Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 7. KAFLI

Boðunaraðferðir – allar leiðir notaðar til að ná til fólks

Boðunaraðferðir – allar leiðir notaðar til að ná til fólks

Í ÞESSUM KAFLA

Þjónar Guðs nota ýmsar aðferðir til að koma fagnaðarerindinu til sem flestra.

1, 2. (a) Hvaða aðferð beitti Jesús einu sinni þegar hann kenndi miklum mannfjölda? (b) Hvernig hafa trúir lærisveinar Krists farið að dæmi hans og hvers vegna?

MIKILL mannfjöldi safnast að Jesú á ströndinni. Jesús fer um borð í bát og leggur aðeins út á vatnið. Af hverju gerir hann það? Hann veit að vatnsborðið magnar röddina þannig að mannfjöldinn heyrir betur til hans þegar hann kennir. – Lestu Markús 4:1, 2.

2 Á áratugunum fyrir og eftir að ríki Guðs tók völd fóru trúir fylgjendur Krists að dæmi hans og beittu nýstárlegum aðferðum til að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið til sem flestra. Undir handleiðslu konungsins heldur fólk Guðs áfram að notfæra sér nýjungar og laga sig að breyttum aðstæðum og nýrri tækni. Við viljum ná til sem flestra áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14) Við lítum nú á sumar af þeim aðferðum sem við höfum notað til að koma boðskapnum til fólks óháð búsetu. Veltu fyrir þér hvernig þú getur líkt eftir trú þeirra sem útbreiddu fagnaðarerindið fyrr á árum.

Að ná til sem flestra

3. Hvað gerði óvinum sannleikans gramt í geði?

3 Dagblöð. Bróðir Russell og samstarfsmenn hans höfðu gefið út Varðturninn frá 1879 og flutt mörgum fagnaðarerindið um ríkið. En á áratugnum fyrir 1914 virðist Kristur hafa búið svo um hnútana að fagnaðarerindið næði til enn fleiri. Atburðarásin fór af stað árið 1903. Það ár skoraði dr. Ephraim L. Eaton á Charles Taze Russell að eiga við sig kappræður um kenningar Biblíunnar, en Eaton var talsmaður mótmælendapresta í Pennsylvaníu. Eaton sagði í bréfi til Russells: „Ég tel að almenningur myndi hafa verulegan áhuga á opinberum kappræðum um sumar af þeim spurningum þar sem okkur tvo greinir á.“ Russell og samstarfsmenn hans töldu einnig að almenningur myndi hafa áhuga þannig að þeir gerðu ráðstafanir til að fá umræðurnar birtar í útbreiddu dagblaði, The Pittsburgh  Gazette. Þessar blaðagreinar urðu svo vinsælar og skýringar Russells á sannleika Biblíunnar svo sannfærandi að blaðið bauðst til að birta fyrirlestra Russells í hverri viku. Þessi útkoma hlýtur að hafa gert óvinum sannleikans gramt í geði.

Prédikanir Russells birtust í rúmlega 2.000 dagblöðum árið 1914.

4, 5. Hvaða eiginleika sýndi Russell og hvernig geta þeir sem gegna ábyrgðarstöðum farið að dæmi hans?

4 Ekki leið á löngu áður en fleiri dagblöð vildu fá að birta fyrirlestra Russells. Árið 1908 kom fram í Varðturninum að fyrirlestrar hans væru birtir í „ellefu dagblöðum að staðaldri“. Bræður, sem þekktu til á blaðamarkaðinum, bentu Russell hins vegar á að ef hann flytti skrifstofur Félagsins frá Pittsburgh til þekktari borgar myndu fleiri dagblöð birta biblíutengdar greinar hans. Eftir að hafa velt fyrir sér þessum ráðum og fleiru flutti Russell skrifstofurnar til Brooklyn í New York. Þetta var árið 1909. Fáeinum mánuðum síðar voru ein 400 dagblöð farin að birta fyrirlestra hans og sífellt fleiri bættust í hópinn. Árið 1914, um það leyti sem ríki Guðs var stofnsett, birtust fyrirlestrar og greinar Russells í rúmlega 2.000 dagblöðum á fjórum tungumálum.

