Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 5. KAFLI

Að vera aðgreindur frá heiminum

Að vera aðgreindur frá heiminum

„Þér eruð ekki af heiminum.“ — JÓHANNES 15:19.

1. Á hvað lagði Jesús áherslu síðustu nóttina sem hann var maður á jörð?

SÍÐUSTU nóttina, sem Jesús var maður á jörð, lét hann í ljós hve annt honum var um að fylgjendum sínum farnaðist vel um ókomin ár. Hann bað fyrir þeim í bæn til föður síns og sagði: „Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:15, 16) Þessi innilega bæn vitnar bæði um djúpan kærleika Jesú til fylgjenda sinna og um mikilvægi þess sem hann sagði við suma þeirra fyrr um kvöldið: „Þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Það skipti Jesú greinilega miklu máli að fylgjendur hans væru aðgreindir frá heiminum.

2. Hver er ‚heimurinn‘ sem Jesús nefnir svo?

2 Með „heiminum“, sem Jesús nefnir, er átt við allt mannkyn sem er fráhverft Guði, er undir stjórn Satans og lætur eigingirnina og stoltið, sem á upptök sín hjá honum, stjórna gerðum sínum. (Jóhannes 14:30; Efesusbréfið 2:2; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Sannleikurinn er sá að „vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði“. (Jakobsbréfið 4:4) En hvernig geta þeir sem vilja láta kærleika Guðs varðveita sig verið bæði í heiminum og aðgreindir frá honum? Við ætlum að skoða fimm hliðar á þessu máli. Við höldum okkur aðgreindum frá heiminum með því að sýna ríki Guðs í höndum Krists hollustu og vera hlutlaus  í stjórnmálum, með því að standa á móti anda heimsins, með því að vera sómasamleg í klæðaburði og útliti, með því að hafa heilt auga og með því að klæðast andlegum herklæðum.

HOLLUSTA OG HLUTLEYSI

3. (a) Hvernig leit Jesús á stjórnmál samtíðarinnar? (b) Af hverju má segja að andasmurðir fylgjendur Jesú gegni hlutverki erindreka? (Sjá neðanmálsgrein.)

3 Jesús tók engan þátt í stjórnmálum síns tíma heldur einbeitti sér að því að boða ríki Guðs, himnesku stjórnina sem var í vændum og hann átti að vera konungur yfir. (Daníel 7:13, 14; Lúkas 4:43; 17:20, 21) Þess vegna gat hann sagt þegar hann stóð frammi fyrir rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóhannes 18:36) Trúir fylgjendur Jesú líkja eftir honum með því að gefa honum og ríki hans hollustu sína og með því að segja heiminum frá þessu ríki. (Matteus 24:14) „Vér erum því erindrekar Krists,“ skrifaði Páll postuli. „Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.“ * — 2. Korintubréf 5:20, Biblían 1981.

4. Hvernig hafa allir sannkristnir menn sýnt ríki Guðs hollustu? (Sjá rammagreinina „ Frumkristnir menn voru hlutlausir“.)

4 Erindrekar erlendra ríkja blanda sér ekki í innanríkismál þeirra landa sem þeir eru sendir til. Þeir eru hlutlausir. Þeir gæta hins vegar hagsmuna þeirrar ríkisstjórnar sem þeir reka erindi fyrir. Hið sama er að segja um andasmurða fylgjendur Krists en föðurland þeirra og ríkisfang er á himni. (Filippíbréfið 3:20) Svo ötullega hafa þeir boðað ríki Guðs að þeir hafa hjálpað milljónum ‚annarra sauða‘  Krists að „sættast við Guð“. (Jóhannes 10:16; Matteus 25:31-40) Hinir síðarnefndu styðja andasmurða bræður Jesú og starfa náið með þeim. Báðir hóparnir eru sameinaðir í því að styðja Messíasarríkið og þeir eru algerlega hlutlausir gagnvart stjórnmálum heimsins. — Jesaja 2:2-4.

