Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 6. KAFLI

Að velja heilnæmt afþreyingarefni

Að velja heilnæmt afþreyingarefni

„Gerið . . . allt Guði til dýrðar.“ — 1. KORINTUBRÉF 10:31.

1, 2. Hvaða afstöðu þurfum við að taka til afþreyingarefnis?

ÞÚ ÆTLAR að bíta í gómsætan ávöxt en uppgötvar þá að hann er skemmdur að hluta til. Hvað gerirðu? Þú getur borðað ávöxtinn eins og hann leggur sig, þar á meðal skemmdina, þú gætir hreinlega hent ávextinum og þar með skemmdinni en þú gætir líka skorið burt skemmdina og borðað það sem er óskemmt. Hvaða kost velurðu?

2 Afþreyingarefni er að vissu leyti eins og ávöxturinn. Stundum langar okkur til að horfa á eitthvað til skemmtunar en við vitum að stór hluti af því afþreyingarefni, sem nú er í boði, er siðspillt eða jafnvel rotið. Hvað gerirðu? Sumir umbera kannski hið illa og gleypa við hverju sem í boði er. Aðrir forðast ef til vill allt afþreyingarefni til að tryggja að ekkert skaðlegt beri fyrir augu þeirra. Og þá eru þeir sem forðast vandlega afþreyingarefni sem getur verið skaðlegt en njóta við og við efnis sem er tiltölulega heilnæmt. Hvaða kost myndir þú velja til að láta kærleika Guðs varðveita þig?

3. Hvað ætlum við að kanna núna?

3 Flestir myndu velja þriðja kostinn. Við vitum að við þurfum á hæfilegri afþreyingu að halda en viljum samt velja okkur skemmtiefni sem er siðferðilega heilnæmt. Þess vegna þurfum við að kanna hvernig við getum gengið úr skugga um hvað sé heilnæmt og hvað ekki. En  fyrst skulum við skoða hvaða áhrif sú afþreying, sem við veljum okkur, getur haft á tilbeiðsluna sem við veitum Jehóva.

„GERIÐ . . . ALLT GUÐI TIL DÝRÐAR“

4. Hvaða áhrif ætti vígsluheit okkar að hafa á það sem við veljum okkur til afþreyingar?

4 Aldraður vottur, sem lét skírast árið 1946, sagði fyrir nokkrum árum: „Ég hef sett mér það markmið að vera viðstaddur allar skírnarræður og hlusta af athygli eins og þetta væri mín eigin skírn.“ Af hverju gerir hann það? Hann svarar: „Að hafa vígsluna ljóslifandi í huga hefur reynst mikilvæg hjálp til að vera trúfastur.“ Þú ert ábyggilega sama sinnis. Það er gott fyrir þig að minna þig á að þú hefur lofað að nota líf þitt til að þjóna Jehóva. Það hjálpar þér að vera trúfastur. (Prédikarinn 5:3; Hebreabréfið 10:7) Með því að hugsa um vígsluheit okkar höfum við ekki aðeins áhrif á það hvernig við lítum á boðunarstarfið heldur einnig annað sem við tökum okkur fyrir hendur — meðal annars það sem við gerum til afþreyingar. Páll postuli benti á þetta þegar hann skrifaði kristnum samtíðarmönnum sínum: „Hvort sem þið því etið eða drekkið eða hvað sem þið gerið, þá gerið það allt Guði til dýrðar.“ — 1. Korintubréf 10:31.

5. Hvaða viðvörun er fólgin í Rómverjabréfinu 12:1 ef höfð er hliðsjón af 3. Mósebók 22:18-20?

 5 Allt sem við gerum í lífinu tengist tilbeiðslunni á Jehóva. Páll tók sterkt til orða í Rómverjabréfinu þegar hann benti trúsystkinum sínum á þetta. Hann sagði: „Bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi.“ (Rómverjabréfið 12:1) Við notum sjálf okkur, það er að segja huga okkar, hjarta og krafta, til að þjóna Guði. (Markús 12:30) Páll talar um slíka heilshugar þjónustu sem fórn. Í þessu orði er fólgin ákveðin viðvörun. Samkvæmt Móselögunum hafnaði Guð fórnum Ísraelsmanna ef þær voru gallaðar. (3. Mósebók 22:18-20) Ef andlegar fórnir kristins manns eru gallaðar á einhvern hátt hafnar Guð þeim sömuleiðis. Hvernig gæti það gerst?

