjálpar okkur að standast áhrif Satans með því að vara okkur stöðugt við siðlausu háttalagi heimsins. Við skulum vera vakandi, móttækileg og hlýðin þessum góðu ráðum. – Orðskv. 19:20.

 Að verja söfnuðinn gegn lasti

18. Hvaða skýra áminning er fólgin í sýn Esekíels varðandi þá sem gera uppreisn gegn lögum Guðs?

18 Til að söfnuðurinn gæti verið siðferðilega hreinn þurfti einnig að bæta aðferðir okkar til að halda honum hreinum. Sumir sem gangast undir siðferðisreglur Jehóva og vígjast honum standa því miður ekki við ákvörðun sína. Einstaka maður skiptir um skoðun þegar fram líða stundir og gerir uppreisn gegn lögum Jehóva. Hvað á þá að gera? Það má finna vísbendingu um það í sýn Esekíels um andlega musterið sem rætt var um í byrjun kaflans. Manstu eftir háreistum forsölunum? Í hverjum þeirra voru stúkur þar sem verðir höfðu aðsetur. Þeir gættu musterisins, eflaust til að tryggja að enginn fengi inngöngu nema hann væri „umskorinn á hjarta“. (Esek. 44:9) Þetta er skýr áminning um að einungis þeir sem leggja sig fram um að lifa eftir hreinum hegðunarreglum Jehóva hafa aðgang að hreinni tilbeiðslu. Það fá ekki heldur allir að eiga samneyti við sannkristna menn í tilbeiðslunni á Jehóva.

19, 20. (a) Hvernig hefur Kristur smám saman bætt aðferðir þjóna sinna til að taka á alvarlegum syndum? (b) Nefndu þrjár ástæður til að víkja syndurum, sem iðrast ekki, úr söfnuðinum.

19 Árið 1892 sagði í Varðturninum að það væri „skylda okkar að víkja úr söfnuðinum þeim kristnu mönnum sem afneita því beint eða óbeint að Kristur hafi gefið sjálfan sig sem lausnargjald fyrir alla“. (Lestu 2. Jóhannesarbréf 10.) Árið 1904 var bent á það í bókinni The New Creation að það væri mikil hætta á að söfnuðurinn spilltist af völdum þeirra sem vildu ekki láta af rangri breytni. Á þeim árum tók allur söfnuðurinn þátt í að rannsaka mál þeirra sem gerðust sekir um alvarleg brot. Þetta var kallað „kirkjuleg réttarhöld“. Slík tilvik voru þó sjaldgæf. Árið 1944 var sýnt fram á það í Varðturninum að það væru aðeins bræður í ábyrgðarstöðum sem ættu að fjalla um slík mál. Árið 1952 var lýst í Varðturninum biblíulegri aðferð til að fjalla um dómsmál. Bent var á að aðalástæðan til að víkja þeim úr söfnuðinum sem iðruðust ekki væri að halda söfnuðinum hreinum.

20 Á þeim áratugum, sem liðnir eru síðan, hefur Kristur skýrt fyrir fylgjendum sínum hvernig taka eigi á alvarlegum syndum og bætt aðferðirnar. Öldungum safnaðanna er kennt að afgreiða dómnefndarmál eins og Jehóva vill að það sé gert, og finna jafnvægið milli réttlætis og miskunnar. Við sjáum nú greinilega að minnsta kosti þrjár ástæður til að víkja syndara, sem iðrast ekki, úr söfnuðinum: (1) til að nafn Jehóva verði ekki fyrir lasti, (2) til að vernda söfnuðinn og koma í veg fyrir að alvarlegar syndir spilli honum og (3) til að fá syndarann til að iðrast ef kostur er.

