Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 7. KAFLI

Virðir þú lífið á sama hátt og Guð gerir?

Virðir þú lífið á sama hátt og Guð gerir?

„Hjá þér er uppspretta lífsins.“ — SÁLMUR 36:10.

1, 2. Hvaða gjöf Guðs er sérstaklega verðmæt nú á dögum og hvers vegna?

FAÐIR okkar á himnum hefur gefið okkur ómetanlega gjöf — þá að lifa sem viti bornir menn og geta endurspeglað eiginleika hans. (1. Mósebók 1:27) Það er þessari dýrmætu gjöf að þakka að við erum fær um að hugleiða og skilja meginreglur Biblíunnar. Þegar við förum eftir þeim getum við þroskast í trúnni, elskað Jehóva og „agað hugann til að greina gott frá illu“. — Hebreabréfið 5:14.

2 Það er sérstaklega verðmætt nú á tímum að geta hugleitt og skilið meginreglur Biblíunnar vegna þess að heimurinn er orðinn svo flókinn að engin lög geta náð yfir allar aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp í lífinu. Læknisfræðin er ágætis dæmi um það, ekki síst hvað varðar meðferð blóðs og efna sem eru unnin úr því. Þetta er áhugavert svið og umhugsunarvert fyrir alla sem vilja hlýða Jehóva. En ef við skiljum þær biblíulegu meginreglur, sem hlut eiga að máli, ættum við að geta tekið viturlegar ákvarðanir sem samræmast samvisku okkar og gera okkur kleift að láta kærleika Guðs varðveita okkur. (Orðskviðirnir 2:6-11) Við skulum líta á nokkrar af þessum meginreglum.

LÍF OG BLÓÐ ER HEILAGT

3, 4. Hvenær er fyrst minnst á heilagleika blóðs í Biblíunni og á hvaða meginreglum byggist það?

3 Jehóva vakti fyrst athygli á því skömmu eftir að Kain myrti Abel að líf og blóð tengdust nánum böndum og  hvort tveggja væri heilagt. „Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni,“ sagði Jehóva. (1. Mósebók 4:10) Í augum hans táknaði blóð Abels líf hans sem nú hafði verið tekið með hrottafengnum hætti. Í vissum skilningi hrópaði blóð Abels til Guðs um hefnd. — Hebreabréfið 12:24.

4 Eftir Nóaflóðið leyfði Jehóva mönnunum að borða kjöt af dýrum en þeir máttu ekki neyta blóðsins. Hann sagði: „Kjöts sem líf er enn í, það er blóðið, skuluð þið ekki neyta. Ég mun krefjast reikningsskapar fyrir blóð ykkar, líf ykkar.“ (1. Mósebók 9:4, 5) Þessi fyrirmæli ná til allra afkomenda Nóa allt fram á okkar dag. Þau staðfesta það sem Guð sagði óbeint við Kain á sínum tíma að blóðið táknaði líf manna og dýra. Þau bera einnig með sér að Jehóva, sem er uppspretta lífsins, krefst reikningsskapar af öllum sem sýna ekki virðingu fyrir lífi og blóði. — Sálmur 36:10.

5, 6. Hvernig sést af Móselögunum að blóð er bæði heilagt og dýrmætt? (Sjá einnig rammagreinina „ Berum virðingu fyrir lífi dýra“.)

5 Þessi grundvallarsannindi koma vel fram í Móselögunum. Í 3. Mósebók 17:10, 11 segir: „Ég mun snúa augliti mínu gegn sérhverjum manni . . . sem neytir blóðs og uppræta hann úr þjóð sinni því að lífskraftur holdsins er í blóðinu og ég hef gefið ykkur það til þess að það friðþægi á altarinu fyrir líf ykkar því að það er blóðið sem friðþægir fyrir lífið.“ * — Sjá rammagreinina „ Friðþægingargildi blóðs“.

6 Ef blóð úr slátruðu dýri var ekki notað á altarinu átti að hella því á jörðina. Með þessari táknrænu athöfn var lífinu skilað aftur til upprunalegs eiganda, það er að segja Guðs. (5. Mósebók 12:16; Esekíel 18:4) En tökum eftir að Ísraelsmenn þurftu ekki að reyna til hins ýtrasta að fjarlægja  hvern einasta blóðdropa úr vefjum dýrsins. Ísraelsmaður gat með góðri samvisku borðað kjötið svo framarlega sem skepnunni var rétt slátrað og hún blóðguð. Hann hafði þá sýnt lífgjafanum tilhlýðilega virðingu.

