Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 13. KAFLI

Hátíðahöld sem Guð hefur vanþóknun á

Hátíðahöld sem Guð hefur vanþóknun á

„Metið rétt hvað Drottni þóknast.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:10.

1. Hvers konar fólk laðar Jehóva til sín og af hverju þurfa þeir að halda andlegri vöku sinni?

„HINIR sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika,“ sagði Jesús. „Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda.“ (Jóhannes 4:23) Þegar Jehóva finnur slíka einstaklinga — eins og hann fann þig — laðar hann þá til sín og sonar síns. (Jóhannes 6:44) Hvílíkur heiður! En þeir sem unna sannleika Biblíunnar verða samt sem áður að halda áfram að ‚meta rétt hvað Drottni þóknast‘ vegna þess að Satan er snjall blekkingameistari. — Efesusbréfið 5:10; Opinberunarbókin 12:9.

2. Hvernig lítur Jehóva á þá sem reyna að blanda saman sannri trú og falskri?

2 Lítum á atvik sem átti sér stað í grennd við Sínaífjall. Ísraelsmenn báðu Aron að gera guð handa sér. Hann féllst á það, gerði gullkálf og gaf í skyn að kálfurinn táknaði Jehóva. „Á morgun verður Drottni haldin hátíð,“ sagði hann. Stóð Jehóva á sama um að sannri trú og falskri væri blandað saman? Nei, hann lét taka af lífi um þrjú þúsund skurðgoðadýrkendur. (2. Mósebók 32:1-6, 10, 28) Hvaða lærdóm má draga af þessu? Ef við viljum að kærleikur Guðs varðveiti okkur megum við ekki ‚snerta neitt óhreint‘ heldur þurfum við að verja sannleikann kostgæfilega gegn hvers konar spillingu. — Jesaja 52:11; Esekíel 44:23; Galatabréfið 5:9.

3, 4. Af hverju ættum við að hafa biblíulegar meginreglur skýrt í huga þegar við lítum á algenga siði og hátíðahöld?

 3 Meðan postulanna naut við komu þeir í veg fyrir að fráhvarf næði að grafa um sig í söfnuðinum. Eftir að þeir voru dánir fór því miður svo að menn, sem kölluðu sig kristna en höfðu litlar mætur á sannleika Biblíunnar, tóku upp heiðna siði, hátíðir og „helgidaga“ og kölluðu þá kristna. (2. Þessaloníkubréf 2:7, 10) Við skulum líta á sumar af þessum siðvenjum og hátíðum og kanna hvernig þær endurspegla anda heimsins en ekki andann frá Guði. Almennt séð eiga hátíðir og helgidagar heimsins eitt sameiginlegt: Þær höfða til langana holdsins og stuðla að falstrú og spíritisma en það eru helstu einkenni ‚Babýlonar hinnar miklu‘. * (Opinberunarbókin 18:2-4, 23) Höfum jafnframt hugfast að Jehóva hefur séð með eigin augum þær viðurstyggilegu heiðnu trúarathafnir sem margar útbreiddar siðvenjur eru sprottnar af. Hátíðahöld af slíkum uppruna eru áreiðanlega jafn viðurstyggileg í augum hans núna. Ætti ekki afstaða hans að skipta okkur mestu máli? — 2. Jóhannesarbréf 6, 7.

4 Sannkristnir menn vita af ýmiss konar hátíðahöldum sem Jehóva hefur ekki velþóknun á. En við þurfum að vera algerlega staðráðin í að koma ekki nálægt neinum þeirra. Ef við kynnum okkur af hverju Jehóva hefur vanþóknun á slíkum hátíðahöldum verðum við enn einbeittari í að forðast hvaðeina sem gæti hindrað að kærleikur hans varðveitti okkur.

JÓL — SÓLDÝRKUN UNDIR ÖÐRU NAFNI

5. Af hverju er víst að Jesús fæddist ekki 25. desember?

5 Þess er hvergi getið í Biblíunni að haldið hafi verið  upp á afmæli Jesú. Reyndar er ekki vitað nákvæmlega hvenær hann fæddist. Hitt er þó víst að hann fæddist ekki 25. desember enda er þá vetur og kalt í veðri í þessum heimshluta. * Þetta kemur óbeint fram í Lúkasarguðspjalli þar sem segir að fjárhirðar hafi gætt hjarða sinna „úti í haga . . . um nóttina“ þegar Jesús fæddist. (Lúkas 2:8-11) Síðla í desember mátti búast við kalsaveðri, rigningum og snjókomu í Betlehem og nágrenni. Venja var að hafa sauðfé í húsi á þeim árstíma svo að fjárhirðar voru ekki með það úti í haga að næturlagi. Enn fremur segir frá því að Jósef og María hafi ferðast til Betlehem vegna þess að Ágústus keisari hafði fyrirskipað að tekið skyldi manntal. (Lúkas 2:1-7) Það verður að teljast afar ólíklegt að keisarinn hafi skipað þjóð, sem var mjög í nöp við yfirráð Rómverja, að ferðast til ættborga sinna um hávetur.