21. Hvers vegna hefur það verið þjónum Guðs til blessunar að víkja syndurum úr söfnuðinum ef þeir iðrast ekki?

21 Gerirðu þér grein fyrir hvernig það hefur verið fylgjendum Krists til blessunar að víkja syndurum úr söfnuðinum ef þeir iðrast ekki? Brotamenn í Forn-Ísrael höfðu oft  spillandi áhrif á þjóðina, og voru stundum fleiri en hinir sem elskuðu Jehóva og reyndu að gera rétt. Þjóðin kastaði því oft rýrð á nafn Jehóva og missti velþóknun hans. (Jer. 7:23-28) Nú á dögum á Jehóva samskipti við samfélag andlega sinnaðra karla og kvenna. Þeim sem forherðast í rangri breytni er vikið úr söfnuðinum þannig að þeir fá ekki að verða vopn í hendi Satans til að valda söfnuðinum frekara tjóni og spilla hreinleika hans. Áhrifum þeirra er haldið í lágmarki. Þess vegna getum við treyst að Jehóva hafi velþóknun á okkur sem heild. Munum að Jehóva hefur lofað eftirfarandi: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ (Jes. 54:17) Styðjum við öldungana dyggilega sem bera þá þungu byrði að taka fyrir dómsmál í söfnuðinum?

Að heiðra föðurinn sem hver fjölskylda fær nafn sitt af

22, 23. Hvers vegna erum við þakklát trúsystkinum okkar snemma á 20. öld en hvað bendir til þess að ekki hafi gætt jafnvægis í viðhorfum til fjölskyldunnar?

22 Hjónaband og fjölskyldulíf er þriðja sviðið þar sem gerðar hafa verið stöðugar betrumbætur í söfnuðinum til góðs fyrir fylgjendur Krists. Höfum við fengið betri sýn á fjölskylduna í áranna rás? Já. Lítum á dæmi. Þegar við lesum um starf þjóna Guðs á fyrri hluta 20. aldar getum við ekki annað en dáðst að ótrúlegri fórnfýsi þeirra. Við erum innilega þakklát fyrir að þeir skuli hafa látið þjónustuna við Jehóva ganga fyrir öllu öðru í lífinu. Það fer þó ekki fram hjá okkur að stundum hefði mátt gæta betra jafnvægis á þeim tíma. Hvernig þá?

23 Það var ekki óalgengt að bræður tækju að sér verkefni í boðuninni eða í farandstarfi sem hafði í för með sér að þeir voru langt að heiman mánuðum saman. Stundum var fólki ráðið frá því að ganga í hjónaband af heldur meiri ákafa en Biblían gefur tilefni til, en frekar lítið var rætt um að styrkja fjölskylduböndin. Er sama uppi á teningnum meðal fylgjenda Krists nú á dögum? Nei.

Verkefni, sem við fáum í þjónustu Guðs, mega ekki verða til þess að við vanrækjum skyldur okkar gagnvart fjölskyldunni.

24. Hvernig hefur Kristur hjálpað þjónum sínum að hlúa betur að hjónabandi sínu og fjölskyldulífi?

24 Núna er hugsað vel um að þau verkefni, sem við fáum í þjónustu Guðs, verði ekki til þess að við vanrækjum skyldur okkar gagnvart fjölskyldunni. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:8.) Þar að auki hefur Kristur séð til þess að fylgjendur sínir á jörð fái jafnt og þétt góðar biblíulegar leiðbeiningar um hjónaband og fjölskyldulíf. (Ef. 3:14, 15) Árið 1978 kom út bókin Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt. Um 18 árum síðar kom önnur bók, Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn? Í Varðturninum hefur enn fremur birst fjöldi greina sem eru samdar til að hjálpa hjónum að notfæra sér leiðbeiningar Biblíunnar.

25-27. Hvernig hefur þörfum barna og unglinga verið sinnt æ betur með árunum?

25 Og hvað um börn og unglinga? Þörfum þeirra hefur verið sinnt æ betur með árunum. Trúr þjónn Krists hefur  lengi séð börnum á ýmsum aldri fyrir andlegri fæðu, en það sem kom einu sinni í smáum skömmtum kemur nú í stríðum straumum. Til dæmis birtist greinaflokkurinn „Biblíunám unga fólksins“ í The Golden Age á árabilinu 1919 til 1921. Bæklingurinn Golden Age ABC kom út árið 1920 og bókin Börn árið 1941. Á áttunda áratugnum voru gefnar út bækurnar Hlýðum á kennarann mikla, Your Youth – Getting the Best out of It og Biblíusögubókin mín. Árið 1982 hóf greinaröðin „Ungt fólk spyr“ göngu sína í Vaknið! Hún var undanfari bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga en hún var gefin út árið 1989.