5. Hvaða munur er á kristna söfnuðinum og Ísrael fortíðar, og hvernig kemur þessi munur fram?

 5 Það er ekki aðeins vegna hollustu við Krist sem fylgjendur hans eru hlutlausir. Við erum alþjóðlegt bræðralag, ólíkt Ísrael fortíðar sem Guð hafði gefið ákveðið land til að búa í. (Matteus 28:19; 1. Pétursbréf 2:9) Ef við myndum sameinast um að styðja stjórnmálaflokka í heimalöndum okkar væri erfitt fyrir okkur að boða ríki Guðs af djörfung og varðveita einingu okkar sem kristnir menn. (1. Korintubréf 1:10) Og á stríðstímum myndum við þurfa að berjast gegn trúsystkinum okkar sem við eigum að elska. (Jóhannes 13:34, 35; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12) Það var því ærin ástæða fyrir því að Jesús sagði lærisveinum sínum að taka ekki þátt í hernaði. Þeir áttu meira að segja að elska óvini sína. — Matteus 5:44; 26:52; sjá rammagreinina „ Er ég hlutlaus?“.

6. Hvaða áhrif hefur það á samskipti þín við ‚keisarann‘ að þú skulir vera vígður Guði?

6 Við höfum vígt líf okkar Guði. Við erum ekki vígð nokkrum manni, samtökum manna eða þjóð. Í 1. Korintubréfi 6:19, 20 segir: „Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt.“ Þó að fylgjendur Jesú gjaldi „keisaranum“ það sem honum ber, svo sem virðingu, skatta og skilyrta undirgefni, gjalda þeir líka „Guði það sem Guðs er“. (Markús 12:17; Rómverjabréfið 13:1-7) Og Guð á rétt á því að þeir tilbiðji hann, þjóni honum af allri sálu og hlýði honum dyggilega. Ef þörf krefur eru þeir tilbúnir til að leggja lífið í sölurnar fyrir Guð. — Lúkas 4:8; 10:27; Postulasagan 5:29; Rómverjabréfið 14:8.

AÐ STANDA Á MÓTI „ANDA HEIMSINS“

7, 8. Hvað er ‚andi heimsins‘ og hvernig „verkar“ hann í fólki?

7 Önnur leið fyrir kristna menn til að halda sér aðgreindum frá heiminum er að standa á móti illum anda  hans. „Við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði,“ skrifaði Páll (1. Korintubréf 2:12) Hann sagði í bréfi til kristinna manna í Efesus: „Þið lifðuð . . . áður samkvæmt aldarhætti þessa heims að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa.“ — Efesusbréfið 2:2, 3.

8 ‚Andi‘ heimsins er sterkt, ósýnilegt afl sem ýtir undir óhlýðni við Guð og elur á ‚því sem maðurinn girnist og glepur augað‘. (1. Jóhannesarbréf 2:16; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Þessi andi er eins og ‚valdhafi‘ — hann hefur sterk áhrif því að hann höfðar til hins synduga holds, er mjög lævís og ágengur, og smýgur alls staðar inn eins og loftið. Og hann „verkar“ í fólki með því að ala smám saman á óguðlegum eiginleikum svo sem eigingirni, hroka og ágjörnum metnaði. Hann ýtir undir uppreisnarhug og löngun til að vera siðferðilega óháður. * Andi heimsins hefur með öðrum orðum þau áhrif að eiginleikar Satans þróast hægt og hægt í hjarta mannsins. — Jóhannes 8:44; Postulasagan 13:10; 1. Jóhannesarbréf 3:8, 10.

9. Eftir hvaða leiðum getur andi heimsins náð inn í huga þinn og hjarta?

9 Getur andi heimsins fest rætur í huga þínum og hjarta? Já, en aðeins ef þú slakar á verðinum og leyfir honum það. (Orðskviðirnir 4:23) Áhrifin byrja oft með lúmskum hætti, til dæmis þannig að þú umgengst fólk sem virðist vera ágætis manneskjur en það elskar hins vegar ekki Jehóva. (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Þessi skaðlegi andi getur líka náð til þín ef þú gluggar í ósæmileg tímarit eða bækur, klámfengnar vefsíður eða vefsíður með efni frá fráhvarfsmönnum, eða ef þú velur þér óheilnæmt afþreyingarefni og íþróttir þar sem keppnisandinn  fer út í öfgar. Í rauninni getur hver sem er eða hvaðeina, sem miðlar hugsunarhætti Satans og heimsins, haft þessi áhrif.

