Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 14. KAFLI

Vertu heiðarlegur á öllum sviðum

Vertu heiðarlegur á öllum sviðum

„Ég . . . vil í öllum greinum breyta vel.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:18.

1, 2. Af hverju gleðst Jehóva þegar hann sér að við reynum að vera heiðarleg? Lýstu með dæmi.

MÓÐIRIN og litli drengurinn hennar eru að ganga saman út úr búðinni. Skyndilega nemur drengurinn staðar. Honum er augljóslega brugðið. Hann heldur á litlu leikfangi í hendinni. Hann hafði tekið það í versluninni og gleymt að skila því aftur eða spyrja mömmu sína hvort hún vildi kaupa það. Miður sín hrópar hann upp yfir sig. Hún róar hann og fer aftur með honum inn í búðina til að hann geti skilað leikfanginu og beðist afsökunar. Hún er ákaflega stolt af því að sjá drenginn sinn gera þetta. Af hverju?

2 Fátt gleður foreldra meira en að sjá börnin átta sig á því hve mikilvægt það sé að vera heiðarlegur. Hið sama er að segja um föðurinn á himnum, hinn ‚trúfasta Guð‘. (Sálmur 31:6) Það gleður hann að sjá okkur þroskast í trúnni og kosta kapps um að vera heiðarleg. Okkur langar til að þóknast honum og láta kærleika hans varðveita okkur og tökum því undir með Páli postula sem sagði: „Ég . . . vil í öllum greinum breyta vel [„vera heiðarlegur“, New World Translation].“ (Hebreabréfið 13:18) Við skulum nú beina athygli okkar að fjórum sviðum í lífinu þar sem okkur getur stundum þótt sérlega erfitt að vera heiðarleg. Síðan lítum við á þá blessun sem fylgir því að vera heiðarleg.

 AÐ VERA HEIÐARLEGUR VIÐ SJÁLFAN SIG

3-5. (a) Hvernig varar Biblían við því að sjálfsblekking sé hættuleg? (b) Hvað getur hjálpað okkur að vera heiðarleg við sjálf okkur?

3 Fyrsta þrautin er sú að læra að vera heiðarlegur við sjálfan sig. Við ófullkomnir mennirnir eigum ósköp auðvelt með að blekkja sjálfa okkur. Svo dæmi sé tekið sagði Jesús kristnum mönnum í Laódíkeu að þeir hefðu talið sjálfum sér trú um að þeir væru ríkir þó að þeir væru í rauninni ‚fátækir, blindir og naktir‘ í andlegum skilningi. (Opinberunarbókin 3:17) Það var ekki gæfulegt ástand. Og sjálfsblekkingin gerði ástandið enn alvarlegra.

4 Þú manst kannski líka að lærisveinninn Jakob sagði: „Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.“ (Jakobsbréfið 1:26) Ef við teldum okkur trú um að við gætum leyft okkur að misnota tunguna en samt haldið velþóknun Jehóva værum við að blekkja sjálf okkur. Þá værum við að tilbiðja Jehóva algerlega til einskis. Hvernig getum við komið í veg fyrir svo dapurleg örlög?

5 Í versunum á undan líkir Jakob sannleikanum í orði Guðs við spegil. Hann ráðleggur okkur að skyggnast inn í fullkomið lögmál Guðs og breyta því sem við þurfum að breyta. (Jakobsbréfið 1:23-25) Í Biblíunni erum við hvött til að vera heiðarleg við sjálf okkur og kanna hvernig við getum bætt okkur. (Harmljóðin 3:40; Haggaí 1:5) Við getum líka beðið Jehóva að rannsaka okkur og hjálpa okkur að koma auga á alvarlega galla og reyna að bæta úr þeim. (Sálmur 139:23, 24) Óheiðarleiki er lúmskur veikleiki og við þurfum að sjá hann sömu augum og faðirinn á himnum. Í Orðskviðunum 3:32 segir: „Andstyggð er sá Drottni sem afvega fer en ráðvandir menn eru alúðarvinir hans.“ Jehóva getur hjálpað okkur að hugsa eins og hann og sjá sjálf okkur sömu augum og hann gerir. Eins og við  munum sagði Páll: „Ég . . . vil í öllum greinum breyta vel.“ Við erum ekki fullkomin núna en við þráum í einlægni að vera heiðarleg og reynum það.