6, 7. (a) Hver er uppruni margra af jólasiðunum? (b) Hvað er ólíkt með jólagjöfum og gjöfum kristinna manna?

6 Jólin eiga ekki rætur að rekja til Biblíunnar heldur eldfornra heiðinna hátíða, svo sem rómversku hátíðarinnar Saturnalia en hún var helguð akuryrkjuguðinum Satúrnusi. Áhangendur guðsins Míþrasar héldu einnig hátíð 25. desember sem þeir töldu „fæðingardag hinnar ósigrandi sólar“, að því er segir í New Catholic Encyclopedia. „Jólahald hófst um það leyti sem sóldýrkun var sérstaklega útbreidd í Róm“ um þrem öldum eftir dauða Krists.

Sannkristnir menn gefa gjafir vegna kærleika.

7 Á hátíðum sínum skiptust heiðnir menn á gjöfum og héldu veislur, og jólahátíðin hefur haldið í þá siði. En þó að fólk skiptist á jólagjöfum eru þær ekki alltaf gefnar í anda 2. Korintubréfs 9:7. Þar stendur: „Sérhver gefi eins  og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ Sannkristnir menn gefa gjafir vegna kærleika, þeir binda sig ekki við ákveðnar dagsetningar og ætlast ekki til að fá gjafir í staðinn. (Lúkas 14:12-14; Postulasagan 20:35) Og þeir eru þakklátir fyrir að vera lausir við jólastressið og þurfa ekki að steypa sér í skuldir eins og margir gera um þetta leyti árs. — Matteus 11:28-30; Jóhannes 8:32.

8. Færðu vitringarnir Jesú afmælisgjafir? Skýrðu svarið.

8 En færðu ekki vitringarnir Jesú afmælisgjafir? spyr einhver. Nei, þeir voru einungis að tjá tignarpersónu virðingu sína með gjöfum eins og siður var á biblíutímanum. (1. Konungabók 10:1, 2, 10, 13; Matteus 2:2, 11) Og þeir komu reyndar ekki nóttina sem Jesús fæddist. Jesús var ekki ungbarn í jötu heldur átti heima í húsi og var orðinn margra mánaða þegar þeir komu.

 AFMÆLISHALD Í LJÓSI BIBLÍUNNAR

9. Hvað gerðist í þeim afmælisveislum sem nefndar eru í Biblíunni?

9 Barnsfæðing hefur alltaf verið talin gleðilegur viðburður en hvergi er þó minnst á að þjónar Guðs hafi haldið afmæli sitt hátíðlegt. (Sálmur 127:3) Gleymdist hreinlega að segja frá því? Nei, það er raunar minnst á tvær afmælisveislur í Biblíunni. Aðra hélt einn af faraóum Egyptalands og hina Heródes Antípas. (1. Mósebók 40:20-22; Markús 6:21-29) Beggja er þó getið í neikvæðu samhengi, einkum hinnar síðari en þá var Jóhannes skírari hálshöggvinn.

10, 11. Hvernig litu frumkristnir menn á afmælishald og af hverju?

10 „Frumkristnir menn álitu það heiðinn sið að halda upp á fæðingu nokkurs manns,“ að sögn The World Book  Encyclopedia. Grikkir til forna trúðu til dæmis að hver maður ætti sér verndaranda sem væri viðstaddur fæðingu hans og gætti hans upp frá því. „Þessi andi átti dulræn tengsl við guð þess dags sem manneskjan fæddist á,“ segir í bókinni The Lore of Birthdays. Afmælishald á einnig forn og náin tengsl við stjörnuspeki og stjörnuspár.

11 Auk þess að hafna afmælishaldi sökum heiðins uppruna og tengsla þess við andatrú er líklegt að þjónar Guðs til forna hafi líka gert það vegna lífsskoðunar sinnar. Þetta var hógvært fólk sem áleit ekki komu sína í heiminn svo merkilega að það ætti að halda upp á hana. * (Míka 6:8; Lúkas 9:48) Þjónar Jehóva vildu heldur vegsama hann og þakka honum þá dýrmætu gjöf sem lífið er. * — Sálmur 8:4, 5; 36:10; Opinberunarbókin 4:11.

