Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐAUKI

Hvernig á að koma fram við þá sem er vikið úr söfnuðinum?

Hvernig á að koma fram við þá sem er vikið úr söfnuðinum?

Fátt er jafn sársaukafullt og að horfa upp á það að ættingja eða nánum vini er vikið úr söfnuðinum vegna þess að hann hefur syndgað og iðrast ekki. Viðbrögð okkar við fyrirmælum Biblíunnar um þetta mál geta dregið fram hve heitt við elskum Guð og hve dyggilega við styðjum fyrirkomulag hans. * Lítum á nokkrar spurningar sem koma upp varðandi þetta mál.

Hvernig eigum við að koma fram við þann sem er vikið úr söfnuðinum? Í Biblíunni segir: „Þið skuluð ekki umgangast nokkurn þann er nefnir sig bróður en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkandi eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þið skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ (1. Korintubréf 5:11) Um þann sem „er ekki staðfastur í kenningu Krists“ segir: „Takið hann ekki á heimili ykkar og bjóðið hann ekki velkominn. Því að sá sem býður hann velkominn tekur þátt í hans vondu verkum.“ (2. Jóhannesarbréf 9-11) Við viljum ekki eiga trúarlegt eða félagslegt samneyti við þá sem vikið er úr söfnuðinum. Í Varðturninum 1. janúar 1982, bls. 25, segir: „Einföld kveðja, ,Sæll,‘ sem við köstum á einhvern, getur verið fyrsta skrefið að samræðum og jafnvel vináttu. Munum við vilja stíga fyrsta skrefið að slíku sambandi við brottrækan einstakling?“

Er nauðsynlegt að forðast allt samband? Já, og fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi snýst málið um hollustu við Guð og orð hans. Við hlýðum Jehóva ekki aðeins þegar það er þægilegt heldur einnig þegar það reynir verulega á okkur. Sá sem elskar Guð hlýðir öllum boðorðum hans, viðurkennir að hann sé réttlátur og kærleiksríkur og að lög hans séu okkur alltaf fyrir bestu. (Jesaja 48:17; 1. Jóhannesarbréf 5:3)  Í öðru lagi verndum við okkur og aðra í söfnuðinum siðferðilega og trúarlega með því að forðast samneyti við syndara sem iðrast ekki, og við varðveitum góðan orðstír safnaðarins. (1. Korintubréf 5:6, 7) Í þriðja lagi getur það orðið til góðs fyrir þann sem vikið var úr söfnuðinum að við tökum einarða afstöðu með meginreglum Biblíunnar. Með því að styðja ákvörðun dómnefndarinnar getum við hugsanlega náð til hjarta syndarans sem hefur hingað til ekki tekið til sín leiðbeiningar öldunganna. Þegar ástvinir hætta að umgangast hann er hugsanlegt að hann ,komi til sjálfs sín‘, átti sig á hve alvarleg synd hans er og geri ráðstafanir til að snúa aftur til Jehóva. — Lúkas 15:17.

Hvað á að gera ef ættingja er vikið úr söfnuðinum? Nálægðin og fjölskylduböndin geta reynt verulega á hollustu okkar við lög Jehóva. Hvernig á að koma fram við ættingja sem er vikið úr söfnuðinum? Við getum ekki fjallað um alla hugsanlega möguleika en lítum á tvenns konar aðstæður.

Segjum að um sé að ræða fjölskyldumeðlim sem býr á heimilinu. Fjölskylduböndin rofna ekki þó að honum sé vikið úr söfnuðinum þannig að daglegt líf og samskipti geta haldið áfram eins og áður. Með þeirri stefnu, sem hann hefur valið, hefur hann hins vegar rofið þau tengsl sem byggðust á sameiginlegri þjónustu við Guð. Þeir í fjölskyldunni, sem þjóna Guði, eiga því ekki lengur trúarleg samskipti við hann. Ef hann er til dæmis viðstaddur biblíunám fjölskyldunnar tekur hann ekki þátt í því. Ef barni undir lögaldri er vikið úr söfnuðinum ber foreldrunum þó að halda áfram að fræða það og aga. Ástríkir foreldrar geta því eftir sem áður kennt barninu sannleika Biblíunnar. * — Orðskviðirnir 6:20-22; 29:17.

Hinar aðstæðurnar, sem við ætlum að líta á, eru þær að ættinginn búi ekki á heimilinu. Þótt nauðsynlegt geti verið  að eiga einhver takmörkuð tengsl stöku sinnum vegna fjölskyldumála ættu samskiptin að vera sem minnst. Þeir ættingjar, sem þjóna Guði, reyna ekki að finna upp afsakanir til að geta átt samskipti við ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum og býr ekki heima. Sökum hollustu við Jehóva og söfnuð hans styðja þeir þá biblíulegu ráðstöfun að iðrunarlausum syndara skuli vikið úr söfnuðinum. Hollusta þeirra er syndaranum fyrir bestu og getur stuðlað að því að ögunin verði honum til góðs. * — Hebreabréfið 12:11.

^ gr. 1 Meginreglur Biblíunnar um þetta eiga einnig við um þá sem aðgreina sig frá söfnuðinum.

^ gr. 2 Nánari upplýsingar um börn undir lögaldri, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum en búa heima, er að finna í Varðturninum 1. nóvember 2001, bls. 16-17 og 1. júní 1989, bls. 32.

^ gr. 3 Nánari upplýsingar og biblíuleg ráð um hvernig koma skuli fram við ættingja, sem vikið er úr söfnuðinum, má finna í Varðturninum 1. október 1988, bls. 28-32, og 1. janúar 1982, bls. 26-31.