10. Hvernig getum við staðið á móti anda heimsins?

10 Hvernig getum við staðið á móti þessum háskalega anda og látið kærleika Guðs varðveita okkur? Aðeins með því að notfæra okkur til hins ýtrasta allt sem Jehóva lætur í té og biðja stöðugt um heilagan anda. Jehóva er  miklu öflugri en Satan og hinn illi heimur sem Satan hefur á valdi sínu. (1. Jóhannesarbréf 4:4) Það er því ákaflega mikilvægt að viðhalda nánu bænasambandi við Jehóva.

VERUM SÓMASAMLEG Í KLÆÐABURÐI OG ÚTLITI

11. Hvaða áhrif hefur andi heimsins á klæðaburð margra?

11 Klæðaburður, útlit og hreinlæti gefur nokkra vísbendingu um það hvaða andi stjórni manni. Víða um lönd er klæðaburður fólks kominn niður á svo lágt plan að stjórnandi sjónvarpsþáttar lét þau orð falla að bráðlega yrði ekki hægt að þekkja vændiskonur úr á klæðaburðinum. Þessi þróun hefur meira að segja náð til stúlkna undir táningsaldri — „mikið af beru holdi en lítið um sóma,“ eins og það var orðað í blaðagrein. Og svo er að nefna þá tísku að vera druslulega til fara en það vitnar í senn um uppreisnaranda og skort á sjálfsvirðingu og mannlegri sæmd.

12, 13. Hvaða meginreglur ættu að ráða klæðnaði okkar og útliti?

12 Við sem erum þjónar Jehóva viljum líta vel út og það með réttu. Það þýðir að við séum snyrtileg, hrein, smekklega klædd og viðeigandi miðað við aðstæður. Við ættum alltaf að vera ‚látlaus í klæðaburði‘ og stunda ‚góð verk‘ eins og sómir öllum, jafnt körlum sem konum „er segjast vilja dýrka Guð“. Meginmarkmið okkar er auðvitað ekki að draga athygli að sjálfum okkur heldur að ‚láta kærleika Guðs varðveita okkur‘. (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10; Júdasarbréfið 21) Já, við viljum að „hinn huldi maður hjartans“ sé okkar fegursta prýði því að það er „dýrmætt í augum Guðs“. — 1. Pétursbréf 3:3, 4.

13 Við skulum einnig hafa hugfast að klæðnaður okkar og útlit getur haft áhrif á það hvernig aðrir líta á sanna  tilbeiðslu. Þegar gríska orðið, sem er þýtt „látlaus“, er notað í siðferðilegu samhengi gefur það til kynna lotningu og virðingu fyrir tilfinningum eða skoðunum annarra. Við ættum með öðrum orðum að hugsa meira um samvisku annarra en ímynduð réttindi sjálfra okkar. En umfram allt viljum við vera Jehóva og þjónum hans til heiðurs og láta aðra sjá að við erum þjónar Guðs. Við ættum að gera „allt Guði til dýrðar“. — 1. Korintubréf 4:9; 10:31; 2. Korintubréf 6:3, 4; 7:1.

Er ég Jehóva til sóma með útliti mínu?

14. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur í sambandi við útlit og hreinlæti?

14 Það er enn mikilvægara að vera hrein, snyrtileg í útliti og vel til fara þegar við boðum fagnaðarerindið og sækjum safnaðarsamkomur. Gott er að spyrja sig hvort maður dragi óeðlilega athygli að sjálfum sér með útliti sínu eða ónógu hreinlæti. Verða aðrir vandræðalegir í návist minni? Finnst mér mikilvægara að standa á rétti mínum á þessum sviðum en að vera hæfur til að fá þjónustuverkefni í söfnuðinum? — Sálmur 68:7; Filippíbréfið 4:5; 1. Pétursbréf 5:6.