7. Hvernig sýndi Davíð að hann virti heilagleika blóðsins?

7 Davíð var maður „eftir [Guðs] hjarta“ og hann skildi hvaða meginreglur bjuggu að baki lögum Guðs um blóð.  (Postulasagan 13:22) Einu sinni var hann sárþyrstur og þrír af mönnum hans brutu sér þá leið inni í herbúðir óvinarins til að sækja vatn í brunn og færa honum. Viðbrögð Davíðs eru athyglisverð. „Á ég að drekka blóð þessara manna sem hættu lífi sínu til að sækja það?“ spurði hann. Hann leit svo á að ef hann drykki vatnið væri hann í rauninni að drekka blóð manna sinna. Þótt þyrstur væri „dreypti [hann] því í dreypifórn handa Drottni“. — 2. Samúelsbók 23:15-17.

8, 9. Breyttist afstaða Guðs til lífs og blóðs með tilkomu kristna safnaðarins? Skýrðu svarið.

8 Um 2400 árum eftir að Jehóva gaf Nóa fyrirmælin um blóðið og um 1500 árum eftir að lagasáttmálinn var gerður innblés Jehóva stjórnandi ráði frumkristna safnaðarins að skrifa: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti, er fórnað hefur verið, skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ — Postulasagan 15:28, 29.

9 Ljóst er að stjórnandi ráð frumkristna safnaðarins gerði sér grein fyrir því að blóð væri heilagt og það væri ekki síður siðferðilega rangt að misnota það en að dýrka skurðgoð eða drýgja hór. Sannkristnir menn nú á dögum taka sömu afstöðu. Og þar sem þeir hafa meginreglur Biblíunnar til leiðsagnar geta þeir tekið réttar ákvarðanir um notkun blóðs og verið Jehóva þóknanlegir.

NOTKUN BLÓÐS VIÐ LÆKNINGAR

Hvernig get ég útskýrt fyrir lækni afstöðu mína til blóðþátta?

10, 11. (a) Hvernig líta vottar Jehóva á það að þiggja heilblóð og blóðhlutana fjóra? (b) Á hverju gætu þjónar Guðs haft ólíkar skoðanir?

10 Vottum Jehóva er ljóst að ákvæðið um að ‚halda sér frá blóði‘ felur í sér að þiggja hvorki blóðgjöf né gefa blóð né láta draga sér blóð og geyma til að fá aftur síðar. Þar sem þeir virða lög Guðs þiggja þeir ekki heldur blóðhlutana fjóra — rauðkorn, hvítkorn, blóðflögur eða blóðvökva.

 11 En nú er orðið hægt að skilja blóðhlutana sundur í fleiri þætti sem nota má á ýmsa vegu. Getur kristinn maður þegið slíka blóðþætti? Lítur hann á þá sem „blóð“? Hver og einn þarf að ákveða það sjálfur. Hið sama er að segja um læknismeðferð eins og blóðskiljun, blóðvökvaaukningu í aðgerð og endurvinnslu blóðs í aðgerð að því tilskildu að það sé ekki sett í geymslu. — Sjá viðaukann „Blóðþættir og skurðaðgerðir“.

12. (a) Hvernig eigum við að líta á samviskumál? (b) Hvernig eigum við að taka ákvarðanir í samviskumálum?

12 Skiptir það litlu máli í augum Jehóva hvaða afstöðu við tökum í persónulegum málum? Nei, hann hefur mikinn áhuga á því hvernig við hugsum og hvaða hvatir bærast með okkur. (Orðskviðirnir 17:3; 21:2; 24:12) Eftir að við höfum leitað leiðsagnar Jehóva og kynnt okkur vel þær aðferðir eða þau efni sem boðið er upp á ættum við að  hlýða biblíufræddri samvisku okkar. (Rómverjabréfið 14:2, 22, 23) Aðrir eiga auðvitað ekki að ákveða fyrir okkur hvað við gerum og við ættum ekki heldur að spyrja aðra hvað þeir myndu gera í okkar sporum. Þegar þessi mál eru annars vegar þarf hver og einn að „bera sína byrði“. * — Galatabréfið 6:5; Rómverjabréfið 14:12; sjá rammagreinina „ Lít ég svo á að blóð sé heilagt?“.