AÐ VERA HEIÐARLEG INNAN FJÖLSKYLDUNNAR

Heiðarleiki hjálpar okkur að forðast breytni sem gæti verið freistandi að fela.

6. Af hverju þurfa hjón að vera heiðarleg hvort við annað og hvaða hættur forðast þau þar með?

6 Heiðarleiki ætti að vera aðalsmerki kristinnar fjölskyldu. Hjón þurfa því að vera opinská og heiðarleg hvort við annað. Það ætti ekki að þekkjast hjá kristnum mönnum að daðra utan hjónabands, stofna til leynilegra sambanda á Netinu eða koma nálægt klámi í einhverri mynd. Allt slíkt er skaðlegt og særandi. Þess eru dæmi að gift kristið fólk hafi gert eitthvað af því tagi og falið það fyrir maka sínum. Það er óheiðarlegt. Tökum eftir orðum Davíðs konungs sem var trúfastur þjónn Guðs: „Ég tek mér ekki sæti hjá lygurum og umgengst ekki fláráða.“ (Sálmur 26:4) Ef þú ert gift eða giftur skaltu aldrei gera nokkuð sem þér gæti fundist freistandi að fela fyrir makanum.

7, 8. Hvaða dæmi er hægt að nota til að kenna börnum gildi þess að vera heiðarleg?

7 Það er skynsamlegt af foreldrum að nota dæmi úr Biblíunni til að kenna börnum sínum gildi þess að vera heiðarleg. Sem víti til varnaðar má nefna frásöguna af Akan sem stal og reyndi að leyna þjófnaðinum, Gehasí sem laug í gróðaskyni  og Júdas sem stal og laug illgirnislega til að gera Jesú mein. — Jósúabók 6:17-19; 7:11-25; 2. Konungabók 5:14-16, 20-27; Matteus 26:14, 15; Jóhannes 12:6.

8 Af jákvæðum dæmum má nefna frásöguna af Jakobi sem sagði sonum sínum að skila peningum sem þeir fundu í sekkjum sínum ef vera kynni að þeir hefðu verið settir þar af misgáningi, frásöguna af Jefta og dóttur hans sem virti heit föður síns þó að það kostaði hana miklar fórnir og Jesú sem gekk djarfmannlega fram fyrir æstan múg til að uppfylla spádóm og vernda vini sína. (1. Mósebók 43:12; Dómarabókin 11:30-40; Jóhannes 18:3-11) Listinn er alls ekki tæmandi en getur gefið foreldrum hugmynd um þann mikla fjársjóð sem er að finna í Biblíunni og þeir geta nýtt sér til að innprenta börnunum gildi þess að vera heiðarleg.

9. Af hverju er mikilvægt að foreldrar séu góð fyrirmynd um heiðarleika og hvað ættu þeir að forðast?

9 Þessi kennsla leggur foreldrum alvarlega ábyrgð á herðar. Páll postuli spurði: „Þú sem fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Þú prédikar að ekki skuli stela og stelur þó.“ (Rómverjabréfið 2:21) Sumir foreldrar rugla börnin í ríminu með því að brýna fyrir þeim að vera heiðarleg en eru svo sjálfir óheiðarlegir. Þeir reyna kannski að réttlæta örlítið hnupl eða villandi ummæli og segja: „Æ, það er hvort eð er reiknað með því að fólk taki svona lagað“ eða „Þetta var bara örlítil hvít lygi, smá plat“. En þjófnaður er þjófnaður hversu smár sem hann er og lygi er lygi óháð því hvert efnið er og hve viðamikil ósannindin eru. * (Lúkas 16:10) Börn eru fljót að koma auga á hræsni og hún getur skaðað þau mikið. (Efesusbréfið 6:4) En þegar þau læra  heiðarleika af fordæmi foreldra sinna er líklegt að þau læri að vegsama Jehóva í þessum óheiðarlega heimi. — Orðskviðirnir 22:6.