12. Í hvaða skilningi getur dauðadagur verið betri en fæðingardagur?

12 Allir ráðvandir menn eru óhultir í minni Guðs eftir að þeir eru dánir, og framtíð þeirra er örugg. (Jobsbók 14:14, 15) Í Prédikaranum 7:1 segir: „Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og betri er dauðadagur en fæðingardagur.“ Við byggjum upp gott mannorð hjá Guði með dyggri þjónustu okkar. Vert er að hafa hugfast að eina hátíðin, sem kristnum mönnum er sagt að halda, er minningarhátíð um dauða Jesú en ekki fæðingu. Það er hið ágæta „nafn“ hans eða mannorð sem er forsenda þess að við hljótum hjálpræði. — Lúkas 22:17-20; Hebreabréfið 1:3, 4.

 PÁSKAR — FRJÓSEMISDÝRKUN UNDIR FÖLSKU FLAGGI

13, 14. Hvaðan koma algengir siðir sem tengjast páskum?

13 Látið er í veðri vaka að páskar séu haldnir til að fagna upprisu Jesú en raunin er sú að þeir eiga rætur sínar í falstrú. Og hvernig tengdust eggin og kanínurnar páskunum? Egg „hafa verið áberandi tákn nýs lífs og upprisu,“ að sögn Encyclopædia Britannica, en hérinn og kanínan hafa lengi verið frjósemistákn. Páskar eru því í rauninni frjósemishátíð þó að þeir hafi upprisu Jesú að yfirskini. *

14 Getur hugsast að Jehóva sé sáttur við að upprisu sonar síns sé minnst með ógeðfelldum frjósemissiðum? Það er af og frá! (2. Korintubréf 6:17, 18) Reyndar er hvergi kveðið á um eða heimilað í Biblíunni að upprisa Jesú sé haldin hátíðleg. Og að gera það í nafni páskanna er hálfu verra.

HREKKJAVAKA OG UPPRUNI HENNAR

15. Hver er uppruni hrekkjavöku og hvaða þýðingu kann tímasetning hennar að hafa?

15 Hrekkjavaka er þekkt fyrir nornir, púka og skreytingar sem minna á ýmsar kynjaverur. Hún er haldin hátíðleg kvöldið fyrir allraheilagramessu og á ættir að rekja til Kelta á Bretlandi og Írlandi. Á fullu tungli næst 1. nóvember héldu þeir hátíðina Samhain sem merkir „sumarlok“. Þeir töldu að á þessum degi hyrfu mörkin milli mannheims og hins yfirnáttúrlega heims, og þá færu á kreik andar, bæði góðir og illir. Sálir látinna voru taldar snúa til heimila sinna og fólk setti út mat og drykk til að blíðka  draugana sem kæmu í heimsókn. Börn eru óafvitandi að viðhalda helgisiðum Samhain-hátíðarinnar þegar þau ganga hús úr húsi eins og nú tíðkast, klædd sem draugar og nornir og hóta að gera húsráðendum grikk nema þeim sé gefið eitthvað.

HREIN OG HEIÐVIRÐ BRÚÐKAUP

16, 17. (a) Af hverju ættu kristin brúðhjón að kynna sér fyrir fram staðbundnar siðvenjur með hliðsjón af Biblíunni? (b) Hvað ættu kristnir menn að íhuga varðandi siði eins og þann að kasta hrísgrjónum eða öðru slíku á brúðhjón?

16 Innan skamms mun „raust brúðguma og brúðar . . . eigi framar heyrast“ í Babýlon hinni miklu. (Opinberunarbókin 18:23) Hvers vegna? Meðal annars vegna spíritismans sem þrífst innan hennar en hann getur sett blett á hjónaband allt frá brúðkaupsdeginum. — Markús 10:6-9.

17 Siðir og venjur eru breytilegar frá einu landi til annars. Sumir siðir, sem virðast saklausir á yfirborðinu, kunna að eiga sér rætur í babýlonskum athöfnum sem ætlað var að færa brúðhjónum og gestum þeirra lukku. (Jesaja 65:11, Biblían 1981) Þar á meðal má nefna þann sið að kasta hrísgrjónum eða öðru slíku á brúðhjónin. Hann á hugsanlega uppruna sinn í þeirri trú að hægt væri að blíðka illa anda með mat og koma þannig í veg fyrir að þeir gerðu brúðhjónunum mein. Hrísgrjón hafa auk þess lengi verið talin eiga dulræn tengsl við frjósemi, farsæld og langlífi. Er ekki augljóst að allir sem vilja að kærleikur Guðs varðveiti sig hljóta að forðast siði sem eiga sér óhreinan uppruna? — 2. Korintubréf 6:14-18.