LÖG JEHÓVA VITNA UM FÖÐURLEGA UMHYGGJU HANS

13. Hvað má álykta um Jehóva af lögum hans og meginreglum? Skýrðu svarið.

13 Lög og meginreglur Biblíunnar endurspegla að Jehóva er bæði vitur löggjafi og ástríkur faðir sem lætur sér innilega annt um velferð barna sinna. (Sálmur 19:8-12) Enda þótt ákvæðið um að ‚halda sig frá blóði‘ sé ekki gefið af heilbrigðisástæðum verndar það okkur vissulega gegn fylgikvillum blóðgjafa. (Postulasagan 15:20) Margir læknar líta reyndar á læknismeðferð án blóðgjafar sem meðferð í hæsta gæðaflokki. Í augum sannkristinna manna er það enn ein staðfesting á óviðjafnanlegri visku og föðurlegum kærleika Jehóva. — Jesaja 55:9; Jóhannes 14:21, 23.

14, 15. (a) Hvaða lög endurspegla kærleika Guðs til þjóna sinna? (b) Hvernig er hægt að fylgja frumreglunum að baki þessum öryggisákvæðum?

14 Umhyggja Guðs fyrir velferð þjóðar sinnar forðum daga birtist í mörgum af lögum hans. Til dæmis var sett það ákvæði að Ísraelsmenn skyldu gera brjóstrið umhverfis húsþök sín til að verjast slysum enda var þakið notað til margra hluta. (5. Mósebók 22:8; 1. Samúelsbók 9:25, 26; Nehemíabók 8:16; Postulasagan 10:9) Guð gaf einnig þau fyrirmæli að hættuleg naut væru höfð í öruggri gæslu.  (2. Mósebók 21:28, 29) Sá sem hélt ekki þessi ákvæði sýndi þar með vítavert virðingarleysi fyrir velferð annarra og gat bakað sér blóðsekt.

15 Hvernig getum við farið eftir frumreglunum að baki þessum lögum? Við gætum leitt hugann að bílnum okkar, aksturslagi, húsdýrum, heimili, vinnustað og afþreyingu. Í sumum löndum eru slys ein algengasta dánarorsök ungs fólks, oft vegna þess að það tekur óþarfa áhættu. En ungt fólk, sem vill láta kærleika Guðs varðveita sig, lætur sér annt um líf sitt og sækir ekki í spenning sem byggist á því að taka áhættu. Það ímyndar sér ekki í kjánaskap að ekkert geti komið fyrir af því að það sé svo ungt. Það forðast óþarfa erfiðleika og nýtur æskuáranna. — Prédikarinn 11:9, 10.

16. Hvaða frumregla gildir um fóstureyðingar? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

16 Ófædd börn í móðurkviði eru líka dýrmæt í augum Guðs. Ef einhver skaðaði ófríska konu og hún eða barn hennar dó af völdum þess taldist hann manndrápari í augum Guðs og þurfti að gjalda „líf fyrir líf“. * (2. Mósebók 21:22, 23) Við getum rétt ímyndað okkur hvernig Jehóva hlýtur að vera innanbrjósts að horfa upp á óteljandi fóstureyðingar á ári hverju — horfa upp á það hvernig óteljandi ófæddum börnum er fórnað, oft í þægindaskyni eða til þess að fólk geti lifað lauslátu lífi.

17. Hvernig er hægt að hughreysta manneskju sem lét eyða fóstri áður en hún kynntist lögum Guðs?

17 En hvað þá um konu sem lét eyða fóstri áður en hún kynntist sannleika Biblíunnar? Er málið svo alvarlegt að Jehóva geti ekki miskunnað henni? Auðvitað ekki. Allir sem  iðrast í einlægni geta treyst að Jehóva fyrirgefi þeim á grundvelli hins úthellta blóðs Jesú. (Sálmur 103:8-14; Efesusbréfið 1:7) Jesús sagði sjálfur: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta til afturhvarfs heldur syndara.“ — Lúkas 5:32.