AÐ VERA HEIÐARLEGUR INNAN SAFNAÐARINS

10. Hvað þurfum við að hafa í huga varðandi heiðarleg tjáskipti meðal trúsystkina?

10 Samskipti okkar við trúsystkini bjóða upp á ágætis tækifæri til að temja sér heiðarleika. Eins og fram kom í 12. kafla þurfum við að gæta vel að því hvernig við notum talgáfuna, ekki síst meðal trúsystkina okkar. Létt hjal getur auðveldlega þróast yfir í skaðlegt slúður eða jafnvel róg. Ef við förum með eitthvað eftir óáreiðanlegum heimildum gætum við stuðlað að því að bera út lygi, þannig að það er miklu betra að hafa taumhald á tungu sinni. (Orðskviðirnir 10:19) En svo getur líka verið að við vitum eitthvað með vissu en það þýðir ekki endilega að við eigum að hafa það eftir. Kannski kemur okkur málið hreinlega ekki við eða það væri illa gert að tala um það. (1. Pétursbréf 4:15) Sumir reyna að réttlæta dónaskap með því að kalla hann hreinskilni, en mál okkar ætti auðvitað alltaf að vera kurteislegt og vinsamlegt. — Kólossubréfið 4:6.

11, 12. (a) Hvernig gera sumir illt verra eftir að þeir hafa syndgað alvarlega? (b) Hvaða lygar ýtir Satan undir varðandi alvarlegar syndir og hvernig getum við barist gegn þeim? (c) Hvernig getum við verið heiðarleg gagnvart söfnuði Jehóva?

 11 Það er sérstaklega mikilvægt að vera heiðarlegur við þá sem fara með forystuna í söfnuðinum. Sumir sem drýgja alvarlega synd gera illt verra með því að leyna syndinni og ljúga að safnaðaröldungum þegar þeir eru spurðir út í málið. Þeir fara að lifa tvöföldu lífi. Þeir þykjast þjóna Jehóva en syndga í laumi. Það má orða það þannig að líf þeirra sé gegnsýrt lygi. (Sálmur 12:3) Sumir segja öldungunum hluta sannleikans en leyna mikilvægum staðreyndum. (Postulasagan 5:1-11) Slíkur óheiðarleiki er oft sprottinn af því að fólk trúir lygum sem Satan ýtir undir. — Sjá rammagreinina „ Lygar Satans varðandi alvarlegar syndir“.

12 Það er líka mikilvægt að vera heiðarlegur gagnvart söfnuði Jehóva þegar við svörum spurningum skriflega. Við gætum þess til dæmis að falsa ekki staðreyndir þegar við gerum grein fyrir boðunarstarfi okkar. Og þegar við útfyllum umsókn um eitthvert þjónustuverkefni í söfnuðinum ættum við aldrei að gefa rangar upplýsingar um heilsufar eða annað sem snertir líf okkar og þjónustu. — Orðskviðirnir 6:16-19.