15. Af hverju eru ekki ítarlegar reglur í Biblíunni um klæðnað, hreinlæti og útlit?

15 Í Biblíunni eru ekki settar fram ítarlegar reglur um klæðnað, útlit og hreinlæti kristinna manna. Jehóva hefur  engan áhuga á því að skerða valfrelsi okkar eða meina okkur um að beita huganum. Hann vill að við verðum þroskuð í trúnni, hugsum rökrétt með hliðsjón af meginreglum Biblíunnar og ‚ögum hugann jafnt og þétt til að greina gott frá illu‘. (Hebreabréfið 5:14) Umfram allt vill hann að við látum kærleikann stjórna gerðum okkar — kærleika til sín og náungans. (Markús 12:30, 31) Innan þeirra marka er mikið svigrúm fyrir fjölbreyttan klæðnað og útlit. Þetta má sjá af litríkum klæðnaði þjóna Jehóva hvar sem er í heiminum.

AÐ HAFA „HEILT“ AUGA

16. Hvernig gengur andi heimsins í berhögg við kenningar Jesú og hvers ættum við að spyrja okkur?

16 Andi heimsins villir um fyrir fólki og telur milljónum manna trú um að hamingjan sé fólgin í peningum og efnislegum  hlutum. Jesús sagði hins vegar: „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Jesús var alls ekki að hvetja til meinlætalifnaðar eða öfgafullrar sjálfsafneitunar. Hann kenndi að sönn hamingja og líf byggðist á því að „skynja andlega þörf sína“ og varðveita auga sitt „heilt“, það er að segja að einbeita sér að sambandinu við Guð. (Matteus 5:3, New World Translation; 6:22, 23) Það er gott að spyrja sig hvort maður trúi í alvöru því sem Jesús kenndi eða hvort maður láti ‚lyginnar föður‘ hafa áhrif á sig. (Jóhannes 8:44) Hvað segja orð okkar, markmið, áherslur og líferni um okkur? — Lúkas 6:45; 21:34-36; 2. Jóhannesarbréf 6.

17. Hvaða kostir fylgja því að hafa heilt auga?

17 „Spekin sannast af verkum sínum,“ sagði Jesús. (Matteus 11:19) Könnum aðeins hvernig þjónar Guðs njóta góðs af því að hafa heilt auga. Þeim finnst endurnærandi að þjóna Guði. (Matteus 11:29, 30) Þeir eru lausir við óþarfar áhyggjur og sálarkvöl. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Þeir eru nægjusamir og hafa þar af leiðandi meiri tíma en ella til að vera með fjölskyldunni og trúsystkinum. Og kannski sofa þeir betur fyrir vikið. (Prédikarinn 5:11) Þeir njóta ánægjunnar sem fylgir því að gefa af sér og gera það á hvern þann hátt sem þeir hafa tök á. (Postulasagan 20:35) Og þeir eru ‚auðugir að voninni‘ og uppskera innri frið og hamingju. (Rómverjabréfið 15:13; Matteus 6:31, 32) Er það ekki ómetanlegt?

KLÆÐUMST „ALVÆPNI GUÐS“

18. Hvernig lýsir Biblían óvini okkar, aðferðum hans og eðli átakanna?

18 Þeir sem láta kærleika Guðs varðveita sig hljóta líka vernd gegn Satan sem vill ekki aðeins ræna kristna menn hamingjunni heldur einnig eilífa lífinu. (1. Pétursbréf 5:8) Páll postuli sagði: „Baráttan sem við eigum í er ekki við  menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Gríska orðið, sem þýtt er ‚barátta‘, lýsir átökum augliti til auglitis, ekki viðureign úr öruggu skotbyrgi ef svo má að orði komast. Orðin ‚tignirnar, völdin og heimsdrottnar‘ gefa enn fremur til kynna að um sé að ræða þaulskipulagðar og úthugsaðar árásir frá andaheiminum.