 VÖRUMST HATUR

18. Hvernig bendir Biblían á helstu undirrót blóðsúthellinga?

18 Í augum Jehóva er ekki nóg að við forðumst að skaða aðra. Við eigum líka að uppræta hatur úr hjörtum okkar. Stór hluti af þeim blóðsúthellingum, sem eiga sér stað í heiminum, er sprottinn af hatri. „Hver sem hatar bróður sinn eða systur er manndrápari [eða morðingi],“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 3:15) Sá sem hatar hefur ekki aðeins óbeit á annarri manneskju heldur vill hana feiga. Fjandskapurinn getur komið fram í rógburði eða upplognum ásökunum sem væru ávísun á dóm Guðs ef sannar væru. (3. Mósebók 19:16; 5. Mósebók 19:18-21; Matteus 5:22) Við þurfum þess vegna að leggja okkur fram um að uppræta alla illgirni sem kann að hafa búið um sig í hjörtum okkar. — Jakobsbréfið 1:14, 15; 4:1-3.

19. Hvernig líta þeir sem fylgja meginreglum Biblíunnar á ritningarstaði eins og Sálm 11:5 og Filippíbréfið 4:8, 9?

19 Þeir sem meta gildi lífsins á sama hátt og Jehóva og vilja að kærleikur hans varðveiti sig forðast einnig ofbeldi í hvaða mynd sem er. Í Sálmi 11:5 segir: „Drottinn . . . hatar þann . . . sem elskar ofbeldi.“ (Biblían 1859) Þetta vers lýsir ekki aðeins persónuleika Guðs heldur er fólgin í því ákveðin lífsregla. Hún fær þá sem elska Guð til að forðast hvers konar afþreyingarefni sem ýtir undir áhuga á ofbeldi. Og það að Jehóva skuli vera kallaður „Guð friðarins“ er sömuleiðis hvatning fyrir þjóna hans til að fylla hugann og hjartað af því sem er göfugt, elskuvert og lofsvert því að það stuðlar að friði. — Filippíbréfið 4:8, 9.

HALTU ÞIG FRÁ BLÓÐSEKUM STOFNUNUM

20-22. Hvaða afstöðu taka kristnir menn til heimsins og af hverju?

20 Í augum Guðs er allur heimur Satans blóðsekur. Ríki og stjórnmálakerfi hafa drepið ótal milljónir manna, þar  á meðal marga af þjónum Jehóva. Það er ekki að ástæðulausu að þeim er lýst í Biblíunni sem grimmum villidýrum. (Daníel 8:3, 4, 20-22; Opinberunarbókin 13:1, 2, 7, 8) Viðskiptaöflin og vísindin hafa unnið með þessum grimmu pólitísku öflum að því að smíða einhver hryllilegustu vopn sem hægt er að hugsa sér. Og þau hafa grætt stórum á samvinnunni. Það er ekki ofsögum sagt að „allur heimurinn [sé] á valdi hins vonda“. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

21 Fylgjendur Jesú eru „ekki af heiminum“ heldur eru þeir algerlega hlutlausir gagnvart stjórnmálum og styrjöldum. Þess vegna baka þeir sér hvorki blóðsekt sem einstaklingar né eiga hlutdeild í blóðsekt annarra. * (Jóhannes 15:19; 17:16) Og þeir líkja eftir Kristi með því að grípa ekki til ofbeldis þegar þeir eru ofsóttir. Þeir elska óvini sína og biðja jafnvel fyrir þeim. — Matteus 5:44; Rómverjabréfið 12:17-21.

 22 Sannkristnir menn gæta þess umfram allt að eiga ekkert saman að sælda við ‚Babýlon hina miklu‘, heimsveldi falskra trúarbragða, en hún er blóðsekust allra stofnana. „Í [henni] fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra sem drepnir hafa verið á jörðunni,“ segir í Biblíunni. Við fáum þessa viðvörun: „Fólkið mitt, forðið yður úr [henni].“ — Opinberunarbókin 17:6; 18:2, 4, 24.

23. Hvað er fólgið í því að fara út úr Babýlon hinni miklu?

23 Að yfirgefa Babýlon hina miklu er ekki aðeins fólgið í því að láta taka nafn sitt af meðlimaskrá. Við þurfum líka að hata öll þau vondu verk sem falstrúarbrögðin samþykkja eða styðja fyrir opnum tjöldum — svo sem siðleysi, stjórnmálaafskipti og gróðafíkn sem eru ósjaldan kveikjan að blóðsúthellingum. — Sálmur 97:10; Opinberunarbókin 18:7, 9, 11-17.