18. Hvaða biblíulegu meginreglur ætti par, sem er að undirbúa brúðkaup, og boðsgestir þeirra að hafa að leiðarljósi?

18 Þjónar Jehóva forðast einnig veraldlega siði sem geta sært samvisku einhverra eða spillt fyrir þeirri reisn og virðingu sem á að einkenna brúðkaup og brúðkaupsveislur. Þeir flytja til dæmis ekki ávörp eða ræður sem eru  með kaldhæðnu eða kynferðislegu ívafi, og þeir forðast brandara eða hrekki sem gætu gert brúðhjónin eða aðra vandræðalega. (Orðskviðirnir 26:18, 19; Lúkas 6:31; 10:27) Þeir forðast einnig skrautlegar og íburðarmiklar brúðkaupsveislur með ævintýralegu ívafi sem vitna um „oflæti vegna eigna“ en ekki hæversku. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Ef þú ert að undirbúa brúðkaup skaltu hafa hugfast að Jehóva vill að þú getir alltaf minnst þessa dags með gleði en ekki eftirsjá. *

ER ÞAÐ TRÚARLEGUR SIÐUR AÐ SKÁLA?

19, 20. Hvað segir í heimildarriti um uppruna þess siðar að skála og af hverju ættu kristnir menn ekki að gera það?

19 Það er algengt í brúðkaupsveislum og við önnur tækifæri að skála. Í bókinni International Handbook on Alcohol and Culture frá 1995 segir: „Að skála . . . er sennilega arfur frá fornum dreypifórnum þegar helgum vökva var fórnað guðunum . . . í skiptum fyrir ósk eða bæn sem dregin var saman í orðunum ‚lifðu lengi‘ eða ‚heill þér‘“.

20 Margir hugsa kannski ekki út í það að sá siður að skála tengist trú eða hjátrú. Engu að síður má líta svo á að sú venja að lyfta vínglasi í átt til himins sé beiðni til „himinsins“ — yfirnáttúrlegra afla — um blessun og hún stingi í stúf við þær leiðbeiningar sem er að finna í Biblíunni. — Jóhannes 14:6; 16:23. *

„ÞÉR, SEM ELSKIÐ DROTTIN, HATIÐ ILLT“

21. Hvaða vinsælu hátíðir forðast kristnir menn þó að þær eigi sér ef til vill ekki trúarlegan uppruna? Af hverju gera þeir það?

21 Í sumum löndum eru árlega haldnar kjötkveðjuhátíðir  sem Babýlon hin mikla ýtir undir beint eða óbeint. Þessar hátíðir eru til vitnis um það hve siðferði samtíðarinnar er komið á lágt stig enda einkennast þær af lostafullum dansi og oft er líferni samkynhneigðra hampað. Væri viðeigandi fyrir þann sem elskar Jehóva að vera viðstaddur slíka hátíð eða horfa á hana? Bæri það vitni um að hann hataði hið illa? (Sálmur 1:1, 2; 97:10) Það er miklu betra að líkja eftir afstöðu sálmaskáldsins sem bað: „Snú augum mínum frá hégóma.“ — Sálmur 119:37.

22. Í hvaða tilviki getur kristinn maður gert upp við samvisku sína hvort hann taki þátt í hátíð eða ekki?

22 Þegar heimurinn heldur hátíðir ætti kristinn maður að gæta þess að hegðun hans gefi ekki öðrum tilefni til að ætla að hann sé að taka þátt í hátíðahöldunum. „Hvort sem þið því etið eða drekkið eða hvað sem þið gerið, þá gerið það allt Guði til dýrðar,“ skrifaði Páll. (1. Korintubréf 10:31, sjá rammagreinina „ Taktu viturlegar ákvarðanir“.) Ef hins vegar er greinilegt að einhver siður eða hátíð hefur enga falstrúarlega þýðingu, er ekki þáttur í þjóðernishátíð, hefur engin stjórnmálaleg tengsl og brýtur ekki gegn neinni af meginreglum Biblíunnar getur hver og einn ákveðið hvort hann taki þátt í henni eða ekki. Hann ætti jafnframt að taka tillit til annarra svo að hann hneyksli þá ekki.