5 Hvaða mikilvæga lærdóm má draga af þessari framvindu mála? Þeir sem fara með ákveðið forræði innan safnaðar Guðs á okkar dögum ættu að taka Russell sér til fyrirmyndar. Á hvaða hátt? Þeir ættu að hugleiða vel ráðleggingar annarra þegar þeir taka mikilvægar ákvarðanir. – Lestu Orðskviðina 15:22.

6. Hvaða áhrif höfðu blaðagreinarnar á konu nokkra?

6 Biblíusannindin, sem birtust í þessum blaðagreinum, breyttu lífi margra. (Hebr. 4:12) Ora Hetzel lét skírast árið 1917, og hún var ein af mörgum sem kynntust sannleikanum af slíkum greinum. „Eftir að ég gifti mig heimsótti ég móður mína í Rochester í Minnesota,“ segir hún. „Hún var að klippa greinar út úr dagblaði þegar ég kom. Þetta voru prédikanir Russells. Mamma sagði mér frá því sem hún hafði lært af greinunum.“ Ora tók við sannleikanum og var trúfastur boðberi Guðsríkis í eina sex áratugi.

7. Hvað varð til þess að þeir sem fóru með forystuna endurmátu þá aðferð að birta efni í dagblöðum?

7 Tvennt varð til þess árið 1916 að þeir sem fóru með forystuna endurmátu þá aðferð að útbreiða fagnaðarerindið með hjálp dagblaða. Annað var að stríðið mikla var í algleymingi og það gerði að verkum að erfitt var að fá pappír til prentunar. Þessi vandi kom fram í greinargerð frá dagblaðadeild okkar í Bretlandi árið 1916. Þar sagði: „Rétt rúmlega 30 dagblöð birta prédikanirnar núna. Það er mjög líklegt að þeim fækki verulega á næstunni vegna þess hve pappír hefur hækkað í verði.“ Hin ástæðan var sú að bróðir Russell lést 31. október 1916. Eftirfarandi  tilkynning birtist því í Varðturninum 15. desember það ár: „Að bróður Russell látnum verður hætt með öllu að birta prédikanir [í dagblöðum].“ Enda þótt hætt væri að boða fagnaðarerindið með þessum hætti voru notaðar aðrar aðferðir með góðum árangri. „Sköpunarsagan í myndum“ var ein þeirra.

8. Hve mikið var lagt í að gera „Sköpunarsöguna í myndum“?

8 Myndasýningar. Russell og samstarfsmenn hans unnu í þrjú ár að gerð „Sköpunarsögunnar í myndum“ en hún var frumsýnd árið 1914. (Orðskv. 21:5) „Sköpunarsagan“ var nýstárleg blanda af kvikmyndum, hljóðupptökum og litskyggnum úr gleri. Atburðir úr biblíusögunni voru sviðsettir og kvikmyndaðir. Hundruð manna og jafnvel dýr tóku þátt í því. Í greinargerð frá 1913 segir: „Flest dýrin  í einum af stærstu dýragörðunum komu við sögu til að endurskapa þátt Nóa í þessari miklu sýningu sem var að hluta til kvikmynd með tali.“ Listamenn í Lundúnum, New York, París og Philadelphiu handmáluðu þau hundruð litskyggna sem voru hluti af sýningunni.

9. Hvers vegna var eytt svona miklum tíma og fjármunum í að gera „Sköpunarsöguna í myndum“?

9 Hvers vegna var eytt svona miklum tíma og fjármunum í að gera „Sköpunarsöguna í myndum“? Á mótum árið 1913 var samþykkt yfirlýsing þar sem sagði meðal annars: „Skýringar- og teiknimyndir hafa verið notaðar með fádæma árangri í amerískum dagblöðum til að móta skoðanir almennings, bæði á fréttasíðum og í sérblöðum. Kvikmyndir hafa sömuleiðis sannað gildi sitt. Þær hafa reynst sveigjanlegur miðill og náð miklum vinsældum. Við teljum það réttlæta fyllilega að framsæknir boðberar og biblíukennarar, eins og við, lítum á kvikmyndir og skyggnur sem áhrifarík og æskileg hjálpartæki trúboða og kennara. Við styðjum notkun þeirra eindregið.“

Efri: Sýningarklefi þar sem „Sköpunarsagan“ var sýnd. Neðri: Litskyggnur úr „Sköpunarsögunni“.