6, 7. Hvernig gæti kristinn maður spillt líkama sínum og hvaða afleiðingar gæti það haft?

6 Páll skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Ljáið ekki . . . syndinni limi ykkar“. Hann hvatti þá til að „deyða gjörðir holdsins“. (Rómverjabréfið 6:12-14; 8:13, neðanmáls) Fyrr í bréfinu hafði hann bent á dæmi um slíkar „gjörðir holdsins“. Við lesum um synduga menn: „Munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju. . . . Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði. . . . Guðsótti er enginn til í huga þeirra [„fyrir augum þeirra,“ Biblían 1981].“ (Rómverjabréfið 3:13-18) Kristinn maður myndi óhreinka líkama sinn ef hann notaði „limi“ sína til syndugra verka eins og hér er lýst. Ef þjónn Jehóva horfði af ásettu ráði á siðspillt efni eins og klám eða gróft ofbeldi væri hann þar með að ‚ljá syndinni‘ augu sín og spilla öllum líkama sínum. Hver sú tilbeiðsla, sem hann innir af hendi, er þá eins og fórn sem er ekki lengur heilög  og þóknanleg Guði. (5. Mósebók 15:21; 1. Pétursbréf 1:14-16; 2. Pétursbréf 3:11) Sú afþreying væri dýru verði keypt.

7 Ljóst má vera að það skiptir heilmiklu máli hvað kristinn maður velur að gera sér til skemmtunar. Við viljum auðvitað velja okkur þannig afþreyingu að við prýðum þær fórnir sem við færum Guði í stað þess að skemma þær. Könnum nú hvernig hægt er að ganga úr skugga um hvað sé heilnæmt og hvað ekki.

„HAFIÐ ANDSTYGGÐ Á HINU VONDA“

8, 9. (a) Í hvaða tvo flokka má í stórum dráttum skipta afþreyingarefni? (b) Hvers konar afþreyingarefni forðumst við og af hverju?

8 Í stórum dráttum má skipta afþreyingarefni í tvo flokka. Annars vegar er efni sem kristnir menn forðast algerlega, hins vegar efni sem þeim gæti ýmist þótt boðlegt eða ekki boðlegt. Lítum fyrst á fyrri flokkinn — afþreyingarefni sem kristnir menn forðast.

9 Eins og fram kom í 1. kafla er sumt afþreyingarefni byggt á hegðun sem Biblían fordæmir afdráttarlaust. Nefna má sem dæmi vefsíður, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tónlist sem gera út á kvalalosta, djöflatrú eða klám, eða efni þar sem grófu siðleysi er haldið á lofti. Sannkristnir menn ættu að forðast með öllu siðspillt efni af þessu tagi vegna þess að þar er sýnt í jákvæðu ljósi líferni sem stangast á við lög eða meginreglur Biblíunnar. (Postulasagan 15:28, 29; 1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8) Með því að hafna þessu óheilnæma afþreyingarefni ertu að sanna fyrir Jehóva að þú hafir „andstyggð á hinu vonda“ og ‚forðist illt‘. Þá geturðu haft ‚hræsnislausa trú‘. — Rómverjabréfið 12:9; Sálmur 34:15; 1. Tímóteusarbréf 1:5.

10. Hvers konar hugsunarháttur er hættulegur og af hverju?

 10 Sumir telja hins vegar að það sé skaðlaust að horfa á djarfar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti. Þeir hugsa sem svo að þeir geti horft á slíkt efni en myndu auðvitað aldrei gera neitt svona sjálfir. En þetta er hættuleg sjálfsblekking. (Jeremía 17:9) Getum við sagt að við höfum „andstyggð á hinu vonda“ ef við horfum á það okkur til skemmtunar? Við sljóvgum samviskuna með því að lesa um, hlusta á eða horfa á illa breytni æ ofan í æ. (Sálmur 119:70; 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2) Það getur haft áhrif á hegðun okkar og álit okkar á syndsamlegri breytni annarra.