13. Hvernig getum við verið heiðarleg ef við eigum í viðskiptatengslum við trúsystkini?

13 Við þurfum líka að vera heiðarleg við trúsystkini þegar viðskipti eru annars vegar. Stundum eiga trúsystkini í einhvers konar viðskiptasambandi. Þau ættu að gæta þess vel að halda öllu slíku aðgreindu frá sameiginlegri tilbeiðslu sinni í ríkissalnum eða í boðunarstarfinu. Viðskiptin gætu verið þess eðlis að einn sé vinnuveitandi og annar starfsmaður. Ef við ráðum bræður eða systur í vinnu ættum við að vera heiðarleg við þau og greiða þeim umsamin laun á réttum tíma og standa skil á öllum öðrum greiðslum sem  kveðið er á um eða krafist samkvæmt lögum. (1. Tímóteusarbréf 5:18; Jakobsbréfið 5:1-4) Og ef við erum ráðin í vinnu hjá bróður eða systur ættum við að sama skapi að skila fullri vinnu fyrir umsamin laun. (2. Þessaloníkubréf 3:10) Við ætlumst ekki til þess að okkur sé ívilnað vegna trúartengsla, rétt eins og við ættum kröfu á hendur vinnuveitandanum um frí, aukagreiðslur eða hlunnindi umfram aðra starfsmenn. — Efesusbréfið 6:5-8.

14. Hvaða ráðstafanir er viturlegt að gera þegar kristnir menn eiga í viðskiptum og af hverju?

14 En hvað nú ef um er að ræða einhvers konar sameiginleg áhættuviðskipti, til dæmis fjárfestingu eða lán? Í Biblíunni er gefin góð og mikilvæg regla: Gerið alla samninga skriflega. Tökum dæmi: Þegar Jeremía keypti landspildu lét hann útbúa skjal í tvíriti, staðfesta það af vitundarvottum og geyma til að hægt væri að vísa til þess síðar. (Jeremía 32:9-12; sjá einnig 1. Mósebók 23:16-20.) Það er ekkert vantraust að setja allt vandlega niður á blað og undirrita það í votta viðurvist þegar við eigum viðskipti við trúsystkini. Það dregur hins vegar stórlega úr hættunni á misskilningi, vonbrigðum og jafnvel ósamkomulagi og deilum. Þegar kristnir menn eiga í viðskiptum hver við annan ættu þeir að hafa hugfast að það er aldrei þess virði að setja frið og einingu safnaðarins í hættu sökum viðskipta. * — 1. Korintubréf 6:1-8.

AÐ VERA HEIÐARLEGUR Í HEIMINUM

15. Hvernig lítur Jehóva á óheiðarlega viðskiptahætti og hvernig bregðast kristnir menn við þróuninni í heiminum?

15 Kristinn maður á ekki aðeins að vera heiðarlegur innan safnaðarins. Páll sagði: „Ég . . . vil í öllum greinum breyta vel.“ (Hebreabréfið 13:18) Skapara okkar er mjög  annt um að við séum heiðarleg í viðskiptum við fólk í heiminum. Í Orðskviðunum er fjórum sinnum minnst á að það sé nauðsynlegt að vera með rétta vog. (Orðskviðirnir 11:1; 16:11; 20:10, 23) Forðum daga var algengt að nota vog og lóð í viðskiptum til að vigta vörur sem keyptar voru og peningana sem greiddir voru fyrir. Óheiðarlegir kaupmenn notuðu tvenns konar lóð og ónákvæma vog til að blekkja og svíkja viðskiptavini. * Jehóva hatar allt slíkt. Til að kærleikur hans varðveiti okkur forðumst við vandlega hvers kyns óheiðarlega viðskiptahætti.

16, 17. Hvers konar óheiðarleiki er algengur í heiminum en hvað eru sannkristnir menn staðráðnir í að gera?