10. Hve víða var „Sköpunarsagan í myndum“ sýnd?

10 Árið 1914 var „Sköpunarsagan í myndum“ sýnd í 80 borgum daglega. Næstum átta milljónir manna í Bandaríkjunum og Kanada sáu hana. Sama ár var „Sköpunarsagan“ sýnd í Ástralíu, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Nýja-Sjálandi, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi. Sett var saman einfaldari útgáfa af sýningunni þar sem kvikmyndunum var sleppt, og hún var sýnd í smærri borgum. Þessi útgáfa var ódýrari í framleiðslu og auðveldara var að flytja hana milli staða. Árið 1916 var búið að þýða aðra hvora útgáfu sýningarinnar á armensku, dönsk-norsku, frönsku, grísku, ítölsku, pólsku, spænsku, sænsku og þýsku.

Húsfyllir var alls staðar þar sem „Sköpunarsagan“ var sýnd árið 1914.

11, 12. Hvaða áhrif hafði „Sköpunarsagan“ á ungan mann og hvernig getum við tekið hann okkur til fyrirmyndar?

11 Frönsk útgáfa „Sköpunarsögunnar“ hafði sterk áhrif á 18 ára pilt sem hét Charles Rohner. „Hún var sýnd í bænum mínum, Colmar í Alsace í Frakklandi,“ segir hann. „Ég hreifst af því alveg frá upphafi hve sannleikur Biblíunnar var settur fram á skýran hátt.“

12 Charles lét skírast í framhaldi af þessu og tók að þjóna í fullu starfi árið 1922. Eitt fyrsta verkefni hans var að aðstoða við að sýna „Sköpunarsöguna“ í Frakklandi. Hann lýsir hlutverki sínu þannig: „Ég fékk nokkur verkefni: að spila á fiðlu, sjá um bókhaldið og sjá um ritin. Ég var líka beðinn að þagga niður í áhorfendum áður en sýningin hófst. Við buðum gestum rit í hléunum. Salnum var skipt niður milli nokkurra bræðra og systra. Þau voru með fangið fullt af ritum og töluðu við alla í sínum hluta salarins. Auk þess stóðu borð full af ritum við innganginn að salnum.“ Árið 1925 var Charles boðið að starfa á Betel  í Brooklyn í New York. Þar fékk hann það verkefni að stjórna hljómsveit útvarpsstöðvarinnar WBBR sem var þá nýlega tekin til starfa. Eftir að hafa rennt yfir sögu Charles Rohners getum við spurt okkur hvort við séum fús til að taka að okkur hvaða verkefni sem er til að útbreiða boðskapinn um ríkið. – Lestu Jesaja 6:8.

13, 14. Hvernig var útvarp notað til að útbreiða fagnaðarerindið? (Sjá einnig greinarnar „ Þættir á útvarpsstöðinni WBBR“ og „ Þýðingarmikið mót“.)

13 Útvarp. Á þriðja áratugnum fækkaði sýningum á „Sköpunarsögunni“ en útvarpið tók við sem áhrifaríkur miðill til að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið. Hinn 16. apríl 1922 flutti bróðir Rutherford fyrstu útvarpsræðuna sem send var út frá Metropolitan-óperuhúsinu í Philadelphiu í Pennsylvaniu. Talið er að 50.000 manns hafi þá heyrt ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“. Árið 1923 var útvarpað frá móti í fyrsta sinn. Þeir sem fóru með forystuna komust að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt að reisa eigin útvarpsstöð, auk þess að nota almennar útvarpsstöðvar, og hún var reist á Staten Island í New York og fékk skráningarheitið WBBR. Útsendingar hófust 24. febrúar 1924.

Talið er að 50.000 manns hafi heyrt ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“ þegar henni var útvarpað árið 1922.

