Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

6. Hluti

Breytingar sem fylgja barneignum

Breytingar sem fylgja barneignum

„Synir eru gjöf frá Drottni.“ – Sálmur 127:3.

Þegar hjón eignast barn finna þau fyrir mikilli gleði, en þessi gleði er þó oft kvíðablandin. Nýbökuðum foreldrum gæti komið á óvart hve mikill tími og orka fer í að hugsa um barnið. Svefnleysi og tilfinningasveiflur geta reynt verulega á hjónabandið. Þú og makinn þurfið að breyta ýmsu svo að þið getið bæði annast barnið og hvort annað. Hvernig geta ráðleggingar Biblíunnar hjálpað ykkur að takast á við þessar áskoranir?

1 ÁTTAÐU ÞIG Á BREYTINGUNUM

BIBLÍAN SEGIR: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.“ Og kærleikurinn „leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki“. (1. Korintubréf 13:4, 5) Það er eðlilegt að þú sem nýbökuð móðir gefir barninu mikla athygli. Eiginmanni þínum gæti þó fundist hann vanræktur. Gleymdu ekki að hann þarfnast líka athygli þinnar. Með þolinmæði og góðvild geturðu sýnt honum að þú þarfnist hans og viljir að hann taki þátt í að annast barnið.

„Eiginmenn, [sýnið] eiginkonum ykkar nærgætni.“ (1. Pétursbréf 3:7) Gerðu þér ljóst að athygli konunnar þinnar beinist nú aðallega að barninu. Hún hefur nýjum skyldum að gegna og gæti verið taugaspennt, örþreytt eða jafnvel haft einkenni þunglyndis. Hún gæti líka stundum komist í uppnám yfir því sem þú segir eða gerir. Reyndu samt að halda ró þinni því að „sá sem er seinn til reiði er betri en kappi“. (Orðskviðirnir 16:32) Sýndu skynsemi og dómgreind og veittu henni þann stuðning sem hún þarfnast. – Orðskviðirnir 14:29.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Til feðra: Hjálpaðu konunni þinni að annast barnið, líka að nóttu til. Notaðu minni tíma í aðra hluti svo að þú getir varið meiri tíma með eiginkonu þinni og barni.

  • Til mæðra: Þegar maðurinn þinn býðst til að hjálpa þér með barnið skaltu þiggja það. Þótt honum takist ekki fullkomlega til skaltu ekki gagnrýna hann heldur sýna honum góðlátlega hvernig hann getur farið að.

2 STYRKIÐ SAMBAND YKKAR

BIBLÍAN SEGIR: „Þau verða eitt.“ (1. Mósebók 2:24) Jafnvel þótt fjölskyldan hafi stækkað skuluð þið hafa í huga að þið hjónin eruð enn þá „eitt“. Gerið ykkur því allt far um að láta samband ykkar vera sterkt og náið.

Eiginkonur, sýnið eiginmönnum ykkar að þið kunnið að meta stuðning þeirra og hjálp. Það „græðir“ án efa hjarta eiginmannsins þegar þú tjáir honum þakklæti þitt. (Orðskviðirnir 12:18) Eiginmenn, segið eiginkonum ykkar hversu mikið þið elskið þær og metið. Hrósaðu konunni þinni fyrir það hvernig hún annast fjölskylduna. – Orðskviðirnir 31:10, 28.

„Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:24) Gerðu alltaf það sem er maka þínum fyrir bestu. Takið ykkur tíma til að tala saman, hrósa hvort öðru og hlusta hvort á annað. Verið óeigingjörn þegar kemur að kynlífi ykkar hjóna. Hafðu þarfir maka þíns í huga. Í Biblíunni segir: „Haldið ykkur eigi hvort frá öðru nema þá eftir samkomulagi.“ (1. Korintubréf 7:3-5) Ræðið þessi mál saman í einlægni og af hreinskilni. Samband ykkar styrkist ef þið sýnið hvort öðru þolinmæði og skilning.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Gleymdu ekki að taka frá tíma fyrir ykkur hjónin.

  • Leyfðu maka þínum að finna að þú elskir hann, til dæmis með því að skrifa til hans ástarorð eða gefa honum litla gjöf.

3 BYRJIÐ SNEMMA AÐ KENNA BARNINU

BIBLÍAN SEGIR: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Ákveðið í tíma hvernig þið ætlið að kenna barninu. Barn hefur undraverða hæfni til að læra, jafnvel áður en það fæðist. Strax í móðurkviði getur barnið þitt borið kennsl á röddina þína og brugðist við tilfinningum þínum. Lestu fyrir það allt frá fæðingu. Jafnvel þótt barnið skilji ekki það sem þú lest fær það kannski seinna meir dálæti á lestri.

Það er aldrei of snemmt að byrja að segja barninu frá Jehóva Guði. Leyfðu því að heyra þegar þú biður til hans. (5. Mósebók 11:19) Og þegar þú leikur við barnið skaltu tala um það sem Guð hefur skapað. (Sálmur 78:3, 4) Þá skynjar barnið þitt að þú elskar Jehóva og það lærir að elska hann líka.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Biddu Jehóva stöðugt um leiðsögn og visku til að kenna barninu.

  • Byrjaðu snemma að kenna barninu með því að endurtaka orð og hugmyndir sem þú vilt að það læri.