11. Hvernig hefur meginreglan í Galatabréfinu 6:7 sannast hvað afþreyingu varðar?

11 Svona lagað hefur gerst. Einstaka þjónar Guðs hafa gert sig seka um siðlaus verk vegna þess að þeir urðu fyrir áhrifum af afþreyingarefni sem þeir voru vanir að horfa á. Þeir lærðu af biturri reynslu að „það sem maður sáir, það mun hann og uppskera“. (Galatabréfið 6:7) En það er hægt að umflýja dapurlega lífsreynslu af þessu tagi. Ef við sáum vandlega í huga okkar því sem er heilnæmt uppskerum við að sama skapi það sem er heilnæmt. — Sjá rammagreinina „ Hvers konar afþreyingarefni ætti ég að velja mér?“.

ÁKVARÐANIR BYGGÐAR Á MEGINREGLUM BIBLÍUNNAR

12. Hvernig má heimfæra Galatabréfið 6:5 á afþreyingu og hvað höfum við til leiðsagnar þegar við veljum úr?

12 Lítum nú á síðari flokkinn, afþreyingarefni sem inniheldur ýmislegt sem er hvorki fordæmt beinlínis í Biblíunni né tekið sérstaklega fram að sé boðlegt. Þegar kristinn maður velur sér afþreyingarefni í þessum flokki þarf hann að ákveða sjálfur hvað hann telji heilnæmt. (Galatabréfið 6:5) En við höfum ýmislegt til leiðsagnar  þegar við veljum úr. Í Biblíunni er að finna meginreglur eða grundvallarsannindi sem gera okkur kleift að glöggva okkur á því hvernig Jehóva hugsar. Með því að taka mið af þessum meginreglum getum við áttað okkur á því „hver sé vilji Drottins“ í öllum málum, einnig þegar við veljum okkur afþreyingu. — Efesusbréfið 5:17.

13. Hvað fær okkur til að forðast afþreyingarefni sem Jehóva gæti haft vanþóknun á?

13 Það hafa auðvitað ekki allir náð að þroska siðferðilega  dómgreind sína í sama mæli. (Filippíbréfið 1:9) Og við gerum okkur grein fyrir að fólk hefur ólíkan smekk á afþreyingarefni. Þess vegna er ekki hægt að reikna með því að allir þjónar Guðs taki nákvæmlega eins ákvarðanir. En því meiri áhrif sem við látum meginreglur Guðs hafa á hugann og hjartað, þeim mun betur leggjum við okkur fram um að forðast hvers konar skemmtiefni sem Jehóva gæti haft vanþóknun á. — Sálmur 119:11, 129; 1. Pétursbréf 2:16.

14. (a) Hvað ættum við að hugleiða þegar við veljum okkur afþreyingarefni? (b) Hvernig getum við gætt þess að andlegu málin séu í fyrirrúmi?

14 Þegar við veljum okkur afþreyingu þurfum við líka að hafa annað í huga — tímann. Efnið, sem þú velur þér, segir til um hvað þú telur boðlegt en tíminn, sem þú eyðir í það, leiðir í ljós hvernig þú forgangsraðar. Hjá kristnum mönnum skiptir tilbeiðslan á Jehóva auðvitað meginmáli. (Matteus 6:33) Hvað geturðu þá gert til að tryggja að þú látir andlegu málin sitja í fyrirrúmi í lífinu? Páll postuli sagði: „Hafið . . . nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Ef þú setur því skýr mörk hve mikinn tíma þú notar til að lesa, hlusta á eða horfa á afþreyingarefni ættirðu að hafa nægan tíma til að sinna ‚þeim hlutum sem máli skipta‘ — það er að segja því sem stuðlar að andlegri velferð þinni. — Filippíbréfið 1:10.