14 Í Varðturninum 1. desember 1924 stóð eftirfarandi um markmiðið með útvarpsstöðinni WBBR: „Við teljum að útvarpið sé hagkvæmasta og áhrifaríkasta leiðin sem við höfum notað fram til þessa til að útbreiða boðskap sannleikans.“ Síðan sagði: „Ef Drottinn vill að reistar séu fleiri stöðvar til að útbreiða sannleikann finnur hann leiðir til að fjármagna það.“ (Sálm. 127:1) Árið 1926 áttu þjónar Guðs sex útvarpsstöðvar. Tvær voru í Bandaríkjunum, WBBR í New York og WORD í grennd við Chicago. Hinar fjórar voru í Alberta, Bresku-Kólumbíu, Ontario og Saskatchewan í Kanada.

15, 16. (a) Hvernig brugðust prestar í Kanada við útsendingum okkar í útvarpi? (b) Hvernig studdu fyrirlestrar í útvarpi við boðun hús úr húsi og öfugt?

15 Það fór ekki hjá því að prestar kristna heimsins veittu athygli hve víða sannleikur Biblíunnar barst með útvarpinu. Albert Hoffmann þekkti til þess hvernig útvarpsstöðin í Saskatchewan var starfrækt. Hann segir: „Sífellt fleiri vissu af Biblíunemendunum [eins og Vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma]. Útvarpið reyndist frábær leið til að boða fagnaðarerindið fram til 1928 en þá létu yfirvöld undan þrýstingi presta og allar stöðvarnar, sem Biblíunemendurnir ráku í Kanada, misstu leyfið.“

16 Þótt útvarpsstöðvum okkar í Kanada væri lokað var haldið áfram að útvarpa biblíutengdum fyrirlestrum á almennum stöðvum. (Matt. 10:23) Til að þessir dagskrárliðir skiluðu sem bestum árangri var birt í Varðturninum og The Golden Age (sem nú kallast Vaknið!) skrá um stöðvar  sem útvörpuðu sannleika Biblíunnar. Boðberar gátu síðan hvatt fólk til að hlusta á fyrirlestrana þegar þeir störfuðu hús úr húsi. Áhrifunum var lýst í janúar 1931 í Bulletin: „Útvarpið hefur haft mjög jákvæð áhrif á starf bræðra og systra hús úr húsi. Margir hafa látið skrifstofuna vita að fólk hafi hlustað á ræður bróður Rutherfords í útvarpi og verið mjög fúst til að þiggja bækur þegar þær voru boðnar.“ Bulletin talaði um að útsendingar í útvarpi og boðun hús úr húsi væru „tvær helstu boðunaraðferðir safnaðar Drottins“.

17, 18. Hvaða hlutverki gegndi útvarpið áfram þó að aðstæður breyttust?

17 Á fjórða áratugnum jókst andstaðan gegn því að efni frá okkur væri útvarpað á almennum útvarpsstöðvum. Þjónar Jehóva löguðu sig að breyttum aðstæðum síðla árs 1937. Þeir hættu að kaupa útsendingartíma hjá almennum útvarpsstöðvum og beindu kröftum sínum í enn ríkari mæli að því að boða sannleikann hús úr húsi. * Útvarpið gegndi þó áfram mikilvægu hlutverki við að útbreiða boðskapinn um ríkið sums staðar á strjálbýlum svæðum eða stöðum sem voru einangraðir af pólitískum orsökum. Til dæmis var biblíutengdum fyrirlestrum útvarpað að staðaldri frá Vestur-Berlín í Þýskalandi á árabilinu 1951 til 1991. Það var gert til að boðskapurinn um ríkið næði til hluta Austur-Þýskalands sem þá var. Árið 1961 var byrjað að útvarpa biblíutengdu efni í vikulegum 15 mínútna þætti á almennri útvarpsstöð í Súrínam í Suður-Ameríku. Þessi þáttur var sendur út í meira en þrjá áratugi. Frá 1969 til 1977 framleiddi söfnuðurinn meira en 350 útvarpsþætti í þáttaröð sem nefndist „Ritningin er nytsöm“. Þættirnir voru sendir út á 291 útvarpsstöð í 48 ríkjum Bandaríkjanna. Árið 1996 flutti útvarpsstöð í Apia, höfuðborg Samóa á Suður-Kyrrahafi, vikulegan þátt sem hét „Svör við biblíuspurningum“.

