Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐAUKI

Fánahylling, kosningar og þegnskylduvinna

Fánahylling, kosningar og þegnskylduvinna

Fánahylling. Vottar Jehóva líta svo á að það að lúta fána eða hylla hann, sem oft er gert samfara lofsöng, sé trúarathöfn þar sem ríkinu og leiðtogum þess, en ekki Guði, sé eignað hjálpræði. (Jesaja 43:11; 1. Korintubréf 10:14; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Nebúkadnesar konungur í Babýlon var voldugur leiðtogi sem vildi vekja athygli fólks á hátign sinni og trúaráhuga. Hann lét reisa mikið líkneski og skipaði þegnunum að falla fram fyrir því meðan leikin væri tónlist, ekki ósvipuð og þjóðsöngur. Þrír Hebrear, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó, neituðu að lúta líkneskinu þótt dauðarefsing lægi við. — Daníelsbók, 3. kafli.

„Fáninn er helsta tilbeiðslu- og trúartákn þjóðernishyggjunnar“ á okkar tímum að sögn sagnfræðingsins Carltons Hayes. „Karlar taka ofan þegar fáninn fer hjá, skáld yrkja honum lofkvæði og börn syngja sálma.“ Þjóðernishyggjan á sína „helgu daga“ að sögn hans, svo sem 4. júlí í Bandaríkjunum, og hún á sér „helga menn og hetjur“ og „helgidóma“. Forseti æðsta herdómstóls Brasilíu sagði við opinbera athöfn þar í landi: „Fáninn er dýrkaður og virtur . . . rétt eins og föðurlandið er dýrkað.“ Og í alfræðiorðabókinni The Encyclopedia Americana sagði einu sinni: „Fáninn er heilagur líkt og krossinn.“

 Í sömu alfræðiorðabók sagði fyrir nokkrum árum að þjóðsöngvar væru sungnir til þess að „tjá þjóðerniskennd og oft er í þeim ákall um vernd Guðs og handleiðslu handa þjóðinni og ráðamönnum hennar“. Það er því ekki órökrétt að þjónar Jehóva skuli líta svo á að þjóðernisathafnir tengdar fánahyllingu og þjóðsöng séu trúarlegar. Reyndar segir í bókinni The American Character um þá afstöðu barna votta Jehóva að vilja ekki hylla fánann eða sverja hollustueið í bandarískum skólum: „Hæstiréttur hefur nú staðfest í allnokkrum málum að þessar daglegu athafnir séu trúarlegar.“

Enda þótt vottar Jehóva taki ekki þátt í athöfnum sem þeir telja stangast á við Biblíuna virða þeir rétt annarra til þess. Þeir virða einnig þjóðfána sem þjóðartákn, virða lögmæt yfirvöld og líta svo á að þau ,þjóni Guði‘. (Rómverjabréfið 13:1-4) Vottar Jehóva fylgja því hvatningu Biblíunnar um að biðja fyrir „konungum og öllum þeim sem hátt eru settir“. Við gerum það til að við „fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði“. — 1. Tímóteusarbréf 2:2.

Þátttaka í pólitískum kosningum. Sannkristnir menn virða rétt annarra til að kjósa. Þeir beita sér ekki gegn kosningum og vinna með kjörnum stjórnvöldum. Hins vegar eru þeir algerlega hlutlausir gagnvart stjórnmálum þjóðanna. (Matteus 22:21; 1. Pétursbréf 3:16) Hvað á kristinn maður að gera í landi þar sem það er skylda að kjósa eða mikill hiti er í fólki gegn þeim sem mæta ekki í kjörklefann? Kristinn maður getur hugsað til þess að Sadrak, Mesak og Abed-Negó fóru alla leið út á Dúrasléttu þannig að samviska hans leyfir honum ef til vill að fara í kjörklefann. En hann gætir þess að hvika ekki frá hlutleysi sínu. Hann ætti að taka mið af sex eftirfarandi meginreglum:

  1. Fylgjendur Jesú ,eru ekki af heiminum‘. — Jóhannes 15:19.

  2. Kristnir menn eru fulltrúar Krists og ríkis hans. — Jóhannes 18:36; 2. Korintubréf 5:20.

  3.   Kristni söfnuðurinn er sameinaður í trú og þeir sem mynda hann tengjast kristnum kærleiksböndum. — 1. Korintubréf 1:10; Kólossubréfið 3:14.

  4. Þeir sem kjósa ákveðinn mann til embættis bera vissa ábyrgð á því sem hann gerir. — Taktu eftir meginreglunum að baki því sem stendur í 1. Samúelsbók 8:5, 10-18 og 1. Tímóteusarbréfi 5:22.

  5. Þegar Ísraelsmenn vildu fá mennskan stjórnanda leit Jehóva á það sem merki þess að þeir hefðu hafnað sér. — 1. Samúelsbók 8:7.

  6. Kristnir menn verða að geta talað af fullri djörfung um ríki Guðs við alla menn, óháð stjórnmálaskoðunum þeirra. — Matteus 24:14; 28:19, 20; Hebreabréfið 10:35.

Þegnskylduvinna. Í sumum löndum gera stjórnvöld þá kröfu að þeir sem neita að gegna herþjónustu vinni einhvers konar þegnskylduvinnu í staðinn um ákveðinn tíma. Þegar þjónn Guðs þarf að taka ákvörðun í slíku máli ætti hann að bera það upp við Jehóva í bæn og ef til vill ræða það við þroskaðan trúbróður. Síðan getur hann tekið ákvörðun með hjálp upplýstrar samvisku. — Orðskviðirnir 2:1-5; Filippíbréfið 4:5.

Í orði Guðs kemur fram að okkur beri að „lúta höfðingjum og yfirvöldum, vera hlýðin og reiðubúin til sérhvers góðs verks . . . sanngjörn“. (Títusarbréfið 3:1, 2) Í ljósi þess gætum við spurt okkur eftirfarandi spurninga: Myndi ég þurfa að víkja frá hlutleysi mínu eða vera viðriðinn falstrú ef ég ynni þegnskylduvinnuna sem mér er boðin? (Míka 4:3, 5; 2. Korintubréf 6:16, 17) Myndi þetta starf gera mér erfitt um vik að rækja kristnar skyldur mínar eða koma í veg fyrir að ég gæti það? (Matteus 28:19, 20; Efesusbréfið 6:4; Hebreabréfið 10:24, 25) Eða býður þessi þjónusta upp á þess konar vinnutíma að ég geti gert meira í boðunarstarfinu og jafnvel notað meirihlutann af tímanum til að sinna því? — Hebreabréfið 6:11, 12.

 Ef kristinn maður kemst að þeirri niðurstöðu að hann geti samvisku sinnar vegna unnið þegnskylduvinnu í stað þess að fara í fangelsi ættu trúsystkini hans að virða það. (Rómverjabréfið 14:10) Ef honum finnst hins vegar að hann geti ekki unnið þessa vinnu ætti einnig að virða þá afstöðu hans. — 1. Korintubréf 10:29; 2. Korintubréf 1:24.