Bæklingurinn Biblíustundin mín hlaut góðar viðtökur á þessu móti í Þýskalandi.

26 Bókin Spurningar unga fólksins er nú til í tveim bindum og greinaröðin „Ungt fólk spyr“ heldur göngu sinni áfram á vefsetri okkar, jw.org. Einnig hefur verið gefin út bókin Lærum af kennaranum mikla. Á vefsetri okkar er birt alls konar efni fyrir börn og unglinga, þar á meðal biblíuspil, biblíuverkefni handa börnum á ýmsum aldri, myndaþrautir, myndbönd og biblíusögur í myndum. Þar birtist einnig  „Biblíustundin mín“ sem er ætluð börnum þriggja ára og yngri. Ljóst er að Kristur hefur ekki breytt um afstöðu síðan á fyrstu öld þegar hann tók börnin í faðm sér. (Mark. 10:13-16) Hann vill að börnin á meðal okkar finni að þau séu elskuð og vel uppfrædd.

27 Jesú er líka mikið í mun að vernda börnin. Heimurinn sekkur æ dýpra í siðspillinguna og það verður sífellt algengara að börn séu beitt kynferðisofbeldi. Þess vegna hefur verið gefið út efni með skýrum og hnitmiðuðum leiðbeiningum til að hjálpa foreldrum að vernda börnin fyrir grófri misnotkun af þessu tagi. *

28. (a) Hvað þurfum við að gera til að tilbiðja Jehóva í hreinleika, samanber sýn Esekíels um musterið? (b) Hvað ætlar þú að gera?

28 Er ekki hrífandi að hugsa til þess hvernig Kristur hefur hreinsað fylgjendur sína jafnt og þétt, og kennt þeim að virða háleitar siðferðisreglur Jehóva, lifa eftir þeim og njóta góðs af þeim? Rifjaðu upp sýnina um musterið sem Esekíel sá. Manstu eftir inngöngunum með háreistum forsölunum? Musterið er auðvitað ekki bókstaflegt heldur andlegt. En er það samt raunverulegt fyrir okkur? Við göngum ekki inn í það með því að sækja samkomu í ríkissal eða opna Biblíuna eða hringja dyrabjöllu til að boða fagnaðarerindið. Þetta eru athafnir sem tengjast áþreifanlegum hlutum. Hræsnari getur gert allt þetta án þess að ganga nokkurn tíma inn í musteri Jehóva. En ef við gerum þetta og lifum jafnframt eftir háleitum siðferðisreglum Jehóva og tilbiðjum hann í hreinleika og með réttu hugarfari, þá höfum við gengið inn í háheilagt musterið – inn til hinnar hreinu tilbeiðslu á Jehóva Guði. Það er ólýsanlegur heiður að fá að þjóna honum þar. Við skulum sýna að það sé okkur mikils virði og gera okkar ýtrasta til að endurspegla heilagleika Jehóva með því að fylgja réttlátum siðferðisreglum hans.

^ gr. 2 Árið 1932 kom út 2. bindi bókarinnar Vindication. Þar var í fyrsta sinn bent á að spádómar Biblíunnar þess efnis að þjóð Guðs fengi að snúa heim í land sitt hafi ræst nú á tímum á andlegri Ísraelsþjóð en ekki bókstaflegri. Þessir spádómar lýsa því að hrein tilbeiðsla sé endurreist. Í Varðturninum 1. apríl 1999 kemur fram að sýn Esekíels um musterið sé endurreisnarspádómur af þessu tagi, og hann uppfyllist því í andlegri merkingu núna á síðustu dögum.

^ gr. 6 Samkvæmt heitinu máttu karl og kona ekki vera ein saman í herbergi nema dyrnar væru galopnar – eða þau væru hjón eða náskyld. Um árabil var farið með þetta heit daglega við tilbeiðslustund Betelfjölskyldunnar að morgni.

^ gr. 13 Með notkun tóbaks er átt við að reykja það, tyggja, taka í nefið eða rækta til slíkra nota.

^ gr. 27 Sjá til dæmis 32. kafla bókarinnar Lærum af kennaranum mikla, einnig  , einnig  , einnig Vaknið! október-desember 2007, bls. 3-11.