19. Lýstu hinu andlega alvæpni kristins manns.

19 En þrátt fyrir mannlega veikleika og takmörk getum við sigrað í baráttunni. Hvernig förum við að því? Með því að klæðast „alvæpni Guðs“. (Efesusbréfið 6:13) Þessu alvæpni er lýst í Efesusbréfinu 6:14-18: „Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm [eða von] hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.“

20. Að hvaða leyti er munur á okkur og venjulegum hermanni?

20 Andlegu herklæðin eru gjöf frá Guði þannig að það er öruggt að þau vernda okkur, svo framarlega sem við berum þau öllum stundum. Venjulegir hermenn fá oft löng hlé milli þess að þeir berjast en kristnir menn eru ólíkir þeim að því leyti að baráttan er linnulaus og hún er upp á líf og dauða. Henni linnir ekki fyrr en Guð hefur útrýmt heimi Satans og fjötrað alla illu andana í undirdjúpi. (Opinberunarbókin 12:17; 20:1-3) Gefstu ekki upp í baráttunni við rangar langanir þínar og veikleika því að við þurfum öll að aga sjálf okkur til að vera Jehóva trú. (1. Korintubréf 9:27) Það ætti öllu heldur að vera okkur áhyggjuefni ef við eigum ekki í baráttu.

21. Hver er eina leiðin fyrir okkur til að sigra í andlega hernaðinum?

 21 Höfum jafnframt í huga að við getum ekki unnið þetta stríð í eigin krafti. Þess vegna minnir Páll á að við þurfum að biðja til Jehóva „á hverri tíð í anda“. Jafnframt því þurfum við að hlusta á Jehóva með því að lesa orð hans. Við þurfum líka að umgangast „samherja“ okkar hvenær sem færi gefst vegna þess að við berjumst ekki ein. (Fílemonsbréfið 2; Hebreabréfið 10:24, 25) Þeir sem eru trúir á öllum þessum sviðum munu hrósa sigri og geta auk þess varið trú sína þegar á hana er deilt.

VERTU REIÐUBÚINN AÐ VERJA TRÚ ÞÍNA

22, 23. (a) Af hverju þurfum við alltaf að vera reiðubúin að verja trú okkar og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur? (b) Um hvað er fjallað í næsta kafla?

22 „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum,“ sagði Jesús. (Jóhannes 15:19) Kristnir menn þurfa því alltaf að vera reiðubúnir að verja trú sína en þó með hógværð og virðingu. (1. Pétursbréf 3:15, 16) Spyrðu þig: Skil ég af hverju vottar Jehóva taka stundum afstöðu sem stingur í stúf við almenningsálitið? Þegar ég þarf að taka slíka afstöðu, er ég þá fullkomlega sannfærður um að Biblían og hinn trúi og hyggni þjónn hafi á réttu að standa? (Matteus 24:45; Jóhannes 17:17) Og til að gera það sem er rétt í augum Jehóva, er ég þá bæði tilbúinn til að skera mig úr fjöldanum og er ég líka stoltur af því? — Sálmur 34:3; Matteus 10:32, 33.

23 En það er oft með lúmskari hætti sem reynir á vilja okkar til að vera aðgreind frá heiminum. Eins og áður er nefnt reynir Satan að nota skemmtiefni til að tæla þjóna Jehóva út í heiminn. Hvernig er hægt að velja sér heilnæmt afþreyingarefni sem er bæði hressandi og við getum notið með góðri samvisku? Um það er fjallað í næsta kafla.

^ gr. 3 Frá hvítasunnu árið 33 hefur Kristur verið konungur yfir söfnuði andasmurðra fylgjenda sinna á jörð. (Kólossubréfið 1:13) Árið 1914 tók hann við konungdómi „yfir heiminum“. Andasmurðir kristnir menn eru því erindrekar Messíasarríkisins núna. — Opinberunarbókin 11:15.

^ gr. 8 Sjá Reasoning From the Scriptures, bls. 389-93, gefin út af Vottum Jehóva.