Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 17. KAFLI

„Byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar“

„Byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar“

„Byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar. . . . Látið kærleika Guðs varðveita ykkur.“ — JÚDASARBRÉFIÐ 20, 21.

1, 2. Að hvaða byggingarframkvæmd vinnur þú og af hverju skiptir miklu máli að verkið sé vel unnið?

ÞÚ VINNUR hörðum höndum að því að byggja hús. Verkið hefur staðið yfir um tíma og það á eftir að halda áfram talsvert lengi. Hingað til hefur þetta verið krefjandi verkefni en jafnframt ánægjulegt. Hvað sem á dynur ertu staðráðinn í að gefast ekki upp eða slá slöku við því að líf þitt og framtíð ræðst af því að verkið sé vel unnið. Af hverju? Af því að húsið, sem þú ert að reisa, ert þú sjálfur.

2 Lærisveinninn Júdas bendir á að við þurfum að byggja sjálf okkur upp. Hann hvetur kristna menn til að ‚láta kærleika Guðs varðveita sig‘ en segir í versinu á undan hvað sé öðru fremur fólgið í því: „Byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar.“ (Júdasarbréfið 20, 21) Hvernig geturðu byggt þig upp og styrkt trú þína svo að kærleikur Guðs geti varðveitt þig? Við skulum beina athyglinni að þrennu sem þarf að gera til að byggja sig upp í trúnni.

BYGGÐU UPP TRÚ Á RÉTTLÁTAR KRÖFUR JEHÓVA

3-5. (a) Hvernig vill Satan fá okkur til að líta á kröfur Jehóva? (b) Hvaða augum ættum við að líta kröfur Jehóva og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur? Lýstu með dæmi.

3 Í fyrsta lagi þurfum við öll að styrkja trú okkar á lög Guðs. Við lestur þessarar bókar hefurðu skoðað margar af hinum réttlátu hegðunarreglum Jehóva. Hvernig líturðu  á þær? Satan vill gjarnan telja þér trú um að lög Jehóva, meginreglur og mælikvarðar skerði frelsi þitt eða séu jafnvel þjakandi. Hann hefur notað þessa aðferð alla tíð síðan hún reyndist honum vel í Eden. (1. Mósebók 3:​1-6) Tekst honum að leiða þig á villigötur? Það er að miklu leyti undir afstöðu þinni komið.

4 Lýsum þessu með dæmi. Þú ert á gangi í fallegum garði þegar þú kemur að sterklegri og hárri girðingu. Svæðið hinum megin er einstaklega fagurt að sjá. Í fyrstu hugsarðu kannski sem svo að girðingin takmarki frelsi þitt að óþörfu. En þegar þú rýnir milli rimlanna kemurðu auga á illúðlegt ljón sem er að læðast að bráð sinni hinum megin við girðinguna. Nú veistu til hvers girðingin er — hún er til verndar. Er hættulegt rándýr að læðast að þér á þessari stundu? Í orði Guðs segir: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.

5 Satan er grimmt rándýr. Jehóva vill ekki að við verðum honum að bráð svo að hann hefur sett lög til að vernda okkur fyrir hinum mörgu ‚vélabrögðum‘ hans. (Efesusbréfið 6:11) Þegar við leiðum hugann að lögum Guðs ættum við að líta á þau sem merki um kærleika föðurins á himnum. Ef við sjáum lög Guðs í þessu ljósi eru þau okkur til verndar og ánægju. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það . . . verður sæll í verkum sínum.“ — Jakobsbréfið 1:25.

6. Hver er besta leiðin til að byggja upp trú á réttlát lög Guðs og meginreglur? Lýstu með dæmi.

6 Besta leiðin til að byggja upp trú á Jehóva Guð og koma auga á viskuna í lögum hans er að lifa í samræmi við þau. Lítum á dæmi. „Lögmál Krists“ felur í sér að kenna öðrum allt sem hann hefur boðið okkur. (Galatabréfið 6:2; Matteus 28:​19, 20) Kristnir menn fylgja þeim  fyrirmælum að sækja samkomur til að tilbiðja Guð og eiga uppbyggilegan félagsskap. (Hebreabréfið 10:​24, 25) Við erum einnig hvött til að biðja oft og reglulega til hans og gera það af öllu hjarta. (Matteus 6:​5-8; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Þegar við förum eftir þessum fyrirmælum gerum við okkur æ betur grein fyrir hve kærleiksrík þau eru. Ef við hlýðum þeim veitir það okkur ánægju og lífsfyllingu sem er ekki hægt að finna með öðrum hætti í þessum ólgusama heimi. Styrkist ekki trú þín á lög Guðs þegar þú hugleiðir hvernig það hefur verið þér til góðs að lifa í samræmi við þau?