24, 25. (a) Á hvaða grundvelli getur Guð miskunnað iðrandi manni sem er blóðsekur? (b) Á hvað minnir það okkur á biblíutímanum?

24 Áður en við tókum upp sanna tilbeiðslu studdum við kerfi Satans á einn eða annan hátt og bökuðum okkur vissa blóðsekt. En nú höfum við söðlað um, tekið trú á lausnarfórn Krists og vígt Guði líf okkar þannig að við höfum hlotið miskunn Guðs og andlega vernd. (Postulasagan 3:19) Þessi vernd minnir á griðaborgirnar á biblíutímanum. — 4. Mósebók 35:11-15; 5. Mósebók 21:1-9.

25 Griðaborgirnar voru hugsaðar þannig að ef Ísraelsmaður varð öðrum óviljandi að bana átti hann að flýja til þeirrar sem næst var. Þegar þar til bærir dómarar höfðu fjallað um málið varð sá sem hafði orðið öðrum óviljandi að bana að búa í griðaborginni þangað til æðstipresturinn dó. Þá var honum frjálst að flytja annað. Þetta er fallegt dæmi um miskunn Guðs og lýsir vel hve mikils virði mannslífið er í augum hans. Griðaborgir fortíðar  minna á lausnarfórn Krists að því leyti að hún verndar okkur þannig að við þurfum ekki að deyja þó að við brjótum óviljandi lög Guðs um heilagleika lífs og blóðs. Kanntu að meta þessa ráðstöfun Guðs? Hvernig geturðu sýnt að þú gerir það? Meðal annars með því að hvetja aðra til að þiggja vernd Guðs, ekki síst í ljósi þess að ‚þrengingin mikla‘ er yfirvofandi. — Matteus 24:21; 2. Korintubréf 6:1, 2.

VIRÐUM LÍFIÐ MEÐ ÞVÍ AÐ BOÐA GUÐSRÍKI

26-28. Að hvaða leyti erum við í svipaðri stöðu og Esekíel spámaður og hvernig getum við látið kærleika Guðs varðveita okkur?

26 Þjónar Guðs nú á tímum eru í svipaðri aðstöðu og Esekíel spámaður til forna en Jehóva skipaði hann andlegan varðmann yfir Ísraelsmönnum. „Þegar þú heyrir orð úr munni mínum átt þú að vara þá við mér,“ sagði Guð. Ef hann vanrækti það bæri hann ábyrgð á blóði þeirra sem yrðu teknir af lífi þegar Jerúsalembúar þyrftu að svara til saka. (Esekíel 33:7-9) En Esekíel var hlýðinn og bakaði sér ekki blóðsekt.

27 Innan tíðar líður heimur Satans undir lok. Vottar Jehóva álíta það bæði skyldu sína og mikinn heiður að boða „hefndardag Guðs“ ásamt fagnaðarerindinu um ríkið. (Jesaja 61:2; Matteus 24:14) Gerir þú þitt ýtrasta til þess? Páll postuli tók það hlutverk mjög alvarlega að prédika. Þess vegna gat hann sagt: „Ekki er mig um að saka þótt einhver glatist því að ég hef boðað ykkur allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.“ (Postulasagan 20:26, 27) Það er góð fyrirmynd til eftirbreytni.

28 Til að föðurást Jehóva varðveiti okkur þurfum við auðvitað að gera meira en að líta líf og blóð sömu augum og hann. Við þurfum líka að vera hrein eða heilög í augum hans eins og rætt er um í næsta kafla.

^ gr. 5 Í tímaritinu Scientific American segir um orðin „lífskraftur holdsins er í blóðinu“: „Hvað sem líður myndhverfri merkingu þessa er það bókstaflega svo að allar tegundir blóðfrumna eru okkur nauðsynlegar til að lifa.“

^ gr. 12 Sjá Vaknið! janúar-mars 2007, bls. 3-12, gefið út af Vottum Jehóva.

^ gr. 16 Í biblíuorðabókum kemur fram að miðað við orðalag hebreska textans sé „óraunhæft að líta svo á að orðið ‚skaði‘ eigi við konuna eina“. Það vekur einnig athygli að ekki kemur fram í Biblíunni að dómur Jehóva sé háður því hve gamalt fóstrið er.

^ gr. 70 Nánari upplýsingar er að finna í viðaukanum á „Blóðþættir og skurðaðgerðir“.