18 Undir lok 20. aldar var nánast hætt að nota útvarpið til að útbreiða fagnaðarerindið. En önnur tækni var komin til skjalanna sem gerði þjónum Guðs kleift að ná til fleiri en nokkru sinni fyrr.

19, 20. Hvers vegna starfrækja þjónar Jehóva vefsetrið jw.org og hverju hefur það skilað? (Sjá einnig yfirlitið „ JW.ORG“.)

19 Netið. Árið 2013 voru meira en 2,7 milljarðar manna tengdir Netinu. Þetta eru næstum 40 prósent jarðarbúa. Sumir áætla að um tveir milljarðar manna hafi netaðgang í handbærum tækjum eins og snjallsímum og spjaldtölvum. Talan hækkar jafnt og þétt, en vöxturinn er hraðastur í Afríku. Þar eru meira en 90 milljónir manna með þráðlausa netáskrift. Þessi þróun hefur gerbreytt því hvernig margir sækja sér upplýsingar.

 20 Þjónar Jehóva tóku að notfæra sér þessa tækni árið 1997 til að ná til fjöldans. Árið 2013 var vefsetrið jw.org opið á um það bil 300 tungumálum og hægt var að sækja þangað biblíutengt efni á meira en 520 tungumálum. Daglega heimsækja um 750.000 manns vefsetrið. Auk þess að horfa á myndskeið sækir fólk meira en 3 milljónir bóka, 4 milljónir tímarita og 22 milljónir hljóðskráa á hverjum mánuði.

21. Hvað finnst þér athyglisvert við frásöguna af Sina?

21 Vefurinn er orðin áhrifarík leið til að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið, jafnvel í löndum þar sem hömlur eru lagðar á boðunina. Nefnum eitt dæmi. Snemma árs 2013 fann maður að nafni Sina vefsetrið jw.org. Hann hringdi til aðalstöðvanna í Bandaríkjunum og óskaði eftir nánari upplýsingum um Biblíuna. Hvað var sérstakt við þetta símtal? Sina er múslími að ætt og uppruna og býr í afskekktu þorpi í landi þar sem starf votta Jehóva sætir verulegum hömlum. Í framhaldi af símtalinu voru gerðar ráðstafanir til að aðstoða Sina við biblíunám. Það er vottur í Bandaríkjunum sem aðstoðar hann tvisvar í viku og þeir nota vefmyndavélar til að tala saman.

Við kennum einstaklingum

22, 23. (a) Margar leiðir hafa verið farnar til að ná til fjöldans. Hefur eitthvað komið í staðinn fyrir boðunina hús úr húsi? (b) Hvernig hefur konungurinn blessað starf okkar?

22 Þótt dagblöð, „Sköpunarsagan“, útvarpið og Netið hafi reynst vel til að ná til fjöldans var aldrei ætlunin að þessar aðferðir kæmu í staðinn fyrir boðunina hús úr húsi. Hvers vegna? Vegna þess að þjónar Jehóva taka Jesú sér til fyrirmyndar. Hann flutti ekki aðeins ræður þegar mannfjöldi  safnaðist saman heldur einbeitti sér að því að hjálpa einstaklingum. (Lúk. 19:1-5) Hann kenndi líka lærisveinum sínum að gera slíkt hið sama og sagði þeim hvaða boðskap þeir ættu að boða. (Lestu Lúkas 10:1, 8-11.) Eins og rætt var í 6. kafla hafa forystumenn safnaðarins alltaf hvatt þjóna Jehóva til að tala við fólk augliti til auglitis. – Post. 5:42; 20:20.

23 Hundrað árum eftir að ríki Guðs var stofnsett taka meira en 7,9 milljónir manna virkan þátt í að fræða fólk um fyrirætlun Guðs. Konungurinn hefur tvímælalaust blessað þær aðferðir sem við höfum notað til að kunngera ríkið. Eins og fram kemur í næsta kafla hefur hann einnig séð okkur fyrir þeim hjálpargögnum sem við þurfum á að halda til að flytja öllum þjóðum, ættflokkum og tungum fagnaðarerindið. – Opinb. 14:6.

^ gr. 17 Árið 1957 ákváðu forystumenn safnaðarins að loka síðustu útvarpsstöðinni okkar, WBBR í New York.