7, 8. Hvernig hughreystir Biblían þá sem óttast að þeir geti ekki fylgt lögum Jehóva til langs tíma litið?

7 Sumir óttast stundum að það verði þeim fullerfitt að fylgja lögum Jehóva til langs tíma litið. Þeir eru hræddir um að þeir bregðist með einhverjum hætti. Ef þér líður stundum þannig skaltu hafa eftirfarandi orð í huga: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga. Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum væri hamingja  þín sem fljót og réttlæti þitt eins og öldur hafsins.“ (Jesaja 48:​17, 18) Hefurðu einhvern tíma staldrað við og velt fyrir þér hve traustvekjandi þessi orð eru?

8 Jehóva minnir hér á að við gerum sjálfum okkur gott með því að hlýða honum. Ef við gerum það lofar hann að veita okkur tvennt. Í fyrsta lagi verður hamingja okkar eins og fljót — kyrrlát, ríkuleg og óslitin. Í öðru lagi verður réttlæti okkar eins og öldur hafsins. Ef við stöndum á ströndinni og horfum á öldurnar brotna í fjörunni eina af annarri vaknar sú tilfinning að þær taki aldrei enda. Við vitum að þær halda áfram að koma að landi um ókomnar aldir. Jehóva segir að réttlæti þitt geti verið eins varanlegt. Hann sér til þess að þú hrasir aldrei, svo framarlega sem þú reynir að vera honum trúr. (Sálmur 55:23) Eru ekki þessi hlýlegu fyrirheit til þess fallin að byggja upp trú þína á Jehóva og réttlátar kröfur hans?

SÆKJUM FRAM TIL ÞROSKA

9, 10. (a) Af hverju er það gott markmið fyrir kristinn mann að sækjast eftir þroska? (b) Af hverju eru andleg viðhorf gleðigjafi?

9 Annar þáttur þess byggingarstarfs, sem þú vinnur að, kemur fram í hinni innblásnu hvatningu að snúa sér að „fræðslunni fyrir lengra komna“. (Hebreabréfið 6:1) Það er gott markmið fyrir kristinn mann að ná þroska í trúnni. Sem stendur getum við mennirnir ekki orðið fullkomnir en við getum hins vegar tekið út þroska. Og við höfum meiri ánægju af að þjóna Jehóva þegar við þroskumst. Af hverju?

10 Þroskaður kristinn maður er andlegur maður. Hann horfir á hlutina á sama hátt og Jehóva gerir. (Jóhannes 4:23) Páll skrifaði: „Þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.“ (Rómverjabréfið 8:​5, Biblían 1981) Við uppskerum litla ánægju ef  við látum stjórnast af holdinu því að þá er hætta á að við séum eigingjörn og skammsýn og einblínum á efnislega hluti. Ef við látum stjórnast af andanum erum við glöð vegna þess að við höfum hugann við Jehóva sem er ‚hinn sæli Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:​11, Biblían 1912.) Andlegum manni er mikið í mun að þóknast Jehóva og hann er jafnvel glaður þegar prófraunir verða á vegi hans. Ástæðan er sú að prófraunir gefa honum tækifæri til að þroska með sér ráðvendni og sanna að Satan sé lygari. Þannig gleður hann föður sinn á himnum. — Orðskviðirnir 27:11; Jakobsbréfið 1:​2, 3.

11, 12. (a) Hvað sagði Páll um huga kristins manns og hvað er átt við með sögninni sem er þýdd að aga? (b) Af hverju þarf að æfa líkamann til að hann þroskist og láti vel að stjórn?

11 Andleg viðhorf og þroski byggjast á æfingu og þjálfun. Lítum á eftirfarandi vers: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá sem jafnt og þétt hafa agað hugann til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:14) Þegar Páll talar um að ‚aga‘ hugann notar hann grískt orð sem var sennilega mikið notað í íþróttahúsum Grikkja á fyrstu öld vegna þess að það getur þýtt ‚þjálfaður eins og fimleikamaður‘. Veltum aðeins fyrir okkur hvað er fólgið í þessari þjálfun.

Fimleikamaður þjálfar líkama sinn jafnt og þétt.