15. Af hverju er skynsamlegt að hafa varann á þegar við veljum okkur afþreyingarefni?

15 Það er líka skynsamlegt að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar maður velur sér afþreyingarefni. Hvernig þá? Lítum aftur á skemmda ávöxtinn sem dæmi. Til að borða ekki óvart skemmda aldinkjötið skerðu ekki bara burt skemmdina heldur svolítið meira til að vera viss. Á sama  hátt er skynsamlegt að hafa varann á varðandi val á afþreyingarefni. Það er skynsamlegt af þjónum Guðs að forðast ekki bara afþreyingarefni sem gengur greinilega í berhögg við meginreglur Biblíunnar heldur einnig efni sem er vafasamt eða virðist innihalda eitthvað sem gæti skaðað samband þeirra við Jehóva. (Orðskviðirnir 4:25-27) Ef þú fylgir orði Guðs í þaula ætti það ekki að vera erfitt.

„ALLT SEM ER . . . HREINT“

Það er okkur til verndar að fylgja meginreglum Guðs þegar við veljum okkur afþreyingarefni.

16. (a) Hvernig látum við í ljós að við höfum sömu afstöðu og Jehóva í siðferðismálum? (b) Hvernig verður okkur tamt að fara eftir meginreglum Biblíunnar?

16 Þegar sannkristnir menn velja sér efni til afþreyingar taka þeir fyrst mið af afstöðu Jehóva. Í Biblíunni kemur fram hvernig Jehóva hugsar og hvaða mælikvarða hann hefur. Salómon konungur nefnir til dæmis ýmislegt sem Jehóva hatar. Hann segir að það sé meðal annars „lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar fjörráð, fætur sem fráir eru til illverka“. (Orðskviðirnir 6:16-19) Hvaða áhrif ætti sjónarmið Jehóva að hafa á þig? „Þér, sem elskið Drottin, hatið illt,“ hvetur sálmaskáldið. (Sálmur 97:10) Val okkar á afþreyingarefni þarf að sýna að við hötum það sem Jehóva hatar. (Galatabréfið 5:19-21) Höfum einnig hugfast að það sem við  gerum í einrúmi gefur jafnvel betri mynd af því hvernig við erum innst inni en það sem við gerum þegar aðrir sjá til. (Sálmur 11:4; 16:8) Ef þig langar mest af öllu til að endurspegla afstöðu Jehóva í siðferðismálum tekurðu alltaf ákvarðanir í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þér verður tamt að gera það. — 2. Korintubréf 3:18.

17. Hvaða spurninga er gott að spyrja sig þegar maður velur sér afþreyingarefni?

17 Hvað annað er hægt að gera til að tryggja að maður velji sér afþreyingarefni í samræmi við sjónarmið Jehóva? Þú gætir spurt þig hvaða áhrif þetta efni myndi hafa á samband þitt við Guð. Áður en maður ákveður að horfa á kvikmynd er gott að spyrja sig: Hvaða áhrif myndi hún hafa á samvisku mína? Lítum á nokkrar meginreglur sem snerta þetta mál.

18, 19. (a) Hvernig getur meginreglan í Filippíbréfinu 4:8 hjálpað okkur að ákvarða hvort ákveðið afþreyingarefni sé heilnæmt? (b) Hvaða aðrar meginreglur geta hjálpað okkur að velja heilnæmt afþreyingarefni? (Sjá neðanmálsgrein.)

18 Í Filippíbréfinu 4:8 er að finna mjög mikilvæga grundvallarreglu: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ Páll er reyndar ekki að ræða um afþreyingarefni hér heldur hugsanir okkar. Þær ættu að snúast um það sem Guð hefur velþóknun á. (Sálmur 19:15) Það er samt sem áður hægt að heimfæra orð hans á skemmti- og afþreyingarefni. Hvernig þá?