16 Satan er höfðingi heimsins svo að óheiðarleikinn, sem er allt um kring, kemur okkur ekki á óvart. Hugsanlega er okkar freistað daglega að vera óheiðarleg. Þegar fólk semur ferilskrá og sækir um vinnu er algengt að það ljúgi og ýki, falsi meðmælabréf og segi rangt til um starfsreynslu. Margir gefa rangar upplýsingar til að ná sínu fram þegar þeir telja fram til skatts, kaupa tryggingar eða flytja milli landa. Margir nemendur svindla á prófum, og þegar þeir skrifa skólaritgerðir stela þeir gjarnan efni sem þeir finna á Netinu og eigna sér ritverk einhvers annars. Og margir bjóða mútur til að fá það sem þeir vilja í viðskiptum við spillta embættismenn. En það er ekki við öðru að búast í heimi þar sem margir eru „sérgóðir, fégjarnir . . . og andsnúnir öllu góðu“. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

17 Sannkristnir menn eru staðráðnir í að taka ekki þátt í neinu af þessu. En það getur verið þrautin þyngri að vera heiðarlegur þegar óheiðarlegu fólki virðist ganga allt í haginn og það kemst jafnvel áfram í heiminum.  (Sálmur 73:1-8) Og stundum verða kristnir menn fyrir fjárhagslegu tjóni af því að þeir vilja vera heiðarlegir „í öllum greinum“. Er það fórnanna virði? Já, tvímælalaust! En af hverju? Hvaða blessun hlýst af því að vera heiðarlegur?

ÞAÐ ER TIL BLESSUNAR AÐ VERA HEIÐARLEGUR

18. Af hverju er ákaflega verðmætt að vera þekktur fyrir heiðarleika?

18 Fátt er verðmætara í lífinu en að hafa gott mannorð og vera talinn heiðarlegur og áreiðanlegur. (Sjá rammagreinina „ Hve heiðarlegur er ég?“.) Og hugsaðu þér — allir geta eignast slíkt mannorð. Það er ekki háð hæfileikum, efnahag, útliti, uppruna eða öðru sem þú færð engu um ráðið. Mörgum tekst hins vegar ekki að eignast þann fjársjóð að hafa gott mannorð. Það er raunar ákaflega sjaldgæft. (Míka 7:2) Sumir hæðast kannski að þér fyrir að vera heiðarlegur en aðrir kunna að meta þig og umbuna þér með því að treysta þér og virða. Margir vottar Jehóva hafa jafnvel komist að raun um að það borgar sig fjárhagslega að vera heiðarlegur. Þeir hafa haldið vinnunni þegar óheiðarlegum starfsmönnum var sagt upp eða fengið vinnu þegar brýn þörf var fyrir heiðarlega starfsmenn.

19. Hvaða áhrif getur heiðarleiki haft á samvisku okkar og sambandið við Jehóva?

19 En hvort sem þú upplifir eitthvað slíkt eða ekki veistu að það hefur enn meiri blessun í för með sér að vera heiðarlegur. Þú hefur hreina samvisku. Páll skrifaði: „Ég er þess fullviss að ég hef góða samvisku.“ (Hebreabréfið 13:18) Og orðstír þinn fer ekki fram hjá ástríkum föður okkar á himnum því að hann elskar þá sem eru heiðarlegir. (Sálmur 15:1, 2; Orðskviðirnir 22:1) Já, kærleikur Guðs varðveitir þig ef þú ert heiðarlegur og það er varla hægt að hugsa sér betri laun en það. Í næsta kafla verður fjallað um skylt málefni: Afstöðu Jehóva til vinnu.

^ gr. 9 Í söfnuðinum getur óskammfeilin og illgjörn lygi, sem er greinilega ætlað að vera öðrum til tjóns, kallað á að öldungarnir skipi dómnefnd til að taka á málinu.

^ gr. 14 Í viðaukanum „Að útkljá ágreiningsmál í viðskiptum“ er fjallað um hvað gera skuli ef eitthvað fer úrskeiðis í viðskiptum.

^ gr. 15 Þessir kaupmenn notuðu annað lóðasettið þegar þeir keyptu og hitt þegar þeir seldu og hygluðu sjálfum sér í báðum tilfellum. Einnig áttu þeir til að nota vog með mislöngum eða misþungum örmum þannig að þeir gætu svikið viðskiptavininn í öllum viðskiptum.