12 Líkami nýfædds barns er óþjálfaður. Ungbarn skynjar varla í hvaða átt það hreyfir smáa útlimi sína. Það veifar handleggjunum tilviljanakennt. Stundum slær það sjálft sig í andlitið sér til mæðu og undrunar. En smám saman æfist það í að beita líkamanum. Barnið lærir að skríða, síðan að ganga og svo fer það að hlaupa. * En hvað um fimleikamanninn?  Þegar við horfum á fimleikamann stökkva og snúast í loftinu með nákvæmni og þokka erum við ekki í vafa um að líkami hans sé eins og vel stillt vél. Færnin kom ekki af sjálfu sér heldur kostaði hún þrotlausar æfingar. Í Biblíunni er viðurkennt að líkamleg æfing sé „nytsamleg í sumu“. En það er margfalt verðmætara að æfa huga okkar og andleg skilningarvit. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

13. Hvernig er hægt að aga hugann?

13 Í þessari bók hefur verið fjallað um margt sem getur auðveldað okkur að þjálfa hugann svo að við getum verið andlegar manneskjur og Jehóva trú. Hugleiddu meginreglur hans og lög í bænarhug þegar þú þarft að taka ákvarðanir í dagsins önn. Spyrðu þig alltaf þegar ákvörðun er annars vegar hvaða lög og meginreglur Biblíunnar eigi við í málinu. Hvernig er hægt að beita þeim? Hvaða ákvörðun myndi gleðja föðurinn á himnum? (Orðskviðirnir 3:​5, 6; Jakobsbréfið 1:5) Þú agar hugann í hvert sinn sem þú tekur ákvörðun með þessum hætti. Og ögunin hjálpar þér að vera sannur andlegur maður.

14. Hvaða löngun þurfum við að þroska með okkur til að taka út andlegan vöxt en hvað þurfum við að hafa í huga?

14 Þó að hægt sé að ná því stigi að vera þroskaður er alltaf hægt að vaxa áfram í trúnni. Og vöxtur er háður næringu. „Fasta fæðan er fyrir fullorðna,“ sagði Páll. (Hebreabréfið 5:14) Til að byggja upp trú sína er nauðsynlegt að nærast jafnt og þétt á kjarngóðri andlegri fæðu. Þegar við beitum síðan rétt því sem við lærum sýnum við  visku. Og „viska er fyrir öllu“ eins og segir í Biblíunni. Við þurfum því að þroska með okkur sterka löngun í hin dýrmætu sannindi sem faðirinn lætur í té. (Orðskviðirnir 4:​5-7; 1. Pétursbréf 2:2) En þó að við öflum okkur þekkingar og visku er það auðvitað engin ástæða til að vera sjálfumglaður eða hrokafullur. Við þurfum stöðugt að horfa gagnrýnu auga á sjálf okkur til að dramb eða einhver annar veikleiki festi ekki rætur og vaxi í hjarta okkar. Páll skrifaði: „Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf.“ — 2. Korintubréf 13:5.

15. Af hverju er kærleikur forsenda andlegs vaxtar?

15 Húsið er fullbyggt en vinnan heldur áfram. Hús kallar á viðhald og viðgerðir og jafnvel viðbætur þegar aðstæður breytast. Hvað þurfum við að hafa til að bera til að þroskast og viðhalda okkar andlega manni? Fyrst og fremst kærleika. Við þurfum að styrkja jafnt og þétt kærleikann til Jehóva og trúsystkina okkar. Ef við höfum ekki kærleika er öll þekking okkar og öll verk okkar til einskis — eins og þreytandi hávaði. (1. Korintubréf 13:​1-3) En ef við höfum kærleika getum við náð kristnum þroska og haldið áfram að taka út andlegan vöxt.

EINBEITTU ÞÉR AÐ VONINNI SEM JEHÓVA GEFUR

16. Hvers konar hugsunarhátt ýtir Satan undir og hvaða varnarvopn gefur Jehóva okkur?

16 Við skulum nú líta á enn einn þátt byggingarvinnunnar sem þú ert að fást við. Til að byggja sjálfan þig upp sem sannan fylgjanda Krists þarftu að hafa gát á hugsunum þínum. Satan, höfðingi þessa heims, er snillingur í að gera fólk neikvætt, svartsýnt, tortryggið og örvæntingarfullt. (Efesusbréfið 2:2) Þess konar hugsunarháttur er jafn hættulegur kristnum manni og þurrafúi er timburhúsi. Sem betur fer lætur Jehóva okkur í té sterkt varnarvopn — vonina.

17. Hvernig bendir Biblían á mikilvægi þess að hafa von?

 17 Í Biblíunni er lýst hinum andlegu herklæðum sem við þurfum að bera til að geta barist gegn Satan og heiminum. Ein af vörnunum er hjálmurinn, það er að segja ‚vonin um frelsun‘. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Hermaður á biblíutímanum vissi að hann héldi ekki velli lengi án þess að hafa hjálm. Hjálmar voru oft gerðir úr málmi og fóðraðir flókaefni eða leðri. Hjálmurinn sá til þess að flest högg, sem lentu á höfðinu, reyndust skaðlaus. Von getur verndað hugann og hugsunina rétt eins og hjálmur höfuðið.

18, 19. Hvernig varðveitti Jesús vonina og hvernig getum við farið að dæmi hans?