VEGSAMAÐU GUÐ MEÐ ORÐUM ÞÍNUM OG VERKUM

23, 24. Hvernig gætum við skýrt réttláta mælikvarða Jehóva?

23 Margir líta fyrst og fremst á hátíðis- og tyllidaga sem tækifæri fyrir fjölskyldu og vini til að hittast. Ef einhver dregur þá röngu ályktun að biblíuleg afstaða okkar sé öfgafull eða fjandsamleg getum við útskýrt vinsamlega að vottum Jehóva þyki gaman að því þegar ættingjar og  vinir hittast við uppbyggilegar aðstæður. (Orðskviðirnir 11:25; Prédikarinn 3:12, 13; 2. Korintubréf 9:7) Við höfum ánægju af að vera með ástvinum allt árið um kring, en þar sem við elskum Guð og réttláta mælikvarða hans viljum við ekki skemma þessar ánægjustundir með siðum sem eru honum á móti skapi. — Sjá rammagreinina „ Sönn tilbeiðsla veitir mestu gleðina“.

24 Sumum vottum hefur gengið vel að nota efnið í 16. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? * til að svara einlægum spurningum vina og ættingja. Munum þó að það er markmið okkar að laða fólk að sannleikanum en ekki sigra í rökræðum. Sýnum öðrum virðingu, verum mild í viðmóti og látum mál okkar vera „ljúflegt en salti kryddað“. — Kólossubréfið 4:6.

25, 26. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að byggja upp trú og kærleika til Jehóva?

25 Vottar Jehóva eru vel upplýstir. Við þekkjum rökin fyrir því sem við trúum og vitum af hverju við gerum vissa hluti en forðumst aðra. (Hebreabréfið 5:14) Þið sem eruð foreldar ættuð að kenna börnunum að rökhugsa með hliðsjón af meginreglum Biblíunnar. Þannig byggið þið upp trú þeirra og kennið þeim að svara með hjálp Biblíunnar þegar þau eru krafin um skýringar á trú sinni. Og þið fullvissið þau um að Jehóva elski þau. — Jesaja 48:17, 18; 1. Pétursbréf 3:15.

26 Þeir sem tilbiðja Guð „í anda og sannleika“ forðast ekki aðeins heiðin hátíðahöld heldur reyna líka sitt ýtrasta til að vera heiðarlegir í einu og öllu. Margir telja hins vegar ekki raunhæft nú til dags að vera heiðarlegir. Í næsta kafla kemur hins vegar fram að leiðir Guðs eru alltaf þær bestu.

^ gr. 3 Sjá rammagreinina „ Ætti ég að taka þátt í hátíðahöldunum?“. Í efnisskránni Watch Tower Publications Index (gefinn út af Vottum Jehóva) eru taldir upp margs konar siðir og „helgir“ dagar.

^ gr. 5 Miðað við tímatal Biblíunnar og veraldlegar söguheimildir er líklegt að Jesús hafi fæðst árið 2 f.Kr. í mánuðinum etaním samkvæmt tímatali Gyðinga en hann svarar til síðari hluta september og fyrri hluta október samkvæmt núverandi tímatali. — Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 56-57, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 11 Sjá rammagreinina „ ‚Helgir‘ dagar og Satansdýrkun“.

^ gr. 11 Það ákvæði var í lagasáttmálanum að kona skyldi færa Guði syndafórn eftir barnsburð. (3. Mósebók 12:1-8) Þetta var átakanleg áminning um það að mennirnir gefa börnum sínum syndina í arf og hjálpaði Ísraelsmönnum eflaust að sjá barnsfæðingu í réttu ljósi. Hugsanlega hefur þetta lagaákvæði haldið aftur af því að þeir tækju upp heiðna afmælissiði. — Sálmur 51:7.

^ gr. 13 Athygli vekur að enskt nafn páskanna, Easter, er talið skylt Eostre eða Ostara sem var gyðja dögunar og vors hjá Engilsöxum. Eostre (eða Eastre) var líka frjósemisgyðja. Í bókinni The Dictionary of Mythology segir:“Hún átti héra á tunglinu, sem þótti fjarska vænt um egg, og stundum var hún sýnd með hérahöfuð á myndum.“

^ gr. 18 Sjá tvær greinar um brúðkaup og samkvæmi í bæklingnum Námsgreinar úr enska „Varðturninum“ árið 2006, bls. 25-32, og Varðturninum (enskri útgáfu) 15. október 2006, bls. 28-31.

^ gr. 20 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. febrúar 2007, bls. 30-31.

^ gr. 24 Gefin út af Vottum Jehóva.