19 Spyrðu sjálfan þig hvort þær kvikmyndir, tölvuleikir, tónlist eða annað afþreyingarefni, sem þú velur þér, fylli huga þinn af því sem er hreint. Hvaða myndir sitja eftir í huganum þegar þú ert búinn að horfa á kvikmynd? Ef þær eru ánægjulegar, hreinar og endurnærandi veistu að þú hefur valið þér heilnæmt afþreyingarefni. En ef  kvikmyndin, sem þú horfðir á, fær þig til að hugsa um eitthvað óhreint var hún óheilnæm eða jafnvel skaðleg. (Matteus 12:33; Markús 7:20-23) Hvers vegna? Vegna þess að ef þú hugsar um hluti sem eru siðferðilega óhreinir raskar það innri friði þínum, skaðar samviskuna og getur eyðilagt samband þitt við Guð. (Efesusbréfið 5:5; 1. Tímóteusarbréf 1:5, 19) Þar eð slíkt afþreyingarefni hefur skaðleg áhrif á þig skaltu vera ákveðinn í að forðast það. * (Rómverjabréfið 12:2) Hugsaðu eins og sálmaskáldið sem bað til Jehóva: „Snú augum mínum frá hégóma.“ — Sálmur 119:37.

HUGSAÐU UM HAG ANNARRA

20, 21. Hvernig á 1. Korintubréf 10:23, 24 við um val á heilnæmu afþreyingarefni?

20 Páll kemur inn á mikilvæga meginreglu sem við þurfum að hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir í persónulegum málum. Hann segir: „Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp. Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:23, 24) Hvernig á þessi meginregla við um val á heilnæmu afþreyingarefni? Þú þarft að spyrja þig: Hvaða áhrif hef ég á aðra með vali mínu?

21 Samviskan segir þér ef til vill að ákveðið afþreyingarefni sé „leyfilegt“ eða boðlegt. En ef þú veitir því athygli að einhverjum af trúsystkinum þínum, sem hafa vandlátari samvisku, þykir það óviðeigandi ákveður þú kannski að láta það vera. Af hverju? Af því að þú vilt ekki syndga gegn trúsystkinum þínum — eða jafnvel gegn Kristi eins og Páll tók til orða — með því að gera þeim erfiðara fyrir að vera Guði trúir. Þú gætir þess að  vera ekki öðrum „til ásteytingar“. (1. Korintubréf 8:12; 10:32) Þjónar Guðs nú á tímum eru hugulsamir og nærgætnir eins og Páll hvatti til. Þeir forðast afþreyingarefni sem kann að vera „leyfilegt“ en byggir ekki upp. — Rómverjabréfið 14:1; 15:1.

22. Af hverju á að vera svigrúm fyrir ólíkar skoðanir í persónulegum málum meðal þjóna Guðs?

22 En það er önnur hlið á því að hugsa um hag annarra. Kristinn maður, sem hefur frekar vandláta samvisku, ætti ekki að ætlast til að allir í söfnuðinum taki jafn stranga afstöðu til þess hvað sé viðeigandi afþreying og hvað ekki. Ef hann gerði það væri hann eins og ökumaður sem ætlaðist til þess að allir aðrir ökumenn á veginum ækju á sama hraða og hann. Það væri ósanngjarnt að ætlast til þess. Sá sem hefur vandláta samvisku þarf að virða sjónarmið trúsystkina sem leggja ekki alveg sama mat á afþreyingarefni og hann, þótt það sé auðvitað innan þeirra marka sem meginreglur Biblíunnar setja. Þannig sýnir hann þeim kærleika og sanngirni. — Títusarbréfið 3:2; Prédikarinn 7:16.

23. Hvernig getum við tryggt að við veljum okkur heilnæmt afþreyingarefni?

23 Hvernig er þá í stuttu máli hægt að tryggja að maður velji sér heilnæma afþreyingu? Hafnaðu öllu afþreyingarefni sem sýnir opinskátt siðlaust hátterni og lagt er blátt bann við í orði Guðs. Fylgdu þeim meginreglum Biblíunnar sem hægt er að heimfæra á afþreyingarefni sem er ekki nefnt sérstaklega í Biblíunni. Forðastu skemmtiefni sem skaðar samviskuna og vertu fús til að sleppa efni sem öðrum, sérstaklega trúsystkinum, gæti þótt óviðeigandi. Vertu staðráðinn í að vera Guði til sóma og láta kærleika hans varðveita þig og fjölskyldu þína.

^ gr. 19 Finna má fleiri meginreglur um afþreyingarefni í Orðskviðunum 3:31; 13:20; Efesusbréfinu 5:3, 4 og Kólossubréfinu 3:5, 8, 20.