18 Jesús er besta dæmið um mann sem hélt voninni vakandi. Þú manst eflaust hvað hann mátti þola síðustu nóttina sem hann lifði á jörð. Náinn vinur sveik hann gegn greiðslu. Annar þvertók fyrir að þekkja hann. Hinir yfirgáfu hann og lögðu á flótta. Samlandar hans snerust gegn honum og heimtuðu hástöfum að rómverskir hermenn tækju hann af lífi. Það er óhætt að segja að Jesús hafi mátt þola erfiðari prófraunir en við lendum nokkurn tíma í. Hvað hjálpaði honum að vera trúr? Því er svarað í Hebreabréfinu 12:2: „Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs.“ Hann missti aldrei sjónar á ‚gleðinni sem beið hans‘.

19 Hvaða gleði var það sem beið Jesú? Hann vissi að hann myndi eiga þátt í að helga heilagt nafn Jehóva með þolgæði sínu. Hann myndi færa fram sterkustu sönnunina fyrir því að Satan væri lygari. Engin von gat veitt Jesú meiri gleði. Hann vissi líka að Jehóva myndi umbuna honum ríkulega fyrir trúfestina. Hann vissi að þeirrar gleðistundar væri skammt að bíða að hann hitti föður sinn á ný. Jesús hafði þessa gleðilegu von í huga þegar prófraunirnar voru sem erfiðastar. Við þurfum að líkja  eftir honum. Við eigum líka mikla gleði í vændum. Jehóva veitir okkur öllum þann mikla heiður að eiga þátt í að helga hið mikla nafn sitt. Við getum sannað að Satan sé lygari með því að velja Jehóva sem Drottin okkar og með því að láta kærleika hans varðveita okkur óháð þeim prófraunum og freistingum sem verða á vegi okkar.

20. Hvað getur hjálpað þér að hugsa jákvætt og varðveita vonina?

20 Jehóva er ekki aðeins fús til að launa trúum þjónum sínum — hann langar beinlínis til þess. (Jesaja 30:18; Malakí 3:10) Hann hefur unun af því að uppfylla allar réttmætar óskir þjóna sinna. (Sálmur 37:4) Einbeittu því huganum að voninni um að sjá fyrirheit Guðs rætast. Láttu neikvæðan, spilltan og rangsnúinn hugsunarhátt heims Satans ekki ná tökum á þér. Ef þú finnur að andi heimsins er farinn að þrengja sér inn í huga þinn eða hjarta skaltu biðja Jehóva ákaft að gefa þér frið sinn sem er „æðri öllum skilningi“. Og friður hans mun varðveita hjarta þitt og hugsanir. — Filippíbréfið 4:​6, 7.

21, 22. (a) Hvaða dýrlega frelsi bíður þeirra sem tilheyra ‚múginum mikla‘? (b) Hvað finnst þér dýrmætast við vonina og hvað ætlarðu að gera?

21 Það er hrífandi og heillandi von sem þú átt. Ef þú tilheyrir  ‚múginum mikla‘, sem á í vændum að ‚koma úr þrengingunni miklu‘, skaltu hugsa um það líf sem bíður þín. (Opinberunarbókin 7:​9, 14) Þú getur varla ímyndað þér hvílíkur léttir það verður þegar Satan og illu öndunum hefur verið rutt úr vegi. Ekkert okkar hefur kynnst því hvernig það er að lifa án þess álags sem fylgir spillandi áhrifum Satans. Það verður ólýsanlegt að fá að breyta jörðinni í paradís undir handleiðslu Jesú og 144.000 meðstjórnenda hans á himnum. Hugsaðu þér að verða laus við alla sjúkdóma og krankleika, taka á móti ástvinum okkar þegar þeir rísa upp úr gröfum sínum og lifa eins og Guð ætlaði okkur að lifa! Og þegar við nálgumst það að verða fullkomin styttist í að annað fyrirheit rætist — að við hljótum ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘. — Rómverjabréfið 8:​21, Biblían 1981.

22 Jehóva vill að þú hljótir stórkostlegra frelsi en þú getur nokkurn tíma ímyndað þér. Leiðin til þessa frelsis er fólgin í hlýðni. Er það ekki þess virði að leggja sig allan fram um að hlýða Jehóva dag frá degi? Haltu þá fyrir alla muni áfram að byggja sjálfan þig upp í þinni helgustu trú til að kærleikur Guðs geti varðveitt þig um alla eilífð!

^ gr. 12 Vísindamenn segja að við þroskum með okkur svokallað stöðu- og hreyfiskyn en það þýðir að við skynjum stöðu líkamans og afstöðu útlimanna. Það er þess vegna sem við getum klappað saman lófunum með lokuð augu. Sjúklingur á fullorðinsaldri, sem missti stöðu- og hreyfiskynið, gat hvorki staðið, gengið né setið.