Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

7. Hluti

Veittu barninu fræðslu og leiðsögn

Veittu barninu fræðslu og leiðsögn

„Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum.“ – 5. Mósebók 6:6, 7.

Þegar Jehóva lagði grunninn að fjölskyldufyrirkomulaginu fól hann foreldrunum forræði yfir börnunum. (Kólossubréfið 3:20) Sem foreldri berðu ábyrgð á að kenna barninu að elska Jehóva og að verða ábyrgur einstaklingur. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15) Þú þarft líka að komast að því hvað býr í hjarta sonar þíns eða dóttur. Að sjálfsögðu er mikilvægt að þú gangir á undan með góðu fordæmi. Besta leiðin til að innprenta barninu orð Jehóva er að láta það fyrst festa rætur í þínu eigin hjarta. – Sálmur 40:9.

1 GERÐU BÖRNUNUM AUÐVELT FYRIR AÐ TALA VIÐ ÞIG

BIBLÍAN SEGIR: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ (Jakobsbréfið 1:19) Þú vilt að börnin geti talað opinskátt við þig. Þau verða að vita að þú sért tilbúinn að hlusta þegar þau þurfa á því að halda. Stuðlaðu að notalegu andrúmslofti á heimilinu svo að börnin eigi auðvelt með að tjá sig. (Jakobsbréfið 3:18) Ef þau óttast að þú verðir hranalegur eða dómharður er ekki víst að þau segi hvað þeim býr í brjósti. Vertu þolinmóður við börnin þín og fullvissaðu þau oft um að þú elskir þau. – Matteus 3:17; 1. Korintubréf 8:1.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Vertu fús til að hlusta þegar börnin þín þurfa að tala við þig.

  • Gefðu þér oft tíma til að ræða við börnin, ekki aðeins þegar upp koma vandamál.

2 REYNDU AÐ SKILJA HVAÐ LIGGUR AÐ BAKI ORÐUNUM

BIBLÍAN SEGIR: „Vitur maður fer að öllu með hyggindum.“ (Orðskviðirnir 13:16) Stundum þarftu að átta þig á hvað liggur að baki orðum barnsins til að skilja hvernig því er í raun og veru innanbrjósts. Börn og unglingar eiga það oft til að ýkja hlutina eða segja eitthvað sem þau meina ekki. „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska.“ (Orðskviðirnir 18:13) Láttu ekki auðveldlega koma þér í uppnám. – Orðskviðirnir 19:11.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Hvað sem börnin kunna að segja skaltu vera ákveðinn í að grípa ekki fram í fyrir þeim eða bregðast of harkalega við.

  • Rifjaðu upp hvernig þér leið þegar þú varst á þeirra aldri og hvað þér fannst mikilvægt.

3 SÝNIÐ AÐ ÞIÐ STANDIÐ SAMAN

BIBLÍAN SEGIR: „Hlýddu, sonur minn, á áminningar föður þíns og hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar.“ (Orðskviðirnir 1:8) Jehóva hefur gefið bæði föður og móður umboð til að fræða börn sín og setja þeim reglur. Þú þarft að kenna börnunum þínum að bera virðingu fyrir þér og hlýða þér. (Efesusbréfið 6:1-3) Börnin geta skynjað ef foreldrarnir eru ekki „samhuga“. (1. Korintubréf 1:10) Ef þið eruð ósammála skuluð þið forðast að ræða málið í návist barnanna því að það gæti grafið undan virðingu þeirra fyrir ykkur.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Komið ykkur saman um hvernig þið ætlið að aga börnin.

  • Reyndu að skilja sjónarmið maka þíns ef þið hjónin hafið ólíkar skoðanir á barnauppeldinu.

4 VERIÐ SKIPULÖGÐ OG MARKVISS

BIBLÍAN SEGIR: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda.“ (Orðskviðirnir 22:6) Góð uppfræðsla barnanna gerist ekki af sjálfu sér. Þið þurfið að hafa markvissa áætlun um uppeldi barnanna, þar á meðal hvernig þið beitið aga. (Sálmur 127:4; Orðskviðirnir 29:17) Með aga er ekki einungis átt við að veita refsingu, heldur að hjálpa börnunum að skilja hvers vegna þau þurfa að hlýða reglunum. (Sálmur 119:34) Kennið þeim einnig að hafa yndi af orði Jehóva og koma auga á meginreglur Biblíunnar. (Sálmur 1:2) Það hjálpar þeim að þroska með sér næma samvisku. – Hebreabréfið 5:14.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Fullvissaðu þig um að í augum barnanna sé Guð raunveruleg persóna sem þau geta treyst.

  • Kenndu þeim að varast siðferðilegar hættur, eins og þær sem geta leynst á Netinu og á samskiptasíðum. Kenndu þeim að verja sig gegn barnaníðingum.

„Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda.“